Það var á upphafsárum norska olíuævintýrisins að ég var áheyrandi að stuttu kynningarerindi norsks hagfræðings sem fjallaði um væntanlegan olíuauð úr borholum á hafinu og áhrif hans á hagkerfi norska fastalandsins. Hann spurði hvað myndi gerast með efnahagslífið á fastalandi Noregs ef peningaflæði olíunnar fengi að valsa um hagkerfið þar. Eftirspurn myndi rjúka upp mismikið þó. Fjárfestingar myndu aukast verulega og skapa umframeftirspurn eftir fyrirtækjum einkum fjármálatengdum. Olíutengd laun myndu hækka. Fyrst yfirmanna og stjórnenda; síðan myndu almenn laun hækka þótt engin framleiðniaukning væri á fastalandinu. Þetta myndi ýta undir verðbólgu og ef stöðugt innflæði mikils olíupeninga rynni inn á hagkerfið, myndi húsnæði og öll umsvif fjármálatengdra viðskipta bólgna út. Þetta yrði að hindra því ella yrði hagkerfi landsins að gullgrafarabæli.
Niðurstaðan varð sú að settur var á fót olíusjóður sem tók olíuauðinn úr umferð og fékk honum fjárfestingahlutverk erlendis. Þetta var snjöll lausn. Efnahagslíf fastalandsins þróaðist áfram eftir eigin farvegi því það var of lítið til að geta gleypt og melt þá miklu fjármuni sem olían skolaði á land. Þarna voru að verki norskir sósíaldemókratar, sem höfðu samfélagslega heildarsýn að leiðarljósi en létu minni hagsmuni ekki ráða ferð.
Stjórnlaust óhóf
Við Íslendingar horfðumst í augu við sambærilegan vanda við upphaf aldarinnar þegar nýtt og fínpússað fiskveiðistjórnunarkerfi fór að skapa og skila á land miklum auði og háum tekjum til þeirra sem fengið höfðu afhentan einkanýtingarrétt auðlindarinnar án nokkurra skuldbindinga, hvort heldur sem sneri að leigugjöldum fyrir nýtigatréttinn, strangar reglum um veiðarfæranotkun eða löndunarskyldu.
Ávöxtun ofurauðs
Allur þessi mikli auður sem nú þurfti að ávaxta sig í íslensku efnahagskerfi leiddi til mikilla ruðningsáhrifa á fjármála – og fyrirtækjamarkaðI, svo ekki sé talað um húsnæðismarkaðnum. Íslenskt hagkerfi er því yfirspennt og óvíða í jafnvægi. Fjöldi og fjárráð fjármálastofnana hér í 370 þús. manna hagkerfi segir sína sögu. Hér hleðst upp mikið fjármagn, miklu meira en gerðist við eðlilegar aðstæður. Fjármagnið leita ávöxtunar. Útgerðin er orðinn stóreigandi í viðskiptalífinu. Hún hefur keypt stærsta skipafélag landsins, á gildandi hlut í heildsölum og verktakafyrirtækjum, sprotafyrirtæki og keypt aðrar útgerðir og kvóta o.s.frv. Þessi óseðjandi eftirspurn hækkar verð fyrirtækja og fasteigna einnig íbúðarhúsnæðis. Fjármálafyrirtækin komast í feitt og veita forstöðufólki sínu myndarlega kaupauka sem spenna upp laun langt umfram það sem hinn hluti atvinnulífsins getur borgað án þess að velta því út í verðlagið. Þetta orsakasamband mun verða þjóðinni dýrt að lokum ekki bara vegna þeirrar óreiðu sem þetta veldur í viðskiptalífinu heldur ekki síst innan launþegahreyfingarinnar. Þar munu menn ekki láta bjóða sér þetta launamisvægi.
Nýja útgerðarfjármagnið er engin einskiptis búhnykkur, heldur verður árviss og því fastur liður verði ekkert að gert. Við erum að upplifa það sem Norðmenn óttuðust að uppgrip olíunnar myndu valda miklum búsifjum í almenna atvinnulífinu. Verkalýðshreyfingunni væri vel ráðið að gera kröfur um auðlindagjald og breyttan gjaldmiðil, sem að lokum yrði beitt til að jafna misvægið. Sú hagkenning sem réttlætir svona óhóf og stjórnleysi kallast ýmist nýfrjálshyggja eða markaðsfrjálshyggja. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið helsti brimbrjótur hennar hérlendis og er enn hirðmaður þessarar sérhyggju. Hann ber því mikla ábyrgða á þeim þýfða efnahagsgrundvelli sem og því misvægi í efnahagsmálum sem við höfum fyrir augum. Þar hafa skynsamir heildarhagsmunir samfélagsins ekki ráðið ferð, heldur óútreiknanlegur og yfirkeyrður markaður sem hefur hag fárra að leiðarljósi.
Höfundur er hagfræðingur.