Sú endurnýjanlega raforka sem Íslendingar státa af nálgast nú um stundir er 20 TWst/ár og afl raforkuvera um 2.800 MW. Okkur er tamt að nota slíka afltölu í umræðu af því oftast sést að tiltekin virkjun er sögð t.d. 120 MW; langstærst er Fljótsdalsvirkjun með 690 MW aflgetu. Af raforkunni nýtir orkufrekur iðnaður um 80% en til almennings, fjölmargra fyrirtækja og samgangna nýtast um 20%. Vatnsafl er að baki 78% raforkunnar en jarðvarmi um 22% og vindafl brotabrot.
Langmest af vatnsaflinu felst í jökulám þar sem miðlunarlón eru notuð vegna árstíðasveiflna í afrennsli jökla. Varmaaflið fæst úr háhitasvæðum í eldstöðvakerfum; úr borholum sem eru 1.500 til 2.500 m djúpar. Vindafl, svo einhverju nemi, er virkjað í tilraunaskyni skammt frá Búrfellsvirkjun, tvær vindmyllur, og skila þær jákvæðum nýtnitölum.
Rammaáætlunin
Lög um nýtingu auðlinda til raforkuframleiðslu - svokölluð Rammaáætlun – hafa reynst pólitískt deiluefni. Raforkuvirkjanir yfir 10 MW falla undir hana og gildir einu hvort aflgjafinn er fallvatn, jarðvarmi, vindur eða sjór. Í nýtingarflokk hafa lent allmargir vatnsafls- og jarðvarmakostir og einn vindaflskostur, en margir vatnsafls- og jarðvarmakostir eru líka í biðflokki til frekari skoðunar. Í verndarflokki eru vatnsafls- og jarðvarmakostir og hafa sumir þeirra formlega orðið að friðlýstum svæðum. Ekki hefur reynst unnt að afgreiða 3. áfanga Rammaáætlunarinnar á Alþingi og þannig gæti farið með 4. áfangann. Einnig eru deilur um hvort vindorkuver falli undir áætlunina eða hvort þau séu á forræði sveitarfélaga og fylgja þá einungis hefðbundnum mats- og leyfisferlum framkvæmda en lúti ekki heildaráætlun raforkuframleiðslu í landinu.
Þróun vatnsafls og jarðvarma
Rýrnun íslenskra jökla er hröð. Þeir tapa 1-3% af ísmassanum á ári og mun herða á rýrnuninni ef áfram hlýnar með svipuðum hraða og nú. Rennsli jökulvatna eykst um hríð en minnkar hratt eftir að hámarki er náð. Hverfi stóru jöklarnir verður afrennsli landsvæða undir þeim með öðru rennslismynstri og minna á ársgrunni. Helstu vatnsaflsvirkjanir hafa takmarkaðan líftíma miðað við núverandi afköst en má aðlaga að minnkandi framleiðslu.
Aflgeta háhitasvæða er breytileg á grófum tímaskala vegna kvikuinnskota, eldgosa, jarðskorpuhreyfinga og breytts grunnvatnsrennslis. Hún er líka háð því hve hratt vinnsla er aukin að varlega ákvörðuðu hámarki. Löngu er ljóst að hæg uppbygging, hvíld vinnslusvæða, niðurdæling, ný borsvæði og fleira þarf til að halda afköstum í horfinu. Borun og virkjun fjögurra til sex km djúpra hola kann að margfalda afköst háhitasvæða en það er enn um sinn óvíst miðað við þá einu borholu sem nú er notuð til rannsókna (www.iddp.is).
Vindorka
Þróun vindmylla og kortlagning gjöfulla, vindbarinna svæða á Íslandi hefur, meðal annarra ástæðna, orðið til þess að upphafsskref kapphlaups um staðsetningu vindorkuvera af stærðargráðunni 50 til 250 MW er löngu hafið. Samstarf erlendra og innlendra aðila hefur leitt til undirbúnings vindmyllugarða víða á landinu í samstarfi við sveitarfélög. Orkuverin verða fyrst og fremst í erlendri eigu, ef af þeim verður. Það er ekki björgulegt og stuðlar ekki að orkuöryggi. Norska fyrirtækið Zephyr, eitt og sér, er með tíu svæði í skoðun. Heildarafl orkuvera þar er vel yfir 2.000 MW!
Vindorka er vænleg hér á landi í bland við aðra orkukosti. Hún er hagkvæm og nægilega vistvæn ef mannvirki eru endurnýtt og hæfilegar vindmyllur staðsettar með sem umhverfisvænum hætti, skv. gildandi orkustefnu. Ekki gengur upp að vindorka lúti ekki sams konar skipulagi, reglum og forsendum og aðrar álíka stórar raforkuvirkjanir. Til verður að vera svæðaskipulag og áætlun sem tekur mið af æskilegri aflgetu og heppilegri staðsetningu vindmylla hvað varðar vindafar, náttúruvernd, sýnileika og orkuþörf. Óafgreitt þingmál umhverfisráðherra vorið 2021 var tilraun til að koma böndum á vindorkukapphlaupið. Takast verður að ljúka því með breytingum á yfirstandandi kjörtímabili. Minna verður hér á að vindmyllur undan öldu- og straumþungum úthafsströndum landsins eru ekki fýsilegur kostur.
Orkugeta næstu áratugi
Sennilegt er að nokkur vatnsaflsorkuver bætist við á næstu áratugum, flest 50 MW eða minni, og þá án virkjana í Neðri-Þjórsá sem eru óásættanlegar. Svo er unnt að ná auknu afli úr núverandi virkjunum, t.d. til hluta orkuskipta, með því að styrkja flutningskerfið og nýta aukið rennsli jökulvatna, sennilega allt að 300-400 MW.
Stækkun núverandi varmaorkuvera er kleif a.m.k. vestur á Reykjanesi og nærri Grindavík, en á Hengilssvæðinu verður til þörf á meira af heitu vatni með virkjun nýrra borsvæða sem ekki eru friðuð og þá með framleiðslu raforku samhliða neyslu- og upphitunarvatninu. Virkjanir nálægt Mývatni, á miðjum Reykjanesskaga, við Kleifarvatn eða inni á miðhálendinu ganga ekki upp vegna náttúruverndar. Háhitasvæði sem nú eru undir jöklum landsins verða seint eða aldrei virkjuð. Án djúpborunarvirkjana er þó ekki um mörg hundruð MW rafafl að ræða.
Framleiðslugeta verjanlegra vindorkuvera er óráðin en líklega gæti hún numið mörg hundruð MW afli sem einmitt léttir álagi á hefðbundnari virkjanakosti. Er þá gert ráð fyrir nauðsynlega íhaldssamri og náttúruverndandi úthlutun virkjanaleyfa og þróun sem ekki tekur mið af sölu raforku um sæstreng heldur tækninýjungum í vindorkugeiranum.
Brýn orkuskipti
Orkuskipti varða raforku, brunaeldsneyti og rafeldsneyti á nánast öll ökutæki, allar vinnuvélar, vélar í í báta og skip, flugvélar, hafnsækna starfsemi og iðnað sem hefur fram að þessu nýtt jarðefnaeldsneyti, sbr. eldri gerðir loðnubræðslna. Orkuskipti eru undirstaða minni losunar gróðurhúsagasa skv. Parísarsamkomulaginu (2030), kolefnishlutleysis samfara síaukinni kolefnisbindingu (2040 eða fyrr) og loks jarðeldsneytislausu Íslandi (2050 eða fyrr). Til þessa alls er unnin opinber aðgerðaráætlun og endurskoðuð árlega í samræmi við lög og árangur hverju sinni. Samvinna við almenning, félög og fyrirtæki er lykilatriði.
Orkuþörf næstu áratugi
Það er af og frá að samfélagsþróun og orkuskipti hér á landi geti eingöngu nýtt núverandi rafafl. Fyrst um sinn hjálpar orkusparnaður og rafafl sem fæst úr starfandi virkjunum, með bættu flutningskerfi og viðbótarrennsli jökulfljóta, upp á sakir. Ekki þarf að örvænta um næga raforku í allnokkur ár. En þegar litið er til næstu áratuga verða aftur á móti mörg hundruð megawött að bætast við.
Orkuútflutningur næstu nágranna
Virkjað vatnsafl á Grænlandi er tæplega 90 MW og nánast allt á vesturströndinni. Þar eru einnig metnir 16 ítrustu virkjanakostir næstu áratuga en alls ekki á fjöllóttri og fjarðaríkri austurströndinni. Orkugeta kostanna er alls um 14 TWst eða um 2/3 þess sem nú er til reiðu á Íslandi. Það dugar til uppbyggingar innanlands og ef til vill útflutnings um sæstreng til Norðaustur-Kanada (Nunavut). Norðmenn ráða yfir meira en 30.000 MW afli úr fjölmörgum stórum og smáum fallvatnsvirkjunum og vaxandi vindorka bætir við þúsundum megawatta. Meirihluti raforkunnar er fluttur með sæstrengjum til annarra Evrópulanda og landleiðina til Svíþjóðar. Öflugastur er North Sea Link strengur til Bretlands, 730 km langur með 1.400 MW burðargetu. Vatnsafl (um 1.600 MW) og vindafl Skota (yfir 9.000 MW) er vel ríflega að hálfu til heimabrúks en yfir þriðjungur raforkunnar er fluttur til Englands og Norður-Írlands.
Útflutningur orku eða á unnum vörum og þjónustu?
Hér á landi er þörf fyrir allt nýtt rafafl til orkuskipta og samfélagsþróunar á næstu áratugum, að því gefnu að málmiðjurnar starfi áfram og vindorka verði takmörkuð við verjanlega kosti í umhverfistilliti. Gera má ráð fyrir að 500 til 1.000 MW rafstrengur til meginlandsins tæki til sín a.m.k. helming orkunnar sem samkomulag getur orðið um að framleiða og brýn þörf er á innanlands. Rafmagnið væri mjög dýrt á endastöð og er að magni til ekki meira en svo að það dygði í tvær meðalborgir á Bretlandseyjum Vissulega fengist gott verð fyrir hverja MWst en það væri háð niðurgreiðslum í móttökulandinu.
Að ýmsu öðru er að hyggja. Tenging við meginlandið kallar á verðsveiflur raforku en hún getur á móti aukið orkuöryggið. Það má reyndar gera hér heima fyrir með skynsamlegri dreifingu orkuvera og traustu flutningsneti. Erlent eignarhald á meirihluta vindorkuvera á Íslandi þrýstir á um sölu á raforku úr landi. Innlent eignarhald allra orkuinnviða gerir okkur aftur á móti vel í stakk búin að byggja upp orkuþjónustu innanlands og framleiða hér að auki verðmætt rafeldsneyti og orkubera (t.d. vetni, ammoníak, alkóhól, lífdísil). Stór hluti dygði til að þjónusta erlend skip og flugvélar og sem útflutningsvara. Þær eiga líka við lífrænan áburð og byggingarefni, auk matvæla sem unnt er að margfalda í framleiðslu. Hagnaðardraumar um virka sæstrengi frá Íslandi er tálsýn um langa framtíð að mínu mati.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður VG.