Í sögu eftir Stefan Zweig segir frá gömlum, blindum manni sem fær heimsókn frá þekktum fornbókasala. Gamli maðurinn, sem verið hafði viðskiptavinur föður hans, vill ólmur sýna honum frímerkjasafn sitt. Hann fletti stoltur fjölmörgum möppum og sagði gestinum frá frímerkjunum sem hann gjörþekkti. Að lokum segir gamli maðurinn að fornbókasalinn muni fá þetta mikla safn til sölu að honum látnum. Það einstæða við þessa hegðun öldungsins var, að ekkert frímerki var eftir í öllum möppunum. Eiginkonan og dóttir höfðu smám saman selt hvert einasta stykki til að eiga fyrir salti í grautinn.
Mér datt þessi snjalla saga í hug þegar rifjuðust upp fyrir mér allar þær heitstrengingar og fullyrðingar sem vestræn veldi létu frá sér fara á tuttugu ára tímabili, um góðan árangur við að byggja upp öflugan her og traust lögreglulið í Afganistan. Þegar vestrænir herir yfirgáfu landið í skyndi, hvarf þessi vel þjálfaði her eins dögg fyrir sólu. Þessar hersveitir virðast aðeins hafa verið til á launaskrá bandaríkjahers. Gamli blindi frímerkjasafnarinn vissi ekki að möppurnar voru tómar, en þeir vestrænu voru fangar eigin óskhyggju, hugarkreddu eða barnaskapar. Allar þær NATO þjóðir sem tóku þátt í þessari afgönsku feigðarför bera hér ábyrgð, við Íslendingar líka, en Bandaríkin þó sýnu mest. Það er líka rétt að við komumst ekkert hjá því að fylgja bandamönnum okkar til Afganistan, eins og það var heimskulegt að fylgja Bandaríkjunum til Íraks.
Lýðræðið varð ekki til á einni nóttu
Bandaríkjamenn ásamt bandamönnum tóku sér fyrir hendur að breyta aldagömlu rammíslömsku þjóðfélagi í nútíma lýðræði á örskömmum tíma (Nation building). Það var auðvitað barnaskapur. Þeir hugðu ekki til þess, að það tók vestrænar þjóðir margar aldir fullar átaka og afturkippa áður en starfhæft lýðræðiskerfi fór að skjóta rótum. Enn er það svo að lýðræðið á víða í vök að verjast og reynt er að takmarka virkni þess við vélrænar kosningar á nokkurra ára fresti. Það virðist einnig gleymast að forsendur lýðræðis er skýr aðgreining veraldlegs og trúarlegs valds. Keisaranum það sem hans er og Guði það sem honum ber. Án aðgreiningar veraldlegs og trúarlegs valds, sem í vestrænni kristni tók fyrst á sig praktíska mynd snemma á miðöldum, hefði þróun til valddreifingar í evrópskum samfélögum seint orðið að veruleika. Einstaklingshyggja og fjölhyggja hefðu ekki orðið grunnstef þjóðfélagsgerðarinnar. Mikilvægust var þó Upplýsingarstefnan, sem vildi sjá mynduga, upplýsta og gagnrýna borgara er síðar mynduðu grunnmúr lýðfrelsis. Hún vildi útiloka trúna frá öllu veraldlegu vafstri. Þetta leiddi seinna til mannréttindayfirlýsingar og nútíma réttarríkis.
Hvað er framundan?
Ófarirnar þarna fyrir austan eru líka afleiðing ótrúlega grimmilegra hernaðaraðgerða bandarískra málaliða sem létu sprengjum rigna yfir landið í tíma og ótíma. Fjölskyldusamkomur, giftingar og afmælisveislur voru eftirsótt skotmörk. Það tók bandaríska stjórnendur ekki nema rúmlega þrú ár frá hernámi að snúa afgönsku þjóðinni á móti sér. Allt í einu, sagði afganskur blaðamaður, áttu Bandaríkin enga formælendur lengur. Hrakfarirnar í Afganistan eiga eftir að hafa áhrif á framtíð NATO og stöðu Vestursins í heiminum. Þetta er þriðja stríðið sem Bandaríkin tapa eða hrökklast niðurlútir frá. Sú niðurlæging mun smita út frá sér. Ófarirnar munu draga úr áhrifum Vestursins á gang heimsmála, tiltrú á mátt þeirra og samfélagslegt aðdráttarafl þess mun dvína. Í bandarískum stjórnmálum eiga sér nú stað átök um hlutverk Bandaríkjanna í heiminum og fyrir hverju þau munu berjast. Þjóðirnar í austri munu i vaxandi mæli líta á okkur, ríkar vestrænar þjóðir sem hernaðarlega og pólitískt ótraustverðar. Þær munu hika við að reiða sig mikið á Vestrið. Veraldarsagan einkennist af átökum og stríðum um völd og áhrif, ekki af vinsamlegu friðarspjalli yfir kaffibolla. Ef við viljum viðhalda samfélagsgerð okkar verðum við að berjast fyrir henni.
Fullveldisgildran og breytt umhverfi
Evrópuþjóðirnar sem verið hafa varkárari í hrifningu sinni á engilsaxnesku hernaðarbrölti og líta forystu BNA gagnrýnum augum, munu vilja styrkja varnir sínar á eigin forsendum. Það gæti haft í för með sér breytta stefnumörkun, jafnvel uppskiptingu NATO. Það gæti þýtt að ESB, eða stærri ríkin innan þess, tæki að sér að fylla í skarðið. Án samþykkis þjóðþinga aðildarlandanna er ESB nú máttlítil, valdarír stofnun án boðvalds yfir nokkrum herafla. Ef Evrópuríkin ætla að standa upprétt við mótun pólitískrar umgerðar heimsmálanna verða þau að efla ESB sem verkfæri með því að færa til bandalagsins fleiri valdsvið. Kannski það sé lexía átaka aldarinnar að alvarleg deilumál verði fremur útkljáð á vígvellinum en í samningasölum. Þjóðfélagsgerð okkar verður ekki varin bara við kjörkassana. Valdaríki heimsins hafa þá sterku tilhneigingu að vilja steypa önnur ríki í eigin samfélagsmót. Hvorki Kína né Rússland bera í brjósti ólgandi þrá eftir lýðræði. Bæði þessi ríki reka ágjarna og harðdregna utanríkisstefnu. Þau leggja undir sig bæði lönd og hafsvæði. Hvorugt þessara ríkja hefur réttbundið samfélag sem fyrirmynd né heillandi hugmyndafræði sem aðdráttarafl. Bæði hafa öflugan her.
Hver sem framtíð NATO verður þarf Evrópa að styrkja samstöðu sína og varnarmátt, annars verður hún máttvana bitbein heimsveldanna. Ísland er hluti Evrópu. Öll okkar gildi trúarleg sem veraldleg eru þaðan komin. Viðskiptahagsmunir okkar þar eru mikilvægastir. Við þurfum því að styrkja böndin þangað enn frekar. Meðan vofa Trumps svífur yfir vötnunum getum við ekki treyst sambandinu við Bandaríkin, til þess er stefnan hans of hverful og hrokafull. Samstarf er ekki einkennisorð hans. Aðild að ESB er eini skynsamlegi valkostur okkar. Með því færum við okkur nær meirihluta Norðurlanda sem þar eru fyrir og leggjum lóð okkar á vogarskál þess opna samfélags mannréttinda og réttar sem einkennir bandalagið. Látum ekki fullveldisgildruna steingera hugsun okkar og athafnir og blekkja okkur eins og öldunginn hjá Zweig.
Höfundur er hagfræðingur.