Mat manna á stöðu efnahagsmála fer fyrst og fremst eftir því við hvað þeir miða. Miðað við hvað við héldum að við værum rík árið 2007 er þjóðin frekar blönk núna. Miðað við Norðmenn erum við líka hálfgerðir þurfalingar. Á flesta aðra mælikvarða hafa Íslendingar það að jafnaði hins vegar mjög gott. Að jafnaði er reyndar hættulegt orðalag í þessu samhengi – í því felst að horft er framhjá því að sumir hafa það verra en aðrir. Þeir eru líklega almennt óánægðir með stöðuna. Hinir flestir ánægðari. Nema þeir beri sig saman við Norðmenn.
Ótrúlegur vöxtur á 20. öld
Frá upphafi síðustu aldar hefur landsframleiðsla á mann á Íslandi 15-faldast. Síðustu hálfa öld hefur hún meira en þrefaldast. Það er ótrúlegur vöxtur. Þótt landsframleiðsla sé afar ófullkominn mælikvarði á lífskjör eru þau svo miklu betri nú en þá að það er nær ógjörningur fyrir flesta núlifandi Íslendinga að setja sig í fótspor þeirra forfeðra sinna sem tóku við stöðnuðu, bláfátæku landbúnaðarlandi og breyttu því í forríkt nútímaríki. Það tók ekki nema u.þ.b. fjórar kynslóðir.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_09_04/36[/embed]
Íslendingar munu fyrirsjáanlega ekki upplifa næstum jafnmiklar breytingar á efnahagslífinu á 21. öldinni og þeirri tuttugustu. Það er nánast útilokað annað en að hagvöxtur verði mun hægari á þessari öld en þeirri síðustu. Margir af þeim þáttum sem skiptu miklu fyrir hagvöxt á síðustu öld munu ekki leika sama hlutverk næstu áratugi. Þannig skipti aukin sókn kvenna út á vinnumarkaðinn miklu. Þær voru helmingi færri en karlar á vinnumarkaði á millistríðsárunum en eru nú litlu færri. Það munar um minna. Aldursskipting þjóðarinnar varð sömuleiðis sífellt hagstæðari síðustu hálfa öld, þ.e. sífellt hærra hlutfall var á þeim aldri þar sem fólk er almennt á vinnumarkaði. Það hlutfall náði hámarki fyrir um fimm árum og mun fara lækkandi næstu áratugi.
Byggt á náttúruauðlindum
Mikið af vexti síðustu aldar byggði á aukinni nýtingu náttúruauðlinda. Verðmæti útfluttra sjávarafurða 28-faldaðist á síðustu öld. Það kallaði á nýja tækni, gríðarlegar fjárfestingar í skipastól og veiðarfærum og útfærslu landhelginnar. Þessi vöxtur hefur nú stöðvast. Undanfarinn aldarfjórðung eða svo hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða sveiflast í kringum tvo milljarða Bandaríkjadala á ári á föstu verðlagi. Það er ekkert útlit fyrir að fiskimiðin fari að skila umtalsvert meiru þótt líklega megi enn bæta nýtingu afla og ná meiri verðmætum með ýmsum öðrum hætti. Þá er fiskeldi enn lítið í sniðum hérlendis og getur líklega vaxið. Við höfum aldrei náð sambærilegum tökum á því og Norðmenn.
Vöxturinn í orkugeiranum var enn örari en í sjávarútvegi. Síðustu hálfa öld hefur raforkuframleiðslan nær tvöfaldast á hverjum áratug og þrítugfaldast alls. Sá vöxtur hefur ekki stöðvast en óhugsandi er annað en að það hægi verulega á honum. Þótt deilt sé um hvaða virkjanakosti á að nýta hefur enginn lagt til það margar virkjanir að þær gætu staðið undir slíkum vaxtarhraða nema í e.t.v. einn áratug enn eða svo. Það er annað mál að allt útlit er fyrir að hægt verði að skapa mun meiri verðmæti úr raforkunni með sölu hennar úr landi um sæstreng en gert hefur verið með sölu til álvera undanfarna áratugi.
Um aðrar náttúruauðlindir, sérstaklega olíu, er fátt hægt að segja nú. Um nýtingu þeirra er nær fullkomin óvissa. Nýjar leiðir til að vinna olíu eða gas á landi draga úr líkum á að hagkvæmt verði á næstu áratugum að nýta hugsanlega olíu á hafsbotninum við Ísland. Alþjóðleg þróun í átt að því að draga almennt úr brennslu jarðefnaeldsneytis vegna gróðurhúsaáhrifa gerir það líka. Þá vinnur það ekki með Íslendingum á þessu sviði að þekking innanlands á olíuvinnslu er nær engin og innviðir ekki til staðar. Við vissum meira um alþjóðafjármál þegar ákveðið var að breyta landinu í alþjóðafjármálamiðstöð með alkunnum árangri en við vitum um olíuvinnslu nú.
Fjölmörg sóknarfæri
Hvar eru þá sóknarfærin? Þau eru mörg og ekki mjög fjarlæg eða langsótt – en það þarf að vanda vel til verka til að ná þeim. Sjávarútvegur og orkugeirinn verða auðvitað afar mikilvægir áfram en vilji menn að hagkerfið vaxi þarf næsta hagvaxtarskeið fyrst og fremst að byggja á fjárfestingu í mannauði sem skilar aukinni framleiðni á vinnustund en ekki aukinni nýtingu náttúruauðlinda. Fyrirmyndina að þessu þarf ekki að sækja langt. Þetta hefur verið Dönum ljóst lengi og þeir hafa náð afar góðum árangri að þessu leyti. Þeir eiga aragrúa fyrirtækja í bæði framleiðslu og þjónustu af ýmsum stærðum sem eru vel samkeppnishæf alþjóðlega. Lykillinn að velgengninni er fyrst og fremst hugvit.
Verg landsframleiðsla á mann er svipuð hérlendis og í Danmörku. Við náðum Dönum að þessu leyti á áttunda áratuginum, fyrir u.þ.b. einni kynslóð, og höfum haldið í við þá síðan, en vorum hálfdrættingar á við þá í upphafi síðustu aldar. Við þurfum hins vegar að hafa talsvert meira fyrir þessari landsframleiðslu en Danir. Framleiðni á vinnustund er lægri hér, en vinnustundirnar á mann fleiri, þrátt fyrir að við búum að mun meiri náttúruauðlindum á mann en Danir.
Til að ná Dönum (og þar með ýmsum öðrum nágrannalöndum okkar) hvað framleiðni á vinnustund og þar með tímakaup varðar þarf að fjárfesta talsvert í rannsóknum, þróun og menntun og styðja vel við nýsköpun. Það gilda nákvæmlega sömu lögmál um þetta hérlendis og annars staðar.
Myndin birtist röng í snjalltækjaútgáfu Kjarnans en birtist rétt hér og í PDF-útgáfu og Issuu-útgáfu. Beðist er velvirðingar á þessu.
Óstöðugleiki helsti vandinn
Viðskiptaumhverfið þarf líka að verða mun stöðugra. Án þess verður Ísland seint freistandi kostur fyrir þá sem vilja hefja rekstur nema þá e.t.v. helst á sviðum sem tengjast beint náttúruauðlindum landsins. Það er ein helsta skýring þess hve hörmulega hefur tekist að fá erlenda fjárfesta til Íslands alla tíð. Við höfum að sönnu fengið nóg fé frá útlöndum – en það hefur verið að uppistöðu til lánsfé, ekki eigið fé með þeirri þekkingu og viðskiptatengslum sem slík fjárfesting getur fært til landsins.
Óstöðugleikinn birtist m.a. í því að samdráttarskeiðið sem hófst með hruninu varð það fjórða frá lýðveldisstofnun þar sem landsframleiðsla á mann dregst svo skarpt saman að það tekur fjölda ára að vinna það aftur upp. Óstöðugleikinn hefur þó verið enn meiri þegar kemur að verðlagi og gengi – þ.e. íslensku krónunni. Ekkert nágrannalanda okkar hefur búið við svipað umhverfi og við þegar kemur að peningamálum. Núverandi gjaldeyrishöft eru bara ein varðan enn á þeirri þrautagöngu. Óstöðugur gjaldmiðill býr til óþolandi umhverfi fyrir bæði atvinnurekendur og launþega.
Vöxtur getur komið víða fram. Á Íslandi hafa undanfarin ár komið fram ýmis mjög áhugaverð fyrirtæki sem hafa haslað sér völl alþjóðlega. Flest selja ýmiss konar þjónustu en einnig eru nokkur iðnfyrirtæki. Vandinn er að þau eru helst til fá. Það er nánast hægt að telja þau stærstu á fingrum sér. Svona fyrirtækjum er hægt að fjölga.
Lítil framleiðni í þjónustu
Útflutningur og gjaldeyrissköpun er þó ekki það eina sem skiptir máli fyrir hagvaxtarhorfur á Íslandi. Ekki eru síður sóknarfæri innanlands. Framleiðni í ýmsum geirum innlendrar þjónustu er lítil. Fyrirtæki eru smá og samkeppni takmörkuð. Þetta kemur m.a. fram í verslun. Það er því miður nánast reglan að vörur eru talsvert dýrari hérlendis en í nágrannalöndunum. Ekki vegna flutningskostnaðar og opinberra gjalda, þótt slíkt skipti máli, heldur vegna þess að rekstrareiningarnar eru svo litlar og óhagkvæmar hér og aðhald markaðarins takmarkað. Þessu verður vart breytt nema með því að íslenski markaðurinn verði samofnari mörkuðum nágrannalandanna. Það gefur kost á aukinni stærðarhagkvæmni og samkeppni, sem eykur framleiðni í verslun og vörudreifingu og lækkar vöruverð.
Ekkert af þessu mun gerast sjálfkrafa. Þetta eru langtímaverkefni fyrir samfélagið í heild.
Þokkalegt útlit til næstu ára
Ef við horfum til skemmri tíma, nokkurra ára, eru flestar hagspár nokkurn veginn samhljóma. Spáð er einhverjum hagvexti, e.t.v. 3% á ári fyrir landsframleiðslu í heild og um 2% fyrir vöxt landsframleiðslu á mann. Í sögulegu samhengi er það þokkalegt og í samanburði við nágrannalöndin fínt. Einnig er spáð afgangi af viðskiptum við útlönd sem nemur um 2% af landsframleiðslu. Það er líka ágætt. Við þurfum helst að hafa einhvern afgang á næstu árum vegna skuldsetningar innlendra aðila utanlands.
Afgangurinn þarf ekki að vera meiri en þetta til að hrein skuld landsmanna við útlönd minnki hratt. Íslendingar skulda nú erlendum aðilum um hálfa landsframleiðslu, þegar tekið hefur verið tillit til líklegra endurheimta úr þrotabúum föllnu bankanna, innlendra og erlendra eigna búanna og skiptingu kröfuhafa. Með 3% hagvexti á ári og 2% afgangi af viðskiptum við útlönd tekur innan við 20 ár að snúa stöðunni við. Þá ættu Íslendingar meiri eignir í útlöndum en sem nemur eignum erlendra aðila hér og skuldum við útlönd. Það væri ekkert fráleitt markmið, m.a. vegna þess að óhagstæðari aldursdreifing þjóðarinnar þegar líður á öldina gerir það æskilegt að eiga hreinan sjóð í útlöndum þegar þar að kemur.
Bráðavandinn snýr einkum að því að talsverður hluti erlendra skulda er ekki fjármagnaður til langs tíma. Þær skuldir eru fjármagnaðar með höftunum sem binda fé hérlendis. Það er vel leysanlegt viðfangsefni. Það er auðvitað líka hægt að klúðra verkefninu með glannaskap og búa til hnút sem tekur mörg ár að leysa en það er annað mál.
Hið opinbera í þokkalegum málum
Staðan gagnvart útlöndum er eitt, fjármál hins opinbera annað. Þar er þó enginn bráðavandi. Halli á rekstri ríkis og sveitarfélaga verður líklega einhver í ár en þó ekki meiri en svo að hreinar skuldir hins opinbera standa nokkurn veginn í stað sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er ágætlega viðunandi. Hreinar skuldir hins opinbera eru þó helst til hátt hlutfall af landsframleiðslu, rúm 50%. Það ætti að vera langtímamarkmið að lækka það eitthvað. Lífeyrisskuldir hins opinbera eru ekki inni í þessari tölu. Þær eru um 25% af landsframleiðslu. Á móti á hið opinbera varasjóð sem er eitthvað stærri, sem byggir á því að eignir lífeyrissjóða eru skattlagðar við útgreiðslu. Það er ástæðulaust að missa svefn yfir þessari stöðu.
Það er raunar almennt ástæðulaust að missa svefn yfir lífskjörum Íslendinga. Þau eru mjög góð og geta orðið enn betri þegar líða tekur á öldina ef við höldum skynsamlega á spilunum. Lífskjörin verða þó líklega sveiflukenndari hér en í nágrannalöndunum. Það er annað mál að við verðum varla almennt ánægð með þau. Jafnvel Norðmenn eru það ekki.