Í bókinni Endimörk hagvaxtar (e. Limits to Growth) sem kom út árið 1972 er lítil dæmisaga um liljur sem vaxa á tjörn. Liljurnar tvöfaldast á hverjum degi og fylla tjörnina á 30 dögum. Fyrstu dagana taka liljurnar lítið rými og tjörnin er aðeins hálffull á 29 degi. Þá vakna menn við vondan draum því nú er aðeins einn dagur eftir uns tjörnin fyllist alveg. Ástandið í umhverfis- og loftslagsmálum er líkt að því leyti að ennþá virðist allt vera í lagi, nægilegt svigrúm er fyrir fólksfjölgun og nýtingu náttúrunnar fyrir þarfir mannkyns. En tíminn til að grípa til aðgerða og stöðva vöxt útblásturs á gróðurhúsalofttegundum, mengun, skógareyðingu og útrýmingu lífvera er að renna út með vaxandi hraða.
Rannsóknir og varnaðarorð sem birtast í bókinni Endimörk Hagvaxtar eru enn að miklu leyti í fullu gildi. Þróunin hefur þó verið önnur fram að þessu á ýmsum sviðum. Hægt hefur á fólksfjölgun en á móti kemur vaxandi neikvæð áhrif gróðurhúsalofttegunda. Í bókinni er aðeins stuttlega fjallað um áhrif gróðurhúsalofttegunda enda hættan af hlýnun ekki ljós á þeim tíma. Þó er réttilega framreiknað magn CO2 í andrúmsloftinu árið 2000 en lengra ná útreikningarnir ekki. Einn helsti annmarkinn á aðferðafræði höfundanna er að geta markaðsaflanna er vanmetin einkum til að hindra skort á hráefnum. Ef framboð og eftirspurn ráða er ekkert sem heitir skortur á hráefnum, aðeins mismunandi verð. Í flestum tilvikum er val um fleiri en eitt hráefni í framleiðsluferli. Hækki verð á einni vöru óhóflega nota menn eitthvað annað í staðinn sem verður því hagkvæmara sem varan verður dýrari. Jafnframt verður endurvinnsla hagkvæmari svo sem í tilviki málma.
Markaðinn þarf að virkja- þeir eiga að borga sem menga
Ytri óhagkvæmni (eða hagkvæmni) kemur ekki fram í verðlagningu einkaaðila, því verður hið opinbera að bæta upp markaðsbrestinn með beinni gjaldtöku eða uppboðum á mengunarkvótum. Til þess að markaðsöflin vinni gegn mengandi útblæstri verður kostnaður af mengandi starfssemi að koma fram í markaðsverðum. Fyrirtæki sem menga sjá þá hækkaðan framleiðslukostnað, viðskiptavinir þeirra borga hærra verð en þolendur sjá væntanlega minni mengun umhverfisins. Jafnframt styrkist samkeppnisstaða fyrirtækja sem ná að draga úr mengun eða kolefnisspori. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur lagt áherslu á að beita markaðsöflunum til að vinna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda einkum með álagningu kolefnisgjalda. Í tillögum AGS er meðal annars lagt til að stærstu ríki heims leggi á eins konar grunnkolefnisgjald sem yrði síðan leiðbeinandi fyrir önnur lönd. Vandamálið er að leggi einstök lönd á kolefnisgjöld án alþjóðlegrar samvinnu verður að beita flóknum innflutningsgjöldum á vörur frá löndum sem eru ekki með slík gjöld. Að öðrum kosti veikist samkeppnisaðstaða. Hugmynd AGS um sameiginlegt grunngjald virðist skynsamleg. Hversu há slík gjöld eiga að vera er vandasöm spurning en ráðstöfun tekna ætti að fara til styrkingar á grænni framleiðslu sem getur komið í stað mengandi framleiðslu.
Í 50 skrefa áætlun ríkisstjórnarinnar er talað fyrir kolefnisgjaldi en ekki gerð tilraun til að beita markaðstengdum mengunargjöldum og peningalegum hvötum í þeim mæli sem æskilegt er. Þetta þarf að laga; boð og bönn eru bitlaus ef verðkerfið er ekki nýtt samhliða. Lítið dæmi er notkun nagladekkja. Hægt er að leggja mengunargjald á slík dekk sem mætti nota til að bæta hálkuvarnir.
Ný orkustefna
Milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum streyma frá stóriðju sem staðsett er hér á landi. Allt frá því að álverið í Straumsvík var byggt hafa stjórnmálamenn verið haldnir þeirri þráhyggju að efnahagslegar framfarir hljóti að byggja á nýtingu orkuauðlindarinnar. Þessi nýting orkuauðlindarinnar felst í að selja ódýra raforku til stóriðju í eigu útlendinga. Þannig eru nú um 80% af raforkuframleiðslunni bundin til langs tíma á lágmarksverði fyrir erlendar mengunarverksmiðjur. Fjárfesting í orkuframkvæmdum fyrir stóriðju nemur hundruðum milljarða, þrátt fyrir það skilar málmframleiðsla aðeins kringum tvö prósent af vergri landsframleiðslu að jafnaði. Ákvarðanir um uppbyggingu stóriðju hafa verið keyrðar áfram með pólitískan ávinning í huga en ekkert hirt um arðsemi framkvæmdanna fyrir Íslendinga né umhverfisáhrif. Fjöldi starfa er ekki gæðastimpill á arðsemi framkvæmda og útflutningstekjur enn síður ef afraksturinn rennur til erlendra eigenda. Mikilsverðasta framlag Íslands til minnkunar útblásturs á gróðurhúsalofttegundum væri að endurnýja ekki orkusamninga við erlendar mengunarverksmiðjur en nýta raforkuna til orkuskipta og framleiðslu vetnis og annarra efna sem geta komið í stað jarðefnaeldsneytis.
Horfur
Á loftslagsrástefnunni í Glasgow komu fram viljayfirlýsingar um aðgerðir gegn loftslagsvá. Vonandi verða verkin látin tala. Það er hins vegar við ramman reip að draga að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stöðva hlýnun við 1,5 gráður. Til að nálgast það markmið þarf miklar grænar fjárfestingar í þróunarlöndunum svo fullnægja megi eftirspurn eftir orku sem er ein forsenda hagvaxtar. Hins vegar er ekki að sjá að stuðningur við áhrifaríkar aðgerðir sé fyrir hendi. Í Bandaríkjunum til dæmis er pólitíst ógerlegt að hækka benzínverð með kolefnisgjöldum. Í staðinn verður að treysta á nýja orkugjafa svo sem rafmagn eða vetni en langt er í að slíkir orkugjafar nái að minnka útblástur svo um munar.
Hinn aldni meistari James Lovelock, höfundur Gaia kenningarinnar m.m., hefur lengi verið þeirrar skoðunar að nýting kjarnorkunnar sé mikilvæg leið til að anna þörf fyrir raforku og draga úr kolanotkun sem fer stöðugt vaxandi. Þessi leið er skynsamleg en bygging kjarnorkuvera er vandasöm og ómöguleg í löndum sem búa við óstöðugt stjórnarfar. Í mörgum þróunarlöndum verður að finna aðrar aðferðir. Það hjálpar til við orkuöflun að verð á ýmissi „grænni“ orku hefur lækkað hratt og framboð aukist.
Íslendingar eiga að fara að ströngustu kröfum um minnkun útblásturs en skynsamlegt er að búa þjóðina undir verstu sviðmynd hamfarahlýnunar sem mun m.a. leiða til þess að búsvæði milljóna manna munu eyðileggjast á næstu áratugum. Mikill fjöldi flóttamanna mun þá streyma til velmegandi landa líkt og Íslands. Jafnframt gætu fiskimið verið í hættu ef súrnun og hlýnun sjávar heldur áfram með slæmum áhrifum á nytjastofna. Tjörnin er aðeins hálffull núna og margt hægt að gera til að tryggja framtíð komandi kynslóða. Tímann verður að nota vel til að verjast umhverfiseyðingu og loftslagsvá.