Ég hreinlega elska kökur en það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar rætt er um kökur og tertur. Mér finnst kökur svo góðar að stundum vildi ég geta setið einn að þeim. Slíkt er auðvitað hvorki neitt sérstaklega hollt né alltaf hægt. Kökur eru oft boðnar á mannamótum og það væri hreinlega dónaskapur að úða þeim í sig einn.
Það eru auðvitað til alls konar kökur og mér finnst flestar eða allar góðar, lagkökur, hnallþórur, súkkulaðikökur, stundum jafnvel jólakökur. Þær eru auðvitað ekkert alltaf til.
Englendingar eiga eina mögnuðustu köku sem ég veit. Það er þeirra jólakaka sem innheldur rúsínur og allra handa þurrkaða ávexti og hún er algert gúmmilaði. Hreinasta lostæti og deigið fær stundum að liggja í romm- eða viskíbaði áður en það er bakað. Ekki nóg með það heldur hella sumir meira rommi yfir kökuna þegar hún er tilbúin.
Þetta undur í formi köku er í raun samrunni tveggja eftirrétta sem hefð var fyrir á í Englandi á jólum, plómubúðingi og köku sem var borðuð á þrettándanum. Fyrstu heimildir um plómubúðinginn eru frá um 1573.
Á sautjándu öld var hætt að nota haframjöl við búiðingsgerðina en í stað þess notað smjör, hveiti og egg. Þetta deig mun hafa verið soðið alla tíð þangað til vel efnum búið fólk fór almennt að eignast ofna á heimilum sínum. Þurrkuðum ávöxtum var bætt við deigið og að lokum marsípani.
Ítalir eiga sína panettone köku sem er einnig í miklu uppáhaldi hjá mér. Saga hennar hefst eins og saga margs annars á tímum Rómaveldis. Kakan hefur þó auðvitað breyst töluvert síðan þá, hún er að sumu leyti lík þeirri upprunalegu en að á margan hátt allt önnur. Panettone kökunni svipar nokkuð til þeirrar ensku sem útskýrir líklega hvers vegna hún er mér kær. Bestar þykja mér kökur sem marsípan er notað í.
Hér á landi finnst mér lagkökur einna markverðastar. Ég er ekki spenntur fyrir þeirri ljósu og sú dökka má alls ekki vera með sultu… bara kremi! Hnallþórur eru vitanlega alveg rétt rúmlega boðlegar um jól og jafnvel áramót eða hvenær sem er ársins, sama er mér. Kransakökur fá mig til að slefa af græðgi vegna þess að marsípan er, eins og þið vitið, lang best. Svo gleðja mig allskonar tertur og smákökur gleðja í myrkasta skammdeginu. Já og þegar dagurinn er hvað lengstur vitaskuld einnig. Kökur eiga alltaf við!
Hversu stór á sneiðin að vera?
En nóg um kökur… nei annars, það er aldrei nóg um þær sagt eða skrifað. Hinsvegar hafa þær verið mikið í umræðunni vegna þess líkingamáls sem notað er þegar talað er um afkomu okkar. Hversu stór er sneiðin sem við fáum af kökunni góðu, veraldlegu gæðunum, sem er til skiptanna fyrir okkur öll. Efnahagsköku mætti nefna hana. Örfá eiga langstærstan hlutann af henni, hún sæt með miklu kremi og rjóma en það sem mikill fjöldi fólks fær af kökunni dugar ekki til að seðja.
Mikill hluti verkalýðsfélaga og viðsemjendur þeirra hafa nú undirritað samninga um kaup og kjör, sem er svosem ágætt en forystufólk verkalýðsfélaga virðist ekkert sérstaklega ánægt með þau kjör sem samið var um.
Sumir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar höfðu ekki geð í sér að úða í sig vöfflum sem er siðvenja þegar samningar eru í höfn og fagnað náðum áfanga. Enn og aftur fara þau sem hafa minnst á milli handanna halloka. Það er víst að þau sem eru lægst launuð munu ekki hafa efni á því að kaupa sér breska jólaköku eða þá ítölsku um þessi jól. Hugsanlega ná þau að öngla saman fyrir einni lagköku úr Bónus ef annað er sparað til að láta það eftir sér.
Ég hugsa oft um þau mál sem lúta að afkomu okkar og er yfirleitt nokkuð hneykslaður og hnugginn í sinni. Nú höfum við búið við kapítalisma lengi og það skal ekki horft framhjá því að það kerfi hefur komið mörgu góðu til leiðar. Gríðarlegar tækniframfarir hafa orðið á undanförnum árum. Þessar framfarir eru vitaskuld til góðs en þær hafa einnig neikvæðar afleiðingar.
Nærtækt dæmi eru nýmóðins afgreiðsluhættir í stórmörkuðum þar sem við erum hvött til að afgreiða okkur sjálf. Ég veit ekki hvort þetta sé til bóta. Það að missa samskiptin við afgreiðslufólk sem þar að auki hefur nú misst vinnuna vegna þessa er eitt. Annað er að við sjáum um að skanna og pakka vörunum sem við hyggjumst kaupa sjálf. Þetta er einungis ein birtingarmynd þess sem er að gerast samfara öllum tækniframförunum. Hin hliðin er sú að blessaðri kökunni sem ég talaði um hér í upphafi er mjög ójafnt skipt.
Einhver sagði einhvern tíma að til væri hvít lygi, lygi, haugalygi og síðan tölfræði. Hvað svosem til er í því er öruggt að tölulegar staðreyndir má mistúlka eins og flest annað. Það er þó engin mistúlkun að um það bil eitt prósent jarðarbúa eiga stærstu sneiðina af auðæfum heimsins. Það er ekki miðað við höfðatöluna sem við Íslendingar könnumst svo vel við vegna þess að þegar sú greining er notuð erum við alltaf lang best í öllu… eða hvað?
Vetur konungur og válynd veður
Nú eru veður válynd og við upplifum frosthörkur sem og snjóbylji sem setja allt á annan endann. Fyrir flest okkar er þetta ekkert stórmál. Við þurfum hugsanlega að skafa snjó af bílunum og fá nágranna til að hjálpa við að ýta.
Öll eru ekki jafn lánsöm. Til að mynda þau sem hvergi eiga húsaskjól en þurfa því að halda. Þau þurfa skjól og vernd sem opinberir aðilar eiga að mínu viti að veita. Þau úrræði sem eru í boði eru þannig skipulögð að fólk sem þarf á þeim að halda fær afdrep yfir nóttina og fram á morgun. Yfir daginn og fram á kvöld verða þau að láta sér nægja að dvelja á götunni, hvernig sem viðrar. Slík örlög ættu ekki að bíða nokkurs manns hvar sem hann er í sveit settur. En svona virkar blessaða kapitalíska kerfið okkar. Það hefur litla þolinmæði fyrir lítilmagnanum sem getur, af einhverjum völdum, ekki séð um sig sjálfur.
Nú komum við aftur að kökunni góðu. Við búum hér á Íslandi, sem er vel. Við lítum á okkur sem þjóð, þjóðfélag eða samfélag, hóp fólks sem er sama sinnis um margt en þegar betur er að gáð er það einfaldlega ekki svo einfalt.
Við erum ekki tilbúin að veita náunganum skjól þegar mest á ríður. Við samþykjum kerfi sem setur fólk af erlendu bergi brotið og hefur leitað ásjár hjá okkur, út á Guð og gaddinn. Það er þó jákvætt að hægt er að reka mál fyrir dómstólum sem gera það að verkum að til dæmis Útlendingastofnun er tekin í karphúsið vegna mála sem eru einfaldlega ekki rétt meðhöndluð. Landflótta fjölskylda var flutt til baka frá Grikklandi nú fyrir skömmu eftir að hafa verið færð af landi brott með mjög svo hranalegum aðgerðum lögreglu og starfsmanna Útlendingastofnunar. Þetta átti að vera algert launungarmál og þess vegna lýstu starfsmenn Ísavía sterkum kastaraljósum bifreiða í átt að fjölmiðlafólki á staðnum til af hefta því sýn.
Viðbrögð yfirvalda eru grafalvarlegt mál í þjóðfélagi sem telur sig til þeirra þar sem mest ríkir frelsið. Frelsi fjölmiðla byggir á því að segja fréttir af hverju því sem þarf og á að greina frá. Við þekkjum öll þetta mál en ég minnist á það hér vegna þess að við megum ekki gleyma því sem þarna átti sér stað.
Svo bregðast krosstré sem önnur tré
Baráttan um kökuna góðu heldur áfram og enn er það svo að sumir fá stærstan hluta á meðan aðrir verða að gera sér mylsnu að góðu eða jafnvel ekki neitt. Þarna þykir hvorki óeðlilegt né dónalegt að græðga í sig stærsta hluta kökunnar.
Kerfið sem við búum við á að vera það besta sem völ er á, með miklu frelsi einstaklingsins, lýðræði og eins óheftum rekstur fyrirtækja og völ er á. Ég andmæli þessu ekki en bendi á það að stundum gerist það að hinn frjálsi markaður fer offörum og þá sitjum við öll í súpunni eða með köku í andlitinu nema hvort tveggja sé líkt og gerðist í hruninu 2008.
Óráðsía kaupahéðna, bankastjóra og annarra sem tóku þátt í hinum sannkallaða hrunadansi varð til þess að almenningur neyddist að herða sultarólina. Opinber þjónusta og framkvæmdir drógust saman svo um munaði og mig grunar að enn séum við að súpa seyðið af þessum atburði og afleiðingum hans.
Hugsanlega má segja að almenningur hafi tekið þátt í dansinum en áróðursherferð kaupahéðnanna um hversu magnað hið íslenska bankakerfi væri og hversu einstakir hæfileikamenn stjórnendur þeirra væru, var svo eindreginn að jaðra mátti við heilaþvott.
Söngur þessi heyrðist út um víðan völl þangað til hann endaði sem ramakvein seinni hluta árs 2008 og hljóðnaði svo skyndilega. Það má enn heyra bergmál kveinsins mikla enn þann dag í dag. Það má til að mynda ekki greiða fólki mannsæmandi laun vegna þess að kviknað gæti óstöðvandi verðbólgubál.
Að sumra mati má ekki setja leikreglur á húsnæðisleigumarkaði því þær hindra jú frelsi í viðskiptum. Ekki er á það minnst að frelsi leigusalans heftir frelsi þeirra sem þurfa að vera á leigumarkaðinum og borga himinháar upphæðir fyrir þak yfir höfuðið.
Ég er þess fullviss að í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við eru leikreglur sem snúa að þessum málum. Reglur sem senda eigendum eignanna skýr skilaboð og veitir leigjendum meira öryggi og þar af leiðandi meira skjól. Það eiga að vera sjálfsögð mannréttindi allra að eiga víst og öruggt skjól heimilis.
Meira um brauð og kökur
Ég gleymdi að minnast á þýsku gersemina Stollen í upptalningunni um kökur hér að ofan sem er hugsanlega ekkert undarlegt því að það er flokkað sem brauð þó að mér finnist það svo sannarlega jafn gott og kaka.
Þetta brauð og kökurnar eru bæði bakaðar í bakaríum hérlendis og fást innfluttar. Þetta var upprunalega alþýðumatur en nú er svo komið að þær geta aldeilis kostað skildinginn og eru ekki á allra færi. Fjölþjóðafyrirtækið Nestlé hefur dundað sér við að kaupa framleiðslufyrirtækin sem er ekki gott. Ef einhver er að huga að jólagjöf fyrir mig væri ég til í Stollen, Panettone, ensku jólakökuna eða bara brúna lagköku án sultu ef þannig gáll er á fólki. Helst þó ekki frá Nestlé en allt er hey í harðindum eins og rollan ku hafa sagt forðum.
Gleðileg jól!
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður og höfundur bókarinnar The Banana Garden.