Þessa dagana er það gjarnan rifjað upp að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið jafnréttislög í forsætisráðherratíð sinni. Ástæða þessarar upprifjunar er að sjálfsögðu brot Lilju Alfreðsdóttur á þessum sömu lögum og nú allra síðast úrskurður héraðsdóms, sem staðfestir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.
En það er áhugavert að bera þessi tvö mál saman. Þau eru nefnilega ekki nákvæmlega eins.
Lilja réð flokksbróður sinn í starf ráðuneytisstjóra en sniðgekk konu sem að mati kærunefndar jafnréttismála var a.m.k. jafnhæf. Jóhanna réð karlmann í stöðu skrifstofustjóra og sniðgekk þar með konu, sem að mati kærunefndar jafnréttismála var a.m.k. jafnhæf. Svo merkilega vill hins vegar til að konan sem Jóhanna sniðgekk, var flokksystir hennar.
Lilja stefndi konunni, sem hún taldist hafa sniðgengið, fyrir dóm til að fá úrskurðinum hnekkt.
Ríkislögmaður ráðlagði Jóhönnu á sínum tíma að fara einmitt þessa leið og stefna konunni fyrir rétt til að fá úrskurðinum hnekkt, en Jóhanna neitaði. Hún kaus fremur að taka skellinn, en segir í ævisögu sinni að þetta kærumál hafi tekið mikið á sig. (Minn tími, 2017, bls. 316).
Í máli Jóhönnu fór kærunefndin sem sagt greinilega talsvert út fyrir valdsvið sitt. Álit umboðsmanns Alþingis ógildir auðvitað ekki úrskurð kærunefndar jafnréttismála, alla vega ekki að forminu til, en það setur engu að síður stórt spurningarmerki við það, hvort Jóhanna hafi í rauninni gerst brotleg við jafnréttislögin.
Hvernig sem á því kann að standa, virðast furðu fáir hafa vitneskju um þetta álit umboðsmanns Alþingis og t.d. verður ekki séð að fjölmiðlafólk, sem nú keppist við að draga Jóhönnu í sama dilk og Lilju Alfreðsdóttur, hafi neina hugmynd um þessar lyktir málsins.
Öfugt við Jóhönnu Sigurðardóttur hikaði Lilja Alfreðsdóttir ekki við að draga þá konu, sem hún sniðgekk, fyrir dóm.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú dæmt í málinu og í dómnum er öllum málsástæðum Lilju hafnað – hverri einustu! Í dómnum er sérstaklega tekið fram að: „Engir annmarkar hafi verið á málsmeðferð kærunefndarinnar, hún hafi þvert á móti byggt úrskurð sinn á ákvæðum laga og málefnalegum sjónarmiðum, beitt lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og rökstutt niðurstöðu sína ítarlega. Nefndin hafi ekki farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið."
Því miður lýkur samanburðinum ekki hér. Jóhanna Sigurðardóttir eftirlét ráðuneytisstjóra sínum, Ragnhildi Arnljótsdóttur, að sjá um ráðninguna ásamt mannauðsráðgjafa. Sjálf segir Jóhanna um þetta: „Einu fyrirmælin sem Ragnhildur fékk frá mér voru að skoða ætti rækilega að jafnréttislög væru ekki brotin.“ Lilja skipaði aftur á móti sérstaka hæfnisnefnd og þar gerði hún flokksbróður sinn að formanni.
Afstaða ríkislögmanns vekur líka nokkra athygli. Hann ráðlagði Jóhönnu einmitt að höfða mál af sama toga og Lilja gerði nú, en það er hins vegar ekki ríkislögmaður sem fer með mál Lilju, heldur lögmaður „úti í bæ“. Hér skal ekki fullyrt að ríkislögmanni hafi ekki þótt málshöfðun líkleg til árangurs, en það er óneitanlega freistandi ályktun.
Það virkar dálítið rætið og illgjarnt að draga einstakling fyrir dóm fyrir þá sök eina að hafa kvartað til nefndar, hverrar úrskurðir eiga samkvæmt lögum að vera endanlegir. Jóhanna Sigurðardóttir gat ekki hugsað sér að grípa til svo óvandaðra meðala. En Lilja er engin Jóhanna Sigurðardóttir. Hún vill ekki taka skellinn.
Heimildir:
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála 22. mars 2011.
Álit umboðsmanns Alþingis 27. september 2013.
Úskurður kærunefndar jafnréttismála 27. maí 2020.
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2021.
Pál Valsson: Minn tími, Mál og menning 2017 (bls. 315-317).
Höfundur er heldri borgari.