Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, sendi öllum stjórnmálaflokkum sem bjóða fram til Alþingiskosninga 25. september n.k. könnun um afstöðu þeirra til atriða sem snerta dánaraðstoð.
Spurningar og aðferðarfræðin
Spurningarnar voru þrjár:
- Styður flokkurinn þingsályktunartillögu sem lögð var fram á síðasta þingi um gerð skoðanakönnunar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar? (https://www.althingi.is/altext/151/s/0889.html)
- Er flokkurinn hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann upplifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi
- Er flokkurinn reiðubúinn að styðja lagafrumvarp á Alþingi sem heimilar dánaraðstoð?
Framboð tíu flokka fengu sendar spurningarnar og svöruðu átta þeirra Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG), Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar, Sósíalistaflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Eftir að skilafrestur rann út fengu tveir flokkar framlengingu á að svara en það voru Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Ekki hafa borist svör frá þeim.
Úrvinnslan
Úrvinnsla svara var háttað á þann veg að niðurstaðan var greind í eftirfarandi þætti: Já, Nei, Óákveðið/jákvætt, Óákveðið/neikvætt og Hlutlaust. Það er helst í óákveðnu þáttunum sem beita þurfi huglægu mati á svörin ef ekki er hægt að lesa ákveðna skoðun á málinu. Reynt var eftir ítrasta mætti að gæta hógværðar við matið.
Síðan er til fróðleiks sett fram niðurstaða ef Alþingi afgreiddi málið eftir niðurstöðunni. Sá fyrirvari er settur að allir þingmenn tiltekins flokks greiði atkvæði samkvæmt svari flokksins. Eðli málsins samkvæmt var ekki hægt að gera ráð fyrir mismunandi afstöðu þingmanna innan sama flokks þar sem slík vitneskja liggur ekki fyrir. En vitanlega eru þingmenn ekki einsleitur hópur en ég ákvað þrátt fyrir það birta hugsanlega niðurstöðu meira til þess að velta vöngum en að hún lýsi raunveruleikanum.
Afstaða flokka sem er óákveðin jákvæð eða neikvæð var síðan sett í já eða nei við útreikning á fylgi á Alþingi.
Núverandi þingmannatala flokkanna er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn (16), VG (9), Framsóknarflokkurinn (8), Samfylkingin (8), Viðreisn (4), Píratar (7), Sósíalistaflokkurinn (0) og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (0). Samtals eru þetta 52 atkvæði af 63 á Alþingi en Flokkur fólksins (2) og Miðflokkurinn (9) svöruðu ekki.
Niðurstöðurnar
1. Styður flokkurinn þingsályktunartillögu sem lögð var fram á síðasta þingi um gerð skoðanakönnunar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar?
Svar – Já
Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn.
Óákveðið/jákvætt
VG, Framsóknarflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn.
Niðurstaða Alþingis
Samkvæmt þessu yrði tillagan um að fela heilbrigðisráðherra framkvæmd skoðanakönnunar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum eða 52.
2. Er flokkurinn hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann upplifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi
Svar – Já
Viðreisn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn.
Óákveðið/jákvætt
Samfylkingin, Píratar, Sósíalistaflokkurinn.
Hlutlaust
Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Framsóknarflokkurinn.
Niðurstaða Alþingis
Það eru 19 þingmenn sem styðja myndu sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins um að taka ákvörðun um eigið líf og dauða. 33 þingmenn eru hins vegar óákveðnir en enginn á móti.
3. Er flokkurinn reiðubúinn að styðja lagafrumvarp á Alþingi sem heimilar dánaraðstoð?
Svar – Já
Viðreisn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn.
Nei
Framsóknarflokkurinn.
Óákveðið/jákvætt
Samfylkingin, Píratar, Sósíalistaflokkurinn.
Hlutlaust
Sjálfstæðisflokkurinn og VG.
Niðurstaða Alþingis
Það eru 19 þingmenn sem styðja lagafrumvarp sem heimilar dánaraðstoð, 8 eru því andsnúnir og 25 óákveðnir.
Hver er þá niðurstaða könnunar Lífsvirðingar um afstöðu flokkanna?
Hvaða niðurstöðu er hægt að greina úr svörum flokkanna? Ég ætla að fara yfir niðurstöðu hverrar spurningar út frá ofangreindum forsendum og fyrirvörum og leggja út af hvað flokkarnir sögðu.
1. Skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks
Augljóst er að þingsályktunartillaga um skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um dánaraðstoð ætti auðvelda leið í gegnum Alþingi verði hún lögð fram á nýju þingi. Í svörum flokkanna er oft nefnt mikilvægi þess að viðhorf heilbrigðisstarfsfólks sé haft til hliðsjónar í umræðu um málefnið og yrði niðurstaða könnunar því mikilvægt innlegg í hana.
2. Sjálfsákvörðunarréttur einstaklings að ráð eigin lífi og dauða
Varðandi spurninguna hvort virða eigi sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins við ákvörðun um eigið líf og dauða gerast mál snúin.
Aðeins Viðreisn hefur skýra stefnu í málinu og segir í stefnuskrá sinni: „Innleiða þarf valfrelsi varðandi lífslok þannig við vissar vel skilgreindar aðstæður, að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með reisn.“ Frjálslyndi flokkurinn er á sömu skoðun en er ekki á þingi.
Þeir flokkar sem flokka má undir niðurstöðunni Óákveðið/jákvætt eru Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkurinn. Í svari Samfylkingarinnar segir „Allir eiga rétt á að lifa með reisn, en einnig að deyja með reisn.“, í svari Pírata segir „þingmenn flokksins hafa stutt skref í þessa átt með sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga og mannlega reisn að leiðarljósi.“ Og í svari Sósíalistaflokksins segir „Valið á að vera einstaklingsins sjálfs.“
Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Framsókn svara á mjög hlutlausan hátt og svörin eru mjög svipað hjá þeim þremur á þann hátt að ekki hafi verið mótuð stefna um málið. Í svari Sjálfstæðisflokksins er því hins vegar bætt við að nokkrir þingmenn hafi beitt sér fyrir dánaraðstoð og séu henni fylgjandi. Framsókn getur þess í svari sínu að töluverð gagnrýni hafi komið fram á skýrslu heilbrigðisráðherra frá fyrra ári og þar sem ekki er sátt um málið þurfi þeir sem það styðja að vinna að aukinni sátt. VG hefur ekki mótað sér stefnu í málinu.
Ef við leikum okkur með hugsanlega niðurstöðu á þingi þá styðja 19 þingmenn sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins varðandi eigið líf og dauði en óákveðnir eru 33.
3. Frumvarp sem heimilar dánaraðstoð
Viðreisn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn eru með skýr svör og styðja slíkt frumvarp.
Framsóknarflokkurinn er einnig skýr í svörun en segist ekki styðja slíkt mál og vísar til þess að ekki sé sátt um málið meðal heilbrigðisstarfsmanna eftir gagnrýni þeirra á skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð sem lögð var fram árið 2020.
Afstaða Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokksins er sett undir Óákveðið/jákvætt. Samfylkingin er „jákvæð fyrir því að taka skref sem kanna möguleika á innleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi.“ Píratar svara: „en þingmenn flokksins hafa stutt skref í þessa átt með sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga og mannlega reisn að leiðarljósi.“ Sósíalistar segja að „meðlimi í innra starfi flokksins sem málefnahópur sósíalista myndi taka vel í að styðja slíkt frumvarp.“
Sjálfstæðisflokkurinn vísar til þess hversu viðkvæmt málið er og því sé skoðanakönnun heilbrigðisstarfsmanna mikilvægur þáttur við að svara spurningunni um stuðning við lög um dánaraðstoð. VG segir: Stuðning við slíkt frumvarp yrði að skoða með tilliti til þess að málið er flókið. Ekki er eingöngu um að ræða heilbrigðismál heldur kemur dánaraðstoð inn á marga þætti eins og siðferði, lífsskoðanir og réttindi fólks.
Ef við setjum fram niðurstöðu miðað við þessa afstöðu hlyti frumvarp um dánaraðstoð fá stuðning 19 þingmanna, 8 væru á móti og 25 óákveðnir.
Niðurlag
Eins og kemur fram eru niðurstöðurnar ekki skýrar en flokkarnir eru sammála um að skoðanakönnun um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks væri mikilvægt innlegg í umræðuna og góð leið til að átta sig á hvernig land liggur.
Aðeins tveir flokkar, Viðreisn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, svara skýrt um jákvæða afstöðu til dánaraðstoðar. Framsóknarflokkurinn er einn flokka skilmerkilega á móti þegar spurt er um stuðning við frumvarp um dánaraðstoð. Aðrir flokkar tala í hlutlausum svörum en þó er hægt að merkja jákvæðni í svörum Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokksins við öllum spurningum. Sjálfstæðisflokkurinn og VG skila hlutlausum svörum nema um skoðanakönnunina.
Fróðlegt verður að fylgjast með niðurstöðum kosninga og hvaða einstaklingar taka jákvætt í málefni um dánaraðstoð. Lífsvirðing mun leitast við að eiga samræður og skoðanaskipti við alla kjörna þingmenn til að umræðan verði byggð á góðum grunni staðreynda.
Lífsvirðing mun halda áfram að vinna að aukinni umræðu um dánaraðstoð og hvetja þingmenn til að styðja þingsályktun um skoðanakönnun um afstöðu heilbrigðisstarfsmanna um dánaraðstoð.
Höfundur er stjórnarmaður Í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð.