Fjárlög nýrrar ríkisstjórnar er fyrsti prófsteinninn á hvort mark sé takandi á loforðum hennar. Nú hefur ríkisstjórnin sýnt á spilin varðandi fyrsta fjórðung kjörtímabils hennar og virðist ekki mikið að marka þau loforð. Umfang og eðli aðgerða ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspegla nauðsynleg viðbrögð við heimsfaraldri, ekki stefnu eða sókn. Nú tekur við þriðja árið þar sem viðbragðsstjórnmál ráða för og lítið svigrúm er til nauðsynlegra úrbóta á grunnkerfum hins opinbera til varnar velferð eða til sóknar á nýjum tímum.
Þetta endurspeglar grundvallaráherslur stjórnvalda síðustu ár. Landinu er og hefur verið stýrt af ríkisstjórn sem telur að ríkið eigi aðeins að sinna hlutverki öryggisnets. Ríkissjóður sé áhorfandi, ekki gerandi í efnahagslífinu sem og samfélaginu, og stígur einvörðungu inn í neyð, í viðbragði. Hagstjórnarhlutverkið snýst fyrst og fremst um að stíga inn þegar allt fellur saman en til baka þegar verðbólga kraumar og spenna skapast. Lítið fer fyrir umræðu um mikilvægi þess að móta markaði og rammann utan um þá til að breyta undirliggjandi ójafnvægi í kerfinu.
Þetta viðhorf ber með sér þá söguskýringu að velferðarkerfin okkar hafi fallið af himnum ofan. Þegar staðreyndin er sú að velferðarkerfin voru byggð sérstaklega upp til að marka stefnu ríkisins í samfélaginu og þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Velferðarsamfélagið sem fylgdi þessum kerfum var afleiðing mótunar ríkisins á samfélaginu, byggt á stefnu og sýn um hlutverk ríkisins. Skilningi á því að hið opinbera væri með yfirsýn og getu til samræmingar í samfélaginu til að koma í veg fyrir að gloppur mynduðust, að fólk félli á milli kerfa og yrði af tækifærum, tryggði virkni allra og möguleika til þátttöku í samfélaginu. Þetta væri bráðnauðsynleg undirstaða fyrir atvinnulífið og alla aðra anga samfélagsins.
Um þetta snerist samfélagssáttmáli velferðarríkisins. Að við samtryggðum okkur fyrir áföllum með því að greiða inn í kerfin okkar og fá út úr því eftir aðstæðum og þörf.
Nú kveður við annan tón. Sú rökvilla hefur orðið ofan á í umræðu um velferðarsamfélagið, og jafnvel í orðræðu stjórnmálaflokka sem telja sig vera málsvara jafnaðarmanna, velferðarsinna, að hér sé hægt að viðhalda þessum mikilvægu kerfum okkar með minni greiðslum inn í samtrygginguna og án virkrar þátttöku ríkisins í samfélaginu.
Bundnar hendur
Birtingarmynd þessarar pólitíkur er að finna víða í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú er til umræðu á Alþingi.
Fjármálaáætlun sem þetta fjárlagafrumvarp byggist á gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verði þær lægstu á öldinni undir lok kjörtímabilsins. Hið sama á við þegar hið opinbera í heild sinni er skoðað.
Ekki nóg með að þetta bendi til þess að ríkisstjórnin ætli að firra sig ábyrgð á stóru verkefnum okkar tíma, heldur er þetta í hrópandi mótsögn við rekstur velferðarsamfélags. Það byggist á inngreiðslum í kerfið. Hvernig munu velferðarkerfin okkar geta staðist þær stóru áskoranir sem fram undan eru, sem nú þegar eru farnar að valda vandræðum, ef staða ríkissjóðs undir lok þessa kjörtímabils á að vera verri á tekjuhliðinni en hún hefur verið fyrir núverandi áfall?
Nær alla viðbótarverðbólgu í dag, umfram verðbólgumarkmið, má rekja til verðhækkana á íbúðamarkaði. Hvers konar velferðarsamfélag lítur fram hjá þessari þróun? Ríki getur ekki talist velferðarríki ef það telur sig engin vopn hafa á hendi til að bregðast við krísu á markaði fyrir húsaskjól fólks. Markaði sem er skapaður af lögum og reglum í landinu, af löggjafanum.
Þessi mistúlkun á mikilvægi ríkisaðgerða í velferðarsamfélagi hefur einnig lekið út í samskipti launþega og atvinnurekenda í landinu. Fyrirtæki, sér í lagi lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem launakostnaður er meiri hluti rekstrarkostnaðar, eiga allt sitt undir virku velferðarkerfi og aðgerðum á vegum hins opinbera sem draga úr þörf á launahækkunum. Norræn velferðarsamfélög sem byggjast á öflugu velferðarríki í samvinnu við einkaframtak miða einmitt að jákvæðu viðmóti fyrirtækja til ríkisaðgerða, þá sér í lagi kjarabótum sem tryggja jafnvægi á vinnumarkaði.
Núverandi stjórnvöld virðast hins vegar hafa rofið þessa undirstöðu velferðarríkis með stefnuleysi í kjara- og vinnumarkaðsmálum. Fáar ef einhverjar tillögur hafa komið frá ríkisstjórninni á síðustu árum hvað varðar kjaramál nema þegar stefnir í verkföll. Svo er kvartað undan ójafnvægi á vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin virðist vera að „lenda í verðbólgu“ sem bindur hendur hennar til aðgerða í nauðsynlegum velferðarúrbótum og sóknarfjárfestingum fyrir framtíðarkynslóðir, og það virðist almenningi að kenna og annarra að leysa úr því. Í stað þess að horfa á sitt hlutverk sem geranda, mótanda, í samfélaginu og endurskoða undirstöðu efnahagslífsins sem veldur þessari verðbólgu er hún notuð sem afsökun fyrir aðgerðaleysi.
Kostnaður afstöðuleysis
Alvarlegasta merkið um grunn velferðarríkisins sem almenningur treystir en hefur veikst er staða viðkvæmra hópa í samfélaginu. Umtalsvert hefur farið fyrir umræðu um tekjujöfnuð í landinu, en í þeim tölum er aldrei talað um þá hópa sem hljóta ekki tekjur á almennum markaði og hafa engan verkfalls- né samningsrétt. Grunngreiðslur til öryrkja hafa dregist langt aftur úr launaþróun í landinu. Fjárlög eftir fjárlög eykst kjaragliðnun milli öryrkja og fólks á almennum markaði og nú er svo komið að það munar 90 þús. kr. á grunnlífeyri öryrkja og lægstu launum í landinu.
Öryrkjum er enn eitt árið haldið í spennitreyju fátæktar á þeim forsendum að nú sé verið að endurskoða kerfið. Að mikilvægast sé að auka virkni fólks og draga úr nýgengi örorku. Um það snúist stefna stjórnvalda í okkar velferðarríki. En stenst þetta?
Viðbótarfjármagn í heilbrigðiskerfið í fjárlögum næsta árs kemur til vegna nýrra verkefna, og til að manna breyttan vinnutíma. En greiðslur til að mæta auknu álagi sem fylgir raunvexti heilbrigðiskerfisins, vegna fólksfjölgunar og öldrunar, eru felldar niður. Þrátt fyrir að fólksfjölgun og öldrun þjóðar sé óhjákvæmileg. Á hverjum bitnar þessi ákvörðun? Jú, á umræddum konum sem starfa í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu víða um land, sem dæmi, og eru undir miklu álagi. Sömu konunum og átti að minnka nýgengi örorku hjá.
Þá er sálfræðifrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 enn ófjármagnað í þessum fjárlögum. 400 milljónir króna eru settar í geðheilbrigðismál sem er lág upphæð í samhengi við umfang vandans.
Við þetta bætist að ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa haldið aftur af hækkun frítekjumarks öryrkja, sem þýðir á mannamáli að öryrkjar fá ekki einu sinni tækifæri til afla sér almennilegra tekna til að bæta upp fyrir samningsleysi sitt við ríkið. Frítekjumark atvinnutekna öryrkja væri nú tvöfalt miðað við núverandi upphæð ef það hefði aðeins fylgt verðlagsþróun í landinu. Við þessu er ekki hróflað í fjárlögum næsta árs.
Hér er talið skynsamlegt að spara til, í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, þrátt fyrir að kostnaðurinn sem af þessum sparnaði hlýst verði mikill. Öldrun þjóðar krefst þess að fólk hafi getu til að vinna lengur og framleiðnikröfur sem gjarnan er velt upp eru háðar virkni allra í samfélaginu. Við höfum ekki efni á því að missa fólk úr vinnuaflinu snemma á lífsleiðinni. Við höfum ekki efni á því að halda aftur af tækifærum fólks til að taka þátt á vinnumarkaði.
Heimatilbúin verðbólga
Sú brotalöm sem birtist síðan hvað flestum í dag er staðan á húsnæðismarkaði. Þrátt fyrir gífurlega hækkun íbúðaverðs á síðustu árum, og augljósa markaðsbresti á þeim markaði, er engin ný úrræði að finna í fjárlagafrumvarpinu.
Þessar húsnæðisverðshækkanir koma illa við almenning, fyrirtæki, og hið opinbera sjálft enda eru launa- og verðlagshækkanir, sem rekja má nú til fasteignaverðshækkana, ein stærsta auka útgjaldabreytan hjá ríkissjóði. Og illa lendir þessi hagstjórn á sveitarfélögunum, sem reka mannaflsþunga þjónustu þar sem launakostnaður er yfir helmingur útgjalda. Afstöðuleysi þessarar ríkisstjórnar á íbúðamarkaði hefur þannig ýtt undir vítahring verðhækkana sem enn stendur órofinn eftir vinnslu þessara fjárlaga.
Augljóst dæmi er í fjárlögum næsta árs um afleiðingar þessa vítahrings. Þar kemur fram að endurskoða þurfti áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna verðbólgu í fyrra – verðbólgan var 1,7% hærri í fyrra en við var búist. Viðbótarverðbólgunni fylgir rekstrarkostnaður upp á 3,6 milljarða kr. Það er jafnhá upphæð og ríkið leggur í fjárfestingu í húsnæði hér á landi í gegnum almenna íbúðakerfið. Kerfi sem gæti haldið aftur af umræddum hækkunum. Til að komast fram fyrir þessar hækkanir.
Þá bætist við 10 milljarða króna viðbótarkostnaður við fjármagnskostnað ríkissjóðs í ár vegna hærri verðbóta, þar sem verðbólga var mun hærri en áður var talið. Þeir milljarðar sem ríkissjóður sparaði sér í vaxtakostnað því minna þurfti að taka að láni vegna betra efnahagsástands hverfa í skugga verðbólgukostnaðar sem ójöfnun efnahagsviðsnúningi fylgdi.
Það kostar nefnilega að sitja á hliðarlínunni.
Uppfærður samfélagssáttmáli
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við 1. umræðu um fjárlagafrumvarpið voru á þann veg að ýmislegt myndi breytast í meðförum fjárlaganefndar. Eftir tveggja vikna vinnu nefndarinnar er staðan þó lítið breytt:
13 milljarðar kr. bættust við frumvarpið eftir tillögur frá ríkisstjórninni. 60% þess fjármagns er vegna COVID-aðgerða. 25% vegna neyðaraðstoðar inn á hjúkrunarheimilin og samningsbundinnar upphæðar fyrir NPA, sem hefði átt að koma strax fram í frumvarpinu. 6% eða, rúmar 700 millj. kr., eru vegna málefna úr stjórnarsáttmála. Svipuð upphæð, eða 500 millj. kr., eru lagðar til vegna breytinga á Stjórnarráðinu. Stjórnarsáttmálinn birtist okkur því í þessu frumvarpi sem svipuð upphæð inn í stjórnsýslu nýrra ráðuneyta og til málefnanna í heild sinni.
Á Íslandi er almenn samstaða um öflugt velferðarríki. En upplifun af lestri fjárlagafrumvarpsins er sú að hér sé ríkisstjórn sem hafi erft velferðarkerfi sem hún skilur ekki. Velferðarkerfin sem skapa grunn velferðarsamfélags okkar þurfa að taka sífelldum breytingum, annars lendum við með óyfirstíganleg göt sem þarf að brúa. Þessar brotalamir þarf að laga þegar þær birtast, því hættan er sú að grunnurinn veikist, sem dregur úr getu fólks til að vera virkt í samfélaginu, dregur úr samstöðu milli þjóðfélagshópa og fækkar þeim einstaklingum sem geta sótt fram.
Við skuldum hvert öðru sem samfélag að styrkja betur grunninn sem við öll vöxum á. Við skuldum hvert öðru að uppfæra samfélagssáttmálann um velferðarríkið með reglulegu millibili. Sú uppfærsla mun ekki eiga sér stað í bráð ef marka má fjárlög næsta árs.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.