Um daginn var upplýst að biðlisti eftir félagslegu leiguhúsnæði hafi styst til muna frá árinu 2019, en í Reykjavík einni hefur fækkað um 473 einstaklinga á tímabilinu sem er um þriðjungsfækkun á tveim árum. Það er mikilvægt að halda áfram á sömu braut og tryggja þeim einstaklingum sem eru enn á biðlista félagslegt húsnæði.
Það sem Reykjavík hefur gert og skiptir máli er þríþætt. Í fyrsta lagi hefur Reykjavíkurborg fjölgað félagslegum íbúðum frá 2019 um 329 íbúðir.
Í öðru lagi hefur Reykjavíkurborg haft þá stefnu undanfarin ár við úthlutun lóða, að 25% íbúða sem stendur til að byggja skal ráðstafað í félagslegt húsnæði (t.d. íbúðir fyrir Félagsbústaði, Brynju húsnæðisfélags ÖBÍ eða óhagnaðardrifinna leigufélaga). Íbúafélagið Bjarg er dæmi um óhagnaðardrifið leigufélag, en það er í eigu verkalýðshreyfingarinnar. Bjarg hefur fengið úthlutað lóðum fyrir hátt í 900 íbúðir. Nú þegar hefur Bjarg byggt, tekið í notkun og hafið leigu á um 400 íbúðum og sumarið 2022 bætast við 160 íbúðir.
Í þriðja lagi hefur Reykjavíkurborg úthlutað lóðum til námsmannahreyfinga undanfarin ár svo um munar. Frá árinu 2016 hafa námsmannahreyfingarnar fengið úthlutað lóðum og byggt íbúðarhúsnæði með 700 leigueiningum. Þetta hefur leitt af sér aukið framboð af leiguhúsnæði fyrir námsmenn sem á móti hafa ekki þurft að leigja húsnæði á GAMMA kjörum.
Þetta aukna framboð af leiguhúsnæði hefur leitt af sér þá jákvæðu þróun að leiguverð hefur farið lækkandi frá árinu 2017 þegar GAMMA brjálæðið stóð sem hæst. Biðlistar eftir leiguhúsnæði hafa styst til muna, sérstaklega eftir félagslegu leiguhúsnæði, auk þess að margar íbúðir sem áður voru notaðar í skammtímaleigu til ferðamanna voru leigðar til langs tíma. Fyrir utan þau jákvæðu áhrif sem fjölgun félagslegra leiguíbúða hefur haft á leiguverð, hefur það líka haft áhrif á byggingarmarkaðinn og hleypt miklu lífi í þann geira.
Reykjavíkurborg hefur staðið sína plikt og gott betur í að auka framboð á félagslegu húsnæði. Á móti kemur að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið treg til að auka framboð á félagslegu húsnæði
Húsnæðismál eru sameiginlegt verkefni sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Ríkið hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að styðja við uppbyggingu óhagnaðardrifinna leiguíbúða sem draga úr verðþrýstingi á öllum húsnæðismarkaðnum. Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lögðu niður félagslega húsnæðiskerfið að mestu leyti í kringum aldamótin hefur mikið ójafnvægi skapast á fasteignamarkaði. Skref í rétta átt að því að endurreisa kerfið var tekið 2015 þegar ríkið hóf að leggja til stofnframlög til byggingar félagslegs húsnæðis í gegnum hið svokallaða almenna íbúðakerfi. Þannig beitir ríkið sér loksins aftur á byggingarhliðinni í samvinnu við sveitarfélögin.
Nauðsynlegt er þó að horfa á stuðning hins opinbera á þessum hluta fasteignamarkaðarins sem hluta af opinberri innviðauppbyggingu og því þarf stuðningurinn að vera stöðugur og fyrirsjáanlegur. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi kjörtímabili bera ekki vott um þessa sýn. Kerfið er enn verulega vanfjármagnað og lítill sem enginn fyrirsjáanleiki er til staðar varðandi fjármögnun kerfisins eftir næsta ár. Þessu vill Samfylkingin breyta í landsstjórninni og styðja við stöðuga og fyrirsjáanlega uppbyggingu leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði í samstarfi við borgina.
Höfundur skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í komandi Alþingiskosningum.