Fyrir nokkrum árum buðum við hjónin tengdaforeldrum mínum í heimsókn til Íslands. Ferðin var mjög sérstök, gömlu þýsku umhverfishipparnir fljúga almennt ekki en gerðu undantekningu í þessu tilfelli til að sjá heimahaga tengdasonarins.
Tengdapabbi minn er að mörgu leyti mjög þýskur, þ.e. þýskur græningi. Á einu af sínum ferðalögum á áttunda áratugnum um meginlandið hitti hann einhverja danska hippa sem voru að setja upp vindmyllu og úr varð della. Hann skrifaði nokkrar bækur um það hvernig ætti að spara orku og notfæra sér endurnýjanlega orkugjafa. Einnig stofnaði hann ásamt öðrum framkvæmdasömum Þjóðverjum fyrirtæki sem sérhæfði sig í að beisla orku sólarinnar. Lífspeki hans er einföld: gerðu það sem þú getur og gerðu eins mikið af því og þú getur.
Mest allt líf hans hefur því fyrst og fremst snúist um það hvernig hann gæti lágmarkað eigin notkun á kolum, olíu, gasi og úraníum sem og að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.
Það var því veisla að ferðast um landið með kallinn. Ef hann sá orkuver, þó það væri ekki nema lækjarspræna sem framleiddi einhverjar kWst á ári, þá varð að stoppa og taka myndir. Hann gerði sér sérstaka ferð upp á Hellisheiði til að lesa allt sem hann gat um jarðvarmaorkuverið sem þar er. Hann var einfaldlega gagntekinn af þeirri hugmynd að á þessu landi var nánast öll raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Einn daginn vorum við að ræða flutningskerfið, sem er fulllestað á Íslandi eins og í Þýskalandi. Ég sagði honum frá því að uppbygging í kerfinu væri ansi hæg og flutningsfyrirtækið mætti mikilli andstöðu við uppbyggingu nýrra lína. Og karlinn skildi það einfaldlega ekki. Af hverju er fólk á móti því að tengja endurnýjanlega orku við notendur?
Það kostar að fjárfesta ekki í uppbyggingu flutningskerfisins
Fyrir stuttu kom út skýrsla sem ég vann fyrir Landsnet þar sem ég skoða efnahagsleg áhrif takmarkana í flutningskerfinu. Landsnet gegnir því hlutverki að byggja upp flutningskerfi rafmagns á Íslandi, meðal annars línurnar sem þið sjáið þegar þið brunið eftir þjóðvegum landsins. Staðan á þessu kerfi er í dag því miður þannig að það er ekki í stakk búið til að flytja meira að segja þá orku sem nú þegar er hægt að framleiða í orkuverum landsins. Samkvæmt mati Landsvirkjunar hefði verið hægt að framleiða 500 GWst til viðbótar af rafmagni árið 2021 hefði flutningskerfið ráðið við að flytja það.
Ég veit, hvað þýðir 500 GWst? Segjum bara að það sé um 2,5% af raforkunotkun Íslendinga. Með smá einföldun má segja að söluverðmæti þessara orku séu í kringum 2,5 milljarðar króna.
Þetta ástand gerir einnig það að verkum að ekki er ráðlegt að ráðast í framkvæmdir á nýjum orkuverum enda ekki til neins að framleiða orku sem maður getur ekki afhent. Þeim seinkar vegna takmarkana í flutningskerfinu og á meðan við drögum hælana verður þessi orka ekki til.
Augljós kostnaður samfélagsins vegna þess er auðvitað tapaðar tekjur orkuframleiðenda – sem eru að mestu í opinberri eigu – en þessi kostnaður er þó eflaust minnsti hluti þess raunverulega kostnaðar sem tafir uppbyggingar skapa. Alla jafna skapast mestu verðmætin nefnilega í starfseminni sem nýtir raforkuna.
Rafmagn sem ekki er hægt að flytja er heldur ekki hægt að nota
Landsnet vinnur samkvæmt raforkulögum og ber að tengja þá við kerfið sem kerfinu vilja tengjast svo lengi sem það er tæknilegur möguleiki. Á undanförnum árum hefur Landsnet neyðst til þess að hafna tímabundið tugum verkefna sem líkleg eru til þess að verða að veruleika. Ástæðan er einmitt sú að ekki er tæknilegur möguleiki að tengja þessa notendur, það er einfaldlega ekki pláss í kerfinu til að flytja meira rafmagn frá virkjunum til notenda.
Í skýrslunni sem ég vann fyrir Landsnet eru skoðuð tvö slík dæmi.
Fyrra dæmið hefur að gera með fyrirtæki í nýsköpun. Fyrirtækið rekur í dag verksmiðju á Reykjanesi og er um þessar mundir að fjárfesta í framleiðslugetu sinni. Ef marka má áætlanir félagsins mun stækkunin skapa 40 ný og góð störf, bæði fyrir sérfræðinga og sérþjálfaða almenna starfsmenn. Einnig reiknar félagið með því að stækkunin muni skapa útflutningstekjur upp á um 3,5 milljarða króna, ár hvert.
Því miður hefur Landsnet enn ekki getað lofað þessu fyrirtæki tengingu við flutningskerfið. Það er nefnilega ekki víst hvenær nægilegt pláss verði í kerfinu til að hægt sé að lofa félaginu öruggri afhendingu raforku.
Þetta félag getur því valið á milli þess að seinka gangsetningu nýju verksmiðjunnar, krossleggja fingurna eða að kaupa sér díselrafstöð og brenna rándýru jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi mengun. Slík fjárfesting mundi brenna næstum allan hagnað framleiðslunnar og innflutt olía kæmi til með að draga úr nettó-útflutningstekjum. Það er vægast sagt slæmur díll þegar raforka fer til spillis í lónum raforkuframleiðenda.
Hitt dæmið sem tekið er hefur með framleiðslu á grænu vetni að gera. Grænt vetni er vara sem þessa dagana er hægt en örugglega að slíta barnsskónum. Grænt vetni er eitthvað Harry Potter stöff í mínum huga. Maður tekur vatn og setur í það rafmagn og úr verður gas sem hægt er að nota í iðnaðarframleiðslu í stað kolefnislosandi gastegunda. Þó enda galdrabrögðin ekki þar. Með galdraþulunni Fischer-Tropcsh er hægt að umbreyta þessu gasi í dísel. Dísel sem er kolefnahlutlaus. Þ.e.a.s. hægt er að brenna eldsneytið án þess að auka magn kolefna í loftinu.
Það er gott að setja sér markmið en betra að ná þeim
Ísland hefur réttilega sett sér há markmið í lofslagsmálum. Markmið ríkistjórnarinnar er að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040 og verði alfarið laust við allt jarðefnaeldsneyti árið 2050. Minni mengun jafngildir betra lofti á Íslandi. Minni mengun jafngildir líka lægra framlagi Íslands til lofslagsbreytinga. Minni mengun jafngildir einnig minni innflutningi á olíu. Þó bara ef gengur upp að rafvæða samgöngur og framleiða grænt eldsneyti á vélar sem seint, ef einhvern tíma, munu rafvæðast.
Ef framleiða á grænt vetni er þó nauðsynlegt að notast við græna orku. Ef notuð eru kol til orkuframleiðslu sem svo er notuð í framleiðslu vetnis þá er vetnið augljóslega ekki lengur grænt. Ísland býr við einstakar aðstæður. Hér er raforkukerfið allt grænt. Þannig er hægt að tengja framleiðendur græns vetnis beint við raforkukerfið og dúndra út grænu vetni eins og enginn sé morgundagurinn. Á því munu lungu landsmanna og jarðarinnar græða á sama tíma og við spörum okkur tugi milljarða af gjaldeyri og búum til spennandi og góð störf í glænýjum iðnaði.
Þeim mun fyrr sem við hefjumst handa við uppbyggingu þessa iðnaðar, þeim mun fyrr munum við losna við jarðefnaeldsneytið og þeim mun líklegra er að ríkistjórnin nái þeim markmiðum sem hún setur sér. Þó mun þetta ekki gerast ef ekkert pláss er í flutningskerfinu. Svo lengi sem kerfið er ekki styrkt – og ef ekki er unnið markvisst að því að ganga úr skugga um að þeir sem skapa vilja verðmæti og draga úr mengun – sóum við mikilvægum verðmætum og mengum meira en annars.
Höfundur starfar sem ráðgjafi hjá Frontier Economics.