Læknastéttin hefur hingað til verið hikandi í afstöðu sinni til dánaraðstoðar. Á undanförnum árum hefur þó orðið veruleg breyting á afstöðu læknasamtaka í mörgum löndum frá beinni andstöðu við dánaraðstoð yfir í að vera hlutlaus eða jafnvel fylgjandi. Í september sl. ákváðu bresku læknasamtökum (The British Medical Association) sem dæmi að falla frá andstöðu sinni við dánaraðstoð og taka upp hlutlausa afstöðu. En hver eru helstu áhyggjur lækna af dánaraðstoð?
„Okkar hlutverk er að lækna en ekki deyða“
Í umræðunni um dánaraðstoð hefur læknastéttin lagt áherslu á að hlutverk hennar sé að lækna sjúklinga eða bæta heilsu þeirra en ekki deyða þá. Einstaka læknar hafa tekið sterka afstöðu og tjáð sig opinberlega. Guðmundur Pálsson sérfræðingur í heimilislækningum fullyrti sem dæmi í Morgunblaðinu árið 2018 að læknastéttin myndi bera mikinn skaða og „dauðalæknar“ skera sig úr sem „aftökulæknar ríkisins“. Þeir myndu „óhreinkast ef líflátsverk yrðu vinna sumra þeirra.“
Þessi fullyrðing er eins langt frá raunveruleikanum og hægt er að hugsa sér. Þegar dánaraðstoð á í hlut er ávallt gengið úr skugga um að um sé að ræða sjálfviljuga og vel ígrundaða ósk einstaklingsins og fjarri lagi að um sé að ræða líflátsverk eða aftöku sjúklings af hálfu læknis. Frekar er um að ræða kærleiksverk enda er um að ræða dýpstu ósk einstaklingsins að fá að deyja með sæmd.
Birgir Jakobsson fyrrverandi landlæknir sagði í viðtali í Stundinni árið 2017: „Fyrir utan að dánaraðstoð stríðir gegn læknaeiðnum þá samrýmist hún ekki heldur góðum starfsháttum lækna sem við eigum að fylgja. Við eigum frekar að virða líf heldur en að taka líf.“ Læknisfræðinni hefur fleygt áfram síðustu áratugi og á hátæknisjúkrahúsum nútímans er hægt að lengja líf manna með aðstoð lyfja og nútímatækni, þó það geti leitt til þess að auka þjáningar. Deila má um hvort að það sé verið að virða líf með því.
Ekki er heldur hægt að sjá að læknaeiðurinn banni dánaraðstoð. Íslenska útgáfan af heitorði lækna hljóðar svo:
Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.
Er ekki einmitt verið að valda skaða þegar einstaklingur er látinn þjást óbærilega gegn vilja sínum við lok lífs? Án möguleika á dánaraðstoð getur ósk sjúklingsins um að fá að deyja auk þess leitt til þess að hann fremji sjálfsvíg, sem veldur mun meiri skaða og þjáningu en dánaraðstoð. Talið er að 10% af öllum sjálfsvígum í Englandi séu framkvæmd af sárþjáðum einstaklingum með ólæknandi sjúkdóma.
„Dánaraðstoð býður heim misnotkun“
Á þeim tæpu tuttugu árum sem dánaraðstoð hefur verið heimiluð í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg hafa aðeins örfá dómsmál verið höfðuð. Árið 2016 var það í fyrsta sinn, á þeim 14 árum sem lögin höfðu verið í gildi, sem hollenskur læknir var sakaður um manndráp þegar hann veitti áttræðri manneskju með Alzheimer á alvarlegu stigi dánaraðstoð. Málið endaði með sýknun þar sem dómarinn taldi að öll skilyrðin fyrir dánaraðstoð hefðu verið uppfyllt. Árið 2020 hófst fyrsta dómsmálið í Belgíu síðan lögin tóku þar gildi 2002 en þrír belgískir læknar, heimilislæknir, geðlæknir og læknirinn sem gaf banvæna sprautu, voru sóttir til saka fyrir að veita 38 ára gamalli konu sem leið óbærilegar andlegar kvalir dánaraðstoð. Það mál endaði einnig með sýknun.
Það að svona fá dómsmál skulu hafa verið rekin á þeim tæpu tveimur áratugum sem dánaraðstoð hefur verið leyfileg bendir ekki til þess að dánaraðstoð bjóði heim misnotkun. Mikið eftirlit er með framkvæmd hennar í Benelúx löndunum. Eftir að læknir veitir dánaraðstoð þarf hann að skila skýrslu til þar gerðrar nefndar sem fer úr skugga um að farið hafi verið að lögunum í einu og öllu.
„Dánaraðstoð verður beitt á víðtækari forsendum“
Sumir læknar halda því fram að hætta sé á því að dánaraðstoð verði beitt á víðtækari forsendum en ætlað var í upphafi og hún veitt, án samþykkis, einstaklingum með geðsjúkdóma, líkamlega fötlun, öldruðum, heilabiluðum, heimilislausum og öðrum sem eru ekki nálægt dauðanum.
Að sjálfsögðu þroskast umræðan í takt við tímann. Hins vegar er dánaraðstoð aðeins veitt að uppfylltum ströngum skilyrðum og að beiðni einstaklings, aldrei aðstandenda eða annarra. Læknir veitir auk þess aldrei dánaraðstoð að eigin frumkvæði og mun aldrei veita fólki dánaraðstoð án samþykkis þess. Enginn mun því fá aðstoð við að deyja gegn vilja sínum, hvort sem um er að ræða ofangreinda hópa eða aðra.
„Dánaraðstoð er tilfinningaleg byrði á læknum“
Margir læknar hafa áhyggjur af því að því að þegar þeir taka að sér að veita dánaraðstoð eða ákveða að hafna beiðni um slíkt, munu það hafa neikvæð áhrif á geðheilsu þeirra.
Að veita dánaraðstoð vekur eðlilega upp blendnar tilfinningar hjá læknum en rannsóknir hafa sýnt að þeir upplifa bæði sátt og létti en einnig vanlíðan og tilfinningalega byrði. Þeir læknar sem taka að sér að veita dánaraðstoð þurfa að fá þjálfun, hafa góða þekkingu á lögunum, framúrskarandi samskiptafærni og einnig hæfni í að veita dánaraðstoð með lyfjagjöf. Mikilvægt er að þeir hafi aðgang að handleiðslu og stuðningi. Í Hollandi er sem dæmi ráðgjafarþjónusta sem er veitt af sérþjálfuðum læknum í dánaraðstoð sem læknar geta leitað til og veitir þeim stuðning og aðstoð. Þetta er ekki verkefni sem allir geta sinnt og það á aldrei að vera auðvelt að veita dánaraðstoð.
Stuðningur lækna og hjúkrunarfræðinga er að aukast
Stuðningur lækna og hjúkrunarfræðinga við dánaraðstoð hefur vaxið stöðugt í löndunum í kringum okkur. Stuðningur lækna var sem dæmi 30% í Noregi árið 2019, 46% í Finnlandi árið 2013 og 41% í Svíþjóð árið 2021 á meðan 34% sænskra lækna voru á móti dánaraðstoð og 25% höfðu ekki gert upp hug sinn. Stuðningur hjúkrunarfræðinga var 40% í Noregi árið 2019 og 74% í Finnlandi árið 2016. Nýjustu tölur frá Íslandi eru nokkuð gamlar en stuðningur lækna fór úr 5% í 18% á 13 árum eða milli 1997 og 2010 og stuðningur hjúkrunarfræðinga úr 9% í 20% á sama tíma. Það er því fagnaðarefni að á komandi þingi verði aftur lögð fram þingsályktunartillaga um að framkvæmd verði könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar.
Höfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.