Málefni Landspítalans komu enn og aftur til umræðu í Silfrinu 14. Nóvember og spurt var hvar ábyrgðin liggur á slæmri stöðu hans. Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir og formaður Læknaráðs var til svara og beindi ábyrgðinni einkum að stjórnvöldum en í stuttum þætti er ekki hægt að gera svo flóknu máli nákvæm skil. Það er rétt að stjórnvöld fremur en stjórn spítalans bera hér mesta ábyrgð en fara þarf mörg ár aftur í tímann til að skilja samhengið.
Sameining spítalanna
Þegar rætt var um að sameina spítalana í Reykjavík í einn í lok síðustu aldar tók stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) afstöðu til málsins eftir töluverðar umræður. Þar vógust á tvö sjónarmið. Annað var sjónarmið lækna sem höfðu getað valið um starfsvettvang við komu til landsins úr sérnámi eða skipt um vettvang ef þeim líkaði ekki aðstaðan en þeir myndu ekki hafa það val lengur og menn höfðu því áhyggjur af nýliðun. Hitt var samfélagslega sjónarmiðið; að nútímaspítali væri svo dýr í rekstri að ekki væri rétt að skipta takmörkuðum fjármunum. Síðarnefnda sjónarmiðið varð ofan á og LÍ studdi sameiningu að því tilskyldu að byggður yrði nýr spítali og var í þessu samstíga heilbrigðisyfirvöldum.
Undir lok sameingarferilsins árið 2007 mætti nýr heilbrigðisráðherra á fund læknaráðs spítalans en ráðið sem nú hefur misst sinn sess í stjórnskipan spítalans starfað þá samkvæmt lögum og ráðherrar mættu venjulega á fund ráðsins einu sinni á ári. Hann lýsti því yfir að spítalinn væri of stór. Þetta er auðvitað gilt sjónarmið sem gott hefði verið að ræða til hlítar. Í samræmi við þessa sýn voru fjárframlög til spítalans lækkuð í fjárlögum sem samþykkt voru í lok þess árs sem í sögunni hefur verið lýst sem árinu þegar landið var á hæsta tindi og allt virtist mögulegt. Því miður var ekki skilgreint hvaða þjónusta ætti að fara af spítalanum né hvert.
Hrunið og eftirköst þess
Svo kom hrunið. Starfsfólk spítalans var beðið um að koma með sparnaðartillögur og bárust yfir 1200 tillögur. Þær hjálpuðu þannig að Landspítalinn varð sú ríkisstofnun sem tókst best upp með sparnað á árunum 2009-2010 en það er alveg ljóst að þjónustan leið fyrir þetta, m.a. vegna fækkunar legurýma.
Allt þetta gerði að verkum að þegar landið tók að rísa á ný var ástandið orðið mjög dapurt og fréttir af slæmu ástandi á spítalanum urðu tíðari. Fjárveitingavaldið jók framlög á næstu árum og það virtist vera mikill samhljómur í samfélaginu um að styrkja bæri heilbrigðiskerfið. Þetta kom m.a. í ljós í undirskriftasöfnun sem Kári Stefánsson hafði forgöngu um. Þessi aukning varð þó ekki meiri en svo að hún rétt nægði fyrir launahækkunum starfsfólks eins og fram hefur komið í góðri samantekt Gylfa Zoega hagfræðings í byrjun þessa árs. Þjónustan hefur því ekkert getað eflst og eftir að heimsfaraldur hófst (og stendur enn) var ljóst að ekki var borð fyrir báru og innlagnir á legudeildir og gjörgæslu bitnuðu á annarri þjónustu enda var nýting að jafnaði um og yfir 100% fyrir faraldur. Einnig mætti færa rök fyrir því að ef spítalinn hefði haft eðlilegan legurúmafjölda miðað við íbúafjölda og aldurssamsetningu hefði ekki þurft að grípa til jafn víðtækra aðgerða í samfélaginu og raunin varð, einkum í seinni hluta faraldurs.
Skortur á langtímasýn
Vandinn felst í skorti á langtímasýn og skýrri áætlun sem byggir á þeirri sýn. Þetta virðist vera grundvallarmein í íslenskri stjórnsýslu og gildir um mörg önnur svið. Þegar gerður er samanburður við önnur lönd sést sérstaða okkar glöggt. Í Danmörku er unnið að stóru verkefni sem er bygging ganga suður til Þýskalands. Byggja þarf viðamikla innviði vegna verkefnisins en nú þegar er búið að ákveða til hvaða verka þeir eiga að nýtast við verklok árið 2029 eða eftir átta ár. Hér á landi er enn ekki búið að ákveða hver verða næstu skref eftir að nýr meðferðarkjarni spítalans opnar árið 2026. Ekki hefur verið ákveðið hvað verði um spítalann í Fossvogi né hvort hugsanlega eigi að efla önnur sjúkrahús í nágrannasveitarfélögum en það gæti verið skynsamlegur kostur. Sjúkrahúsið á Akureyri, sem alltaf hefur haft góða ímynd ætti einnig að vera inni í þeirri framtíðarsýn. Í mörg ár hefur legurýmum á Landspítalanum fækkað þegar miðað er við íbúafjölda og aldurssamsetningu hvort sem miðað er við svæðið eða landið allt að ekki sé talað um aukningu á fjölda ferðamanna. Á einhvern hátt verður að snúa þessari þróun við og í næstu ríkisstjórn verður öll stjórnin að standa við bakið á heilbrigðisráðherra sem aftur verður að bera meginábyrgð á að leggja stefnu til næstu áratuga.
Höfundur er fyrrum yfirlæknir á Landspítalanum og er þar enn í hlutastarfi.