Enn er haldið til streitu byggingaráformum hótels á jörðinni Gíslabæ á Hellnum í Snæfellsbæ. Ferlið er nú komið í svokallaða forkynningu en slík kynning getur verið hluti af kynningar- og samráðsferli milli sveitarfélags og hagsmunaaðila.
Eftir að málið hefur verið hvílt í nokkra mánuði þar sem það hefur m.a. verið í meðferð Skipulagsstofnunar, er kannski rétt að líta til baka og reyna að greina aðalatriðin.
Svo málavextir séu aðeins kynntir þá var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar í júlí 2019 að félagið N18 fengi að fara í deiliskipulagsbreytingar á jörðinni Gíslabæ á Hellnum, ef þeir keyptu jörðina. Það sem var verið að taka jákvætt í, var þó alls ekki í takti við gildandi aðalskipulag á Hellnum heldur þvert á hugmyndir og þá sýn sem kemur fram í því. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar í júlí 2019 var því ýtt strax út af borðinu að þarna fengi almenningur einhverju ráðið. Í samþykkt Snæfellsbæjar á skipulagsbreytingum var sannarlega ekki gert ráð fyrir því að andmæli kæmu frá t.d. hagsmunaaðilum á Hellnum sem myndu stöðva þessar hugmyndir enda um leið og Snæfellsbær hafði lofað þessum skipulagsbreytingum var ljóst að nýir eigendur að Gíslabæ ættu að fá sínum málum framgengt og því hefur ötullega verið unnið að síðan, af hálfu stjórnsýslu Snæfellsbæjar.
Það sem er óásættanlegt í þessu máli og við hagsmunaaðilar og fjöldi annarra, erum algerlega mótfallin, er meðal annars eftirfarandi: Aðeins ári áður var nýtt aðalskipulag fyrir Snæfellsbæ samþykkt sem er ætlað að verði grunnur að næstu 15 til 20 árum í skipulagsmálum. Bak við það var vinna sem bæði sveitarfélagið og almenningur í Snæfellsbæ kom að. Við íbúar og aðrir hagaðilar vorum hvött til að koma að þessari vinnu. Það voru haldnir fundir, rýnt í kort og teikningar og í raun held ég að við höfum trúað því að okkar skoðun og hagsmunir skiptu máli, að það sem við kæmum á framfæri í þessari vinnu, yrði tekið mið af og virðing borin fyrir okkar sjónarmiðum. Þarna skiptist fólk á upplýsingum og skoðunum og niðurstaðan varð það aðalskipulag sem nú er í gildi fyrir Snæfellsbæ, nokkurs konar málamiðlun og sáttmáli um framtíðarsýn í sveitarfélaginu.
Hvað varðar Hellna, var sérstaklega hugað að umhverfismálum og álagi á svæðið. Það kemur skýrt fram í greinargerð með skipulaginu að taka þurfi sérstakt tillit til þensluhugmynda þar, svæðið er viðkvæmt og það á að halda í yfirbragð þess og mannlíf. Það var í ákveðinni sátt að Hellnum yrði skipt þannig upp að verslun og þjónustu yrði haldið í efsta hluta plássins þar sem þegar er komið hótel og önnur ferðaþjónusta en neðan þess svæðis, til og með Gíslabæ, yrði íbúða- og sumarhúsabyggð í bland við landbúnað. „Á Hellnum er gert ráð fyrir að byggja upp verslunar- og þjónustusvæði nærri Hellnakirkju, en þar er nú þegar kominn vísir að slíkri starfsemi,“ segir í greinargerðinni. Þar sem gamalt fiskhús stendur við friðlýsta ströndina, er stök verslunar- og þjónustulóð og um hana segir: „Við ströndina er heimilt að gera upp gamalt hús og reka þar kaffihús, veitingastað eða aðra þjónustu sem samrýmist byggð á svæðinu. Auk þess er heimilt að reisa þar starfsmannaíbúðir vegna ferðaþjónustu.“ Aldrei hvarflaði það að manni að málum yrði hagrætt þannig að þarna gæti risið hótel. Nú á að breyta aðalskipulagi þannig að rífa á gamla húsið og byggja á grunni þess allt öðru vísi hús auk annarrar byggingar sem þjóna hótelrekstri og í tengslum við það, allt að átta smáhýsi. Enn fremur segir í greinargerð með gildandi aðalskipulagi: „Á Hellnum er land í einkaeign og þar er ekki fallið frá þensluhugmyndum. Þar má búast við miklum og ófyrirséðum umhverfisáhrifum af þenslu byggðar ef ekki verður haldið vel utan um uppbyggingaráform.“ Og einnig stendur: „Nýjum svæðum á Arnarstapa og Hellnum verði ekki raskað nema fyrir liggi þarfagreining sem sýni fram á þörf umfram lóðir á þegar byggðum og/eða röskuðum svæðum.“ Engin þarfagreining hefur farið fram á vegum Snæfellsbæjar vegna þeirra skipulagsbreytinga sem nú er verið að kynna á Hellnum. Svör við fyrirspurnum okkar er varða þarfagreiningu, hafa verið á þann veg að vísað er í umferðartölur úr Staðarsveit og eru þær notaðar til að skýra þörf á byggingu hótels og smáhýsa hér á Hellnum.
Að lokum segir í greinargerð með aðalskipulagi um Hellna: „Bæjaryfirvöld þurfa að vakta þessi svæði sérstaklega og gæta þess að stórbrotinni náttúru og umhverfisgæðum verði ekki fórnað að óþörfu.“ Nú standa bæjaryfirvöld í Snæfellsbæ að óbætanlegum skaða á Hellnum með valdníðslu og því sem ég vil kalla skipulagsofbeldi í þágu alls óviðkomandi aðila, gegn vilja okkar sem hér búum og eigum hér hagsmuni og gegn vilja fjölda annarra sem bera hag Hellna fyrir brjósti.
Um stefnu Snæfellsbæjar segir í greinargerð með aðalskipulagi: „Í Snæfellsbæ er rík meðvitund um gildi umhverfisverndar og vilji til að stuðla að sjálfbærri uppbyggingu innan sveitarfélagsins, með áherslu á samþættingu náttúru, efnahags og mannlífs. Lögð er áhersla á vitundarvakningu um landslag og verndun þess. Leitað er leiða til að geta tekið á móti vaxandi umferð um svæðið, án þess að umhverfið verði fyrir skaða. Tekið verði tillit til þolmarka íbúa.“ TEKIÐ VERÐI TILLIT TIL ÞOLMARKA ÍBÚA! Við íbúar og hagsmunaaðilar á Hellnum mótmælum breytingu á aðalskipulagi á þessum forsendum, við viljum vernda umhverfi og náttúru þegar um er að ræða óþarfa uppbyggingu stórferðaþjónustu og við viljum taka þátt í vitundarvakningu í samræmi við sjálfbærni og framtíðarsýn sem inniheldur fjölbreytni í mannlífi og athafnasemi á svæðinu en ekki úreltar hugmyndir sveitarstjórnarfólks um „framfarir“ og „atvinnusköpun“ þar sem svo sannarlega hefur ekki orðið sú vitundarvakning sem svo fjálglega er farið með í greinargerð með aðalskipulagi. Hvers vegna vinna skipulagsyfirvöld í Snæfellsbæ ekki eftir sínu eigin aðalskipulagi og hvers vegna virða þau ekki þá vinnu sem var lögð í það á sínum tíma?
Við reynum og reynum að koma því á framfæri að við höfum EKKI þol fyrir því að sett verði niður þúsund fermetra hótel hér við ströndina á Hellnum og kannski 30 smáhýsi í tengslum við það, við rökstyðjum það og við sýnum fram á að ekki er gert ráð fyrir því í gildandi aðalskipulagi og við höfum bent á mörg atriði sem eru athugaverð við þessar hugmyndir og það ferli sem þær hafa verið settar í en það er næstum eins og að tala við vegg.
Þessi breyting á aðalskipulagi Hellna eru svik við okkur sem komum að þessari vinnu á sínum tíma, svik við samfélagið hér sem taldi að það væri verið að taka mark á því en fyrst og fremst eru þetta svik við umhverfi og byggð á Hellnum, hinn margumtalaða staðaranda og enn einu sinni þegar lukkuriddarar ríða inn í Snæfellsbæ með mynd af hóteli í annarri hendi og seðla í hinni, virðist ráðafólk leggjast flatt og breiða út teppi blekkinga til að auðvelda þeim leiðina.
Höfundur býr á Ökrum á Hellnum, Snæfellsnesi.