Þegar kökugerðarmaðurinn…

Eggert Gunnarsson skrifar um kökur og góðgæti.

Auglýsing

Ég hrein­lega elska kökur en það er svo margt sem kemur upp í hug­ann þegar rætt er um kökur og tert­ur. Mér finnst kökur svo góðar að stundum vildi ég geta setið einn að þeim. Slíkt er auð­vitað hvorki neitt sér­stak­lega hollt né alltaf hægt. Kökur eru oft boðnar á manna­mótum og það væri hrein­lega dóna­skapur að úða þeim í sig einn. 

Það eru auð­vitað til alls konar kökur og mér finnst flestar eða allar góð­ar, lag­kök­ur, hnall­þór­ur, súkkulaði­kök­ur, stundum jafn­vel jóla­kök­ur. Þær eru auð­vitað ekk­ert alltaf til. 

Eng­lend­ingar eiga eina mögn­uð­ustu köku sem ég veit. Það er þeirra jóla­kaka sem inn­heldur rús­ínur og allra handa þurrk­aða ávexti og hún er algert gúmmil­aði. Hrein­asta lost­æti og deigið fær stundum að liggja í romm- eða viskíbaði áður en það er bak­að. Ekki nóg með það heldur hella sumir meira rommi yfir kök­una þegar hún er til­bú­in.

Þetta undur í formi köku er í raun sam­runni tveggja eft­ir­rétta sem hefð var fyrir á í Englandi á jól­um, plómu­búð­ingi og köku sem var borðuð á þrett­ánd­an­um. Fyrstu heim­ildir um plómu­búð­ing­inn eru frá um 1573.

Á sautj­ándu öld var hætt að nota hafra­mjöl við búið­ings­gerð­ina en í stað þess notað smjör, hveiti og egg. Þetta deig mun hafa verið soðið alla tíð þangað til vel efnum búið fólk fór almennt að eign­ast ofna á heim­ilum sín­um. Þurrk­uðum ávöxtum var bætt við deigið og að lokum mar­sípani.

Auglýsing
Þessi kaka er himnesk í mínum huga en ég er ekki alveg til­bú­inn í að gæða mér á henni soð­inni enda var hún strangt til tek­ið  ekki kaka heldur búð­ingur (e. pudd­ing).

Ítalir eiga sína panettone köku sem er einnig í miklu upp­á­haldi hjá mér. Saga hennar hefst eins og saga margs ann­ars á tímum Róma­veld­is. Kakan hefur þó auð­vitað breyst tölu­vert síðan þá, hún er að sumu leyti lík þeirri upp­runa­legu en að á margan hátt allt önn­ur. Panettone  kök­unni svipar nokkuð til þeirrar ensku sem útskýrir lík­lega hvers vegna hún er mér kær. Bestar þykja mér kökur sem mar­sípan er notað í.

Hér á landi finnst mér lag­kökur einna mark­verðast­ar. Ég er ekki spenntur fyrir þeirri ljósu og sú dökka má alls ekki vera með sultu… bara kremi! Hnall­þórur eru vit­an­lega alveg rétt rúm­lega boð­legar um jól og jafn­vel ára­mót eða hvenær sem er árs­ins, sama er mér. Kran­sa­kökur fá mig til að slefa af græðgi vegna þess að mar­sípan er, eins og þið vit­ið, lang best. Svo gleðja mig alls­konar tertur og smákökur gleðja í myrkasta skamm­deg­inu. Já og þegar dag­ur­inn er hvað lengstur vita­skuld einnig. Kökur eiga alltaf við!

Hversu stór á sneiðin að vera?

En nóg um kök­ur… nei ann­ars, það er aldrei nóg um þær sagt eða skrif­að. Hins­vegar hafa þær verið mikið í umræð­unni vegna þess lík­inga­máls sem notað er þegar talað er um afkomu okk­ar. Hversu stór er sneiðin sem við fáum af kök­unni góðu, ver­ald­legu gæð­un­um, sem er til skipt­anna fyrir okkur öll. Efna­hag­sköku mætti nefna hana. Örfá eiga langstærstan hlut­ann af henni, hún sæt með miklu kremi og rjóma en það sem mik­ill fjöldi fólks fær af kök­unni dugar ekki til að seðja.

Mik­ill hluti verka­lýðs­fé­laga og við­semj­endur þeirra hafa nú und­ir­ritað samn­inga um kaup og kjör, sem er svosem ágætt en for­ystu­fólk verka­lýðs­fé­laga virð­ist ekk­ert sér­stak­lega ánægt með þau kjör sem samið var um. 

Sumir leið­togar verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar höfðu ekki geð í sér að úða í sig vöfflum sem er sið­venja þegar samn­ingar eru í höfn og fagnað náðum áfanga. Enn og aftur fara þau sem hafa minnst á milli hand­anna hall­oka. Það er víst að þau sem eru lægst launuð munu ekki hafa efni á því að kaupa sér breska jóla­köku eða þá ítölsku um þessi jól. Hugs­an­lega ná þau að öngla saman fyrir einni lag­köku úr Bónus ef annað er sparað til að láta það eftir sér.

Ég hugsa oft um þau mál sem lúta að afkomu okkar og er yfir­leitt nokkuð hneyksl­aður og hnugg­inn í sinni. Nú höfum við búið við kap­ít­al­isma lengi og það skal ekki horft fram­hjá því að það kerfi hefur komið mörgu góðu til leið­ar. Gríð­ar­legar tækni­fram­farir hafa orðið á und­an­förnum árum. Þessar fram­farir eru vita­skuld til góðs en þær hafa einnig nei­kvæðar afleið­ing­ar. 

Nær­tækt dæmi eru nýmóð­ins afgreiðslu­hættir í stór­mörk­uðum þar sem við erum hvött til að afgreiða okkur sjálf. Ég veit ekki hvort þetta sé til bóta. Það að missa sam­skiptin við afgreiðslu­fólk sem þar að auki hefur nú misst vinn­una vegna þessa er eitt. Annað er að við sjáum um að skanna og pakka vör­unum sem við hyggj­umst kaupa sjálf. Þetta er ein­ungis ein birt­ing­ar­mynd þess sem er að ger­ast sam­fara öllum tækni­fram­för­un­um. Hin hliðin er sú að bless­aðri kök­unni sem ég tal­aði um hér í upp­hafi er mjög ójafnt skipt.

Ein­hver sagði ein­hvern tíma að til væri hvít lygi, lygi, hauga­lygi og síð­an ­töl­fræð­i.  Hvað svosem til er í því er öruggt að tölu­legar stað­reyndir má mistúlka eins og flest ann­að. Það er þó  engin mistúlkun að um það bil eitt pró­sent jarð­ar­búa eiga stærstu sneið­ina af auð­æfum heims­ins. Það er ekki miðað við höfða­töl­una sem við Íslend­ingar könn­umst svo vel við vegna þess að þegar sú grein­ing er notuð erum við alltaf lang best í öllu… eða hvað?

Vetur kon­ungur og válynd veður

Nú eru veður válynd og við upp­lifum frost­hörkur sem og snjó­bylji sem setja allt á annan end­ann. Fyrir flest okkar er þetta ekk­ert stór­mál. Við þurfum hugs­an­lega að skafa snjó af bíl­unum og fá nágranna til að hjálpa við að ýta. 

Snjómoksturbíll að störfum Mynd: Vegagerðin

Öll eru ekki jafn lánsöm. Til að mynda þau sem hvergi eiga húsa­skjól en þurfa því að halda. Þau þurfa skjól og vernd sem opin­berir aðilar eiga að mínu viti að veita. Þau úrræði sem eru í boði eru þannig skipu­lögð að fólk sem þarf á þeim að halda fær afdrep yfir nótt­ina og fram á morg­un. Yfir dag­inn og fram á kvöld verða þau að láta sér nægja að dvelja á göt­unni, hvernig sem viðr­ar. Slík örlög  ættu ekki að bíða nokk­urs manns hvar sem hann er í sveit sett­ur. En svona virkar bless­aða kapital­íska kerfið okk­ar. Það hefur litla þol­in­mæði fyrir lít­il­magn­anum sem get­ur, af ein­hverjum völd­um, ekki séð um sig sjálf­ur.

Nú komum við aftur að kök­unni góðu. Við búum hér á Íslandi, sem er vel. Við lítum á okkur sem þjóð, þjóð­fé­lag eða sam­fé­lag, hóp fólks sem er sama sinnis um margt en þegar betur er að gáð er það ein­fald­lega ekki svo ein­falt. 

Við erum ekki  til­búin að veita náung­anum skjól þegar mest á ríð­ur. Við sam­þykjum kerfi sem setur fólk af erlendu bergi brotið og hefur leitað ásjár hjá okk­ur, út á Guð og gadd­inn. Það er þó jákvætt að hægt er að reka mál fyrir dóm­stólum sem gera það að verkum að til dæmis Útlend­inga­stofnun er tekin í karp­húsið vegna mála sem eru ein­fald­lega ekki rétt með­höndl­uð. Land­flótta fjöl­skylda var flutt til baka frá Grikk­landi nú fyrir skömmu eftir að hafa verið færð af landi brott með mjög svo hrana­legum aðgerðum lög­reglu og starfs­manna Útlend­inga­stofn­un­ar. Þetta átti að vera algert laun­ung­ar­mál og þess vegna lýstu starfs­menn Ísavía sterkum kast­ara­ljósum bif­reiða í átt að fjöl­miðla­fólki á staðnum til af hefta því sýn. 

Auglýsing
Þau voru að vinna eitt mik­il­væg­asta verk sem unnið er í lýð­ræðis þjóð­fé­lagi að segja fréttir af því sem ger­ist. Frétta­fólkið var að reyna að afla myndefnis til að koma því svo á fram­færi við almenn­ing hvað var í raun­inni að eiga sér stað. 

Við­brögð yfir­valda eru grafal­var­legt mál í þjóð­fé­lagi sem telur sig til þeirra þar sem mest ríkir frels­ið. Frelsi fjöl­miðla byggir á því að segja fréttir af hverju því sem þarf og á að greina frá. Við þekkjum öll þetta mál en ég minn­ist á það hér vegna þess að við megum ekki gleyma því sem þarna átti sér stað.

Svo bregð­ast kross­tré sem önnur tré

Bar­áttan um kök­una góðu heldur áfram og enn er það svo að sumir fá stærstan hluta á meðan aðrir verða að gera sér mylsnu að góðu eða jafn­vel ekki neitt. Þarna þykir hvorki óeðli­legt né dóna­legt að græðga í sig stærsta hluta kök­unn­ar. 

Kerfið sem við búum við á að vera það besta sem völ er á, með miklu frelsi ein­stak­lings­ins, lýð­ræði og eins óheftum rekstur fyr­ir­tækja og völ er á. Ég and­mæli þessu ekki en bendi á það að stundum ger­ist það að hinn frjálsi mark­aður fer offörum og þá sitjum við öll í súp­unni eða með köku í and­lit­inu nema hvort tveggja sé líkt og gerð­ist í hrun­inu 2008. 

Óráðsía kaupa­héðna, banka­stjóra og ann­arra sem tóku þátt í hinum sann­kall­aða hruna­dansi varð til þess að almenn­ingur neydd­ist að herða sultar­ól­ina. Opin­ber þjón­usta og fram­kvæmdir dróg­ust saman svo um mun­aði og mig grunar að enn séum við að súpa seyðið af þessum atburði og afleið­ingum hans. 

Hugs­an­lega má segja að almenn­ingur hafi tekið þátt í dans­inum en áróð­urs­her­ferð kaupa­héðn­anna um hversu magnað hið íslenska banka­kerfi væri og hversu ein­stakir hæfi­leika­menn stjórn­endur þeirra væru, var svo ein­dreg­inn að jaðra mátti við heila­þvott. 

Söngur þessi heyrð­ist út um víðan völl þangað til hann end­aði sem rama­kvein seinni hluta árs 2008 og hljóðn­aði svo skyndi­lega. Það má enn heyra berg­mál kveins­ins mikla enn þann dag í dag. Það má til að mynda ekki greiða fólki mann­sæm­andi laun vegna þess að kviknað gæti óstöðv­andi verð­bólgu­bál. 

Að sumra mati má ekki setja leik­reglur á hús­næð­is­leigu­mark­aði því þær hindra jú frelsi í við­skipt­um. Ekki er á það minnst að frelsi leigusal­ans heftir frelsi þeirra sem þurfa að vera á leigu­mark­að­inum og borga him­in­háar upp­hæðir fyrir þak yfir höf­uð­ið. 

Ég er þess full­viss að í þeim löndum sem við berum okkur oft­ast saman við eru leik­reglur sem snúa að þessum mál­um. Reglur sem senda eig­endum eign­anna skýr skila­boð og veitir leigj­endum meira öryggi og þar af leið­andi meira skjól. Það eiga að vera sjálf­sögð mann­rétt­indi allra að eiga víst og öruggt skjól heim­il­is­.  

Meira um brauð og kökur

Ég gleymdi að minn­ast á þýsku ger­sem­ina Stollen í upp­taln­ing­unni um kökur hér að ofan sem er hugs­an­lega ekk­ert und­ar­legt því að það er flokkað sem brauð þó að mér finn­ist það svo sann­ar­lega jafn gott og kaka. 

Þetta brauð og kök­urnar eru bæði bak­aðar í bak­ar­íum hér­lendis og fást inn­flutt­ar. Þetta var upp­runa­lega alþýðu­matur en nú er svo komið að þær geta aldeilis kostað skild­ing­inn og eru ekki á allra færi. Fjöl­þjóða­fyr­ir­tækið Nestlé hefur dundað sér við að kaupa fram­leiðslu­fyr­ir­tækin sem  er ekki gott. Ef ein­hver er að huga að jóla­gjöf fyrir mig væri ég til í Stollen, Panetto­ne, ensku jóla­kök­una eða bara brúna lag­köku án sultu ef þannig gáll er á fólki. Helst þó ekki frá Nestlé en allt er hey í harð­indum eins og rollan ku hafa sagt forð­um.

Gleði­leg jól!

Höf­und­­ur­ er kvik­­mynda­­gerð­­ar­­maður og höf­undur bók­­ar­innar The Ban­ana Gar­den.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar