Þegar stjórnmálaflokkar lofa auknum ríkisútgjöldum í aðdraganda kosninga eru þeir iðulega spurðir hvernig aðgerðir verði fjármagnaðar. Oft gleymist hins vegar að spyrja þá sem lofa ríflegum skattalækkunum hvort og hvar verði skorið niður á móti til að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
Á árunum 2023-2025 vilja núverandi stjórnarflokkar ráðast í „afkomubætandi ráðstafanir“ upp á meira en 100 milljarða króna til þess að lágmarka skuldasöfnun ríkisins, og það þótt ríkisskuldir séu lægri á Íslandi en gengur og gerist í Evrópu og lánakjör ríkisins góð. Þetta kemur skýrt fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem þingmenn stjórnarmeirihlutans samþykktu þann 31. maí síðastliðinn.
„Afkomubætandi ráðstafanir“ þýðir á mannamáli niðurskurður og/eða skattahækkanir. Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn boðar skattalækkanir á komandi kjörtímabili og Vinstri græn og Framsókn leggja ekki fram neinar handfastar tekjuöflunaraðgerðir í sínum kosningastefnum verður að ætla að stjórnarflokkarnir vilji fara leið niðurskurðar á næsta kjörtímabili frekar en leið skattahækkana.
„Fjármálaáætlun áranna 2022-2026 gerir ráð fyrir að afkomubætandi ráðstafanir muni nema 34 ma. kr. á ári árin 2023 til 2025 hjá hinu opinbera sem skiptist nú þannig að 30 ma. kr. eru hjá ríkissjóði en 4 ma. kr. hjá sveitarfélögum,“ segir í greinargerð fjármálaáætlunar þar sem jafnframt er viðurkennt að aðgerðirnar muni „hægja á hagvexti“ á tímabilinu.
Þetta eru stórar fjárhæðir og mikilvægt að setja þær í samhengi. Háskóli Íslands fær 18 milljarða úr ríkissjóði á ári, rekstur Sjúkrahússins á Akureyri kostar 9 milljarða á ári og dómstólakerfið í heild kostar 3,5 milljarða. Jafnvel þótt öll þessi starfsemi yrði lögð niður á einu bretti þá myndi það ekki duga til að uppfylla niðurskurðarkröfur ríkisstjórnarinnar.
Nú þegar örfáir dagar eru í kosningar og þrír stjórnmálaflokkar hafa greitt atkvæði með óútfærðri niðurskurðaráætlun á næsta kjörtímabili, og einn þeirra lofar í þokkabót skattalækkunum, þá er það sanngjörn krafa að umræddir flokkar upplýsi kjósendur um hvar niðurskurðarhnífurinn á að lenda. Hvaða stofnanir verða fjársveltar og hvaða þjónusta verður skert á næsta kjörtímabili ef Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá að ráða?
Við í Samfylkingunni ætlum að fara leið uppbyggingar og félagslegrar fjárfestingar út úr efnahagshremmingum síðustu missera. Við höfum sett fram raunhæfa áætlun um kjarabætur fyrir lágtekju- og millitekjuhópa og útskýrt hvernig þær verða fjármagnaðar: Með stóreignaskatti á ríkasta 1 prósentið, hertu skatteftirliti og álagi á veiðigjöld stærstu útgerðarfyrirtækja.
Sveltistefna er ekki svarið við áskorunum okkar daga. Það skiptir litlu fyrir lífskjör fjölskyldna á Íslandi hvort t.d. skuldahlutfall hins opinbera verði 54 prósent af vergri landsframleiðslu við lok ársins 2025 eða 56 prósent af landsframleiðslu. Hitt skiptir öllu að ná upp atvinnustiginu og sjálfbærri verðmætasköpun og verja um leið almannaþjónustuna. Um það snýst ábyrg hagstjórn í velferðarsamfélagi.
Höfundur skipar 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.