Þeir eru komnir í gang, fjendur Ríkisútvarpsins. Og það er ekki eins og að þeir umli; frá þeim berast langdregin vein, angistarhljóð. En þau ná hvorki að vekja samhug né samúð, fjöldinn finnur að hljóðin úr þeim, hljómurinn, er holur.
Að venju eru tvílembingarnir Óli Björn Kárason, nýorðinn formaður þingflokks Sjálfstæðismanna og Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og ýmislegt framhleypnastir í angistarkórnum. Staksteinar Morgunblaðsins syngja óskilgetna aukarödd þegar þurfa þykir.
Staksteinar dagsins 15.12.´21 fjalla um fjárhag Rúv og segja að við áskriftartekjur þess hafi „bæst um tveir milljarðar árlega sem teljast til tekna af samkeppnisrekstri, sem eru fyrst og fremst auglýsingatekjur. Þær tekjur eru teknar af samkeppnismarkaði, það er að segja frá öðrum sem bjóða auglýsingabirtingar, fyrst og fremst af fjölmiðlum í einkaeigu.”
Það er alkunn aðferð við gerð falsfrétta að misnota orð. Þetta er dæmi um það. Orðalagið, að umræddar tekjur séu „teknar” af „fjölmiðlum í einkaeign”, er falskt, villandi. Sá sem veitir þjónustu ákveður hvar hann auglýsir það sem hann hefur að bjóða. Hann kýs þann vettvang sem líklegast er að skili honum árangri. Hann velur Ríkisútvarpið því það er ekki aðeins öflugasti auglýsingamiðill landsins heldur drífur það líka vönduðustu fréttastofuna. Auk þessa er Ríkisútvarpið ein helsta menningarstofnun landsins og minjasafn margs konar lista. Ótal margt annað mætti tína til sem sýnir að Ríkisútvarpið gnæfir yfir aðra fjölmiðla. Það „tekur” ekkert frá öðrum fjölmiðlum; það skapar og uppsker.
Í þessari holtaþoku sannleikans skrifar svo Óli Björn af eigin viti, maður með fræga hrakfallasögu í fjölmiðlarekstri:
„Fjölbreytni og fjárhagslegt sjálfstæði frjálsra fjölmiðla næst ekki með því að stinga þeim í samband við súrefnisvélar ríkissjóðs, heldur með því að koma í veg fyrir að fyrirferð Ríkisútvarpsins á markaði grafi undan þeim.”
Og hann brýnir raustina, tvílembingurinn og vitnar í flokksbróður sinn:
„Það er rétt sem Björn Bjarnason segir í dagbókarfærslu á vef sínum að ekki sé undarlegt að stjórnendur miðla í samkeppni við Ríkisútvarpið „telji þennan fjáraustur „óskiljanlegan“. Raunar ættu þeir sem verða að gera sér þjónustu RÚV að góðu að vera sömu skoðunar vegna þess hve henni hnignar þrátt fyrir óstöðvandi fjárstreymið og einkennist sífellt meira af endurteknu efni. Metnaðarleysið magnast eftir því sem minna þarf að leggja á sig til að fá greitt fyrir það.“
Hann er stoltur af skrifum sínum, baráttugleði sinni og þekkingu, þingflokksformaðurinn og lýkur Morgunblaðsgrein sinni með þessum orðum: „Ásamt nokkrum samherjum mínum hef ég lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, þar sem ríkisfyrirtækið er dregið út af samkeppnismarkaði auglýsinga.”
Úr því að annar tvílembingurinn dró hinn fram í kastljósið er rétt að benda á grein eftir hann með yfirskriftinni Máttlaust, dýrt almannaútvarp og birtist mánudaginn 13. desember síðastliðinn á síðu sinni. Þegar hún er lesin er ómaksins vert að velta því fyrir sér með hvaða hætti höfundurinn gæti verið venslaður prent- sjónvarps- og útvarpsmiðlum ef svo má taka til orða.
Höfundur er rithöfundur.