Fullyrða má að við Íslendingar erum stoltir af lífeyrissjóðunum okkar. Sumir segja að stofnun almennu lífeyrissjóðanna árið 1970 hafi verið besta og árangursríkasta efnahagsaðgerð þjóðarinnar á síðustu öld. Það er margt til í þeirri fullyrðingu en mér finnst meira um vert að með stofnun sjóðanna var skotið styrkum stoðum undir velferðarkerfi íslensku þjóðarinnar og er nú svo komið að eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af landsframleiðslu er orðin í fremstu röð meðal OECD ríkjanna.
Stoðirnar þrjár
Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvernig íslenska lífeyriskerfið er hugsað. Alþjóðabankinn og OECD hafa í langan tíma lagt til að þjóðir heims byggi upp lífeyriskerfi sín á þremur megin stoðum.
Fyrsta stoðin eru almannatryggingar, sem hið opinbera sér um og ber ábyrgð á. Um er að ræða grunnkerfi sem fjármagnað er af samtímasköttum, þ.e. svokallað gegnumstreymiskerfi.
Önnur stoðin sem kemur til viðbótar almannatryggingum eru lífeyrissjóðirnir. Um er að ræða skyldubundna aðild að lífeyrissjóðunum. Þeir eiga að byggja á samtryggingu sjóðfélaga og meginmarkmið þeirra er að greiða sjóðfélögum lífeyri, sérstaklega ævilangan ellilífeyri. Lífeyrissjóðirnir byggja á sjóðsöfnun og réttindin fara eftir iðgjaldagreiðslum til sjóðanna.
Þriðja stoðin er svo frjáls lífeyrissparnaður einstaklinga. Þessi sparnaður er mjög mikilvægur sem viðbót við greiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóða.
Viðsnúningur til hins verra
Sá sem þetta ritar hefur talið að sæmileg sátt og skilningur hafi verið í þjóðfélaginu um þetta þriggja stoða lífeyriskerfi, sem þjóðir heims keppast við að að koma á í sínum löndum. Hér á Íslandi hefur m.a. verið hægt að finna ofangreinda skilgreiningu lífeyriskerfa á heimasíðum opinbera aðila og hagsmunasamtaka.
En nú virðist öldin vera önnur. Ýmsir ráðamenn þjóðarinnar og þeirra fylgjendur hafa snúið við fyrstu tveimur veigamestu stoðunum í lífeyriskerfinu. Kenningin er þessi: Fyrsta stoðin eru lífeyrissjóðirnir, en svo koma almannatryggingar sem eins konar viðbót, en þá aðeins ef viðkomandi einstaklingur hefur áunnið sér lítil réttindi í lífeyrissjóðunum. Svo virðist sem almenningur hafi ekki áttað sig á þessum viðsnúningi, sem á sér þó nokkurra ára sögu, m.a. í erindisbréfum félagsmálaráðherra til nefnda um endurskoðun almannatrygginga.
Að lokum
Greinin er skrifuð til að vekja athygli lesenda á þessum sérkennilega viðsnúningi í lífeyrismálum þjóðarinnar. Ekki síst ef það mætti verða til þess að rétta af þennan viðsnúning við næstu endurskoðun almannatryggingalaganna, sem gæti verið á næsta leiti.
Á ráðstefnu um lífeyrismál sem haldin var hér á landi fyrir nokkrum árum hafði framsögu um velferðarmál Joakim Palme, sonur Olofs heitins Palme, forætisráðherra Svíþjóðar. Joakim Palme varaði við þeirri þróun ef almannatryggingar væru aðeins hugsaðar fyrir þá verst settu í þjóðfélaginu. Að gera almannatryggingar að eins konar fátæktarstofnun væru mikil mistök og óráð. Vonandi kemur sá tími ekki hér á landi að það verði í hugum fólks eins konar feimnismál sökum fátæktar að fá „bætur“ frá Tryggingastofnun ríkisins.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.