„Þrátt fyrir stöku mótmæli“

Atli Þór Fanndal skrifar um þá ákvörðun stórnvalda að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Auglýsing

Nýsköpunarráðherra hefur lagt niður Nýsköpunarmiðstöð þrátt fyrir andmæli úr öllum áttum. Ráðherra fagnaði niðurlagningu með grein í Morgunblaðinu (Morgunblaðið, 18.04.2021, bls. 6.) þar sem hún lýsti andstöðu við áform sín sem „stöku mótmæli sem ég tel að muni ekki eldast vel.“ Ráðherra lýsir andmælunum með þessum hætti einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir að barátta gegn áformum hennar hafi staðið í 14 mánuði var lítið sem ekkert fjallað um málið í almannaútvarpinu á meðan á því stóð. 

Fréttastofa RÚV svaf í gegnum málið þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og beiðni um að sjá fréttagildi þess að leggja skuli niður stofnun. Lykilatriði er einmitt að fjallað sé um það efnislega. Ég set sjálfur fyrirvara við gagnsemi pólitískra íþróttafrétta þar sem mál eru afgreidd og kölluð umdeild en efnisatriði ekki skýrð. Það gerist því miður allt of oft að mál séu afgreidd þannig.

Málið er í gegn og hrákasmíð ráðherra eru nú lög þrátt fyrir andmæli frumkvöðla, fagfélaga, sveitarfélaga, einstaklinga, fyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga og landsbyggðar. Vegna þess að ráðherra ætlar að stroka út varnarorð tugi umsagna get ég ekki annað en tekið saman varnarorð umsagnaraðila svo sú hugmynd verði ekki ofan á að enginn hafi nú varað ríkisstjórnina við því að tæta í sundur stoðkerfi nýsköpunar mitt í efnahagskrísu vegna COVID19. 

Samantektin er langhundur. Annað er ekki hægt. Fagnaðarlæti er vart að finna utan skrifstofu ráðherra. Listinn er þó ekki tæmandi.

Frá því að drög að frumvarpi ráðherra birtust hafa rúmlega 70 umsagnir borist í málinu. Leitun er að sérstaklega jákvæðum umsögnum en sama er ekki að segja um neikvæðar umsagnir. Leiðarstef í gagnrýninni er skortur á áætlun um hvað tekur við. Því svarar ráðherra aldrei efnislega. Þess í stað sitjum við undir orðasúpu síendurtekið og smásjóðum sem stofnað er til með tilheyrandi húllumhæ, fréttatilkynningum og sjálfshóli en aldrei áætlun, stefnu eða fé sem nokkru skiptir. Endalaus retórík en aldrei greining eða vinna.

Vegna þess að ráðherra telur að varnarorð muni eldast illa er vert að benda á að stjórnmálamenn sem vaða áfram, hlusta ekki á viðvörunarorð, forherðast og endurskrifa söguna sér í hag eiga það til að falla hratt.

Tökum nú saman í hverju þessi stöku mótmæli fólust.

Um hagsmuni landsbyggðar

Ráðherra hefur notað hvert tækifæri til að hrósa sjálfri sér fyrir boðaða byltingu í stuðning við nýsköpun landsbyggðar. Vestmannaeyjabær sagði; „ekki er að sjá að áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni fái umfjöllun í meginefni frumvarpsins.“ 

Akureyrarbær sagði: „Bæjarráð Akureyrarbæjar telur óásættanlegt að leggja fram jafn loðið og óljóst frumvarp og raun ber vitni. Gríðarlegir hagsmunir eru undir í því að skapa öflugt stuðningskerfi við nýsköpun á landsbyggðunum.“ Norðurþing skilaði inn umsögn og segir: „Byggðarráð telur þó að andi meginmarkmiðs lagafrumvarpsins og þau atriði greinargerðarinnar sem fjalla um nýsköpun á landsbyggðinni endurspeglist ekki nægilega vel í lagatextanum sjálfum. Frumvarpið nær því sem næst eingöngu yfir stofnun tækniseturs, tilgang þess og stjórnun.“ Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra sendu frá sér samhljóða umsögn. „Stjórn SSNE telur óásættanlegt að leggja fram jafn loðið og óljóst frumvarp líkt og raun ber vitni.“ 

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gera líka athugasemd við samhengi yfirlýsinga og lagatexta: „Það er hins vegar ekki vikið sérstaklega að stuðningi við landsbyggðina í lagatextanum. SASS áréttar því fyrri umsögn um að nauðsynlegt sé að lagatextinn endurspegli þau markmið frumvarpsins sem fram koma í 1. gr. um að „... efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni." 

Auglýsing
Hvað segir Bláskógabyggð? „Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að tryggja þurfi betur að landsbyggðin beri ekki skarðan hlut frá borði hvað varðar stuðning við nýsköpun og að útfæra þurfi með hvaða hætti ná skuli því markmiði að efla á landsbyggðinni nýsköpun með sveigjanlegu stuðningskerfl, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila.“ 

Þekkingarsetur Þingeyinga sendi umsögn í samráðsgátt ráðherra. Hún var auðvitað hunsuð eins og aðrar umsagnir en hvað kemur þar fram? „ Þá þarf að setja niður lagaákvæði sem gera það ófrávíkjanlega skyldu að efla innviði fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf dreifðari byggða.“ 

Samtök þekkingarsetra skiluðu líka inn umsögn og þar er kunnulegt stef: „Samtök þekkingarsetra vilja koma því á framfæri að brýnt er að festa í texta laganna útfærslu og framkvæmd fyrrgreindra áforma um eflingu opinbers stuðnings við nýsköpun í byggðum landsins. Þannig verði lagatextinn ekki eingöngu útfærsla á stofnun og rekstri félags um afmörkuð verkefni heldur birti hann einnig metnaðarfull markmið frumvarpsins um eflingu innviða nýsköpunar og frumkvöðlastuðnings í byggðum landsins.“

Samtök sveitarfélaga á vesturlandi skrifuðu umsögn sem varla telst sérstaklega neikvæð í samhengi við aðrar umsagnir þar segir þó „ einfaldara og markvissara hefði verið að úthluta þessu fjármagni í gegnum uppbyggingarsjóði sóknaráætlana landshlutanna. Þannig hefði verið auðveldara að fylgja eftir því sem reifað er í greinargerð, að þétta stuðningsnet nýsköpunar á forsendum landshlutanna sjálfra, að auka slagkraft nýsköpunarverkefna sem studd eru af byggðaáætlun og sóknaráætlunum og tengja stuðninginn betur við sóknaráætlun.“ SSV tekur að auki undir með Landshlutasamtökunum.

Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að ráðherra tryggi ekki markmiðin í lagatexta þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar um að stuðningskerfi frumkvöðla á fyrstu stigum sé tekið í sundur á þeim forsendum að landsbyggðin fái að skipta með sér meintum sparnaði. „Eftir sem áður er ekki vikið sérstaklega að stuðningi við landsbyggðina í frumvarpstexta og því endurspeglar frumvarpið ekki nægilega vel þau markmið sem því er ætlað að ná m.t.t. stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Þá telur sambandið að nýsköpunargarðar einir og sér geti ekki talist fullnægja markmiði 1. gr. um sveigjanlegt stuðningskerfi. Ekki er kveðið á um nein önnur stuðningsúrræði í efnisákvæðum frumvarpsins.“

Byggðastofnun sagði: „Byggðastofnun telur að það hefði styrkt verkefnasjóð um nýsköpun og á landsbyggðinni ef hans hefði verið getið sérstaklega í lögunum og staða hans þannig tryggð til lengri tíma.“ Landshlutasamtök bentu á hið sama.

Landsbyggðin var sem sagt ekki sannfærðar um ágæti frumvarpsins.

Getur verið að höfuðborgin fagni þessu frumvarpi? „Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið ötull bakhjarl fjölmargra verkefna á þessum vettvangi og í samstarfi við Reykjavíkurborg hafa ýmis mikilvæg verkefni orðið til og dafnað svo sem samfélagshraðallinn Snjallræði, nýsköpunarmót sem tengja saman lausnir frumkvöðla og þarfir opinbera stofnana, og nú síðast lausnamótið Hack the Crisis. Á þetta einnig við um þá aðstöðu fyrir frumkvöðla sem Reykjavíkurborg og Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafið komið að í sameiningu undanfarin ár, samanber Setur skapandi greina á Hlemmi. Sá kafli sem síst hefur verið útfærður í drögum að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun og hjálagðri greinargerð varðar það hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem snýr að stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki. Reykjavíkurborg hefur á undanförnum misserum fundið fyrir auknum þunga fyrirspurna frá aðilum sem sinna ofangreindum eða öðrum sambærilegum verkefnum. Snúa fyrirspurnirnar í síauknu mæli að fjárhagslegum stuðningi borgarinnar við nýsköpunarverkefni, og rekstur óhagnaðardrifinna nýsköpunarfélaga, klasa og frumkvöðlasetra. Fjöldi og þungi fyrirspurna hefur aukist enn frekar eftir að kunngert var að Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands yrði lagt niður. Er það að okkar mati sterk vísbending um að töluverð óvissa ríki, taka þurfi þennan þátt fastari tökum og skoða ofan í kjölinn hvernig þessari þjónustu og tengdum kostnaði verði mætt eða honum komið fyrir.“ Segir í umsögn Reykjavíkurborgar. Það er erfitt að túlka þetta sem hoppandi gleði.

Vinnubrögð ráðherra sköpuðu beinlínis óvissu meðal frumkvöðla. Auðvelt er að segja sér að breytingar séu bara erfiðar og þeim fylgir óvissa. Slíkt er einfaldlega óábyrg afsökun í þessu tilfelli. Ráðherra gerði nákvæmlega ekki neitt til að draga úr óvissu. Hún hefur enn ekkert gert í þá átt. 

Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar og samstarfsaðilar hennar

Starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar skilaði ítarlegri umsögn. Hana afgreiddu ráðherra og stuðningsfólk sem nagg frá fólki sem óttaðist að missa vinnuna. Slík þröngsýni er ekki til gagns. Auk þess að litið er framhjá því að ráðherra lofaði ítrekað að tryggja störf þeirra. Hafi starfsfólk NMÍ eingöngu verið rekið áfram af þröngum eiginhagsmunum fer þetta illa saman. „Í greinargerð með frumvarpinu segir um NMÍ „að 300 millj. kr., fór í kostnað við rekstur og markaðsmál" og í fyrstu umræðu um þetta frumvarp sagðist ráðherrann ætla að spara þessa fjármuni og skila þeim í ríkissjóð. Þær fullyrðingar um sparnað eru hins vegar úr lausu lofti gripnar.“ Ráðherra lagði mikla áherslu á sparnaðinn sem felst í niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar. Honum ætlar hún að skila aftur í ríkissjóð samhliða því að lofa fé í sjóði hér og þar, viðhalda starfseminni á víð og dreif og auðvitað stækka eigin ráðuneyti. Það atriði fékk aldrei næga athygli. Ráðherrann með niðurskurðarhnífinn gat samt vel skilið þörfina á að stækka við eigið ráðuneyti. 

Þetta með sparnaðinn er áhugavert. Nýsköpunarmiðstöð aflar helming tekna með þátttöku í alþjóðaverkefnum. Þeir sjóðir eru ekki ætlaðir einkaaðilum heldur einmitt opinberri fjárfestingu í Nýsköpun. Með niðurlagningu NMÍ fellur stór hluti þeirra tekna einfaldlega niður. Næst kostar rúmlega 300 milljónir að loka Nýsköpunarmiðstöð. 100 milljónir eru settar í Lóu. Tæknisetur fær framlag til reksturs frá hinu opinbera. Fé fylgir þeim verkefnum sem dreift er á aðrar stofnanir og eftir stendur stuðningur á frumstigum er ófjármagnaður. Ráðherra er búinn að eyða þessu fé. Sparnaðurinn er ekki til staðar og nú stuðningskerfið ekki heldur.

Starfsfólk benti á þennan vanda í umsögn sinni. „Á síðustu áratugum hefur stöðugt þrengt að íslenskum tæknistofnunum og er hlutur þeirra í rannsóknum og þróun einungis brot af því sem gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við eins og sést vel á mynd hér til hliðar. Þessi staða hefur leitt til þess að tækniþróun hefur verið til muna rýrari á Íslandi en æskilegt hefur verið. Og nú leggur ráðuneyti nýsköpunar, sem er ábyrgt fyrir þessum málaflokki, til að enn verði áherslan minnkuð með því að færa starfsemina, sem að mestu er upp á ríkið komin, yfir í einkafyrirtæki sem sem ríkið beri óverulega ábyrgð á. Jafnvel þótt gerður verði þjónustusamningur við ríkið sem skilaði sömu grunnfjármögnun og ELO hefur í dag þá hefur slíkt fyrirtæki til muna minni möguleika á að fjármagna verkefni sín í gegnum innlenda og erlenda sjóði og getur fyrir vikið ekki sinnt tækniþróun og nýsköpun jafn vel og ríkisstofnunin gerir í dag. Á þetta hafa starfsmenn NMÍ, rektor HÍ og Vísindafélag Íslendinga bent. Samfélagið þarf á tækniþróun að halda og því er hér lagt til að rekstrarformi ríkisstofnunar sé haldið og grunnfjármögnun bætt. Varðandi erlenda sjóði þá mun staðan versna að tvennu leyti miðað við breytt rekstrarform:

a) Hætt er við að styrkhlutfall til ehf formsins verði lægra en ríkisstofnunar í nýsköpunarverkefnum, jafnvel að því marki að fyrirtækið muni síður treysta sér til þátttöku í slíkum verkefnum. Þetta er viðurkennt í greinargerð með frumvarpinu.

b) NMÍ hefur verið í forystu fyrir alþjóðlegum þróunarverkefnum, slíkt getur verið verðmætt fyrir íslenska hagaðila. Ehf formið getur það væntanlega ekki vegna lítils fjárhagslegs styrk. Þannig eru t.d. tvö verkefni nú í matsferli hjá EC þar sem NMÍ er í forsvari (upp á samtals 2,4 milljarða), á sviði lífhagkerfis og nýtingar endurnýjanlegrar orku til skipaflutninga, ef þau eru styrkt þá á NMÍ að hafa umsjón með dreifingu nokkurra hundruð milljóna króna til þátttakenda hverju sinni. Það er ljóst að EC mun ekki samþykkja að einkafyrirtæki sem á ekkert nema nokkur óseljanleg tæki (stofnframlag skv. frumvarpinu) verði treyst til að vera í forsvari fyrir slík verkefni.“

Auglýsing
Vegna þess að hér hefur verið minnst á Vísindafélag Íslands er vert að vitna í umsögn félagsins um þetta afspyrnu vonda frumvarp sem ráðherra keyrði í gegn með naumum þingmeirihluta. „Vísindafélag Íslands hefur þungar áhyggjur af því að þær aðgerðir sem kveðið er á í frumvarpinu séu ekki nógu vel ígrundaðar og feli í sér meiri skaða en ávinning fyrir nýsköpun og tækniþróun á Íslandi.“ Háskóli Íslands lét ekki standa á sér að vara ráðherra við. „Ljóst er að rekstrarkostnaður Nýsköpunargarða ehf [Nafninu var breytt þegar frumvarpið var lagt fyrir þingið]. verður töluverður. Má þar fyrst nefna launakostnað, kostnað við leiguhúsnæði í Vatnsmýrinni, viðhaldskostnað tækja en auk þess má nefna kostnað við að sérhanna og setja upp nýja aðstöðu í Vatnsmýrinni, endurnýja úreltan tækjabúnað sem mun ekki flytjast frá Nýsköpunarmiðstöð o.fl. Rekstrarmódel Nýsköpunargarða ehf. virðist ganga út frá því að töluverðar tekjur séu að berast úr styrkumsóknum auk þess sem einhverjar tekjur berist af sölu á þjónustu og þá fái félagið fast framlag frá ríkinu. Það er áhættusamt rekstrarmódel að ganga út frá því að skipulagsheild hafi árlegar fastar tekjur af styrkumsóknum sem standi að stórum hluta undir rekstri félagsins. Og er enn meiri áhætta fólgin í því að treysta á að breyting á formi skipulagsheildar, þ.e. úr stofnun yfir í ehf. hafi engin áhrif á styrkjamöguleika. Hafa ber í huga að til þess að fá þessar tekjur þurfa Nýsköpunargarðar ehf. að hafa sérfræðinga í starfi til að uppfylla þær skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til, skrifa nýjar styrkumsóknir og ekki síst vinna þá vinnu sem lofað er í styrkumsóknum. Það þarf því að skoða sérstaklega hversu auðvelt það er að hagræða í rekstri og á sama tíma mæta skuldbindingum Nýsköpunarmiðstöðvar. Fyrirtæki sem byggir rekstur sinn að stórum hluta á styrkjum mun aldrei vera í stöðugum rekstri.“

Listinn yfir þá sem lýstu efasemdum um gæði frumvarpsins heldur áfram: Arkitektafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna skrifuðu einstaklega harða umsögn gegn ráðherra. Félagið einfaldlega tætti ráðherra og frumvarpið í sig. „Í frumvarpinu er í grundvallaratriðum litið framhjá þörfum nýsköpunar á frumstigi, sem þó er forsenda þess að markmiðum stjórnvalda um nýtingu hugvits til nýsköpunar verði náð. SFH leggjast því eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd og án tillits til hagsmuna og tillagna frumkvöðla og hugvitsfólks. Frumvarpið hefur þann megintilgang að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) og beina nokkrum hlutverkum hennar, og því almannafé sem til hennar hefur runnið, inn í einkahlutafélag. Vissulega var, eins og SFH hafa áður bent á, full þörf á endurskoðun laga nr 75/2007, en með því að afnema þau á þennan hátt, og án þess að fyllilega sé tryggt að annað komi í staðinn, er lagt inn á hættulega braut“. 

Fleira kemur fram í umsögninni þar á meðal þetta: „Engin haldbær skýring eða ástæða hefur verið lögð fram fyrir þessum gerningi. Í greinargerð eru markmiðin sögð þau að „efla stuðning við nýsköpun í landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila". Ekki er þetta rökstutt frekar, enda rökleysan ein. Öllum þessum markmiðum hefði mátt ná með áframhaldandi starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands; þó vissulega hafi verið full þörf á að skerpa þar á verklagi og breyta nokkrum lagagreinum, eins og t.d. Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna hafa ítrekað bent stjórnvöldum á.“

Félag íslenskra náttúrufræðinga gerði athugasemd við vinnubrögð ráðherra. „Félagið gerir almennar athugasemdir við framkvæmd ráðherra það er að hefja niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) áður en fyrir liggi samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum sem ráðherra hefur leitt sl. mánuði. Að mati félagsins er ljóst að vanda hefði mátt undirbúning mun betur og hafa beint samráð við viðkomandi stéttarfélög og aðra hagsmunaaðila á fyrri stigum og þannig hefði auðveldlega verið unnt að sýna fram á mögulega annmarka sem nú hafa raungerst.“ Félagið bætir tekur undir neikvæðar umsagnir. „Félagið tekur undir þá gagnrýni sem hefur komið fram í umsögnum aðila um þau áform um að leggja niður NMÍ og flytja verkefni stofnunarinnar annað: Að það hefði verið eðlilegra að setja af stað heildarendurskoðun á stofnuninni fremur en að leggja hana niður. Að enginn annar aðili en NMÍ veitir þá þjónustu og stuðning sem hér um ræðir á svo víðtæku sviði í dag og því er hætta á að við þessa breytingu tapist þekking frá NMÍ. Að það hefði þurft lengri aðdraganda og betri ígrundun til þess að tryggja að ávinningur af aðgerðum verði meiri en mögulegur skaði af þeim.“

Sjálfur kom ég að skrifum umsagnar Space Iceland vegna málsins. Sanngjarnt er að segja að okkar umsögn hafi verið afar gagnrýnin og líklega lengri en frumvarpið sjálft og greinargerð. Umsögnin er 45 blaðsíður og því ætla ég ekki að gera lesendum að vitna um of í umsögnina en hér má sjá okkar hug á skilning ráðherra á góðum vinnubrögðum og eflingu nýsköpunar. „Space lceland getur ekki stutt framgang frumvarpsins. Það er illa unnið, í andstöðu við eigin yfirlýst markmið, tímarammi breytinga er of stuttur, greiningar vantar, vandamálin sem ætlað er að leysa eru hreinlega ekki í tengslum við boðaðar aðgerðir, samráð skortir og að mati Space lceland er einfaldlega óafsakanlegt á tímum efnahagslegrar niðursveiflu að eyðileggja stuðningskerfi nýsköpunar með þeim hætti sem hér er lagt til án ítarlegra greininga og áætlunar um hraða uppbyggingu hins nýja stuðningskerfis. í stuttu máli telur Space lceland þetta frumvarp einfaldlega ekki fullorðins og furðar sig á að slík hrákasmíð sé lögð fram með tilheyrandi vinnu fyrir löggjafann og hagsmunaaðila.“

Fjöldi einstaklinga skrifaði ráðherra umsagnir þar sem lýst er yfir verulegum áhyggjum. Kristján Leósson, þróunarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment ehf skrifaði umsögn sem fór ítarlega yfir rökvillu ráðherra. „Því miður er fyrirliggjandi frumvarp Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ, án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum, án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar, án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi viðkomandi rannsóknastofnana atvinnuveganna en þeirra sem snúa að nýsköpunarumhverfinu, án greiningar á hvar helstu tækifæri Íslands í tæknirannsóknum liggi og án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur af framlagi hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð. Undirritaður telur að réttast væri að fresta því að leggja fram umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.“
Ágúst Þór Jónsson, verkfræðingur skrifaði afar góða umsögn sem telst varla neikvæð en alls ekki jákvæð. Ágúst gerði tillögu sem taka hefði átt til greina. „Til styrkingar Tæknistofnunar er enn fremur lagt til að mælifræðistarfsemi Neytendastofu verði sameinuð nýrri Tæknistofnun. Með því fengist stærri og sterkari eining sem hefði meiri möguleika til þess að veita breiða og góða þjónustu. Þá skal einnig nefnt á að mæðifræðideild Neytendastofu er faggilt starfsemi. Innan deildarinnar ríkir þess vegna menning sem byggir á þeirri hugmyndafræði sem hefði mikla þýðingu fyrir uppbyggingu Tæknistofnunar enda myndu innri gæða og hæfniskafi mælifræðideildar geta nýst á öllum sviðum Tæknistofnunar.“ Ágúst reyndi þar að svara áhyggjum fjölda umsagnaraðila vegna ákvörðunar ráðherra með tillögu að betri framkvæmd. Það var hunsað eins og annað.

Höldum áfram að fara yfir umsagnir einstaklinga.

Bjarnheiður Jóhannsdóttir skrifaði ráðherra í gegnum samráðsgátt. „Almennt virðist sem það skorti sýn á það í þessum drögum að aðrar greinar en tæknigreinar geti leitt af sár nýsköpun.“ 

Ingibjörg Ólafsdóttir gerði hið sama. „Í starfi sem ég áður gegndi, kom upp mál þar sem erlent stórfyrirtæki og eigandi vörumerki þess sem unnið var með vildi fá mjög nákvæmar upplýsingar um það sem var að gerast hjá viðkomandi fyrirtæki. Fékk frábæra starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar til að greina ákveðna hluti. Fyrir erlenda stórfyrirtækið virtist það skipta öllu máli að um opinbera stofnun væri að ræða sem annaðist greiningarnar, ekki einkafyrirtæki sem hugsanlega hefði verið hægt að greiða fyrir hagstæða niðurstöðu. Að hafa aðgang að þessari þjónustu frá opinberum aðila skipti í þessu tilfelli öllu máli við að afstýra frekari vandræðum.“ 

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir skrifaði ráðherra og sagði „Ef tilgangur frumvarpsins er að efla nýsköpunarumhverfið og auka skilvirkni þess stuðnings sem í boði er, hraða þróun framúrskarandi nýsköpunarverkefna og auka þannig verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Ætti frumvarpið að snúast um að gefa í og efla nýsköpun, með því að bæta við fulltrúum Nýsköpunarmiðstöðvar á landsbyggðinni. Það er ómetanlegt að hafa tengslanet sérfræðinga út um allt land. Störf á staðsetningar virka í báðar áttir.“ Hulda segist styðja „það að efla nýsköpun, en ekki að stöðva hjól nýsköpunar.“

Gylfi Sigurðsson byggingarverkfræðingur sá ástæðu til að skrifa ráðherra í gegnum samráðsgátt. „Þegar leggja á niður svo mikilvæga stofnun blasir við hætta á að tómarúm myndist, þjónusturofi fyrir fyrirtæki og stofnanir, spekileka, fágæt þekking og reynsla tapist, verðmæt tengsl inn á við og út á við fari í súginn o.s.frv. Það er því afar brýnt eins og áður segir, að þingmenn íhugi stöðuna sem upp er komin gaumgæfilega.“

Greta Ósk Óskarsdóttir skrifaði nokkrar ítarlegar athugasemdir í samráðsgátt sem að mestu fóru yfir byggingarannsóknir og baráttuna gegn mygluskemmdum í húsnæði. Í einni umsögninni segir hún „Þetta frumvarp er allt svo óljóst orðað að ráðherra getur í raun bara gert næstum hvað sem ráðherra sýnist ef það rennur óbreytt í gegn. Það er áberandi hversu óljóst þetta allt er og hversu erfitt er að nálgast upplýsingar.“ 

Ég má til með að taka fram að Greta skrifaði fjölda umsagna þar sem vitnað er í heimildir og farið ítarlega yfir atriði er varða byggingarannsóknir. Fyrir þá vinnu fékk hún bágt frá aðstoðarframkvæmdastjóra og hagfræðing Viðskiptaráðs sem sagði samráðsgáttina „hægt og bítandi að breytast í athugasemdakerfi DV.“ Látum það nú vera að Viðskiptaráð tali niður þátttöku almennings í umsögnum. Merkilegra er að sjá flokksfélaga Nýsköpunarráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra taka undir og gera grín að umsögnum almennings. Samráðsgátt stjórnvalda er gagngert sett upp til að ýta undir þátttöku almennings og auðvelda aðkomu að lagasetningu. Að dómsmálaráðherra geri lítið úr samráðsgáttinni og þeim sem þar taka þátt er kannski ekki risastórt hneykslismál en vinnur kannski ekkert sérstaklega með markmiðum samráðsgáttar.

Skjáskot af dómsmálaráðherra í góðu tómi að gera lítið úr þátttöku almennings á vinnslustigi frumvarps.

Valdimar Össurarson, framkvæmdastjóri Valorku ehf. og formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna skrifaði álit sem einstaklingur auk umsagnar félagsins. „Í framlögðu frumvarpi er áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni eitt markmiða laganna, sbr. 1. grein frumvarpsins „Markmið laga þessara er að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á ​nýsköpun á landsbyggðinni“. Í skýringum með frumvarpinu kemur einnig fram að „framlög til og áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni verði aukin í samvinnu við sveitarfélög, landshlutasamtök, atvinnulíf og þekkingarsamfélög á staðnum“. Á þessum grunni eru enn fremur rakin í frumvarpinu áform um að móta „ ... umgjörð um stafrænar smiðjur (e. fab-labs) og nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (NFM) í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti.“ Á fleiri stöðum í skýringum með frumvarpinu er vísað í eflingu nýsköpunar á landsbyggðinni og aukningu framlaga til þeirra verkefna í samráði við aðila í héraði. Texti frumvarpsins sjálfs er, þrátt fyrir ofangreind markmið og áform, að langmestu leyti útfærsla á stofnun tiltekins einkahlutafélags um afmörkuð verkefni á grunni starfsemi og húsnæðis Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Reykjavík.“

Aron Bjarnason, deildarstjóri Viðhalds brúa og varnargarða hjá Vegagerðinni skrifar umsögn í samráðsgátt. „Hér er á ferðinni alvarlega misráðið verkefni, með því að leggja niður NMÍ og stofna eitthvað annað sem á að vera í samstarfi við Háskóla og fyrirtækja. Með þessu er verið að kippa undirstöðum undan framúrskarandi rannsóknarvinnu sem fer fram í dag á NMÍ. Verkefni sem unnin eru fyrir Vegagerðina hjá NMÍ er erfitt að framkvæma annars staðar en hjá NMÍ bæði vegna aðstöðuleysis og vöntunar á fjármagni svo ekki sé talað um alla þá sérfræðikunnáttu þar innanhúss sem snýr að steypu, jarðefnum og ýmis konar byggingarefnum. Í samstarfi við NMÍ hefur verið þróuð gríðarlega endingargóð steinsteypa/viðgerðarsteypa sem á engan sinn líkan í veröldinni og er notuð til viðgerða á brúm víða á landinu. Sérfræðingar hjá NMÍ hafa alla tíð haft mikið frumkvæði í þróun og rannsóknarvinnu, minnast má á mygluhúsið þar sem fram fóru viðamiklar rannsóknir á myglu í húsum. Enginn hér á Íslandi fór í þessa vegferð nema NMÍ. Hætta er á að sú þekking sem þar er innanhúss glatist og sú dynamic hverfi. Þakka ber þeim öllum fyrir sérstaklega óeigingjarnt starf í þágu byggingariðnaðarins, vegagerðar og almennings alls.“

Albert Svan Sigurðsson er annar einstaklingur sem skrifar um málið. „Um leið og ég er tilbúinn að samþykkja breytingar þannig að allar úthlutanir og veitingar samkeppnisstyrkja í nýsköpun verði færðar til Rannís og þá háðar leikreglum Vísindasiðanefndar, þá lýst mér mjög illa á að það góða leiðbeinandi starf sem Nýsköpunarmiðstöð hefur sinnt verði sett í uppnám. Ef nauðsyn er að færa málefni annað ætti að gera það á nokkrum árum þannig að mögulegt sé að ljúka verkefnum sem þegar eru vel á veg komin (yfir 2 ár), fremur en að skapa tafir á góðum nýsköpunarverkefnum um ókominn tíma með breyttu stjórnarfyrirkomulagi.“

Jónas Snæbjörnsson segir „það er töluverð hætta á því að þessar aðgerðir muni skaða rannsóknarinnviði á Íslandi. Þessir innviðir felast bæði í þeim tækjabúnaði sem til staðar er og byggður hefur verið upp á löngum tíma, sem og þeim samlegðaráhrifum sem felast í að reka þá á einum stað auk þeirrar þekkingar sem um rannsóknirnar skapast á þeim stað sem þær eru framkvæmdar. Með því að tvístra starfi NMÍ á marga staði er hætta á að tapa þeirri kunnáttu og hæfni sem felst í mannauði stofnunarinnar. Sú þróun er raunar þegar byrjuð þar sem margir starfsmenn hafa valið að leitað sér tækifæra á öðrum vígstöðvum. Vísinda- og rannsóknarstarf er mjög háð því að samfella haldist í starfinu og rekstri þeirra innviðum sem að því snýr og því þarf að stíga varlega til jarðar þegar starfsemi er lögð niður eða endurskipulögð.“

Skortur á upplýsingum, samráði og greiningum

Ítrekað er ráðherra gagnrýnd fyrir skort á samráði og ítrekað óskuðu umsagnaraðilar eftir slíku. Finna má dæmi um óskum um fundi sem ekki var svarað. Aðrar umsagnir benda á fyrri vinnu sem ráðherra skoðaði ekki. Sjálfur hef ég nokkrar reynslu af þessum hluta málsins. Í kjölfar tilkynningar ráðherra í febrúar 2020 sendi Space Iceland upplýsingabeiðni á ráðuneytið og óskaði gagna sem leiddu til ákvörðunar ráðherra um að leggja skuli stofnunina niður. Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni. Space Iceland skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Þótt Space Iceland hafi ekki fengið gögnin utan einnar glærukynningar sem gerð var um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar var okkur birtur listi yfir þau gögn sem ráðherra taldi greiningu að baki ákvörðunarinnar sem tilkynnt var um í febrúar.

  1. „Frumúttekt á NMÍ“, vinnuhópur um frumúttekt á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í tengslum við gerð nýrrar nýsköpunarstefnu, maí 2019.
  2. 2. Yfirlit yfir hlutverk og starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, unnið fyrir atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið, desember 2019.
  3. 3. Greining á hlutverki og verkefnum, kynning fyrir ráðherra, desember 2019.
  4. Hagaðilagreining – drög, janúar 2020.
  5. Nýsköpunarmiðstöð Íslands – Hlutverk og verkefni. Minnisblað til ríkisstjórnar Íslands 28. janúar 2020.
  6. Nýsköpunarmiðstöð Íslands – Hlutverk og verkefni. Minnisblað til ríkisstjórnar Íslands 2. febrúar 2020.
  7. Nýsköpunarmiðstöð Íslands – Hlutverk og verkefni. Minnisblað til ríkisstjórnar Íslands 25. febrúar 2020.

Ráðherra stóð sig nefnilega ekki bara illa í að veita upplýsingar. Hún beinlínis setti stein í götu þeirra sem óskuðu þeirra. Space Iceland kærði en fjöldi umsagnaraðila gagnrýndi einmitt skort á upplýsingum. Athygli vekur að meðal gagna sem týnd eru til er frumúttekt í tengslum við nýja nýsköpunarstefnu. Vinnu við þá stefnu er lokið og hún birt en skjalið telur ráðherra sér ekki skylt að birta (og úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki heldur). Í nýsköpunarstefnu er ekki gerð tillaga um að loka stofnuninni heldur: „Unnið verði að endurskoðun og stefnumótun um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í þeim tilgangi að skilgreina hlutverk hennar og áherslur í stuðningskerfi nýsköpunar.“ Þessi vinna fór ekki fram. Þess í stað tilkynnti ráðherra lokun. Greiningu á hlutverkum og verkefnum er það skjal sem úrskurðarnefnd lét afhenda Space Iceland. Um er að ræða stutta glærukynningu þar sem farið er yfir deildaskiptingu Nýsköpunarmiðstöðvar. Grunnskólabarn myndi ekki kalla skjalið greiningu. Þá eru þrjú minnisblöð til ríkisstjórnarinnar. 

Við birtingu listans yfir þau skjöl sem teljast til greiningarvinnu er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort nokkurt þessa skjala geti talist sem greining til svo stórra ákvarðana.

Aftur af stöku mótmælum

Í nefndaráliti fyrsta minnihluta kemur fram að 86 aðilar hafi mætt á fund atvinnuveganefndar vegna málsins. „Flestar umsagnir um málið voru nokkuð neikvæðar, þar komu fram áhyggjur af stöðu frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref, stuðningi við nýsköpun á landsbyggðunum og stöðu og fjármögnun byggingarrannsókna í framhaldi af niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar. Einnig komu fram áhyggjur af rekstrarformi tækniseturs, fjármögnun og óljósu hlutverki þess. Þá komu einnig fram áhyggjur af því að með frumvarpinu væri dregið verulega úr stuðningi við nýsköpun í víðari skilningi. Eins var gagnrýnt hversu illa málið væri unnið af hálfu ráðuneytisins. Allar innsendar umsagnir hafa á sinn hátt gagnast við vinnu nefndarinnar og ber að þakka þeim sem sendu þær inn.“

Auglýsing
Annar minnihluti sagði þetta um frumvarp ráðherra. „Að mati 2. minni hluta var frá upphafi ljóst að frumvarp þetta væri ófullburða, svo sem sjá má af því að af hálfu meiri hlutans eru gerðar umtalsverðar breytingartillögur við efni þess. Ber að meta þá viðleitni meiri hlutans til að færa málið í betra horf. Við umfjöllun um málið hafa fulltrúar meiri hluta og beggja minni hluta lagt sig fram um að leggja til breytingar með það að markmiði að bæta efni frumvarpsins.

Þá bendir 2. minni hluti á að ítarleg og hátimbruð markmiðslýsing í 1. gr. frumvarpsins á sér enga samsvörun í innihaldi þess. Á þetta var ítrekað bent í umsögnum og af hálfu gesta á fundum nefndarinnar. Má með hæfilegri einföldun segja að virkar efnisgreinar frumvarpsins séu aðeins tvær; að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og að veita ráðherra heimild til að stofna nýtt félag, þ.e. einkahlutafélag um starfsemi tækniseturs.“

Meðal annarra mótmæla voru svo bréfaskrif til þingmanna þar sem biðlað var til þeirra að stimpla ekki hrákasmíð ráðherra heldur krefjast betri vinnubragða, greininga og fyrst og fremst áætlana um hvað tekur við. 

Ráðherra hlustaði aldrei og lagði sig allan tímann fram við að tala niður þá sem lýstu yfir áhyggjum og ítrekað biðluðu til ráðherra og þingsins að vinna heimavinnuna. Allir þessir aðilar spiluðu eftir settum reglum en fengu þögn, háð og nú hrokafulla endurskrif á sögunni.

Hverjir stóðu þá með þessu máli?

Nokkrar umsagnir voru jákvæðar. Til dæmis Samtök Iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. Vart er hægt að segja að stuðningur þeirra sé mjög ákafur en vissulega fagna þau samkeppnissjóðum til byggingarannsókna. „Taka samtökin einnig heilshugar undir mikilvægi þess að koma á og halda uppi öflugum rannsóknum á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar en allt of lítið fjármagn hefur runnið til slíkra verkefna á undanförnum árum. Það er löngu tímabært að framlög til byggingarannsókna verði aukin og fagna samtökin því að komið verði á fót rannsóknasjóði byggingarannsókna.“ Samtök verslunar og þjónustu fagna áformum ráðherra um að „auka möguleika fyrirtækja á einkamarkaði til að annast mælingar og prófanir.“ 

Í þingsal tók enginn stjórnarliða til máls utan framsögumanns meirihluta sem er skylt að kynna nefndarálit. Stjórnarþingmenn vörðu málið aldrei í þingsal því enginn skilur hvað ráðherra er að fara. Stjórnarandstaðan varaði eindregið við því að frumvarpið yrði að lögum.

Einkennilegast við þetta mál er svo að ekkert gekk að fá Fréttastofu Rúv til að fjalla um málið fyrr en eftir því var lokið. Þá af einstakri leti þar sem aðalatriði var gert úr því að frumvarpið væri umdeilt en ekki hvers vegna það er umdeilt. Það kemur mér ef til vill mest á óvart í öllu þessu ferli. Að hægt sé að leggja niður heila ríkisstofnun án þess að fréttastofa taki við sér - sjái ástæðu til að gera því skil. 

Auglýsing
Reyndar lagði ríkisstjórnin í raun niður tvær ríkisstofnanir á einum klukkutíma í síðustu viku. Fyrst Nýsköpunarmiðstöð og svo næst skattrannsóknarstjóra en frumvarp þess eðlis lauk annarri umræðu á sama tíma. Þeir sem fylgjast með Alþingi vita að þriðja umræða er formsatriði. Kannski verður saga Skattrannsóknarstjóra skrifuð á þann veg að öll höfum við verið meðsek með þeirri ákvörðun. Gögn málsins sýna auðvitað allt annað.

Nýsköpunarráðherra hefur tekist það ætlunarverk sitt að rústa stoðkerfi nýsköpunar án áætlunar um hvað tekur við. Mjög hefði komið til greina að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð ef greiningar og áætlun fylgdi. Ráðherra hafði aldrei áhuga á samtali. Nú tekur við tómarúm enda áætlun um hið glæsilega stuðningskerfi ekkert. Markmið ráðherra var alltaf að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð. Þá stofnun á Íslandi sem styður þau okkar til nýsköpunar sem ekki tengjast milljónamæringum blóð- eða flokksböndum.

Nú skrifar hún söguna sem svo að vel hafi verið tekið í hugmyndaskort hennar og strokar um leið út þá miklu vinnu sem fólk víða úr samfélaginu lagði á sig í von um að ráðherra sæi af sér og legði fram alvöru áætlun um hvernig opinberum stuðning við nýsköpun verður háttað.

Það er óþarfa kurteisi við ráðherra af hálfu fjölmiðla að leyfa henni án áskorunnar stroka út öll varnarorð sem henni mættu í herferð hennar gegn stuðning við frumkvöðla. Enn vantar útfærslu.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Space Iceland.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar