Þinglokum má líkja við hratt endatafl í fjöltefli þar sem allir eru að keppast við að drepa peðin hver fyrir öðrum og koma drottningunni í borðið. Stundum er handagangurinn slíkur í öskjunni að þetta líkist meira slembiskákinni hans Fischers. Stundum líður venjulegum stjórnarandstöðuþingmanni eins og peði í slembiskákinni hans Fischers.
Eða kannski er Svarti-Pétur raunhæfari líking. Spilið gengur þá út á að láta mótspilarann sitja uppi með sökina af því að tiltekið mál, hjartfólgið kjósendum, hafi dáið drottni sínum. Gott dæmi um slíkt eru afdrif stjórnarskrármálsins árið 2013 þegar Samfylkingin fékk alla sökina af því að málið komst ekki alla leið – flokkurinn sem hrundið hafði ferlinu af stað. Talandi um meinta sök: nýlega heyrði ég af því að sumt fólk stæði í þeirri meiningu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði lagt niður Verkamannabústaðakerfið og ætlaði sko aldrei að kjósa Samfylkinguna vegna þess. Það voru auðvitað íhaldsflokkarnir sem fyrir því óhappaverki stóðu – Framsókn og Sjallar – og Jóhanna hélt lengstu ræðu þingsögunnar til að reyna að stöðva það.
Sem sé: Svarti-Pétur. Hann er spilaður af umtalsverðri fimi og reynslu þessa dagana. En hvernig sem reynt er að láta andstæðinginn draga spilið afdrifaríka þá breytir ekkert því að við okkur blasir skýr mynd: Ríkisstjórnin nær saman um íhaldsmálin, kyrrstöðuna – þetta er ríkisstjórn biðlistanna, biðflokkanna, biðstöðunnar.
Það besta sem þessi ríkisstjórn gerði var að gera ekki neitt á meðan Þríeykið fékkst við kórónuveiruna. Íhaldsöfl allra ríkisstjórnarflokkanna ná saman um að stöðva frjálslyndismál: að íslenskur almenningur fái nafnrænt sjálfræði, að fólki sé ekki refsað sem glæpamönnum fyrir það að lítilræði af ólöglegum vímuefnum finnist í fórum þess – og að brugghús fái ekki bara að framleiða öl heldur líka selja það, svo að þrjú mál séu nefnd sem snúast um að losa um úreltar hömlur en ná ekki fram að ganga hjá þessari íhaldssömu stjórn.
Um leið og þessi varðstaða um kyrrstöðu og íhald kemur glögglega í ljós blasir líka við að Sjálfstæðismenn hafa neitunarvald gagnvart helstu málum VG. Umhverfisráðherra kemst hvorki lönd né strönd með sín stóru mál; rammaáætlun er enn einu sinni er komin í uppnám illu heilli og Hálendisþjóðgarðurinn sem átti að vera stóra málið VG sem löngum hefur slegið eign sinni á allt sem viðkemur náttúruvernd, þó að bæði þessi mál eigi raunar upphaf sitt hjá Samfylkingunni.
Þetta neitunarvald Sjálfstæðisflokksins höfum við séð allt kjörtímabilið. Við sáum það til að mynda á síðasta ári þegar þeir stöðvuðu brýnt hagsmunamál launafólks og fyrirtækja og snerist um að taka loksins á kennitöluflakki, og hafði verið lofað af ríkisstjórninni í tengslum við kjarasamninga.
Og nú er af mikilli fimi leikinn Svarti-Pétur, þar sem reynt er að telja almenningi trú um að „þingið“ hafi reynst ófært um að vinna sómasamlega frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um breytingar á stjórnarskránni þó að það blasi við hverjum sem áhuga hefur á að sjá að forsætisráðherra hefur ekki tekist að fá samstarfsflokka sína í ríkisstjórninni til að fallast á neinar breytingar á stjórnarskránni, frekar en fyrri daginn. Af því að þetta er ríkisstjórn biðflokkanna, biðlistanna, biðstöðunnar.
Sjálfur er ég miklu hrifnari af Rommí þar sem maður safnar fallegum röðum og leggur svo niður sigri hrósandi í lokin. Vonandi fáum við Rommí-stjórn næst, stjórn samstæðra flokka með samstæða stefnu. Íslenskur almenningur á kröfu á því.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.