Stór mál voru á dagskrá kosningaárið 2017. Panamaskjölin og pólitíkur farsi í kjölfar þeirra kveiktu vonir um að snúa mætti stjórnmálunum frá sérhagsmunagæslu til raunverulegra samfélagsumbóta, fá nýja stjórnarskrá, færa þjóðinni arðinn af náttúruauðlindunum, auka jöfnuður og sanngirni í skattamálum, hraða uppbyggingu efnislegra og félagslegra innviða, styrkja umhverfismál, auka jöfnuð í eigna- og tekjuskiptingu, koma á skilvirkara skattframkvæmd o.fl. Flestir flokkar tóku undir þau sjónarmið. Stjórnarmyndunin eftir kosningar olli því mörgum vonbrigðum. Ekki einasta það að framlengd voru völd flokka sem ekki voru þekktir að því að styðja slík mál af heilindum en einnig hitt að málin voru flest afgreidd með óljósum fyrirheitum en fáum tryggt brautargengi. Stjórnarsáttmálinn var samningur um óbreytt ástand að mestu.
Í greininni Ár veirunnar og áratugur g(l)eymdra verkefna í Kjarnanum um síðustu áramót rýndi ég í pólitíska þróun frá Hruni þar til enn lifði fjórðungur kjörtímabilsins. Þar er dregið fram hvernig arfleifð umbótastjórnarinnar 2009 til 2013 var brotin niður af næstu ríkisstjórn uns hún beraði sig að spillingu og stjórnleysi. Eftir kosningar 2017 tók við stjórn málamiðlana. Ákveðnum umbótum í umhverfismálum, samgöngumálum og heilbrigðismálum var lofað en að öðru leyti voru fyrirheitin án skuldbindinga, byggð á ónýtri ríkisfjármálaáætlun.
Ekkert hefur gerst á þessu ári sem breytir þessari niðurstöðum nema síður væri. Í lok þinghaldsins döguðu sum umsamin stefnumál uppi og undarleg vegferð stjórnarskrármálsins varð endaslepp. Undirliggjandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna er augljós en ekki viðurkenndur. Allt umfram það litla sem tryggt var í stjórnarsáttmálanum var kæft í fæðingu, vilji til að gera fyrirheitin fjárhagslega möguleg fannst ekki og undir lokin er skuldasöfnun vegna COVID-19 notuð sem grýla til að draga úr vonum um félagslegar og fjárhagslegar umbætur á næstu árum.
Segja má að COVID-19 hafi bjargað orðspori ríkisstjórnarinnar. Hún brá verðskulduðum ljóma á forystu hennar í sóttvarnar- og heilbrigðismálum og aðrar ráðstafanir hennar þótt umdeilanlegri séu. Veiran kom í veg fyrir að stjórnin þurfi að standa frammi fyrir uppgjöri á búi sínu í ljósi þeirra fyrirheita sem lagt var upp með í stjórnarsáttmálanum. Í stað þess sanna stjórnarflokkarnir ágæti sitt með sigurfánum úr stríðinu við veiruna og geta litið fram hjá loforðum um bætta heilbrigðisþjónustu, aukinn jöfnuð, sanngirni í skattheimtu og ekki síst það að hafa sloppið við að hrófla við stjórnarskránni og að stöðva ekki arðrán á náttúruauðlindum landsins.
Með COVID-19 kreppuna að mestu leyti að baki hefði mátt ætla að stjórnmálin dræpu af sér dróma athafnalítilla málamiðlana en svo er ekki því ekkert bólar á því hvernig þau ætla að taka á óleystum verkefnum og engin framtíðarsýn er á lofti. Nokkrar stjórnmálahreyfingar hafa að vísu stikað út einstök pólitísk stefnumál en virðast ekki ná eyrum kjósenda sem eru önnum kafnir við sumarfrí og Ólympíuleika. Haustkosningar eru að vísu kjörstaða fyrir áhugamenn um óbreytt ástand en doði sem þessi ætti ekki að ríkja í aðdraganda kosninga. Stóru málin sem urðu svo augljós á hrunárunum og hafa skýrst síðan bíða enn úrlausnar og ný hafa bæst við. Málefnaskortur ætti ekki að hamla líflegri pólitískri umræðu. Nokkur meginmál skulu nefnd.
I. Stjórnarskráin, eign á náttúruauðlindum og auðlindaarðurinn
Einokun á fiskveiðiheimildum án eðlilegs endurgjalds fyrir þessa verðmætustu náttúruauðlind þjóðarinnar er kunn og æ betur kemur í ljós hvernig gróðanum er komið undan skattlagningu. Arður af vatnsorku er afhentur erlendum stórfyrirtækjum og hagnaði þeirra komið undan skattlagningu. Horfur eru á að svo fari einnig með nýtingu annarra náttúrugæða svo sem aðstöðu til fiskeldis, lands til vindorkuvinnslu og nýtingu sérstakra náttúrugæða í ferðaþjónustu.
Það að láta arðinn af náttúruauðlindum þjóðarinnar renna í sameiginlegan sjóð landsmanna er ekki skattheimta en hann er þó mikilvæg tekjulind sem dregur úr þörf á skattheimtu til að halda uppi velferð. Fullt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlindanna er því hagur almennings í landinu en með núverandi fyrirkomulagi er hann svikinn um arðinn og greiðir sem því nemur hærri skatta. Raunverulegt og virkt eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum er stærsta réttlætis- og hagsmunamál fyrir almenning í landinu.
Markmið þeirra flokka sem vilja gera breytingar á auðlindamálum ættu mótast af þessu og fela í sér ófrávíkjanlega kröfu um að í stjórnarskrá landsins verði kveðið á um að náttúruauðlindir landsins séu eign þjóðarinnar og að eignarhaldið sé virkt í þeim skilningi að þjóðin ein eigi óskorað tilkall til alls arðs af þeim. Þeir flokkar sem því fylgja ættu að skuldbinda sig til að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána og að hún kveði á um að auðlindirnar verði nýttar af ríkinu eða sveitarfélögum til almannaþjónustu eða að fullt endurgjald verði greitt fyrir nýtingu þeirra með auðlindagjaldi eða útboðum á leyfum til nýtingar til takmarkaðs tíma.
II. Hver á að borga COVID-19?
COVID-19 hrunið mun skilja eftir sig spor í fjármálum ríkisins. Skuldir ríkissjóðs í árslok 2020 voru um 2.300 milljarðar króna eða um 78% af VLF og höfðu hækkað um nálægt 20% af VLF milli ára. Til samanburðar er að í árslok 2011 þegar jafnvægi var að komast á eftir Hrunið fóru skuldirnar í um 110 % af VLF. Hækkun skuldahlutfallsins nú gefur ýkta mynd af áhrifum COVID-19. Samdráttur VLF milli áranna 2019 og 2020 veldur því að hlutfallið hækkar auk þess sem hluti skulda er vegna ráðstafananna hafa ekki áhrif á stöðu ríkissjóðs þegar til lengri tíma er litið. Að mati Seðlabanka Íslands er umfang COVID-19 ráðstafana ríkisins á árunum 2020 og 2021 samtals um 350 milljarðar króna eða um 12% af VLF eins árs. Þar af er þó einungis um þriðjungur vegna ráðstafana sem hafa bein áhrif á afkomu ríkissjóðs, það svarar til um 120 milljarða króna. Til samanburðar var halli ríkissjóðs á árunum 2008 til 2010 áætlaður um 300 milljarðar á verðlagi þess tíma og vaxtastig á skuldum ríkissjóðs var þá um eða yfir tvöfalt hærra en nú er. Fjárhagsvandi ríkissjóðs vegna COVID-19 er ekki nema brot af því sem Hrunið hafði í för með sér og aðstæður til að mæta honum allt aðrar og betri en þá.
Þessar tölur miðast við að ekki komi til frekari ráðstafana af hálfu ríkisins vegna COVID-19 t.d. þess að ríkissjóður fari að bjarga fyrirtækjum með því að taka á sig lánaábyrgðir eða með nýjum ákvörðunum sama eðlis. Þegar heyrast áköll um að ríkið losi ferðaþjónustuna við “ósjálfbærar” skuldir sem væntanlega þýðir að ríkið greiði þær. Hugmynd sem þessi er einkum athyglisverð m.t.t. þess að stór hluti þessara skulda er hjá fyrirtækjum í eigu stórra fjármálafélaga, fjárfestingarsjóða og eignarhaldsfélaga en ekki hjá einyrkjum og smárekstri. Fjárfesting, að hluta offjárfesting, í ferðaþjónustu á undanförnum árum var drifin áfram af lánastofnunum sem hafa tryggt sig með veðum. Nú, þegar skuldararnir kveina, stæra bankarnir sig af tugmilljarða afkomutölum. Ekki er að sjá að þeir hafi axlað ábyrgð á lánveitingum sínum með því að koma til móts við skuldunautana en treysta á að ríkið komi þeim til bjargar og tryggi lánin. Þannig aðkoma ríkisins að skuldum ferðaþjónustunnar yrði millifærsla eigna frá almenningi til banka og annarra fjármagnseigenda, enn ein sönnun þess að engin kreppa er svo slæm að ekki megi hagnast á henni.
Auknar skuldir ríkissjóðs vegna COVID-19 eru vissulega nokkrar en þær eru ekki tilefni til róttækra aðhaldsaðgerða í velferðarþjónustu og uppbyggingu innviða. Lækkun ríkisútgjalda umfram það að hætta efnahagslegum COVID-19 ráðstöfunum öðrum en að bæta atvinnumissi er líkleg til að draga úr hagvexti og kynni að festa atvinnuleysi í sessi til lengri tíma. COVID-19 útgjöldin hafa verið greidd af skattfé almennings og með lánum, sem að óbreyttu yrðu endurgreidd af honum. Þótt vel hafi tekist að halda uppi kaupmætti almennings verður ekki fram hjá því litið að stór hluti aukinna útgjalda hefur runnið til fyrirtækja sem beinir styrkir eða greiðslur til að standa undir lögbundnum skyldum þeirra án tillits til þess hvort þau hefðu haft bolmagn til að standa undir þeim sjálf. Mörg félög í góðum rekstri hafi fengið greiðslur úr ríkissjóði og ætla má að með COVID-19 ráðstöfununum hafa þegar átt sé stað umtalsverð eignatilfærsla frá almenningi til eigenda atvinnufyrirtækja, sem taka þarf tillit til við ákvarðanir um “fjármögnun” COVID-19 hrunsins. Mæta þarf fjárhagslegum afleiðingum af COVID-19 með langtímasjónarmið í huga með dreifingu á endurgreiðslu skulda á langan tíma og með sértækri tekjuöflun sem ekki yrði sótt í vasa almennings.
III. Ónýtar ríkisfjármálaáætlanir
Hinn eiginlegi vandi ríkisfjármála er ekki skuldir ríkissjóðs og enn síður aukning þeirra vegna COVID-19. Hann er fólginn í fyrirhyggjuleysi, kreddufestu, hlítni við sérhagsmuni og misbeitingu fjárhagslegra stjórntækja áratugum saman. Hagsaga síðustu hundrað ára sýnir hvernig neysla samfélaga breytist með vaxandi velmegun frá mettun frumþarfa til almennrar velferðar. Hluti efnahagsstarfsemi færist þannig frá framleiðslu neysluvöru yfir í þjónustu af ýmsum toga en stór hluti hennar svo sem heilbrigðisþjónusta, menntun o.fl. er þess eðlis að hana verður að veita á félagslegum grunni. Þetta veldur breytingu á verkaskiptingu í samfélaginu. Verkefni sem sinnt er af sveitarfélögum og ríkinu vaxa að tiltölu en önnur verkefni dragast saman. Vægi aldurshópa sem mestar kröfur gera um félagslega þjónustu hefur farið vaxandi og styður þessa þróun.
Ríkisfjármálaáætlun til nokkurra ára hefur verið byggð inn í fjárlagaferil hér á landi og víðar að áeggjan alþjóðlegra stofnana eins og OECD og AGS í þeim tilgangi að auka fyrirsjáanleika og fyrirhyggju í ríkisfjármálum. Þessar stofnanir lögðu áherslu á að sérstakur gaumur yrði gefinn að þeirri þróun opinberra umsvifa sem að framan greinir með því að lagt yrði mat á vaxandi þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og aðra félagslega þjónustu og í ríkisfjármálaáætlun gerðar ráðstafanir til að mæta henni. Það var ekki gert. Í stað þess voru svokallaðar fjármálareglur byggðar inn í ríkisfjármálaáætlunina. Þær hafa það í för með sér að stjórnmálamenn geta komist hjá því að taka afstöðu til þarfa fyrir opinbera þjónustu á hverjum tíma en falið sjálfvirkum reiknireglum það hlutverk með þeim árangri að í stað framsýni og fyrirhyggju í ríkisfjármálum var stefnan mótuð með baksýnisspeglinum og það haft að markmiði að ná opinberum útgjöldum niður í einhverja tölu úr fortíðinni. Þessi aðferðafræði fellur vel að hugmyndafræði afturhalds í félagslegum efnum og úreltri niðurskurðarstefnu í efnahagsstjórnun.
Afleiðing þessarar stefnu og niðurbrots á tekjuöflun ríkisins er að ríkissjóður er nú með viðvarandi undirliggjandi halla, velferðarkerfin eru fjársvelt, ríkisreksturinn undirfjármagnaður og slaki er í skattframkvæmd. Alvarlegasta ábendingin um þetta ástand sjáum við nú í því að okkar á margan hátt ágæta heilbrigðiskerfi er við það að hrynja þótt viðbótarálag á það af völdum COVID-19 hafi verið minna en í flestum samanburðarhæfum löndum og minna en orðið hefði án hinnar skjótu þróunar bóluefna. Þetta sýnir glöggt að uppbyggingu kerfisins hefur ekki verið sinnt hvað varðar umfang þess og innviði.
Það að brjótast úr þessari stöðu er margfalt stærra úrlausnarefni en að takast á við fjárhagslegar afleiðingar COVID-19. Það kallar á raunsætt mat á fjárhagslegum þörfum velferðarkerfanna og uppbyggingu innviða samfélagsins svo og getu landsins til að veita borgurum þá þjónustu. Þetta er stórt verkefni en ekki óleysanlegt fyrir eitt ríkasta samfélag heims en það verður ekki leyst nema á grundvelli almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Við úrlausn þess er ekkert pláss fyrir gamla kreddukenningar eða töfralausnir.
IV. Auðsöfnun og auðræði
Samþjöppun eigna á fáar hendur og misskipting tekna, sem henni fylgir, hefur sett mark sitt á efnahagsmál og stjórnmál á Vesturlöndum á síðustu áratugum. Hagvöxtur hefur ekki skilað sér til lægri tekjuhópa og víða hafa rauntekjur lág- og millitekjuhópa staðið í stað áratugum sama þrátt fyrir vaxandi þjóðartekjur. Hér á landi hefur skattbyrðin verið færð af tekjuháu fólki yfir á fólk með fólki með lægri tekjur. Vanrækt hefur verið að uppfæra skattkerfið í samræmi við breytingar á launum og verðlagi, skattagötum og sniðgönguleiðum hefur fjölgað og stjórnvöld hafa breytt skattalögum til hagsbóta fyrir hátekju- og stóreignafólk. Ríkjandi stefna í auðlindamálum einkum fiskveiðum hefur verið uppspretta auðsöfnunar sem teygir sig til æ meiri fjárhagslegra ítaka í öðrum atvinnugreinum.
Samþjöppun auðs eykur ójöfnuð í efnahagsmálum, misrétti í samfélaginu og ósanngirni í skattamálum. Hún leiðir einnig til alvarlegs lýðræðishalla, auðræðis, þar sem handhafar auðs hafa mikil bein og óbein völd sem beitt er með stuðningi við pólitíska flokka, rekstri eða stuðningi við fjölmiðla og þrýstingi á stjórnvöld og Alþingi í gegnum hagsmunasamtök þeirra. Merki slíkrar valdbeitingar í þágu sérhagsmuna er víða að sjá í sögu skattabreytinga og í regluafnámi í starfsumhverfi atvinnurekstrar á síðustu áratugum. Af þessum ástæðum fer fjölgandi þeim fræðimönnum, þjóðfélagsrýnum og stjórnmálamönnum sem tala fyrir því að skattkerfinu verði með markvissum hætti beitt til þess að draga úr samþjöppun auðs og hömlulausum flutningi hans milli kynslóða sem elur af sér erfðaaðal og leiðir til spillingar.
Þrátt fyrir nokkra umræðu erlendis um aðgerðir í þessum efnum m.a. til að fjármagna átökin við COVID-19 er stefna stjórnvalda hér óbreytt undanhald fyrir kröfum auðmanna um veikingu eftirlits á sviði skatta- og samkeppnismála. Þessu þarf að breyta. Auk styrkingar eftirlitsstofnana standa ýmsar ráðstafanir til boða til að draga úr auðsöfnun á fáar hendur sem jafnframt kæmu sér vel til fjármögnunar á velferðarkerfunum svo sem hærri fjármagnstekjuskattur með hóflegu frítekjumarki, afnám ívilnandi skattaákvæða svo sem frestunar á skattlagningu söluhagnaðar, virk skattlagning eignarhaldsfélaga, auðlegðarskattur á breiðan eignastofn með háu fríeignamarki, skattlagning erfðafjár hjá arftaka með nokkru frítekjumarki, og innheimta auðlindaarðsins sem á síðustu árum hefur verið áberandi þáttur í auðssöfnuninni.
V. Sanngjarnt skattkerfi
Góð skattlagning á að byggjast á jafnrétti og sanngirni. Skattar eiga leggjast eins á alla sem eins er statt um og dreifing skattbyrði á að taka mið af greiðslugetu borgaranna. Auk ákvörðunar um hvaða sköttum er beitt og hvernig skatthlutföll eru skiptir meginmáli að skattstofnarnir séu heildstæðir, þ.e. taki með sama hætti til alls andlags skattlagningar hverju sinni. Mikið skortir á að skattkerfið hér á landi uppfylli þær kröfur. Tekjum er nú skipt í stofna sem skattlagðar eru með mismunandi hætti, aðrar eru undanþegnir skattlagningu eða henni frestað í það endalausa. Sama á við um eignir að því leyti sem þær hafa áhrif á skerðingar og bætur eða ef þær sæta skattlagningu..
Stærsta hluti tekna ríkisins er aflað með óbeinum sköttum, einkum virðisaukaskatti og margvíslegum vörugjöldum. Þessir skattar leggjast þyngst á tekjulága þ.e. skattbyrðin lækkar með vaxandi tekjum og eignum. Til að vega á móti því verður önnur skattheimta, beinir skattar, að vinna þar á móti en til þess þarf tekjuskattskerfi með stígandi skatthlutföllum en ekki síður að skattstofninn nái til allra tekna með sama hætti og að ekki sé litið fram hjá þætti eigna í mati á greiðslugetu og sanngirni í skattlagningu.
Allt frá upptöku staðgreiðslukerfisins hefur tekjuskattskerfið, viljandi og óviljandi, verið notað til þess að færa til skattbyrði frá tekjuhærri, einkum tekjuhæstu, hópum samfélagsins yfir á hinna tekjulægri með breytingum á kerfinu eða vanrækslu á að uppfæra það. Þessu til viðbótar hafa verið gerðar breytingar á félagarétti og opnað fyrir fjármálasamskipti milli landa án þess að líta til þeirra breytinga sem það hafði fyrir skattlagningu einkum möguleika á að koma tekjum undan henni. Flókið net eignarhaldsfélaga og fjármagnsfærslur milli þeirra gera það að verkum að stórum hluta tekna í samfélaginu er komið fram hjá skattlagningu og skráning á atvinnurekstrar- og fjármálaeignum er ógagnsæ. Afleiðing af þessu er að þegar allt er talið, beinir skattar og óbeinir, er mesta skattbyrði að finna hjá lágtekjufólki og fólki með meðaltekjur en hátekjufólk er lágskattafólk og fjöldi stóreignafólks er á pappírunum svo tekjulágt að greiða þarf útsvar þeirra úr ríkissjóði.
Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að gera róttækar breytingar á þessu en án árangurs ef frá eru talin árin 2009 til 2013 en breytingar þess tíma voru að miklu leyti dregnar til baka síðar. Efndir á fyrirheitum um breytingar eftir það hafa verið máttlitlar. Þekktar eru árangursríkar leiðir til breytinga á skömmum tíma með þrepaskiptu tekjuskattsskattkerfi, láta allar tekjutegundir bera tekjuskatt og útsvar, setja lágmarksskatt á rekstrartekjur og tekjur af hvers kyns sjálfstæðri starfsemi og leggja á auðlegðarskatt. Breytingar á skattlagningu félaga, einkum eignarhaldsfélaga, afnám frestunarreglna og undantekninga eru einnig nauðsynlegar en þurfa væntanlega eitthvað lengri undirbúning.
VI. Skilvirk skattframkvæmd
Sanngjörn skattlagning byggist ekki bara á þeim reglum sem gilda um álagningu skatta heldur þarf að vera tryggt að þær nái til allra með sama hætti. Skortir á jöfnuði í skattlagningu á Íslandi er ekki bara vegna ófullnægjandi skattlagningarreglna því fleira kemur til. Er þar einkum að nefna skattagöt, þ.e. frávik og undanþágur frá almennum reglum sem opna leiðir til skattasniðgöngu, félagalöggjöf sem auðveldar mönnum að virkja skattagöt og komast hjá skattlagningu, skipulagða skattasniðgöngu með aðstoð sérfræðinga svo og veikburða skatteftirlit og skattrannsóknir.
Endurskoða þarf ákvæði skattalaga sem gera endalausa frestun skattlagningar mögulega og skattlagningu tekna eignarhaldsfélaga sem ekki eru af raunverulegri atvinnustarfsemi svo og skattlagningu eigenda slíkra félaga. Kanna hvort taka eigi upp lágmarksskattlagningu félaga sem miðist við rekstrarhagnað án fjármagnsliða. Enn fremur þarf að huga að fjárhagslegum samskiptum tengdra aðila einkum ef þeir eru ekki báðir hér á landi til að koma í veg fyrir skattasniðgöngu með falskri milliverðlagningu.
Jafnræði gagnvart skattlagningu næst ekki nema með öflugu eftirliti og skattrannsóknum. Þótt flestir skattborgarar sýni skattalögum hlítni er vitað að nokkur hluti þeirra notar skattsvik eða aðra sniðgöngu til að komast undan sköttum. Hópur ráðgjafa hefur af því framfæri að veita aðstoð á þessu sviði og eru oft upphafsmenn skattasniðgöngu. Við því þarf að bregðast með því að styrkja eftirlitið og herða þær refsingar sem skattsvik hafa í för með sér ekki síst þegar þau eru byggð á skipulögðum, flóknum eignatengslum og fjárflutningum. Til þess að glíma við slík mál verður skatteftirlit og skattrannsóknir að vera öflugt og sjálfstætt. Það er óviðunandi að það sé háð ákvörðunum og vild pólitískra aðila á því á hverjum tíma hvort skattrannsóknir fara fram og nauðsynlegt er að finna þeim starfsgrundvöll sem tryggir óhæði þeirra.
VII. Hvað á að kjósa?
Innan skamms munu borgarar landsins gera upp hug sinn og ákveða hvaða flokk þeir kjósa og með því hvernig landinu verður stjórnað á næstunni. Í því efni er að mörgu að hyggja, mörgu öðru en bara því sem rakið er hér að framan. Í hugum sumra eru önnur mál mikilvægari, sumir vilja meiri áherslur og aðgerðir í umhverfismálum, aðrir vilja öflugra menntakerfi, enn aðrir vilja koma samstarfi við önnur Evrópuríki og gjaldeyrismál upp úr hjólförum þjóðrembings og einangrunar. Þessi mál eru öll mikilvæg og þörf á að ræða og leiða til lykta. Þau mál sem eru meginefni þessarar greinar hér að framan eru á tvennan hátt grundvöllur og forsenda að lausn þeirra.
Annars vegar eru þau grundvallarmál í þeim skilningi að þau snúast ekki bara um fjármál heldur fyrst og fremst um jafnrétti og sanngirni. Á meðan gæðum landsins er misskipt á milli borgara þess með valdboði sem stríðir gegn réttlætistilfinningu alls þorra landsmanna og á meðan byrðar af því að halda hér uppi sæmilega siðuðu samfélagi eru lagðar á án nokkurrar sanngirni næst ekki sú félagslega samkennd og samstaða sem þarf til að taka á öðrum krefjandi verkefnum og leysa þau.
Hins vegar þarf einnig að hafa í huga að stór samfélagsverkefni kosta mikið fé og krefjast fyrirhyggju í fjármálum. Það fé sem einstaklingar og samfélagið allt hefur úr að spila, þ.e. afraksturinn af gæðum landsins, starfi landsmanna og eignum þeirra, er takmarkaður á hverjum tíma. Þessum gæðum þarf að ráðstafa með ábyrgum hætti milli verkefna einstaklinga og samfélagsverkefna á grundvelli almannahagsmuna. Til þess þarf umgjörð ríkisfjármála að vera traust og gagnsæ og byggjast á raunsæju mati á þörfum samfélagsins og getu til að uppfylla þær.
Án þess að almenningur telji sig lifa í réttlátu og sanngjörnu samfélagi og án stjórnarfars sem byggir ákvarðanir á raunsæi og almannaheill en ekki kreddum eða óskhyggju næst ekki samstaða um stór verkefni. Kjósendur hafa nú valið í sinni hendi. Þeir kjósendur sem vilja raunverulegar umbætur eiga að skoða stefnuskrá flokkanna með þær í huga og láta sér ekki nægja innantóm slagorð og lýðskrum. Þeir eiga að spyrja flokkana gagnrýnna spurninga og krefja frambjóðendur svara um þau málefni sem fjallað er um hér að framan, um formlegt og raunverulegt eignarhald á náttúruauðlindum landsins, um efnahagslegt uppgjör á COVID-19 á grundvelli almannahagsmuna, um uppbygging velferðar með framsækinni fjármálaáætlun, um auðsöfnun og auðræði, um sanngjarnt skattkerfi og öflug skattframkvæmd.