Þessa dagana sitja 28 evrópskir stjórnmálamenn sveittir í Brussel við að búa sig undir starfsviðtöl lífs síns. Jean-Claude Juncker, fyrrum forsætisráðherra Lúxemborgar, var kosinn til að stýra framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 15. júlí sl. og kynnti í gær tillögu sína að verkaskiptingu innan hennar. Juncker vill meina að hann tefli fram öflugu og reyndu teymi sem geti komið breytingum til leiða. Í lok september mæta frambjóðendurnir fyrir þingnefndir, sem munu spyrja þá spjörunum úr til að meta hvort þetta sé rétti hópurinn til stýra sambandinu næstu fimm árin.
Ótal sjónarmið að sætta
Sá hópur sem mun skipa framkvæmdastjórnina ræðst af löngu ferli þar sem þarf að sætta ótal ólík sjónarmið og uppfylla ýmsa kvóta - hvort sem þeir eru formlegir eða ekki. Skýrasti kvótinn er ríkjakvótinn. Hvert aðildarríkjanna 28 á heimtingu á einu sæti í framkvæmdastjórninni. Ríkisstjórnir eru sjálfstæðar í því að tilnefna fólk í hópinn, en endanleg ákvörðun er oft tekin í nánu samstarfi við verðandi forseta framkvæmdastjórnarinnar, enda þarf hann á endanum að samþykkja að setja nöfnin í pottinn.
Útkoman er hópur þrautreyndra stjórnmálamanna. Bæði búa frambjóðendurnir yfir mikilli reynslu af Evrópumálum, sjö þeirra hafa áður setið í framkvæmdastjórninni og átta hafa verið Evrópuþingmenn, og ekki síður af stjórnmálum heima fyrir. Í hópnum eru fimm fyrrum forsætisráðherrar og 23 af frambjóðendunum 28 hafa gegnt ráðherraembættum heimafyrir.
Hópurinn er hins vegar gagnrýndur fyrir að vera einsleitur að ýmsu leyti. Fyrir það fyrsta tilheyrir helmingur frambjóðendanna þinghópi íhaldsmanna og kristilegra demókrata, sama hópi og Juncker sjálfur. Þetta er talsvert meira en styrkur hópsins innan Evrópuþingsins og endurspeglar frekar sterka stöðu hægriflokkanna í ríkisstjórnum víða um Evrópu. Þá hefur verið bent á að meðalaldurinn í hópnum sé í hærra lagi, eða rúm 53 ár, sem er þó á svipuðu róli og meðalaldur Evrópuþingmanna.
Sá kvóti sem mest hefur verið ræddur undanfarnar vikur er síðan kynjakvótinn. Stuttu eftir að Juncker var kynntur sem væntanlegur forseti framkvæmdastjórnarinnar skoruðu konurnar í fráfarandi framkvæmdastjórn á hann að tryggja hlut kvenna í þeirri næstu.
Átakið nefndu þær #TenOrMore, konum skyldi fjölga um að minnsta kosti eina frá þeim níu sem sitja í fráfarandi framkvæmdastjórn. Juncker tók vel í áskorunina og hvatti ríkisstjórnir til að tilnefna sem flestar konur, en eftir því sem fleiri lönd settu nöfn í pottinn varð ljóst að þetta yrði allt annað en auðvelt verkefni. Í ágústlok, þegar aðeins 4 konur voru meðal þeirra 23 tilnefninga sem komnar voru, setti Juncker aukinn þrýsting á þær ríkisstjórnir sem áttu eftir að skila inn tilnefningum. Næstu dagana skiluðu síðustu fimm ríkisstjórnirnar af sér tilnefningum - allt konum, sem náði þeim upp í níu.
Þinghóparnir sem mynda meirihluta á Evrópuþinginu, íhaldsmenn og jafnaðarmenn, hafa gefið út að þeir sætti sig við níu kvenkyns framkvæmdastjóra, enda sé það sami fjöldi og í síðustu framkvæmdastjórn. Búast má við að aðra hópa innan þingsins greini á um þetta í framhaldinu. Þinghópar græningja og vinstrimanna hafa bent á að konurnar níu nái því ekki að vera þriðjungur framkvæmdastjórnarinnar, sem skjóti skökku við þá kröfu ESB að hlutfall hvors kyns fari ekki undir 40%, sem sambandið gerir víða í störfum sínum. Raunar er Evrópuþingið sjálft litlu skárra, með rúmlega þriðjungshlut kvenna. Ýmis kvennasamtök hafa því með stuðningi þingmanna græningja og vinstrimanna sett af stað herferðina „Women for European Commission“ til að skora á þingmenn að hafna framkvæmdastjórninni nema hún sé jafnt skipuð konum og körlum.
Stokkað upp fyrir breyttar áherslur
Eitt af því sem Juncker hefur gert til að setja mark sitt á komandi kjörtímabil er að stokka verulega upp verkefnum innan framkvæmdastjórnarinnar. Þetta er að hluta til gert af nauðsyn, til að bregðast við því að staða ESB hefur að ýmsu leyti breyst á síðustu fimm árum, en ekki síður svo hægt sé að breyta pólitískum áherslum. Til að undirstrika þetta ætlar Juncker að fela varaforsetunum sjö að stýra teymum til að ná fram markmiðum framkvæmdastjórnarinnar.
Einn þessara varaforseta, Alenka Bratušek, mun stýra stefnu sambandsins í orkumálum, með það fyrir augum að koma ESB nær því að vera sjálfu sér nægt með orku. Nauðsyn þessa hefur orðið ljósari á undanförnum árum, þegar misgóð samskipti við Rússa minna ESB-ríkin reglulega á það hversu háð þau eru gasinnflutningi þaðan. Bratušek mun sjá um „stóru línurnar“ í orkumálunum, en að öðru leyti verða þau á hendi Miguel Arias Cañete, sem einnig mun fara með loftslagsmál í framkvæmdastjórninni. Með þessari sameiningu verkefna segist Juncker vilja undirstrika nauðsyn endurnýjanlegra orkugjafa, jafnt til að tryggja orkuframboð í álfunni og til að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Þá mun eftirlit með fjármálamarkaðinum fá stóraukna athygli - og sjálfsagt verðskuldaða í ljósi fjármálakreppunnar. Bretinn Jonathan Hill mun setjast í nýtt embætti framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika og fjármálamarkaða. Hill verður í þessu skyni falið að setja á laggirnar og stýra nýju ráðuneyti sem hefur sérstaklega með þessi verkefni að gera, sem áður dreifðust á ólíka staði innan stjórnkerfis ESB. Með þessu þykir Juncker koma nokkuð til móts við áhyggjur Breta, sem eru almennt efins um aukin afskipti ESB af fjármálamarkaðinum. En af sömu ástæðu má gera ráð fyrir að Hill þurfi að hafa talsvert fyrir því að sannfæra þingið um að hann sé rétti maðurinn í starfið.
Tvennt sem vekur athygli
Fyrir áhugasama um samskipti Íslands og Evrópusambandsins er sérstaklega tvennt sem vekur athygli í tillögu Junckers að framkvæmdastjórn. Annars vegar að sjálfstætt embætti stækkunarstjóra verður lagt niður, en Johannes Hahn mun sinna stækkunarmálunum ásamt Evrópsku nágrannastefnunni, sem snýr að samskiptum við nágranna ESB í A-Evrópu, N-Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs. Í kynningu á skipulagi framkvæmdastjórnarinnar segir Juncker að ESB þurfi að taka sér hlé frá stækkunaráformum. Samningaviðræðum verði haldið áfram þar sem þær voru komnar af stað, en frekari stækkun muni ekki eiga sér stað næstu fimm árin.
Hins vegar vekur athygli að smáríkið Malta - minnsta aðildarríki ESB - mun fara með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórninni, ásamt raunar umhverfismálunum. Þetta styður nokkuð málflutning íslenskra aðildarsinna, sem hafa gjarnan bent á að allar líkur séu á að Ísland gæti vegna sérstöðu sinnar gert sig gildandi í sjávarútvegsmálum innan ESB, ef til aðildar kæmi. Karmenu Vella, maltverski frambjóðandinn, hefur setið á þingi frá 1976 og verið ráðherra í fjórgang. Þrátt fyrir þennan gríðarlanga stjórnmálaferil má gera ráð fyrir að þingmenn muni gagnrýna Vella fyrir reynsluleysi - þar sem hann hefur hvorki komið að Evrópumálum né sjávarútvegs- eða umhverfismálum að heitið geti.
Á skólabekk fyrir atvinnuviðtal
Framkvæmdastjórarnir eru tilnefndir af ríkisstjórn hvers lands, en endanleg skipan þeirra er í höndum Evrópuþingsins sjálfs. Framundan eru strembin atvinnuviðtöl, þar sem framkvæmdastjóraefnin sitja fyrir svörum í þeim þingnefndum sem þeir munu mest starfa með. Þingnefndirnar munu gera kröfu um yfirgripsmikla þekkingu á viðkomandi málaflokkum og skýra framtíðarsýn. Það má því búast við að þeir séu búnir að koma sér vel fyrir og sitji sveittir yfir skruddunum við að setja sig inn í gangverk ESB og þau verkefni sem þeir koma til með að sinna.
Yfirheyrslur þingnefndanna munu væntanlega ekki einungis snúast um þau verkefni sem framundan eru, heldur í sumum tilvikum um hæfni frambjóðendanna til að gegna svo veigamiklum embættum. Þetta á sérstaklega við um umdeilda stjórnmálamenn og gæti jafnvel leitt til þess að þingið hafnaði einhverjum þeirra, en það hefur gerst við myndun síðustu tveggja framkvæmdastjórna.
Yfirheyrslur þingnefndanna munu fara fram síðustu vikuna í september og stefnt er að því að þingið kjósi um tillögu Junckers 4. október. Ef allt gengur samkvæmt áætlun Junckers ætti ný framkvæmdastjórn að taka við 1. nóvember.