Úlfar Þormóðsson skrifar um hræðslu þriggja opinberra launamanna sem hann segir ekki aðeins vera að blekkja okkur þegar þau tala um nauðsyn herverndar, heldur séu þau að búa til falsfrétt, ljúga.
„Það sem þau voru að biðja mig um var að ég reyndi að hunskast til að fara loksins að finna upp á einhverjum lygum sem pössuðu við þeirra hugmyndir um heiminn.” (Juan Pablo Villalobos, Ef við værum á venjulegum stað, bls. 105, Angústúra 2021.)
23.06.´22, tæpum sólarhring eftir að ég horfði á 2. þátt BBC um Lífið í Írak, lífið eftir innrás Nató undir fána Bandaríkjanna í landið árið 2003, og sá augljósa samsvörun við hrottaskap Rússa og yfirgang í Úkraínu, las ég eftirfarandi í Morgunblaðinu:
Endurvekja ungliðahreyfingu
Fyrsti opni fundur nýstofnaðrar ungliðanefndar Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík í dag. Fundurinn ber yfirskriftina Staða varnar- og öryggismála á Íslandi og hefst klukkan 17.
Ekki hefur verið starfandi ungliðahreyfing innan félagsins frá því að Varðberg og Samtök um vestræna samvinnu sameinuðust árið 2010 en áður var starfandi ungliðahreyfing innan Varðbergs.
Aukinn áhugi
Frá því að stríð braust út í Evrópu hefur áhugi ungs fólks á varnarmálum, ekki síst varnarmálum Íslands, aukist umtalsvert. Þetta lýsti sér til að mynda í góðri þátttöku ungra í NATO-skóla Varðbergs sem haldinn var í fyrsta sinn í langan tíma í vetur.
Til að bregðast við auknum áhuga hefur ungliðanefnd innan Varðbergs hafið virk störf og undirbúið stofnun ungliðahreyfingar félagsins.
Á fundinum mun Geir Ove Øby, fastafulltrúi Íslands í Atlantshafsbandalaginu, halda framsöguerindi um viðbrögð bandalagsins við innrás Rússa í Úkraínu og setja í samhengi við varnarmál á Íslandi.
Í pallborði verða, auk Geirs, Baldur Þórhallsson, Björn Bjarnason og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þarna eru engin smámenni á ferð; tveir fyrrverandi ráðherrar og einn starfandi prófessor við Háskóla Íslands; þrír opinberir launamenn.
Fundurinn
Klukkutíma eða svo eftir að fundinum lauk mátti lesa á mbl.is:
„Íslendingar verða að láta af tepruskap í umræðunni um varnar- og öryggismál hér á landi. Heimsmyndin er að breytast og við því verður að bregðast. Ef ummæli forsætisráðherra Eistlands reynast sönn, um að það taki allt að þrjá mánuði fyrir Atlantshafsbandalagið (NATO) að bregðast við innrás í Eystrasaltsríkið, þurfa Íslendingar að fara að íhuga stöðu sína sem smáríki með ekkert varnarlið. Mikilvægt er að skoða varnarsamninga og hefja samtöl, m.a. við Evrópusambandið eða Bandaríkin, um aukið varnarsamstarf.
Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í pallborði á fundi ungliðanefndar Varðbergs, Staða varnar- og öryggismála á Íslandi, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík fyrr í dag. …
Allir við pallborðið voru sammála um mikilvægi þess að gera úttekt á varnar- og öryggismálum á Íslandi. Þá töldu þau varnarmál almennt hafa verið vanrækt hér á landi.
Norðurfloti Rússa sá öflugasti
Björn sagði að því hefði ranglega verið haldið fram að stríðið í Úkraínu myndi ekki snerta öryggismál í Norður Atlantshafi.
Sagði hann Ísland þurfa að hafa í huga að ef landher Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta færi illa út úr stríðinu – líkt og stefnir í núna – þá ætti forsetinn flotann sinn eftir og af honum er Norðurflotinn sá öflugasti. Gæti Pútín gripið til hans til að sýna hernaðarmátt Rússa.
Að sögn Björns er ekkert sem segir hvað við eigum að gera þegar vegið er að ytra öryggi þjóðarinnar og er þörf á úrbótum í þeim efnum. Hann var þó ekki sammála Þorgerði Katrínu um að skynsamlegt væri að leita til ESB upp á varnarsamstarf.
Aukið umsvif við Ísland áhyggjuefni
Aukið umsvif rússneska flotans í kringum Ísland er áhyggjuefni, sagði Baldur Þórhallsson. Þá sagði hann enn meira áhyggjuefni að ráðamenn í Kreml væru óútreiknanlegri en áður og að ekki væri hægt að vera með kenningar um þeirra næstu skref, líkt og á tímum Sovétríkjanna. Mögulega gæti steðjað hætta að sæstrengnum.
Að sögn Baldurs er Ísland eina NATO-ríkið sem ekki er með lítið varnarlið sem getur gripið til og varist óvinasveit á meðan stærri sveit kemur til landsins. Alvarlegt er ef nokkrir mánuðir líði hjá áður en NATO komi til aðstoðar.”
Já, prófessor, bara svona lítið og sætt „varnarlið”!
Hræddi Björn
Björn Bjarnason fyrrverandi hitt og þetta hefur verið hræddur við kommúnista allt sitt líf að því er virðist. Og nú er hann hræddur við Rússa þótt þeir séu ekki kommar lengur. Sjáiði til dæmis þetta, sem hann skrifar í blogginu sínu, bjorn.is, nú í morgun 24.06.´22:
„Eina sem stöðvar Pútin er hervald og fælingarmáttur þess sem hann kann að ágirnast. Vegna þess hve hann er óútreiknanlegur verða allir nágrannar hans að gæta sín, líka við sem erum úti í Norður-Atlantshafi. Rússneski Norðurflotinn kann að verða haldreipi Pútins vilji hann sýna mátt sinn.”
Á tímum Sovétríkjanna var því haldið fram að mikil ógn stafaði af herskipaflota Rússa. Í blaðagrein eftir grein, leiðurum eftir leiðara í „frjálsum” fjölmiðlum, í ræðum „sjálfstæðismanna” margra flokka var þessu haldið fram. Svo féllu Sovétríkin saman og þá kom í ljós að hinn „öflugi” herskipafloti þeirra var samsafn af ryðkláfum, tæplega sjófærum.
Draugabragð
Í „varnar”þríeykinu er tveir fyrrverandi menntamálaráðherrar og einn starfandi háskólaprófessor. Því skyldi enginn ætla að þau Þorgerður, Björn og Baldur viti ekki að litla sæta herstöðin sem þau vilja fá vekur áhuga hervædds óvinar á landinu. Ef við ættum óvin. Hún gæti hvatt hann til þess að eyða henni með hervaldi. Þetta er þekkt og hefur viðgengist í árþúsundir.
Þau þrjú eru ekki aðeins að blekkja okkur þegar þau tala um nauðsyn herverndar, þau eru að skrökva, búa til falsfrétt, ljúga. Af hverju þau gera það er ekki auðvelt að sjá, en vert að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað meira en hræðsla við eigin skröksögur sem veldur ótta þeirra, hvort það sé undirlægjuháttur við herveldi, smásálarskapur, von um hagnað af hermangi eða bara sérstakt og óleyfilegt glímubragð, draugabragð, sem beitt er meðvitað. Ekkert veit ég en mig grunar margt.
Hitt er ljóst að þríeykið á sjötugs- og áttræðisaldri hefur hvatt ungliðana „sína” til þess að reyna að hunskast til að fara loksins að finna upp á einhverjum lygum sem passa við þeirra hugmyndir um heiminn.
Höfundur er rithöfundur.