Sundabrú og Sundahöfn – Leiðir til að hætta sóun á tíma, plássi og peningum

Páll Hermannsson segir að nú sé lag að líta aftur á hæð Sundabrúar til að finna hagkvæmari lausn og þá að finna aðra notkun fyrir það land sem ekki sé þörf fyrir til afgreiðslu gáma og annars varnings.

Auglýsing

Sunda­braut sparar 60 milljón kíló­metra akstur árlega.“ Þetta var fyr­ir­sögn í Morg­un­blað­inu í sept­em­ber 2021.

60 milljón kíló­metrar eru um það bil átta hund­ruð þús­und klukku­tímar sem ekki eru nýttir í annað en akst­ur. Þessi akstur þýðir að minnsta kosti 9 milljón tonn af koltví­sýr­ingi á ári meðan beðið er eftir Sunda­braut.

Töf á þessum sparn­aði hefur að hluta verið vegna ágrein­ings um teng­ingu yfir Elliða­vog, brú eða göng, göng eða botns­tokk­ur, hábrú eða lág­brú. Í árs­byrjun var til­kynnt að tekin hefði verið ákvörðun um teng­ingu við Sunda­braut með hárri lág­brú í fram­haldi af Holta­vegi og farið yfir núver­andi athafna­svæði Sam­skipa. Mála­miðl­un, kannski dýr­ari en þörf er á.

Um mitt sumar er þessi ákvörðun sett í bið og botns­tokkur ennþá inn í mynd­inni. Í umræðum var þess þó getið að brúin eins og hún var til­kynnt í byrjun árs virt­ist kosta minna en botns­tokk­ur.

Hér er skorað á Vega­gerð­ina og hafn­ar­stjóra að taka höndum saman um að end­ur­skoða fram­komna brú­ar­til­lögu með það að tak­marki að reisa lægri brú sem kostar minna en sú brú­ar­til­laga sem kynnt hefur ver­ið.

Auglýsing

Til­lagan frá í vetur

Hug­myndin sem fram kom í byrjun árs bygg­ist á því að það sé rétt­læt­an­legt (senni­lega ekki hag­kvæmt) að hafa brú með 30 metra hæð þar sem sporð­ur­inn teygði sig upp Holta­veg. Hér er það dregið í efa og spurt hvort ekki sé sóun að hækka brúna úr fyrri hug­myndum um lág­brú í 8 metra hæð í brú í 30 metra hæð, til að koma örfáum skipum undir hana til svæðis sem hægt er að nýta í annað en hafn­ar­starf­semi.

Á þessum tíma­mótum er tæki­færi til að aðlaga breytta Sunda­höfn í sam­ræmi við almenna stefnu borg­ar­innar um hámarks­nýt­ingu lands. Og ekki óvið­eig­andi að spyrja hvort ekki sé hægt að minnka kostnað við flutn­ing um höfn­ina. Hér verður því fjallað um gáma­af­greiðslur skipa­fé­lag­anna þar sem land­nýt­ing er ótrú­lega úr korti miðað við aðra þróun innan borg­ar­lands­ins.

Brúin og gáma­flutn­ingar

Á myndinni eru 2.970 metrar af hafnarbökkum í Sundahöfn. Spurt er til hvers allir þessa metrar séu, og svarið er rætt að neðan. Bent er á að með umhverfisvænni hugsun og hagkvæmni þarf einungis Sundabakkann fyrir gámaskip. Mynd: Efla.

Höf­uð­mark­mið með Sunda­höfn er að lesta og losa gáma­skip. Á árinu 2020 fóru 286 þús­und gáma-ein­ingar (TEU) um höfn­ina, 30% þeirra tóm­ar. Frá 2017 hafði ein­ingum fækkað um 8%.

Skipa­fé­lögin tvö ráða yfir miklu illa nýttu landi í Sunda­höfn, eins og glöggir menn sjá af mynd­inni að ofan. Meintar þarfir þeirra fyrir meira land voru ein ástæða fyrir tregðu við að sam­þykkja Sunda­brú. Ein­faldir útreikn­ingar og sam­an­burður við vel reknar gáma­af­greiðslur leiða í ljós að hægt er að kom­ast af með miklu minna land. En meðan bæði félögin sóa landi og senda reikn­ing­inn til þeirra sem eru háðir inn- og útflutn­ingi, sem eru allir lands­menn, þá hefur þetta þótt í lagi.

Talið er að aukn­ing gáma­flutn­inga til og frá landi til lengri tíma bygg­ist á fólks­fjölda. Í með­al­spá Hag­stof­unnar til 2069 segir að íbúa­fjöldi lands­ins verði 461 þús­und á árinu 2069. Almennt er búist við að dragi úr fólks­fjölgun fyrir 2069 og nái hámarki vel fyrir alda­mót 2100.

Því er mjög var­færið að ganga út frá að gáma­um­ferð um Sunda­höfn um alda­mótin verði 435 þús­und TEU, og hafi þá auk­ist um 40% frá 2017.

Gáma­flutn­inga­kerfið haustið 2021 um Sunda­höfn

Í byrjun nóv­em­ber 2021 sigla 14 gáma­skip á tveggja- eða þriggja vikna fresti til Sunda­hafn­ar. Þessi skip eru með sam­tals 16.500 TEU-­burð­ar­getu. Þrjú þeirra eru í Amer­íku­sigl­ing­um, og koma á þriggja vikna fresti. Þrjú skip­anna sigla milli Nuuk í Græn­landi og Árósa í Dan­mörku með við­komu á báðum leiðum í Sunda­höfn. Þetta eru ný syst­ur­skip, hvert ber 2.148 TEU, tvö í eigu Eim­skips en eitt í eigu græn­lenska skipa­fé­lags­ins RAL. Um þriðj­ungur burð­ar­getu er nýttur fyrir vöru til og frá Græn­landi Hver hring­ferð tekur þrjár vik­ur. Hin skipin átta eru í flutn­ingum á tveggja vikna fresti til Evr­ópu. Þessi floti hefur fimm við­komur í Rott­er­dam og fimm í Fær­eyjum á viku. Var­lega áætlað notar þessi floti 94 þús­und tonn af olíu á ári og er 36% tím­ans í höfn.

Sam­tals er viku­leg burð­ar­geta til og frá höfn­inni á meg­in­leiðum talin 10.500 TEU þegar frá hefur verið dregin burð­ar­geta vegna farms til og frá Græn­landi, Grund­ar­tanga og Fær­eyj­um. Að jafn­aði voru á árunum 2017–2020 fluttar 300 þús­und TEU-ein­ingar um Sunda­höfn, að með­al­tali 5.770 TEU á viku. Það þýðir að nýt­ing þessa mikla flota sem liggur of lengi í Sunda­höfn er minni en 55% á árs­grund­velli. Það eru árs­tíð­ar­sveiflur en þetta hlut­fall er mun lægra en búast má við.

Hér er sama við­horfið og um land­notk­un: Meðan lands­menn borga mögl­un­ar­lítið þann auka­kostnað sem stafar af of stórum flota sem siglir of hratt og liggur of marga daga í höfn, þá er eng­inn þrýst­ingur á breyt­ing­ar.

Bryggjur og land

Núver­andi sigl­inga­kerfi gáma­skipa­fé­lag­anna getur leitt til þess að 7 skip eru við bryggju á sama tíma á hverjum þriðju­degi, þar af tvö við Voga­bakka.

Ástæðan er sú að keppst er við að koma og fara á sama tíma og liggja á sama tíma fleiri daga við bryggju í Sunda­höfn, og sigla síðan á mik­illi ferð til næstu hafna með til­heyr­andi meng­un, mun meiri en ef skipin stopp­uðu skemur í höfn og sigldu hæg­ar.

Það er keppst um að koma fyrsta ban­an­anum í land í byrjun vik­unnar og hafa skipin jafn­vel siglt á veru­legum hraða og komið á sunnu­degi til að ná þessu mark­miði. Þá er keppi­keflið að ná síð­asta þorsksporð­inum um borð í skip seint á fimmtu­dag­kvöld­um, því ann­ars gæti hann farið með ferj­unni frá Þor­láks­höfn dag­inn eft­ir.

Slíkt fyr­ir­komu­lag kostar miklu meira fyrir alla aðila en ef sigl­inga­kerfið væri skipu­lagt á á sem hag­kvæm­astan hátt þannig að skipin stoppi eins stutt í höfn og kostur er og sigli eins hægt og dugir til að ná næstu höfn á réttum tíma, í stað þess að liggja lon og don við bryggju eða við akk­eri á ytri höfn. Nokkur skiln­ingur er á þörf á meiri hraða í útflutn­ingi á ferskum fiski, en mjög lít­ill á keppn­inni um ban­ana á mánu­dög­um.

Hraði, olíu­notkun og bryggju­pláss

Ef síð­asti sporð­ur­inn væri kom­inn um borð fjórum tímum fyrr og þá siglt af stað, allar vikur árs­ins, þá þarf 800 tonnum minni olíu á gáma­skipin sem sigla viku­lega á um 18 hnúta hraða til Rott­er­dam. Til að setja 800 tonn af olíu í sam­hengi við aðra flutn­inga þá þarf rúm 800 tonn af dísel til að keyra hlaðna gáma­bíla 2,2 milljón kíló­metra = 7 ferðir frá Reykja­vík til Akur­eyrar og til baka hvern ein­asta dag árs­ins. Og ef skipið með ban­an­ana kemur 6 tímum seinna vegna minna hraða, þá fæst olía fyrir 5 ferðir gámbíla á dag alla daga árs­ins, sömu leið.

Þarna spar­ast bryggju­pláss í 10 klst í Sunda­höfn í hverri viku.

Stærsti kostn­að­ar­liður gáma­sigl­inga hefur verið olíu­notk­un, sem fer eftir hraða skips auk hönn­unar þess og bún­að­ar. Hér ein­beitum við okkur að hrað­an­um. Hraði skips á sjó bygg­ist á því hvað langur tími gefst til sigl­inga, sem aftur bygg­ist á vega­lengd og tíma í höfn. Hér höfum við athugað kerfi sem í stuttu máli ein­kenn­ist af tíma­sóun og sóun á bryggju­plássi og leiðir til þess að minni tími er til sigl­inga og því verður að nota meiri hraða, sem veldur mikið meiri kostn­aði en hægt væri að kom­ast af með ef minni tími væri not­aður í höfn.

Hér má geta þess að tvær af stærstu útgerðum heims, Maersk og CMA-CGM, reka gáma­skip milli hafna í Eystra­salti og Norð­ur­sjó. Maersk með 3.600 TEU-­skip og CMA CGM með 2.500-TEU skip, og er hraði að jafn­aði 13 hnút­ar. Skipin sem sigla um Sunda­höfn sigla á 14,8 hnúta hraða og er með­al­stærð þeirra 1.200 TEU

Miklar breyt­ingar í aug­sýn

Á næstu árum verða miklar breyt­ingar á sigl­ing­um, því í fram­tíð­inni verður orku­þörf skipa mætt með öðru en olíu. Nú er mest talað um amm­on­íak fram­leitt með end­ur­nýj­an­legri orku sem lík­legan kost til að knýja skip í fram­tíð­inni. Vetni er líka inn í mynd­inni, en tækni­legar lausnir vantar enn til að ger­legt verði að vetni knýi gáma­skip. Kjarn­orkuknúin skip eru tækni­legur mögu­leiki, en núna er þetta „ómögu­leiki“ vegna ótta við kjarn­orku.

Áður hefur heim­ur­inn verið sam­stíga um þróun orku­gjafa til skipa­rekst­urs. Kol leystu segl af hólmi og olían leyst kolin af hólmi. Næst getur allt eins verið að sum skip verði knúin amm­on­íaki, önnur vetni og ein­hver með öðrum hætti.

Meðan á þróun orku­gjaf­anna stendur eru líkur á að lagðir verði umhverf­is­skattar á notkun olíu til að bæta fyrir það tjón sem mengun vegna koltví­sýr­ings veld­ur. Það er svo­kall­aður ytri kostn­að­ur, ekki inni­fal­inn í verði olí­unn­ar, en sam­fé­lagið hefur borið þann kostnað á ýmsan hátt. Lít­ill ytri kostn­aður er af notkun nýju orku­gjaf­anna sem gefa ekki frá sér koltví­sýr­ing, en fram­leiðslu­kostn­aður þeirra er tal­inn verða tvö­faldur miðað við olíu­verð. Þannig verða umhverf­is­skatt­arnir til þess að jafna þennan mun. Þá segir for­stjóri Maersk-­skipa­fé­lags­ins að kaup­verð skipa sem nota kolefn­is­laust elds­neyti muni verði 10−12% hærra en skipa knú­inna olíu.

Með því að færri en stærri og betur nýtt skip ann­ist flutn­ing­ana er komið til móts við umhverfis­kröfur og kostn­aði haldið niðri. Það þarf sömu­leiðis að hafa eitt aðal­-­sigl­inga­kerfi á meg­in­leið­um, − hvernig sem farið er með eign­ar­hald þess og stjórn.

Vel búin gáma­af­greiðsla í Sunda­höfn, sem getur losað og lestað gáma­skip á sem stystum tíma. styttir við­veru í höfn og býður þar með upp á minni hraða og minni orku­notk­un.

Þannig má búast við að full­byggður Sunda­bakki geti annað öllum gáma­skipum í fram­tíð­inni.

Gáma­völlur

Hér skal því haldið fram að nú þegar er ráð­stafað til skipa­fé­lag­anna mun meira landi í Sunda­höfn en þarf miðað við hag­kvæm­ustu notk­un.

Það sem tekur mest pláss í gáma­höfnum eru gáma­vell­ir, þar sem gámar eru geymdir frá komu skips þar til þeir eru sótt­ir, og frá því komið er með þá til útflutn­ings þar til þeir eru hífðir um borð í skip . Meg­in­val­kostir við stöflun gáma á gáma­velli eru a) núver­andi tækni, þar sem hver hekt­ari ber 400 TEU, eða b) gáma­vallakrani á hjól­um, sem leyfir 800 TEU á hekt­ara. Ef hver gámur er 2 vikur í höfn þarf 30 hekt­ara lands við núver­andi tækni. Alda­móta­magnið unnið með gáma­vallakrönum á hjólum þarf minna svæði, 21 hekt­ara.

Ef magn um alda­mót tvö­fald­ast frá því sem var 2017, verður 620 þús­und TEU og hver gámur verður 10 daga í höfn, þá þarf 21 hekt­ara lands með gáma­vallakrana á hjól­um. Í mjög stuttu máli þá dugir hluti svæð­is­ins hér að neðan fyrir afgreiðslu tvö­falds við­mið­un­ar­magns.

Öll afgreiðsla gáma kæmist vel fyrir innan þess svæðis sem sést á miðri myndinni. Mynd: Efla.

Kostn­aður við hærri brú vegna fárra skipa

Það var ákveðið að miða við sigl­ing­ar­rennu undir nýju brúna við 30 metra mestu hæð skipa til að hægt verði að taka á móti skipum að vissum stærð­ar­mörk­um. Slík skip hafa komið um átt­unda hvern dag, 3,6 komur á mán­uði. Þetta yrðu einu skipin sem færu undir brúna og er 400 metra bryggju­lengd helguð komu þess­ara skipa.

Mynd: Aðsend

Landið sunnan brúar hefur tak­mark­aða nýt­ingu þegar losun og lestun fær­ist norður fyrir brú. Því er rétt að skoða mis­mun á kostn­aði við brú með 8 metra hæð yfir sjáv­ar­máli eins og áður var talað um sem lág­brú, reyndar ekki alveg á sama stað og sú sem var kynnt í vet­ur, athuga og hver er sér­stakur kostn­aður vegna þess­arar hækk­unar á hverja skipa­komu. Er ekki hægt að þjóna hags­munum þeirra sem flytja með þessum 44 skipum á ári á mun ódýr­ari hátt og stefna að mun lægri brú?

Nýta land bet­ur. Hvað með Voga­bakka­svæðið sunnan Holta­veg­ar?

Landið í Sunda­höfn er á besta stað í borg­ar­land­inu. Menn hafa rétti­lega horft á Reykja­vík­ur­flug­völl sem land sem ætti að nýta fyrir byggð. Vand­inn er að þar er flug­starf­semi sem ekki er búið að velja annan stað.

Það er ekki ólík­legt að minnst 15 hekt­ara lands í Sunda­höfn megi nýta til ann­arrar starf­semi. Það væri skyn­sam­legt að huga að land­inu sunnan Sunda­brú­ar, og flytja vissa starf­semi sem þar er nú á upp­fyll­ing­una sem skap­ast við fram­leng­ingu Skarfa­bakka. Þá væri komið land fyrir til dæmis 500 íbúðir á besta stað í bæn­um.

Með því að minnka hafn­ar­land­ið, eins og gert er í Hafn­ar­firði, bæði á Norð­ur­bakka þar sem glæsi­leg byggð er risin á gömlu hafn­ar­svæði og á Suð­ur­bakk­anum þar sem aðstaða Haf­rann­sókn­ar­stofn­unar er, og reyndar líka við Aust­ur­bakka í gömlu höfn­inni þar sem Marriot-hót­elið er risið við hlið Hörpu, geta Faxa­flóa­hafnir ein­beitt sér að þjóð­hags­lega betri rekstri með því að flytja meira magn um minna land.

Hafnir koma okkur öllum við þó fæst okkar hafi bein sam­skipti við hafnir

Nær öll vara sem við þörfn­um­st, og ekki er fram­leidd inn­an­lands, kemur með skipum í hafnir þar sem gám­arnir eru los­aðir og afgreiddir til eig­enda vör­unn­ar. Lang­mestur hluti vöru til Íslands kemur um Sunda­höfn. Mik­ill hluti verð­mæts útflutn­ings fer um Sunda­höfn.

Kostn­aður við að koma útflutn­ingi í gegnum Sunda­höfn hefur veru­leg áhrif á sam­keppn­is­hæfni útflutn­ings, sem og þjóð­ar­bús­ins. Gjald­taka hafna vegna inn­flutn­ings hefur áhrif á verð vöru, sem almenn­ingur finnur fljótt fyr­ir.

Vöru­gjöld Faxa­flóa­hafna eru með þeim hæstu sem þekk­ist í höfnum af svip­aðri stærð og stærri. Vöru­gjöld hafa verið notuð til að byggja hafn­ar­mann­virki og halda þeim við, og hafa skapað hagnað sem gagn­ast eig­end­um. Í umsögn um drög að frum­varpi um breyt­ingu á hafna­lögum nú á útmán­uðum komu Sam­tök um verslun og þjón­ustu, þar sem skipa­fé­lögin eru inn­an­borðs, Sam­tök ferða­þjón­ust­unnar og Sam­tök atvinnu­lífs­ins því á fram­færi að þeim þættu gjald­skrá og for­sendur hennar óljós­ar. Í bréfi fram­kvæmda­stjóra Félags atvinnu­rek­enda til for­manns stjórnar Faxa­flóa­hafna, í maí 2019, mælir hann gegn hækkun arð­greiðslu til eig­enda og mælir með að rekstr­ar­af­gangur verði not­aður til að lækka gjöld­in.

Víð­ast á byggðu bóli eru ráða­menn ein­huga um að hafnir eru for­senda vaxtar þjóð­ar­tekna, þannig að útflutn­ings­at­vinnu­veg­irnir búi við eins lít­inn flutn­ings­kostnað og kostur er. Þetta við­horf er mjög áber­andi á Nýja Sjá­landi og á Írlandi þar sem fjár­málakrísan 2008 olli búsifjum og flutn­ingar minnk­uðu mjög um tíma. Þá var lögð áhersla á að fram­leiðni hafna styrkti for­sendur útflutn­ings og bætti lífs­kjör með hag­kvæm­ari inn­flutn­ingi. Stjórn­völd á Nýja Sjá­landi leggja mikla áherslu á upp­lýs­inga­gjöf um starf­semi og fram­leiðni hafna, þar með talið tækja og lands. Hafn­irnar reka óháðar gámafgreiðslur fyrir eigin reikn­ing. Þar eru flestar hafnir í eigu sveit­ar­fé­laga í gegnum hluta­fé­lög sem hafa stjórnir skip­aðar óháðum stjórn­end­um, og eiga þeir helst ekki að hafa bein tengsl við stjórnir sveit­ar­fé­lag­anna til að forð­ast hags­muna­á­rekstra. Þeir skil­greina vænt­an­lega hlut­verk sitt svo að varan skuli kom­ast í gegn með sem lægstum kostn­aði og mestum þjón­ustugæð­um. Arð­greiðslur verði þá ekki hærri en í svip­uðum atvinnu­rekstri.

Stjórn Faxa­flóa­hafna

Sunda­höfn er í þessu sam­hengi hlið lands­ins og hlið­vörð­ur­inn er stjórn Faxa­flóa­hafna. Hana vantar skýr fyr­ir­mæli um hlut­verk sitt í flutn­ings­keðj­unni, sem hlýtur að vera að stuðla að hag­kvæm­ustu lausnum við að veita góða þjón­ustu við inn og útflutn­ing.

Stjórn Faxa­flóa­hafna er nú skipuð ein­stak­lingum án nokk­urra krafna um sér­þekk­ingu á höfn­um, flutn­ingum eða almennt rekstri.

Í drögum að stefnu um almenna eig­enda­stefnu rík­is­ins – sem kynnt var í sam­ráðs­gátt í apríl 2021 − er fjallað um stjórnun félaga í eigu rík­is­ins. Þar segir að í stjórnir slíkra fyr­ir­tækja skuli velja ein­stak­linga með fjöl­breytta, víð­tæka og hald­góða reynslu af rekstri sem hæfir starfs­sviði við­kom­andi félags svo að í stjórn­inni verði fag­legt og fjöl­breytt teymi. Enn fremur segir að gæta skuli að því að störf stjórna­manna valdi ekki hags­muna­á­rekstrum við önnur störf og hlut­verk. Hér er ekki bein­línis sagt að ekki megi velja borg­ar- eða bæj­ar­full­trúa í hafn­ar­stjórn, enda ekki fjallað um hafn­ar­stjórn í þessi skjali, en draga má þá ályktun að það sé almennt óæski­legt. Þá er sagt að stjórn og stjórn­endur skuli móta stefnu í sam­ræmi við mark­mið eig­enda með eign­ar­hald­inu, hafa skýra fram­tíð­ar­sýn og mark­mið um starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins.

Á Írlandi eru kröf­urnar ákveðn­ari. Sam­setn­ing stjórnar bygg­ist á því að innan hennar sé fyrir hendi sér­þekk­ing á helstu svið­um, fjár­mál­um, lög­um, mark­aðs­starf­semi, hafna- og flutn­inga­rekstri.

Þessi grein eru um starf­semi Faxa­flóa­hafna, sem er mun víð­tæk­ari og getur verið hag­kvæm­ari en ann­arra hafna. Ekki er víst að Faxa­flóa­hafnir eigi að vera í for­ystu sam­taka smærri hafna, því ekki er óeðli­legt að not­endur Faxa­flóa­hafna njóti hag­kvæmni stærð­ar­innar sem aðrar hafnir hafa ekki ráð á.

Það sem ekki er hag­kvæmt er dýr­ara en það gæti ver­ið. Í höfnum á stærð við Sunda­höfn er nú talið sjálf­sagt að hafa bara eina gáma­af­greiðslu. Þannig nýt­ist dýr­mætt land betur og betri nýt­ing fæst á mann­afla og tækj­um. Hægt er að fjár­festa í afkasta­meiri tækjum sem stytta afgreiðslu­tíma skipa í höfn, sem þýðir minni GHL-losun meðan verið er í höfn og gefur skipum færi á að sigla á minni hraða − sem líka og í enn rík­ara mæli sparar olíu­notk­un, sem minnkar losun og leiðir til lægri flutn­ings­kostn­aðar Er ekki hafna­land dýrasta land bæj­ar­ins, sem ætti að leigja á mark­aðs­verði. Verð lóða í nágrenni Sunda­hafnar er hátt og því eng­inn ástæða til að búa til land sem gefur minna af sér ef efni standa til. Lágt verð leiðir til meiri eft­ir­spurnar en ef verðið væri hærra. Það er senni­leg það sem við sjáum á myndum frá farm­stöðvum skipa­fé­lag­anna.

Nið­ur­lag

Nú er lag að líta aftur á hæð Sunda­brúar til að finna hag­kvæm­ari lausn og þá að finna aðra notkun fyrir það land sem ekki er þörf fyrir til afgreiðslu gáma og ann­ars varn­ings.

Umhverf­is­mál eru alvöru­mál og sú árátta að sigla með mik­illi ferð til svo að liggja lengi í höfn er alger­lega and­stætt öllum umhverf­is­mark­mið­um.

Höf­undur er hag­fræð­ingur og sér­­fræð­ingur í flutn­ing­­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar