Hinn frjálsi markaður kemur ekki af himnum ofan. Í heimi umfangsmikilla gagna og rannsókna höfum við í auknum mæli leitað að hlutlausum lausnum, niðurstöðum sem hægt er að reikna sig niður á, haldreipi um bestu mögulegu útkomu án þess að vottur af pólitík sé til staðar. Gagnadrifnar aðgerðir og ákvarðanir geta sköpum skipt. En allt er aðstæðum háð, forsendurnar og leikreglurnar sem við störfum eftir móta nefnilega niðurstöðuna. Sú niðurstaða er langt í frá hlutlaus þó hún sé afleiðing frjálsra viðskipta. Hún byggir á ákvörðunum stjórnmálamanna. Stjórnmál skipta máli.
Stór hluti fjármagns sem veitt var út í hagkerfið í fyrra í gegnum bankakerfið rann inn á fasteignamarkað og dreif áfram sögulega miklar hækkanir á íbúðaverði. Þar var hinn frjálsi markaður að verki. Innan þess ramma sem hið opinbera hafði skapað honum. Útreikningar á áhættutöku banka taka mið af reglum sem við sjálf setjum, og þar vill svo til að húsnæðislán eru áhættuminnst.
Stjórnvöld bera ábyrgð á því að sníða markaðinn í mannlegra form og bregðast við markaðsbrestum líkt og þessum. Enda er markaðurinn mannanna verk. Við semjum sjálf leikreglurnar í okkar samfélagi. Við verðum að hafa stjórnvöld sem skilja þetta samspil ríkis og einkageira. Sveigjanleiki þarf að vera til staðar til að bregðast við breyttri heimsmynd eftir því sem samfélagið þróast.
Núverandi stjórnarflokkar vita þetta reyndar alveg, þó oft sé talað um mikilvægi þess að ríkið sé ekki fyrir fólki – ekki fyrir einkageiranum – í stað þess að benda á hið augljósa; hvers mikilvægur rammi stjórnvalda er fyrir blómstrandi atvinnulíf hér á landi. Þau lönd í heiminum sem eiga við hvað mestu efnahagslegu erfiðleika að stríða eru lönd með veikar opinberar stofnanir og opinbera innviði.
Sama viðhorf í setningu leikreglna hefur orðið til þess að í dag er skattbyrði eignamesta eina prósentsins lægra en stórs hluta almenns launafólks á Íslandi. Hræðsluáróður um áhrif stóreignaskatts á þennan hóp, hóflegan skatt sem kemur í veg fyrir að eignir vindi upp á sig og valdi samfélagsrofi hér innanlands þar sem fjölskyldubakgrunnur hefur í auknum mæli áhrif á velgengni fólks, hefur borist frá stjórnarflokkunum. Rætt er um ósanngirni og letjandi áhrif á fjárfestingu, atvinnutækifæri, hagvöxt. Hér er öllu snúið á haus. Sem kemur svo sem ekki á óvart, enda er heimsmynd okkar jafnaðarmanna ólík íhaldsins sem skilur ekki að grunnurinn sem samfélagið vex á er það sem heldur því saman, ekki hvað gerist í efsta þrepinu.
Hvernig dettur fólki í hug að tala um ósanngirni í þessu samhengi án þess að minnast á skattheimtu öryrkja og eldri borgara sem greiða í raun hæstu skattana hér á landi? Stór hluti ríkisstjórnarinnar skortir skilning á því hvað það er sem gerir landið okkar samkeppnishæft. Fólkið. Framtíðarstörfin hér á landi munu felast í hugviti, nýsköpun, þekkingariðnaði og greinum þar sem tækifæri eru til að staðsetja störf í auknum mæli án staðsetningar. Í þessu felast gífurleg tækifæri fyrir litla þjóð, hvað þá lítil byggðarlög út á landi. En það sem ræður því hvar fólk ákveður að setjast að til að sinna færanlegu starfi eru lífskjör. Þar erum við í samkeppni innanlands en fyrst og fremst við allan heiminn - einna helst nágrannaríki okkar.
Stjórnmálaflokkar sem átta sig á þessari heimsmynd skilja nefnilega mikilvægi þess að bæta kjör meirihlutans, ekki minnihlutans. Skilja hvers vegna það er atvinnu- og hagvaxtarhvetjandi að leiðrétta skattbyrði hér á landi, með breyttri forgangsröðun. Því efsta eina prósentið getur aldrei komið jafnmiklu í verk og restin af samfélaginu, getur aldrei skapað jafnmikil verðmæti og hin 99%. Þess vegna er það góð og ábyrg hagstjórn að lækka skattbyrði millitekjufólks, barnafólks, öryrkja sem vilja vinna í auknum mæli, og draga úr fjárhagserfiðleikum eldri borgara sem þurfa annars að reiða sig um of á aðstoð skyldmenna sem eru minna virk á öðrum vígstöðum fyrir vikið vegna álags. Þetta er hægt með réttlátri tilfærslu skattbyrðar. Það er pólitísk aðgerð.
Aðgerðir ríkisins á húsnæðismarkaði sem halda aftur af verðhækkunum geta dregið úr verðbólgu, launaþrýstingi og sparað heimilum, fyrirtækjum og ríkinu umtalsverðar upphæðir á ári hverju. Opinberir sjóðir sem styðja við orkuskipti og græna atvinnubyltingu í samstarfi við einkageirann geta gert litlum fyrirtækjum um land allt kleift að sækja sér fjármagn sem annars hefði verið ómögulegt sökum staðsetningar og bresta á fjármagnsmarkaði. Við gætum þannig virkjað betur hið opinbera fé sem rennur árlega í innviði okkar til að undirbúa fólk fyrir spennandi störf sem þurfa að vera til staðar. Á stöðum þar sem lífskjör eru góð og fólk vill búa.
Við verðum að víkka sjóndeildarhringinn, hrista af okkur úreltar hugmyndir um heiminn og breyta nálgun okkar í hagstjórn ef vilji er fyrir því að halda samfélaginu samheldnu og atvinnulífinu virku. Markaðshagkerfið er um margt gott en samfélagslegu afleiðingar þess eru á okkar ábyrgð og niðurstöðurnar ekki hlutlausar eða náttúrulegar. Leikreglurnar eru okkar. Skilningur á mikilvægi virks ríkis í markaðshagkerfi liggur í erfðamengi jafnaðarmanna. Mikilvægi samfélagslegra sjónarmiða í sköpun verðmæta. Þetta má sjá á hinum Norðurlöndunum þar sem sósíaldemókratar leiða nú allar ríkisstjórnir. Höfum það eins á Íslandi og kjósum Samfylkinguna á laugardaginn.
Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.