Loftslagsvandinn hverfur ekki þó við séum annars upptekin að kljást við verðbólgu og önnur vandamál í heiminum. Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að ógna lífsskilyrðum og þær breytingar verða bara meiri eftir því sem tíminn líður. Síðustu ár hafa verið þau heitustu frá upphafi mælinga og skógareldar og þurrkar eru nú tíðari og alvarlegri en nokkurn tímann fyrr. Hafís og jöklar bráðna á methraða og yfirborð sjávar hefur því hækkað allverulega.
Veðuröfgar færast í aukana og fellibyljum og flóðum fjölgar, með tilheyrandi afleiðingum. Þær draga tugi þúsunda til dauða ár hvert og valda ólýsanlegum skemmdum. Milljónir neyðast svo til að flýja eigin heimkynni, til þess eins að bjarga sér og sínum. Eftir um 30 ár gæti þessi fjöldi náð meira en einum milljarði. Stjórnvöld á Íslandi eru kannski ekki tilbúin að lýsa yfir neyðarástandi – en hvaða orð getur annars lýst veruleika þessa fólks?
Við nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar höfum við lagt til þá breytingu að grænir skattar verði betur nýttir til að takast á við loftslagsvandann. Ísland á að vera í fremstu röð í þeirri baráttu. Þar eru hagrænir hvatar eitt öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda. Þess vegna viljum við að kolefnisgjöld verði lögð á stóriðju, sem hingað til hefur verið undanþegin slíkum gjöldum þrátt fyrir að vera ein stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Sorglegar sögur og sláandi staðreyndir um afleiðingar loftslagsvandans draga allar fram sömu myndina. Verði ekki gripið til harðari aðgerða munu enn alvarlegri breytingar eiga sér stað. Grundvallarbreytingar á jörðinni, loftslagi hennar og vistkerfum. Þær hlífa engum, spyrja hvorki kóng né prest, þó þær bitni vissulega mismikið á íbúum jarðar.
Næstu ár verða ekki eingöngu prófraun á skynsemi og samvinnu því vandinn kallar líka á samtal um siðferðislegar skyldur okkar, skyldur gagnvart jörðinni sjálfri og mannslífinu öllu og ekki síst gagnvart framtíðarkynslóðum. Því ber okkur rík skylda til að takast á við þessa stærstu ógn okkar tíma og það af fullum krafti. Miklu stærri skref þarf í þessari baráttu.
Höfundur er formaður Viðreisnar.