Ég fæddist árið 1940 og er því á níræðisaldri. Um tíu ára aldur fékk ég áhuga á stjórnmálum og hef haldið honum síðan. Úkraínustríðið sem nú geisar hefur rifjað upp liðna tíð bæði hjá mér og öðrum. Margir leggja þar orð í belg með ýmsu móti. Mig langar að lýsa tengingunni við fortíðina eins og hún horfir við mér.
Kalda stríðið gnæfði yfir stjórnmálum Vesturlanda allar götur frá því skömmu eftir heimsstyrjöldina 1939-1945 og til 1990 eða svo. Eftir styrjöldina skildu leiðir með Bandamönnum (Bandaríkjamönnum, Bretum, Frökkum og Sovétmönnum) sem höfðu áður tekið höndum saman gegn mannvonsku og útþenslu þýskra nasista og haft ótvíræðan sigur. Kjarni deilnanna í kalda stríðinu snerist um þjóðskipulag. Ríki Vesturlanda vildu hafa áhersluna á einkaframtak, auðvaldsskipulag (kapítalisma) og á lýðræði. Ríki Austur-Evrópu og að hluta Asíu aðhylltust hins vegar – eða töldu sig aðhyllast – þjóðskipulag kommúnismans sem byggðist meðal annars á ritum leiðtoganna Marx, Engels, Leníns og Maós. Lýðræði var fórnað, meðal annars með vísun í kenninguna um alræði öreiganna sem væri tímabundin nauðsyn á leiðinni til fyrirheitna landsins.
Kjarnavopnakapphlaupið setti mikinn svip á kalda stríðið. Bandaríkjamenn hófu leikinn í ágústbyrjun 1945 með því að varpa tveimur sprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki, og báru fyrir sig að þeir vildu stytta stríðið við Japani sem voru þá einir eftir þeim megin í stríðinu. En Sovétmenn flýttu sér í fótspor Bandaríkjanna og framleiddu sínar eigin klofnunarsprengjur (e. fission bombs). Og um 1950 höfðu bæði „risaveldin“ bætt við svonefndum vetnissprengjum (samrunasprengjum, e. fusion bombs) sem voru margfalt öflugri en hinar.
Smám saman rann það upp fyrir skynsömu fólki um heim allan að þetta kapphlaup gat ekki stigmagnast endalaust, og fyrsti milliríkjasamningurinn um takmörkun á framleiðslu kjarnavopna var gerður árið 1968. Jafnframt gerðu menn sér grein fyrir því að öflug kjarnavopn væru gallagripir í styrjöld vegna þess að ein sprengja gæti haft áhrif um allan heim, líka heima hjá árásaraðilanum, og fyrstu sprengjurnar mundu snúast í höndum hans eins og bjúgverpill (búmerang), dreifa geislavirku efni um stór svæði og ef til vill valda kjarnorkuvetri um hálfan heiminn. – En engu að síður óttuðust margir á þessum tíma að kalda stríðið kynni að hitna og enda með kjarnorkustríði.
Öflug kjarnavopn eru gallagripir í styrjöld, geta valdið verulegu tjóni hjá árásaraðilanum.
Grunnurinn að Sovétríkjunum hafði verið lagður árið 1922 undir forystu Rússlands sem var langstærsta og fjölmennasta Sovétríkið, og árið 1940 voru Eystrasaltsríkin innlimuð. Úkraína hóf baráttu fyrir algeru sjálfstæði árið 1918 en varð að lokum sérstakt ríki innan Sovétríkjanna, við hlið Rússlands, árið 1922. Eftir stríðslokin 1945 sömdu Bandamenn um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði og flest ríki Austur-Evrópu komu þá í hlut Sovétríkjanna. Ríkin á svæði þeirra stofnuðu með sér svonefnt Varsjárbandalag árið 1955 eftir að Nató hafði verið stofnað árið 1949. Varsjárbandalagið var leyst upp árið 1991 og má segja að þá hafi kalda stríðinu lokið.
Nafnið „kalda stríðið“ vísar til þess að aldrei kom til beinna vopnaviðskipta milli stríðsaðila, en leiðtogar þeirra voru annars vegar Bandaríkjamenn og hins vegar Sovétríkin. Þessi ríki voru oft kölluð „risaveldi“ (e. superpowers) og elduðu með sér grátt silfur bæði í hugmyndafræði og einnig í framleiðslu, lífskjörum, geimferðum og hvers konar yfirráðum. Þó að ekki kæmi til beinna vopnaðra átaka milli þeirra urðu óbein átök þar sem annað hvort risaveldið beitti vopnum sínum gegn tilteknum smáríkjum eða hópum víðs vegar um hnöttinn. Frægasta dæmið er Víetnam-stríðið (1955-1975), þar sem Bandaríkin voru virkir þátttakendur og börðust gegn sameiningu landsins, en Sovétríkin veittu andstæðingum Bandaríkjanna ýmiss konar óbeinan stuðning. Þátttaka Bandaríkjanna í þessu stríði var afar umdeild á Vesturlöndum, ekki síst í Bandaríkjunum sjálfum. Hún var meðal annars rökstudd með svonefndri dómínó-kenningu, sem sé að „heimskommúnisminn“ eða stuðningsmenn Víetnama mundu halda áfram landvinningum ef þeir hefðu sigur í þessu stríði. Sigurinn náðist að lokum og Víetnam sameinaðist í eitt ríki, en dómínó-kenningin rættist engan veginn því að harla fáir dómínó-kubbar féllu í kjölfarið. Ósigur Bandaríkjamanna í þessu stríði varð þeim þvílíkt áfall að þeir forðuðust í áratugi að skipta sér af málum annarra með því að senda verulegt herlið til fjarlægra landa. Víetnam-stríðið hafði mikil áhrif á vinstrið á Vesturlöndum, ekki síst hér á Íslandi. Andstaðan gegn því fléttaðist saman við baráttuna gegn bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði og gegn aðild okkar að Nató, en öflugustu Natóríkin studdu Bandaríkjamenn dyggilega í stríðinu. Þessi andstaða náði ekki aðeins til íslenskra sósíalista heldur einnig til þjóðvarnarmanna og hluta af Framsóknar- og Alþýðuflokksmönnum. Hún styrktist enn í þorskastríðunum gegn Bretum sem voru að sjálfsögðu í Nató eins og Íslendingar.
Við sem tókum þátt í þessari baráttu litum flest á okkur sem friðarsinna. Við börðumst gegn hernaði í öllum myndum, hvort sem hann var á vegum Bandaríkjahers í Víetnam eða sovéska Rauða hersins í Ungverjalandi 1956, í Tékkóslóvakíu 1968 og síðar í langvinnu en árangurslausu stríði í Afganistan. Við höfðum megna skömm á öllu vopnaskaki þar sem risaveldin beittu hervaldi til að þjóna lund sinni, valdagræðgi og meintum hagsmunum sem tengdust yfirráðum þeirra.
Heimsmynd kalda stríðsins hafði verið að mótast í hálfa öld þegar stríðinu lauk nokkuð skyndilega um 1990. Járntjaldið féll, Sovétríkin leystust upp og einstök ríki sem höfðu áður verið innan þeirra fengu fullt sjálfstæði, þar á meðal Rússland, Úkraína, Belarús (áður Hvíta-Rússland), Eystrasaltsríkin þrjú, ríkin í Kákasus og Asíuríkin sem gárungarnir kalla einu nafni „Langtburtistan.“ Sum fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins gengu síðar í Nató ásamt Eystrasaltsríkjunum sem réðu nú slíkum málum sjálf.
Ekki skiptir síður máli að þjóðskipulag og ríkjandi viðhorf flestra þessara ríkja gerbreyttust og verða nú engan veginn kennd við kommúnisma eða sósíalisma; auðjöfrar, kapítalistar og ólígarkar fitna þar á fjósbitanum ekkert síður en í forysturíki kapítalismans, Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þannig er mér gersamlega ómögulegt að sjá nokkurn samfelldan þráð í þjóðskipulagi eða ríkjandi hugmyndum sem liggi frá Sovétríkjum Leníns eða kalda stríðsins til Rússlands undir stjórn Pútíns. Ég get ekki einu sinni tínt það til að sósíalistar kalda stríðsins og Pútín eigi samleið í andúð á Bandaríkjunum því að síðasti forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur vingast við Pútín. Þannig ber að mínu mati allt að einum brunni: Evrópska vinstrið á ekkert sameiginlegt með Vladimir Pútín eða stuðningsmönnum hans. Þvert á móti virðist Pútín leggjast á árar með hægrisinnuðum popúlistum víðs vegar í Evrópu.
Evrópska vinstrið á ekkert sameiginlegt með Vladimir Pútín.
Þessu var allt öðru vísi farið í kalda stríðinu. Í byrjun þess litu margir sósíalistar á Sovétríkin sem fyrirheitna landið en það reyndist síðar vera tálsýn ein. Samstaðan takmarkaðist þá hjá mörgum við það eitt að báðir börðust gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, til dæmis í Víetnam.
Eftir að kalda stríðinu lauk vorum við mörg í hópi friðarsinna sem héldum að varla yrði aftur hefðbundið, vopnað landvinningastríð í Evrópu. Vitaskuld mundi þó rísa ágreiningur milli ríkja um hitt og þetta, en slíkt yrði leyst með aðferðum siðaðra manna, sem sé með samkomulagi, ef til vill þó með aðkomu og aðstoð annarra ríkja eða alþjóðastofnana. Allar götur síðan fyrri heimstyrjöldinni lauk árið 1918 hafa menn ráðið við það til dæmis að draga landamæri milli ríkja eftir vandaða atkvæðagreiðslu íbúa á viðkomandi svæði. En draumsýn okkar um friðsamlega lausn ágreiningsmála hefur Pútín hnekkt með grimmilegri innrás sinni í Úkraínu.
Sumir vinstrimenn vilja bera blak af Pútín eða útskýra gerðir hans með vísun í þróun mála í nágrannalöndum Rússlands og Úkraínu. Tískuorðið í þessu samhengi er „geópólitík“ sem á hér að snúa að almennum valdahlutföllum á svæðinu. Svar mitt við þessu er einfalt: Í augum friðarsinna getur engin geópólitík í Evrópu 21. aldar réttlætt skefjalausa beitingu vopnavalds til að ná einhverjum markmiðum, til dæmis breytingum á landamærum. Slíkar aðgerðir eru hrátt ofbeldi og auk þess tímaskekkja á vettvangi Evrópu.
Geópólitík getur ekki réttlætt grófa beitingu vopnavalds gegn saklausu fólki.
Nú kem ég að því atriði í hegðun Pútíns sem ég hef ekki botnað neitt í, en get þó ekki látið kyrrt liggja. Mannkynssagan sýnir okkur fjölbreytt litróf í tilhögun ríkisvalds. Við höfum séð bæði lýðveldi, konungsríki og keisaradæmi. Þau síðastnefndu verða oft til með þeim hætti að ein þjóð „leggur undir sig“ aðrar þjóðir í kring. Það er ekki tilviljun að keisaradæmum hefur fækkað mjög í heiminum frá því um 1900 því að þau fólu yfirleitt í sér að ein þjóð kúgaði aðra. Margt bendir til að Vladimir Pútín gæti vel hugsað sér að endurreisa rússneska keisaradæmið í svipuðum stíl og það var um aldamótin 1900. Hann hefur líka talað um að eyða Úkraínu sem sjálfstæðu ríki á landakortinu en þykist vilja vingast við íbúana með valdið að vopni. En það er harla óvenjuleg aðferð að ætla að stofna til samstarfs og vináttu með því að fara fram með grimmum og villimannlegum árásum á sama aðila. Slík hegðun verkar nú á dögum sem öfugmæli miðað við markmiðið sem látið er í veðri vaka en mun aldrei nást til lengdar vegna óheilindanna sem liggja að baki. Því er óljóst hvernig Pútín ætti að takast að ráða yfir Úkraínu og hafa gagn af landvinningum sínum, í megnri óþökk landsmanna og gegn væntanlegri andspyrnu þeirra. Til dæmis má líka vel vera að Pútín hafi að lokum fullan sigur í stríðinu í einhverjum þröngum hernaðartæknilegum skilningi, eftir að hafa lagt stór landsvæði í rúst. Slíkir sigrar eru vel þekktir í mannkynssögunni og eru kenndir við Pyrrhos sem var konungur í gríska héraðinu Epiros. Sigrar hans á vígvellinum voru svo dýrkeyptir að hann kærði sig ekki um fleiri slíka.
Vel má vera að Pútín hafi að lokum „fullan sigur“ í hertæknilegum skilningi en hann verður þá dýrkeyptur eins og hjá Pyrrhosi í fornöld.
Það var ekki auðvelt að vera friðarsinni í Evrópu á tuttugustu öld. Í byrjun hennar lýstu heilu stjórnmálaflokkarnir yfir stuðningi sínum við friðarhyggju. Þeirra á meðal voru ekki síst flokkar sósíaldemókrata í hinum ýmsu löndum, en þeir voru þá lengst til vinstri. En þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 snerist þeim hugur, og það voru bara nokkrir sérvitringar sem stóðu með sjálfum sér, þar á meðal Albert Einstein. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út endurtók sagan sig og harla fáir predikuðu friðarhyggju þegar nasistar Þýskalands óðu uppi í Evrópu. Jafnvel Einstein lét sig hafa það að mæla með því að Bandaríkjamenn reyndu að smíða atómsprengju.
Friðarsinnum er auðvitað þvert um geð að þurfa að taka afstöðu í stríði en stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Óumdeilt er að það voru Rússar sem hófu Úkraínustríðið eftir alllangan undirbúning. Þeir hafa síðan farið fram með þvílíkri grimmd og græðgi að við getum ekki setið hjá. Við erum eftir sem áður í góðum félagsskap með friðarsinnum allra tíma sem hafa líka þurft að taka afstöðu þegar þeim ofbauð ofbeldi hernaðarins.
Höfundur er fyrrum prófessor í vísindasögu og eðlisfræði.