„Guð er ekki til“ var fyrirsögn nýlegrar fréttar á Kjarninn.is. Þar segir að þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson hafi verið í „guðfræðilegum pælingum“ á Alþingi og „sagst hafa orðið var við það að ef hann segði þessa einföldu orð – guð er ekki til – þá þætti fólki vegið að trú sinni.“
Nú skal tekið fram að ég hef ekki heyrt ræðu Björns Levís og er meðvitaður um að ekki er hægt að gera sér yfirgripsmikla mynd af viðhorfum fólks út frá einni stuttri frétt. En ég tók hins vegar eftir því að ofangreindri fullyrðingu Björns Levís um Guð, samkvæmt fréttinni, fylgdu ekki rök sem studdu við sannleiksgildi hennar og engar forsendur voru gefnar sem leiða til þeirrar niðurstöðu að Guð eða yfirnáttúruleg vera sé ekki og geti ekki verið til. Þrátt fyrir það ber Björn Leví guðleysi fram, að því er virðist, sem hreina og klára staðreynd. (Er hann reyndar langt í frá eini guðleysinginn sem gerir það.) Þannig er í lok fréttarinnar haft eftir honum: „En að Guð sé ekki til, sú staðreynd er móðgandi. Er það ekki merkilegt?“
Það sem mér finnst merkilegt og áhugavert er sú fullvissa sem virðist búa að baki orða Björns Levís. Staðreynd er afar stórt orð þegar rætt er um tilvist Guðs. Staðreynd er jú það sem er raunin. Hún er sú staða mála sem sönn staðhæfing eða fullyrðing lýsir. Ef ég fullyrði að ég eigi milljón á bankareikningi þá er sú staðhæfing sönn aðeins ef raunin er sú að ég eigi milljón á bankareikningnum mínum. Það sem gerir hana sanna – og þar með að staðreynd – er að hún svarar til eðli veruleikans, þess sem er raunverulegt. Nú er ekkert að því að vera viss í sinni sök, að búa yfir óbilandi sannfæringu og tala fyrir henni. Það getur verið virðingarvert. En ekki ætti að koma viðkomandi á óvart ef gáð sé að rökum sem styðji framsettar fullyrðingar og meintar staðreyndir. Enda er það sá sem fullyrðir sem axla þarf þá ábyrgð að rökstyðja mál sitt. Sá sem staðhæfir „Guð er ekki til“ og ber þá staðhæfingu fram sem staðreynd, eins og Björn Leví gerir, gerir jú tilkall til þekkingar og er það hans að rökstyðja þá staðhæfingu.
Í þeim efnum er ekki af miklu að taka, miðað við það sem haft er eftir Birni Leví í frétt Kjarnans. Hann tekur reyndar fram, eins og mjög margir guðleysingjar hafa gert í gegnum tíðina, að það sé auðvelt að skilja hvernig hugmyndin um Guð hafi kviknað. Jú, vegna þess, að mati Björns Levís, að geta okkar fyrrum til að skilja tilurð og eðli heimsins hafi einfaldlega ekki náð lengra en svo. Með öðrum orðum er guðstrú afleiðing þekkingarleysis (ef til vill skiljanlegs þekkingarleysis, en þekkingarleysis engu að síður). Við það bætist að svokölluð tilvist þessarar ímynduðu veru hafi verið misnotuð til að búa til „stjórnkerfi og ráðstafa valdi með tilvísun í æðri máttarvöld“ og þannig hafi hinni innihaldslausu guðstrú væntanlega verið viðhaldið í gegnum söguna.
* * * *
Gott og vel!
En getum við að þessum forsendum gefnum (jafnvel þótt við föllumst á þær) dregið þá ályktun að Guð sé ekki til, eða að tilvist yfirnáttúrulegrar veru sé óhugsandi? Að sjálfsögðu ekki! Hér er einfaldlega um rökleysu að ræða hjá Birni Leví - reyndar býsna algenga en bagalega rökleysu. Raunin er nefnilega sú að sannleiksgildi staðhæfingar (hvort hún er sönn eða ósönn) hefur alls ekkert að gera með ástæðuna fyrir því að við föllumst á þá staðhæfingu. Við getum kallað þessháttar rökvillu upprunarökvilluna. Þeir sem beita henni fyrir sig reyna með öðrum orðum að ógilda viðhorf eða skoðun með því að útskýra eða sýna fram á hvers vegna einhver aðhyllist hana. Það felur augljóslega í sér ógilda rökhugsun. Það geta verið margvíslegar útskýringar eða orsakir á bak við ólík viðhorf og skoðanir fólks (trúarleg eða ekki). Það ákvarðar hins vegar ekki sannleiksgildi þeirra. Það kann t.d. vel að vera að uppeldi mitt ásamt ýmsum öðrum þáttum hafi ýtt undir og nært trúhneigð mína. Einnig kann vel að vera að lykilpersónur í lífi mínu hafi haft áhrif á mig í þá veru. Reyndar er bæði satt og rétt hvað mig varðar. En í röklegum skilningi hefur það að sjálfsögðu ekkert að gera með sannleiksgildi þess sem trú mín snýr að, t.d. það hvort Guð sé raunverulega til eða ekki. Jafnvel þótt sú staðreynd að afi minn fór með bænir yfir mér sem barn væri eina ástæða þess að ég trúi á Guð hefur sú ástæða alls ekki neitt með raunverulega tilvist Guðs að gera.
Og það sama á við um guðleysi Björns Levís sjálfs og guðleysi sem slíkt!
Það eru sjálfsagt ýmsir orsakavaldar sem hafa leitt til þess að hann tileinkaði sér guðleysi sem lífsskoðun. En hvort sú lífskoðun sé reist á sannri fullyrðingu um Guð er einfaldlega allt önnur spurning. Það sem mætti hins vegar segja er að EF Guð er í reynd ekki til þá gætu forsendur eða útskýringar af því tagi sem Björn Leví grípur til mögulega sagt okkur eitthvað um það hvers vegna fólk trúir þrátt fyrir allt á tilvist Guðs. En sömu útskýringar segja okkur einfaldlega ekkert um það HVORT Guð sé raunverulega til eða ekki. Það er önnur spurning sem verður að svara eftir öðrum leiðum.
Margt fólk, og ekki síst margir guðleysingjar, hefur mér sýnst ala oft á því býsna einfalda viðhorfi að guðleysi hafi með staðreyndir að gera á meðan guðstrú snúist eingöngu um trú (eða trúgirni eða þekkingarleysi eða hvað sem þú vilt kalla það). Eins og guðleysinginn Richard Dawkins hefur margoft sagt – og ófáir aðrir hafa týnt upp eftir honum – er trú lítið annað en flótti frá veruleikanum, viðhorf sem byggir ekki á upplýstri hugsun, skynsemi og sönnunum (sem að hans mati jafngildir sjálfsblekkingu og ranghugmyndum). Þvert á móti liggur styrkur trúar, að mati Dawkins, í því að trú geri ekki ráð fyrir skynsamlegri réttlætingu af neinum toga heldur blindu samsinni þvert á skynsemi, rök og sannanir. Viðhorf guðleysingjans séu með öðrum orðum byggð á staðreyndum á meðan viðhorf guðstrúarmannsins séu reist á ósannaðri trú (sem gjarnan er útskýrð af guðleysingjanum í ljósi einhverskonar sálfræðilegra og/eða þekkingarfræðilegra takmarkana hins trúaða).
En svo einfalt er það að sjálfsögðu ekki, eins og margir íhugulir og heiðarlegir guðleysingjar gera sér grein fyrir. Þeir tala ekki í staðreyndum og eru mun hógværari í staðhæfingum sínum enda átta þeir sig á því að tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð með óyggjandi hætti, af einhverskonar stærðfræðilegri vissu. Röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs (sem ég hef skrifað töluvert um) eru heldur ekki þess eðlis. Jafn áleitin og heillandi sem þær eru fela þær ekki í sér skotheldar sannanir fyrir tilvist Guðs sem allir verði að beygja sig fyrir. Ef sönnun væri lögð að jöfnu við fullvissu þá eru slíkar sannanir ekki í boði og hafa aldrei verið. En það á ekki frekar við um spurninguna um Guð en flestallt annað. Fæst af því sem við teljum okkur vita verður sannað í þeim skilningi. Og þar er guðleysið að sjálfsögðu ekki undanskilið. Jafnvel þótt að röksemdarfærslur fyrir tilvist Guðs kynnu að bregðast þá sýnir það alls ekki, eins og ýmsir guðleysingjar hafa minnt á, að Guð geti ekki verið til. Með öðrum orðum verður guðleysinginn, rétt eins og ég, að sætta sig við tilvistarlega óvissu þegar kemur að spurningunni um Guð.
* * * *
Málflutningur Björns Levís og annarra guðleysingja kemur hins vegar ekki persónulega illa við mig og ekki heldur sú staðreynd að hann telji og segi Guð ekki vera til. Það móðgar mig alls ekki. Ég hef engar áhyggjur af því hvað Birni Leví eða öðrum guðleysingjum finnst um trú mína til eða frá. Raunar kemur það á óvart ef rétt er að trúað fólk móðgist í unnvörpum við það að einhver segi við það að Guð sé ekki til, en látum það liggja á milli hluta.
Ýmsum guðleysingjum gremst slík fullyrðing og móðgast (hef ég persónulega reynslu af því). Það er ef til vill ekki skrýtið í sjálfu sér ef þeir telja sig byggja guðleysi sitt á staðreyndum og óbrigðulli þekkingu. En raunin er sú að staðhæfingin „Guð er ekki til”, rétt eins og staðhæfingin „Guð er til”, er í eðli sínu trúarleg (eða heimspekileg eða frumspekileg) staðhæfing sem hvorki verður afsönnuð né sönnuð með óyggjandi hætti. Hitt er annað mál hvora staðhæfinguna megi styðja betri og veigameiri rökum (þeim sem hafa áhuga á þeirri spurningu get ég bent á skrif mín um tilvist Guð sem koma upp með einfaldri leit á google.is). Burtséð frá því er hin augljósa staðreynd sú að um leið og einhver staðhæfir eitthvað um tilvist Guðs, tilgang og merkingu lífsins, eða líf eftir dauðann o.s.frv. (óháð því hverju hann trúir sjálfur í þeim efnum) þá er um að ræða trúarlegar eða frumspekilegar staðhæfingar. Að því leyti er ég og Björn Leví báðir á sama báti. Við trúum!
* * * *
Það sem oft liggur á bak við svokölluð rök gegn tilvist Guðs eða rök fyrir guðleysi er, eins og áður er nefnt, einhverskonar útskýring á því hvers vegna fólk trúir þrátt fyrir allt á Guð. Litið er svo á að trú á Guð sé eitthvað sem fólk vaxi upp úr með tímanum og að með aukinni þekkingu og/eða raunsæi á eðli lífsins sleppi það takinu á hinum ímyndaða Guði. Þeir sem geri það ekki hafi staðnað einhverstaðar á leiðinni af einhverjum orsökum.
Málflutningur Björns Levís ber sterkan keim af málflutningi manna á borð við Freud, Feuerbach og Marx, sem allir höfðu útskýringu á guðstrú á reiðum höndum, sem ýmist var sálfræði- eða félagslegs eðlis. Uppbygging þesskonar „röksemdarfærslu“ er oftar en ekki eitthvað á þessa leið:
- Guð er ekki til.
- Sumt fólk trúir engu að síður á tilvist Guðs.
- Þar sem enginn Guð er til hlýtur ástæðan fyrir trú fólks að liggja í einhverskonar sjálfsblekkingu eða óskhyggju.
- Fólk trúir á Guð af því það vill það. Trú þess er bara sjálfsblekking og óskhyggja.
- Guðstrú er því ekkert annað en tilbúningur mannsins sjálfs sem svarar til mannlegra þarfa og langana. (Guðleysingjar rekja rót þessara þarfa og langana til ólíkra þátta. Freud horfði til dæmis til sálfræðilegra þátta en Marx félags- og efnahagslegra þátta.)
Nú er ég ekki að leggja nákvæmlega þennan málflutning í munn Björns Levís. Hins vegar eru líkindi til staðar að því leyti að Björn Leví, af fréttinni í Kjarnanum að dæma, gengur einfaldlega út frá því að Guð sé ekki til og í stað þess að réttlæta eða rökstyðja þá fullyrðingu sína leitast hann við að útskýra með hliðsjón af henni hvers vegna fólk trúir á Guð þrátt fyrir tilvistarleysi hans. Því næst er litið svo á að sú útskýring sýni fram á að Guð sé ekki til.
Hvað má almennt segja um þess konar málflutning?
Rökfræðilega séð er hann meingallaður af ýmsum ástæðum. Fyrir það fyrsta er um hringarök að ræða eða ógilda röksemdarfærslu þar sem gengið er út frá sannleiksgildi niðurstöðunnar fyrirfram. Með öðrum orðum gerir röksemdarfærslan ráð fyrir því að niðurstaða hennar sé sönn áður en niðurstaðan er leidd fram. Í annan stað má benda á að þó það sé vissulega rétt að það eitt að vilja eða óska sér að eitthvað sé satt geri það ekki satt þá leiðir ekki af því að það geti þar með alls ekki verið satt. Augnabliks íhugun leiðir það í ljós. Í þriðja lagi virkar málflutningur af þessu tagi jafnvel sem rök gegn guðleysi. Stephen Hawking sagði eitt sinn að Guð eða himnaríki væri ævintýri sem búið var til fyrir fólk sem var hrætt við myrkrið. Með sama hætti má segja að guðleysi er ævintýri sem búið var til fyrir þá sem eru hræddir við ljósið. En hvorug staðhæfingin segir augljóslega nokkuð um eiginlega tilvist Guðs. Og það minnir á að guðleysi er byggt á grundvallarforsendu sem guðleysinginn gengur út frá, eða trúir einfaldlega, en getur ekki fært sönnur á.
Vitanlega hafa ýmsir guðleysingjar lagt fram rök gegn tilvist Guðs eða skynsamlegar ástæður fyrir því að Guð sé ekki til eða að tilvist hans sé afar ólíkleg. Þótt það sé oft áhugavert og gagnlegt að glöggva sig á þeim er ekki ástæða til að leggja niðurstöðu þeirra eða grundvallarviðhorf guðleysingja almennt að jöfnu við staðreynd. Síður en svo.
Höfundur er prestur Árborgarprestakalls.