Stýrivaxtahækkun Seðlabankans þurfti kannski ekki að koma á óvart. Eftir allt er það ráðandi hugsun að eina rétta viðbragðið við vaxandi verðbólgu, óháð orsökum og áratugum, sé að hækka vexti. En þegar röksemdarfærslur fyrir vaxtahækkuninni fóru að flæða yfir bakka sundhallarinnar við Kalkofnsveg er ekki hægt að segja annað en að þar hafi ýmislegt komið á óvart.
Í aðdraganda vaxtahækkunarinnar virtist almennur samhljómur um að stærsti drifkraftur verðbólgunnar væri þensla á húsnæðismarkaði. Lægri vextir og aukinn sparnaður auðvelduðu kaup á húsnæði, eins og Seðlabankinn greindi sjálfur frá í Peningamálum fyrir áramót. Seðlabankinn leikur sitt hlutverk í húsnæðiskreppunni, hann býr yfir þjóðhagsvarúðartækjum sem var gripið seint til og af veikum mætti. Auðvitað eiga stjórnvöld líka sinn skerf og samanlagt hafa þessir armar hagstjórnarinnar brugðist í því hlutverki sínu að tryggja húsnæðismarkað þar sem það markmið fær að ráða för að fólk geti haft öruggt þak yfir höfuð á viðráðanlegum kjörum.
Þegar fylgni verður orsakasamband
Eðlilegt hefði verið að Seðlabankinn gengist við sinni ábyrgð á húsnæðismálunum og kallaði jafnvel á frekari heimildir til inngripa á húsnæðismarkaði. En þess í stað fer Seðlabankinn í sinn gamla farveg og byrjar á söngnum, sem svo mörgum Seðlabönkum finnst þægilegast að syngja, um meint slæm áhrif kjarasamningsbundinna launahækkana. Nema að sama hvernig jöfnuninni er snúið þá tekst ekki að kenna almennum launahækkununum um núverandi verðbólgu. Þá þarf að beita skapandi hugsun og eflaust gott að hafa rithöfunda og skáld sér til fulltingis. Niðurstaða Seðlabankans er þessi: Launahækkanir á grundvelli Lífskjarasamningsins áttu þátt í því að hækka húsnæðisverð og urðu þannig til þess að kynda undir verðbólgubálið. Þessu til sönnunar eru dregin fram gröf sem sýna annars vegar launahækkanir og hins vegar húsnæðisverð og látið að því liggja að fylgni jafngildi orsakasambandi. Horfir bankinn þar framhjá þeirra staðreynd að atvinnutekjur féllu í heimsfaraldri og tuttugu þúsund einstaklingar misstu atvinnu og laun. Skilaboðin eru að þær launahækkanir upp á 15–24 þúsund krónur (fyrir skatt) sem hafa tekið gildi um hver áramót frá því að Lífskjarasamningurinn tók gildi hafi orðið gríðarlegur hvati til launafólks að yfirbjóða hvert annað í keppninni um bitana á húsnæðismarkaðnum.
Kaldar kveðjur til launafólks
Svo heldur Seðlabankastjóri áfram á sömu braut og kvartar undan komandi hagvaxtarauka og fullyrðir að verðbólga næsta vetrar ráðist algjörlega af kjarasamningum. Þá verður það ekki húsnæðismarkaðurinn, erlend aðföng eða vöruskortur, það verða eingöngu mögulegar kjarabætur. Í stuttu máli: launafólk skal halda sig á mottunni og taka þeirri kjararýrnun sem felst í vaxtahækkunum og hækkandi vöruverði þegjandi og hljóðalaust. Staðan er nefnilega að hluta til því sjálfu að kenna. Seðlabankinn stillir sér þarna upp við hlið atvinnurekenda og sendir launafólkinu sem þarf að bera byrðarnar af ákvörðunum bankans um leið afar kaldar kveðjur.
Fólkið fyrst – síðan fjármagnið
Það eru til fjölmargar leiðir til að takast á við verðbólgu og efnahagslegan óstöðugleika. Fyrst þarf að viðurkenna að hagfræði er ekki náttúrulögmál og allt sem viðkemur stjórnun peninga- og ríkisfjármála er mannanna verk. Síðan þarf að ákveða að taka fjármagnið úr forgangssætinu og setja fólkið framar. Hægt er að slá á þenslu með öðrum hætti, svo sem með eðlilegri skattlagningu á fjármagnstekjur, bankaskatti og auðlindagjaldi. Ef takast á við húsnæðismarkaðinn mætti til dæmis snarlækka þegar í stað veðsetningarhlutfall 2., 3., og 4. eigna, samhliða því að grípa til bæði skammtíma- og langtímaaðgerða til að takast á við húsnæðiskreppuna.
Í öllu falli er sárnauðsynlegt að komast út úr þeim líkönum (og kreddum) sem ráða nálgun og ákvörðunum Seðlabankans og hætta að gera almennt launafólk að blórabögglum. Eða eins og einn þekktur hagfræðingur orðaði það: það er hægt að hugsa út fyrir Philips-kúrfuna – ef maður getur yfirleitt hugsað.
Höfundur er framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.