Samantekt
Nú þegar loftslagsbreytingarnar hafa náð heimsathygli og ráðstafanir eru gerðar, til þess að koma til móts við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, gleymist oft að steinsteypan – mest notaða manngerða efni veraldar – er verulegur orsakavaldur að útstreymi koldíoxíðs ( CO2 ).
Framleiðsla á sementi, mikilvægasta efninu í steinsteypunni, veldur um 7% af koldíoxíðlosun heimsins og er þar þriðja í röðinni af iðnaðargreinum, á eftir orkuframleiðslu og málmbræðslu. Sementsframleiðendur óttast háa gjaldtöku vegna koldíoxíðútstreymisins og hafa nú gert áætlanir um hvernig lækka megi kolefnisspor sementsframleiðslunnar.
Þegar er byrjað á íblöndun sementsins með svonefndum possólanefnum ( nánari skilgreining síðar ), allt að 20% af sementsþyngdinni, sem lækkar koldíoxíð-innihald sementsins. Næsta skref verður væntanlega föngun koldíoxíðsins úr útstreymi brennslugass sementsofnsins, sem síðan verður dælt niður í tóm holrými eftir olíu- eða gasvinnslu.
Til lengri tíma litið eru nú gerðar tilraunir með að blanda sementið með meira magni af possólanefnum, jafnvel til helminga, t.d. með ýmiss konar gosefnum með possólaneiginleika, svo sem móbergi eða líparíti. Stórar sementsverksmiðjur í Evrópu eru þegar farnar að huga að notkun gosefna í sementsframleiðslu sína í framtíðinni eins og fram hefur komið í fréttum um útflutning á móbergi til Þýskalands.
Verði af útflutningi fínmalaðs móbergs í sementsframleiðslu erlendis, er líklegt að það þurfi að koma upp fullkominni mölunarstöð nærri tökustað. Í framhaldinu má þá búast við, að fínmalað sementsgjall verði flutt inn til Íslands og blandað móbergi hér eða að fínmöluðu gjalli og móbergi verði blandað sitt í hvoru lagi í steypustöðvunum. Með tilliti til þessa má telja það öfugsnúið, að einmitt þegar possólansement með íslenskum possólanefnum verður talin mikilvæg lausn á vandamálum sementsframleiðslu vegna loftlagshlýnunar, skyldi íslensk sementsframleiðsla lögð niður.
Að lokum er mögulegt að ný tækni, þar sem framleiða má sement eingöngu úr eldfjalla -possólanefni verði fjárhagslega hagkvæm. Framleiðsla þessarar nýju sementstegundar er nær laus við koldíoxíð-útstreymi og hefur hún verið nefnd „jarðfjölliðunar sement“ ( geopolymer cement ). Hún gæti orðið til þess að alíslensk sementsframleiðsla verði aftur að veruleika.
Gjallframleiðslan aðal sökudólgurinn
Gjallbrennslan í sementsframleiðslunni veldur 60-70% af heildar koldíoxíð-mynduninni, hin 30-40% útstreymisins koma frá eldsneytinu, sem notað er við brennsluna. Viðbótarþættir svo sem afkastageta framleiðslunnar, raki og brennsluhæfni hráefnanna svo og aðkoma íblöndunarefna hafa einnig áhrif á orkunýtingu og kolefnisspor sementsframleiðslunnar.
Gjallframleiðslan er grunnurinn í sementsframleiðslunni og ekki hefur tekist enn að skipta út kalksteininum ( kalsíumkarbónat, CaCO3 ), sem er aðalhráefnið í sementsgjallinu og jafnframt helsta orsök koldíoxíðlosunarinnar í framleiðsluferlinu.
Mikil eftirspurn er nú eftir sementi og hún vex væntanlega í framtíðinni. Þá eykst mjög þörfin á að minnka manngerða myndun koldíoxíðs í sementsframleiðslunni. Segja má að afkolefnisvæðing ( decarbonatization ) sementsframleiðslunnar sé aðaláskorunin sem sementsframleiðendur standa frammi fyrir í dag og í næstu framtíð. Því eru í þróun margs konar aðgerðir og aðferðir til að ná því markmiði.
Hefðbundin sementsframleiðsla
Til þess að gera sér betur grein fyrir, hvernig sementsiðnaðurinn hyggst minnka í áföngum útstreymi CO2 við sementsframleiðsluna í framtíðinni , er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvernig hefðbundið, venjulegt Portlandsement er og hefur verið framleitt hingað til .
Helstu þættir framleiðslunnar eru:
- Öflun, vinnsla og mölun hráefnanna
- Brennsla hráefnanna og myndun sementsgjalls
- Mölun sementsgjallsins.
Myndun koldíoxíðs við framleiðsluna verður aðallega til við brennslu sementsins (mynd 2). Hún fer fram í sementsofninum. Hann er langur hallandi sívalningur með hægum snúningi (snúningsofn).
Við neðri enda hans er eldsneytinu til brennslunnar blásið inn í hann, en í efri enda hans er hráefnainntak og fer forbrennsla hráefnanna þar fram í röð af hverfihólfum (cyclon). Heitt ofngasið veldur þar miðflóttaafls hringsnúningi á fínmalaðri hráefnablöndunni.
Í hverfihólfum ofnsins hefjast niðurbrot og efnabreytingar hráefnablöndunnar. Hitastigið hækkar svo frá 800-1000°C við inntak ofnsins upp í 1450°C um 5 metrum frá neðra opinu, þar sem tilbúið sementsgjallið kemur út úr honum. Í sementsofninum fer efnahvarfið fram, sem leiðir til myndunar sementsgjallsins.
Nýjar áherslur afhjúpa gamlan vanda
Vandi sementsframleiðenda vegna mikils útblásturs CO2 varð fyrst ljós í lok 20. aldarinnar, sérstaklega eftir alþjóðlegu loftslagsráðstefnuna í Kyoto 1997. Þá skuldbundu ríki heimsins sig til að minnka útblásturinn í áföngum næstu áratugina.
Reyndar hafði þessi þróun hafist fyrr hjá nokkrum sementsframleiðendum, en af öðrum orsökum. Þeir fóru smám saman að nota úrgangsolíu og annan brennanlegan úrgang sem eldsneyti, sem lækkaði í raun CO2 -útstreymið. Svo var einnig í byrjun hjá Sementsverksmiðju ríkisins, sem eftir 1970 fór líka að bæta óbrenndum efnum, svonefndum possólan-efnum ( líparíti og kísilryki ) í sementið. Við það minnkaði gjallhluti þess og þar með CO2 -myndunin per tonn af sementi.
Possólanefnin eru mörg og mismunandi
Possólanefni eða efni með „possólaneiginleika" eru mismunandi efni, ýmist af náttúrulegum uppruna eða úrgangur frá iðnaðarframleiðslu. Þeim er það sameiginlegt að innihalda ál og silisíum. Þau má nýta sem staðgengilsefni í sement. Staðgengilsefni í sementi eru efni, sem koma í staðinn fyrir sementsgjall í sementinu. Meðal þeirra eru t.d. flugaska, kísilryk, járngjall, metakaolin, náttúrupossólanar og kalksteinn. Flest þessara efna eru í dag iðnaðarúrgangur, sem þarf að fjarlægja og því ákjósanleg til nýtingar sem íblöndun í sement.
Nýir tímar kalla á nýja hugsun
Eftir því sem loftslagsumræðan þróaðist áfram í byrjun nýrrar aldar komu afleiðingar hlýnunar Jarðar smám saman betur í ljós og menn áttuðu sig á því að aðgerðir til að draga úr losun koldíoxíðs væru nauðsynlegar. Lagt var á ráðin um margvíslegar aðgerðir til að hamla gegn losun og áætlað að fjármagna þær með skattlagningu á losunina ( gjald á hvert tonn CO2 ).
Þar sáu sementsframleiðendur fram á mikla hækkun framleiðslukostnaðar, ef skattlagningin yrði veruleg. Það myndi hækka sementsverð og veikja þar með stöðu sementsins gagnvart ýmissi samkeppnisvöru, svo sem timbri, sem stóð betur að vígi með tilliti til koldíoxíð-losunar og loftslagsáhrifa.
Fyrsta viðbragðið var eins og áður var sagt íblöndun úrgangsefna með possólaneiginleika í sementið við mölun þess. Helst var þar um að ræða iðnaðar-possólana svo sem flugösku ( ryk úr útblæstri kolaorkuvera) eða fínmalað járngjall (gjall sem myndast við stálbræðslu). Með fullkomnari tækni við mölun sementsgjalls og viðbótarefna reyndist mögulegt að blanda allt að 20% af þessum óbrenndu efnum í sementið án mikillar styrkleikaminnkunar, sem þótti góð byrjun, þar sem hliðstæð minnkun á CO2 útstreymi náðist.
Ágætis byrjun en meira þurfti til
Fimmtungs minnkun á losun dugði þó skammt, því markmiðið er kolefnishlutlaus sementsframleiðsla árið 2050. Sementsframleiðendur sáu fram á að því markmiði yrði ekki náð með þessari íblöndun possólanefna einni saman, því erfitt yrði að blanda meira en 20% af possólanefnum í sementið án minnkunar á byrjunarstyrkleik. Því var ráðist í þróun fleiri aðferða og aðgerða til að minnka CO2-útstreymið.
Þá hefur athyglin beinst mjög að föngun þess koldíoxíðs, sem streymir út við gjallframleiðsluna og síðan flutningur á því og geymsla í tæmdum jarðrýmum, t.d. eftir olíu eða gas ( carbon capture storage, CCS). Þetta er aðferð, sem almennt er horft til í dag í hvers konar iðnaði, þar sem CO2 útstreymi er vandamál. Óvíst er þó hversu lengi þessi rými taka við vaxandi magni CO2 og kostnaður við aðferðina lítt þekktur ennþá.
Raforkan reynd
Auk þessara föngunartækni var reynt að nota umhverfisvæna raforku beint við brennslu sementsgjallsins. Tilraun var t.d. gerð hjá Iðntæknistofnun Íslands á vegum Sementsverksmiðju ríkisins um 1980, til þess að brenna íslensku hráefnablönduna með ljósbogatækni, sams konar tækni og notuð er við framleiðslu kísiljárns. Sú tilraun tókst ágætlega og framleitt var sementsgjall með góðun eiginleikum. Kostnaðurinn var hins vegar allt of hár í samanburði við nýtingu jarðefnaeldsneytis.
Nú hefur aftur á móti tekist að lækka kostnað við framleiðslu á grænni raforku (vatns- sólar- og vindorku). Síðan eru t.d. nýlega hafnar tilraunir við beina brennslu sementshráefna með plasma-tækni ( háhitatækni með rafmagnsupphitun lofts ) hjá sementsfyrirtækinu Cementa í Svíþjóð (Cemzero verkefnið).
Framtíðin er í staðgengilsefnum
Leiðin til að afkolefnisvæða sementsframleiðsluna til lengri framtíðar hlýtur þó að felast í íblöndun staðgengilsefna í miklu magni í stað hins kalkríka sementsgjalls við mölun sementsins. Nú er 20% íblöndun að verða algeng. Meiri íblöndun hefur eingöngu verið í sérsement, possólan sementi, sem hefur lengri hörðnunartíma en Portlandsement, en nær aftur á móti meiri þéttleika og endingu. Það hentar illa hraðanum við venjulegar húsbyggingar og er því aðallega notað í mannvirki, þar sem utanaðkomandi áraun er mikil, svo sem í virkjanir, hafnir og önnur vatnsmannvirki. .
Sement með háu íblöndunar-hlutfalli possólanefna (40% og meir ) þarfnast sérstakrar tæknilegrar þróunar, til þess að ná sama hörðnunarhraða og styrkleika og Portlandsement. Þar skiptir mestu máli efnasamsetning possólanefnanna og flókin mölunartækni, þar sem heppileg kornastærðardreifing hráefnanna, sementsgjalls og possólanefna, er nýtt.
Nýrra efna er þörf
Sementið nemur 45% af heildarkostnaði við steinsteypugerð. Því er það mikils vert að finna efni, sem geta komið í stað hefðbundins sements sem bindiefni, ekki eingöngu út frá umhverfisverndarsjónarmiðum heldur einnig til að framleiða ódýrari steypu.
Framleiðsla og notkun sements með hárri possólaníblöndun var reynd í Sementsverksmiðju ríkisins. Var fyrst um að ræða tilraunasement við gerð Reykjnesbrautar á sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar, sem nefnt var Faxasement. Voru 30 % af þvi possólanefni ( líparít og móberg ). Þá var framleitt sérstakt possólan-sement í virkjanir; Sigöldusement ( 25% líparít ) í Sigölduvirkjun og Blöndusement ( 25% líparít og 10% kísilryk ) í Blönduvirkjun. Síðan var framleitt tilraunasement í skólpdælustöð Reykjavíkurborgar við Klettagarða ( 40% járnblendisgjall og 5% kísilryk ). Þessar tilraunir reyndust vel og styrkleikaþróunin var viðunandi, sem stafaði af kornafínleika kísilryksins, sem notað var í íslenska sementið.
Hörðnunartíminn mun sennilega verða erfiðastur við aðlögun possólansements með hárri íblöndunarprósentu að því verklagi, sem tíðkast í nútíma steypugerð. Líklegt er að það verði reynt með breytingum á mölunartækni sementsins og e.t.v. hröðunarhvötum, það er að segja efnum sem flýta hörðnunarferlinu.
Áhugi á útflutningi gosefna
Áhugi evrópskra sementsframleiðenda á þessari nýju framleiðslutækni hefur þegar komið í ljós við nýlegar athuganir þeirra á möguleikum á útflutningi gosefna héðan. Fari svo að þær athuganir leiði til útflutnings gosefna er líklegt að þau verði möluð hér og blönduð gjalldufti í erlendum sementsverksmiðjum. Þá myndi innflutt sement notað hér á landi innihalda íslensk possólanefni, sem flutt hafa verið út og aftur heim. Innflutningi á gjalldufti erlendis frá og bygging blöndunarstöðva hér gætu verið framhaldið.
Nýjasta nýtt
Að lokum skal nefnd ný tegund steypubindiefnis, sem er nefnd jarðfjölliðu -sement eða geopolymer sement. Þessi nýja sementstegund harðnar á annan hátt en Portlandsement. Það harðnar þegar steypusteindir kristallast (nálakristallar) við vötnun sementsins og gefa steypunni þannig styrk. Jarðfjölliðunin eða jarðsteypan (geopolymer concrete) verður aftur á móti til við ólífræna fjölliðun ( geo-polymerization ) álsilikata, sem fyrir hendi eru í margs konar jarðefnum, t.d.ýmsum leirtegundum, en einnig í gosefnum og úrgangsefnum frá iðnaði.
Þessi efni hafa öll possólaniska eiginleika og eru í stórum dráttum þau sömu og þau possólanefni sem notuð eru í possólansement. Þessi bindiefni hafa einnig verið nefnd alkalivirk bindiefni, þar sem hörðnun þeirra verður til við fjölliðun í upplausn af sterkum alkalílút (natríum- eða kalíum-hydroxíð).
Kolefnalaus og umhverfisvæn!
Steinsteypa gerð með jarðfjölliðun er að mestu kolefnalaus og því umhverfisvæn. Hún nær góðum styrk og er þolin gegn áhrifum salts og sýru. Framleiðsla hennar krefst lægra hitastigs ( um750°C ) og þar með minni orku en framleiðsla Portlandsements (1450°C). Þar sem bindiefnið myndast án kalksteins (kalsíumkarbónats) verður CO2 myndun hverfandi ( 80-90% minni ) miðað við framleiðslu Portlandsements.
Jarðfjölliðunar-sement harðnar mjög hratt og nær strax góðum styrk. Hingað til hefur það einkum verið notað í mannvirki, sem þurfa að ná fullum styrk á skömmum tíma ( t.d. við hernaðaraðstæður ).
Bandaríska sementsfyrirtækið Lone Star Industries hóf framleiðslu á geopolymer-sementi undir nafninu Pyrament á níunda áratug síðustu aldar og var það notað að mestu sem blendiefni með Portlandsementi í ýmsar framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers. Fyrstu tilraunir með jarðfjölliðunar -bindiefni hér á landi fóru fram hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir nokkrum árum og var notuð gosaska frá gosinu í Eyjafjallajökli sem grunnefni.
Spennandi möguleiki fyrir íslenskan iðnað
Þar sem tilraunir og reynsla af jarðfjölliðun sements eru ennþá skammt á veg komin og reynsla af steinsteypu með henni einnig, er örðugt að spá fyrir framtíð hennar sem bindiefnis. Fyrir Ísland er hún þó verulega áhugaverð, þar sem hráefnin eru vel aðgengileg hér og til í miklu magni.
Aftur á móti er erfitt að spá fyrir um hvernig til tekst um samkeppnina við Portlandsements -kerfið, sem byggir á aldagamalli tækniþekkingu og reynslu. Þó hafa vissir steypuframleiðendur, sérstaklega í Ástralíu, þegar hafið notkun á jarðfjölliðunarsementi og þá einkum í tilbúnar, steyptar einingar fyrir hús og mannvirki með lágu kolefnisspori.
Verði samkeppnin hagstæðari fyrir þessa nýju sementstegund en nú er, er hreint ekki útilokað að alíslensk sementsframleiðsla geti með tímanum aftur orðið að veruleika, þó að markaðurinn sé lítill.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknimála hjá Sementsverksmiðju ríkisins.