Þegar litið er á ferlið frá síðustu kjarasamningum virðist sem góður árangur hafi náðst. Gildir það um flestar starfsgreinar. Vinnuvikan hefur verið stytt umtalsvert og launataxtar hafa hækkað. Það er svo undir hagstjórninni komið hvernig kaupmátturinn þróast. Rúmast þessar kauphækkanir innan þessa margumrædda svigrúms atvinnurekenda eða er nóg til skiptanna eins og ASÍ segir? Spurningin er: hver borgar þessar kauphækkanir þegar upp er staðið?
Krónan er svikráð
Það fer naumast fram hjá neinum sem kaupir matvörur reglulega að verðlag hefur hækkað bæði á innfluttum sem innlendum vörum. Því hlýtur annað af tvennu að valda. Gengi krónunnar hafi sigið eða kostnaður við framleiðslu og dreifingu vörunnar erlendis sem heima hafi aukist án áhrifa gengis. Gengi lítilla þjóðlegra gjaldmiðla ræðst bæði af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði, hruni innviða sem og af þrýstingi vegna kostnaðarhækkana innanlands og sagt til leiðréttingar á samkeppnisstöðu gagnvart útlöndum.
Gjaldmiðillinn þarf að virka sem varnarveggur almennings og traustur bakhjarl stöðugleika. Það þarf að vera hlutverk gjaldmiðilsins að aga aðila vinnumarkaðsins og aðra þá sem bera ábyrgð á þjóðhagslegum kostnaði og skylda þá til að bera ábyrgð. Vegna smæðar sinnar og innra misgengi atvinnuvega megnar íslenska krónan hvorki að sinna þessu né flestu af því sem prýða traustan gjaldmiðil.
Reynsla síðustu áratuga
Krónan hríðféll í aðdraganda og eftirmálum Hrunsins, en opnað hafði verið fyrir alfrjálsa og óhefta fjármagnsflutninga fáum árum fyrr. Haftaleysið lauk einnig upp leið fyrir fjármagnsflótta í skattaskjól. Meira að segja opinberir björgunarpeningar enduðu á karabískum tortólum. Þeir sem þessa peninga áttu eða hirtu, komu sínum efnum í skjól, hinir sem lentu í gengishruninu misstu sitt. Síðan þegar erlendir ferðamenn tóku að streyma hingað til að sjá eldfjalla eyjuna frægu var sveigjanleika krónunnar að ósekju, þökkuð uppsveiflan. Fæstir sögðu frá þeim byrðum sem lagðar voru á almenning.
Hvergi lék Hrunið almenning verr en hérlendis. Til að bæta gráu ofan á svart var tortólufurstunum þökkuð fyrirhyggjan með því að búa til fyrir þá sérstakt gengi svo þeir gætu beint peningum sínum aftur upp á eyjuna hvítu með umtalsverðum óskattlögðum hagnaði. Segið svo að þjóðleg yfirráð yfir gjaldmiðlinum sé ekki þarfaþing og útvöldum mikilsverður búhnykkur. Þetta yfirlit er lærdómsríkt því það segir okkur að krónan muni aldrei geta verið alfrjáls gjaldmiðill, heldur muni þurfa að setja höft á fjármagnsflutninga í einhverri mynd. Um þessar mundir eru lífeyrissjóðirnir látnir axla þessar byrgðar.
Stöðugur gjaldmiðill er forgangsmál
Þessi tvö dæmi, gengissig og gjaldeyrisflótti, sýna að krónuna má misbrúka (manipúlera) og beita jafnhendis af áhættufjárfestum, auðráðsmönnum sem og stjórnmálamönnum í aðskiljanlegum tilgangi. Vegna smæðar sinnar í sérhagmunastýrðu hagkerfi, er krónan ekki eins og hver annar gjaldmiðill, heldur er hún frekar efnahagslegt valdatæki. Af hverju áttum við heimsmet í flótta til karabísku skattaskjólanna? Stjórnmálamenn vilja ekki með nokkru móti sleppa henni úr efnahagslegu vopnabúri sínu.
Forsvarsmenn samtaka alþýðu verða að átta sig á því að almannahagur er stöðugur alþjóðlegur gjaldmiðill. Nokkrar heilaaflraunir þarf til að geta sannfært sig um að sjá krónuna geta til lengdar uppfyllt það. Ef launþegahreyfingin vill varðveita árangur sinn í kjarabaráttunni þarf hún að gera stöðugan gjaldmiðil að forgangsmáli og/eða knýja á um lækkun á nauðþurftum s.s. húsnæði og landbúnaðarvörum. Það er auðvelt að benda á að íslensk laun séu ekki of há ef þau eru borin saman við verðlag á svokölluðum nauðsynjum. Ef alþjóðleg samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega þolir ekki hærri laun þá verður að lækka framfærslukostnað heimilanna. Reynsla þeirra Norðurlandaþjóða sem tekið hafa þátt í ríkjasambandi ESB bendir eindregið til þess að þetta hafi tekist þar með ágætum. Ódýrari matvara er lykilatriði.
Að undanförnu hefur genginu verið haldið nokkuð stöðugu. Það dregur þó ekki hugann frá því að erlendir fjárfestar hafa hljóðlega verið að taka saman fjármálaföggur sínar, pakka þeim niður og flytja þær úr landi. Góðæri peningaflæðisins mun vara fram að kosningum. Þá verður kúrsinn tekinn að nýju. Verða tekin ný erlend lán til að styrkja krónuna og viðhalda kaupmætti ; verður gripið til aðhaldsaðgerða í opinberum fjármálum eða mun gosið bjarga ferðamannaiðnaðinu og draga hlassið að landi að nýju?
Hið opinbera er orðinn stærsti atvinnurekandinn
Hinn áhrifavaldur kaupmáttar er verðhækkanir vegna aukins kostnaðar launagreiðenda. Kauphækkanir hafa líka áhrif á framboð og gæði opinberrar sem einkaveittrar þjónustu. Hækkuð laun geta valdið verðhækkunum þar sem svigrúm til að kokgleyma kostnaðarhækkanir er lítið eða ekkert. Hefðbundin slagorð stéttabaráttunnar ættuð frá Karli gamla Marx, frá miðri og ofanverði nítjándu öld, urðu til i afar einhæfum iðnaðarþjóðfélögum án teljandi opinberrar þjónustu. Kaupkröfum var því eðlilega beint til „arðrænandi kapítalista” sem áttu og ráku iðnfyrirtækin.
Eftir að áhrifa sósíaldemókrata fór að gæta og ríkið var smám saman gildari þátttakandi í atvinnu- og þjónustulífinu, breyttist staða verkalýðshreyfingarinnar og eðli stéttabaráttunnar. Ríki og sveitarfélög urðu að stór atvinnurekendum. Uppistaða tekna þeirra voru skattar almennings. Hnattvæðingin jók enn á flækjustigið. Þjóðleg fyrirtæki urðu alþjóðleg. Launastigið heima fyrir gat valdið því að fyrirtækin fluttu aðsetur sitt og léku kjaralega sem skattalega lausum hala. Staða hins opinbera varð enn tvíeggjaðri eftir að kröfur nýfrjálshyggjunnar um skattlinku eða skattleysi tekna af hvers konar auði og auðlindum urðu ráðandi hugmyndafræði hér. Enn er langt í land með, að þeir sem nýta sér auðlindir í hagnaðarskyni greiði sanngjarnt afgjald fyrir lögverndaðan nýtingarrétt. Þetta á við fiskimið, sjávareldi, vindorku og fallvötn.
Sumstaðar þrengir að
Það er þess virði að skoða nánar hver áhrif tiltölulega stöðugar krónu hefur á efnahagskerfið. Launahækkanir sem áður hefðu verið þurrkaðar út og gerðar óvirkar með gengislækkun verða rekstraraðilar nú að bera. Sé svigrúm ekki til staðar verða úrræði þeirra ýmist hækkun verðs eða samdráttur í þjónustu. Harðast bitnar þetta á opinberri þjónustu eða einkarekinni þjónustu á heilbrigðis- og velferðarsviði. Þangað þarf að veita auknu opinberu fé og/eða hækka dvalar- og meðferðargjöld svo ekki sé minnst á lækkað þjónustustig.
Talið er að þar muni vanta marga, jafnvel tugi milljarða króna árlega til að geta haldið óbreyttu þjónustustigi. Í þessum tilfellum borgar almenningur sjálfur launahækkanir starfsfólksins, því ekki má sækja fé í hendur þeirra ríkustu hvað þá innheimta leigufé af auðlindanýtingu. Margt bendir til að síðustu kauphækkanirnar hafi rofið þanþol hluta hagkerfisins. Þótt svigrúm sé til staðar sumstaðar þá er ekki nóg til af öllu alls staðar, nema breytt sé um grunnstærðir. Að þeim óbreyttum gæti afleiðingin orðið fjármagns- og hugvitsflótti og innri stöðnun samfara aukinni ríkisaðstoð við atvinnulífið.
Höfundur er hagfræðingur.