Það er magnað til þess að hugsa hvar þessi þjóð stóð fyrir hundrað árum. Hún var rétt orðin fullvalda, deildi konungi með Dönum, átti vissulega nokkrar stofnanir, en þær bjuggu í nokkrum húsum við tjörn milli tveggja hæða í litlu þorpi nefndu Reykjavík. Það er undirritaðri eilíft undur að hugsa til baka og sjá fyrir sér þá tiltölulega fáu eldhuga sem hófu starfsferil sinn á svipuðum tíma og samfélagið tók skrefið úr aldagömlu fari nýlendunnar og yfir í stöðu fullvalda þjóðar. Þjóðar sem stekkur ekki bara inn í sjálfstjórn, heldur nýjan tækniheim, nýjan heim gæða, heim borgarvæðingar, verkalýðsbaráttu, hernáms og nýrra drauma um félagslegan veruleika.
Og það var í höndum þessara örfáu einstaklinga að móta hið manngerða umhverfi samfélagsins sem lá svona á út í heiminn. Hvað það hlýtur að hafa verið magnað og spennandi en um leið ofurstórt og hræðandi að sitja með svo stórt verkefni, og það á sínum fyrstu starfsárum. Og hvað sem því leið varð hér til borg á fáeinum áratugum, götur voru lagðar, hverfi hönnuð, þungamiðjur settar – og færðar til eftir því sem á leið og borgin þróaðist. Innviðir lagðir, hiti, vatn og gas og síðan rafmagn, allt gerist þetta á lygilega skömmum tíma, við aðstæður sem vægast sagt má reikna með að hafi verið krefjandi.
Samhjálp og jöfnuður
Og borgin vex og mótast eins og hver önnur hafnarborg – með höfnina sem aðalleikara framan af. Frá höfninni mótast flæði, hún verður bæði hliðið inn í landið og með tímanum ígildi banka til sjálfstæðra athafna þjóðarinnar á eigin lendum, framhjá erlendu nýlenduveldi. Og eftir því sem leið á öld, varð skipulag hennar þétt ofið við verkalýðsbaráttu verkafólksins á höfninni sem annars staðar.
Hvatinn á bak við þessa mótun, þessa fæðingu, var afar áhugaverður. Félagspólítíska afstöðu okkar hvers til annars má gjarnan lesa í bæði arkitektúr og skipulagi hvers tíma. Og þótt löngunin til að verða þjóð meðal þjóða hafi á margan hátt skinið í gegnum skipulag þessara fyrstu áratuga, þá má ekki gleyma því að spurningar um samhjálp og jöfnuð gerðu það líka. Um miðja öld var alvarlegu húsnæðisvandamáli borgarbúa mætt af þverpólítískum vilja til breytinga og hagsældar fyrir þann fjölda sem bjó við fátækt og óboðlegar aðstæður.
Þegar búið var að svara hvernig við vildum sjá að okkar systur og bræður byggju ekki var farið að leita svara við því hvernig við vildum sjá þau búa. Hvernig við vildum sjá nýjar kynslóðir vaxa úr grasi og skipulagi var beitt af skerpu til að móta draumastöðu barnafjölskyldna, í ódýru fjölbýlishúsnæði, mótuðu þannig að utan við það voru bílar og umferð geymd og þaðan sigldu feðurnir á morgnana til vinnu en mæðurnar og börnin notuðu innri hliðina sem sameinaðist öðrum byggingum í innra landslagi stíga, verslana og leiksvæða. Þótt ekki hafi sést fyrir um stöðu konunnar á heimilinu, má hér líta skýran draum um jöfnuð og gott umhverfi fyrir börn og fullorðna.
Skipulag til framtíðar
Skipulagið verður alltaf okkar. Sumra eða allra en alltaf okkar. Skipulag er tæki til að birta draum okkar eða ásetning um hver við viljum vera, hvert fyrir annað og fyrir okkur sjálf. Skipulag er samningur á milli almennings og fulltrúa hans um þennan draum eða ásetning.
Þegar litið er til baka og hugleitt hversu djarft og af miklu hugrekki skipulagi hefur verið beitt í okkar litla samhengi gegnum þennan stutta tíma, hversu mikið af draumum hefur ræst í krafti þess og hversu oft ásetningur hefur orðið að veruleika í gegnum það, getur maður ekki annað en hugleitt hvað það gæti leitt af sér ef það yrði nýtt til hins ýtrasta.
Við lifum á tímum þar sem óhugnanleg staða blasir við og vofir yfir. Ekki í fjarlægri framtíð og ekki kannski, heldur hér og nú. Því mætti velta fyrir sér hvers konar tæki skipulagið gæti verið í þeirri baráttu, hvers konar ásetningi það gæti strax hrint af stað, hvers konar draumi það væri megnugt að ná fram ef þar lægi okkar félagspólitíski vilji og metnaður. Því á endanum er skipulag samningur milli okkar við okkur sjálf um hver við viljum vera, um næstu skref til framtíðar, því þau munu hafa áhrif en verða ekki tekin aftur.
Höfundur er deildarforseti í arkitektúr við Listaháskóla Íslands.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.