Varnargarðurinn um krónuna

Hagfræðingur og þingframbjóðandi Samfylkingarinnar skrifar um íslensku krónuna.

Auglýsing

Það myndaðist gat á þjóðarreikningnum í fyrra út af COVID en við reynum að halda dampi. Fyrir því er tekið lán. Mikil ánægja var með möguleika Seðlabankans að lækka vexti í kreppu, ekki hækka eins og síðast og svo oft áður. Af hverju var það hægt? Vegna þess að krónan var ekki í frjálsu falli og verðbólga því hófleg. Krónan veiktist nefnilega „aðeins“ um 11% í fyrra.

Við sitjum á 800 milljarða króna gjaldeyrisvaraforða, stríðskistunni okkar sem við söfnuðum í þegar ferðaþjónustan var í blóma. Þegar áfallið dundi á ferðaþjónustunni var þarna sjóður, m.a. fyrir tilstuðlan greinarinnar, sem við gátum sótt í til að halda aftur af hraðri veikingu krónunnar í fyrra.

Ásamt því að stýra söfnun í gjaldeyrisvaraforða var fyrrum seðlabankastjóri drifkrafturinn á bak við reglur um takmarkanir á innflæði erlends fjármagns til landsins. Á þessum árum mældist mun meiri hagvöxtur, mun minna atvinnuleysi og mun meiri launavöxtur hér en í löndunum í kringum okkur. Hitinn var mikill í hagkerfinu. Heitara hagkerfi, hærri vextir. Þetta hefur verið helsta réttlæting þess að ríghalda í sjálfstæðan gjaldmiðil; að þannig höfum við stjórn á vaxtastigi innanlands.

Auglýsing

Munur á vaxtastigi hér og erlendis laðar aftur á móti að „heitt fjármagn“. Pening sem stoppar stutt, kemur inn í háa ávöxtun en fer um leið og aðstæður breytast. Svona fjármagnsflæði felldi krónuna árið 2008. Ákveðið var að setja á höft á skammtíma fjármagnsinnflæði 2016 til að koma í veg fyrir að ójafnvægi myndi skapast á ný – hér var heitt hagkerfi, háir vextir. Þessi aðgerð var gagnrýnd, sérstaklega af öflum í fjármálageiranum og einstaka hagsmunaaðilum í viðskiptalífinu.

Ásamt gjaldeyrisforðanum er þessi aðgerð hins vegar ein stærsta ástæðan fyrir því að krónan veiktist „aðeins“ um 11% í fyrra. Hér var ekki mikið erlent fjármagn sem hljóp út. Það litla sem var til staðar fór að miklu leyti þegar gjaldeyristekjurnar hurfu tímabundið af sjónarsviðinu. Staðan á gjaldmiðlinum okkar væri líklega enn verri ef ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana árin fyrir COVID.

Sjálfstæði í peningamálum, getan til að setja eigin vaxtastig – um það hefur krónuumræðan svo oft snúist. Að þegar loksins yrði hægt að lækka hér vexti gæti ríkissjóður tekið langtímalán á lágum vöxtum eins og Bandaríkin og Evrópulöndin gera þessa dagana. Austurríska ríkið gaf út 100 ára bréf á 0,88% vöxtum í fyrra. En það hafa ekki margir viljað kaupa ríkisskuldir til langs tíma í íslenskum krónum á lágum vöxtum síðastliðið ár. Eftirspurnin er takmörkuð eftir íslenskum krónum. Lífeyrissjóðir landsins, í eigu okkar allra, eru stærstu fjármagnseigendurnir í landinu en fyrir þá eru langar ríkisskuldir í íslenskum krónum á lágum vöxtum ekki ákjósanlegur valkostur.

Ríkissjóður hefur því undanfarið ár gripið til þess að fjármagna sig á víxlum, eins árs bréfum og undir lok ársins á tveggja ára bréfum. Bankarnir hafa verið stærstu kaupendur þeirra bréfa og raunar má rekja meirihluta keyptrar útgáfu ríkissjóðs í krónum til bankanna. Krónuskuldir ríkissjóðs virðast vera góður staður til að geyma peninga í skamman tíma. Lágir vextir sem ríkissjóður greiðir nú er því skammtímastaða. Lítill hluti af nýjum skuldum ríkissjóðs er á lágum vöxtum til langs tíma.

En stærsta lántakan í þessu ástandi hefur falist í því að sækja meira fé til að verja krónuna. Á vöxtum sem eru ákvarðaðir af erlendum seðlabanka, ekki þeim íslenska. Ríkisstjórnin í samstarfi við Seðlabankann hefur bætt enn við varnargarðinn um gjaldmiðilinn með 117 milljarða króna erlendu láni sem tekið var í janúar – þetta er ekkert annað en viðbótarveð fyrir krónuna. Ríkissjóður fékk lán hjá erlendum fjárfestum ekki í krónum, heldur í erlendum gjaldeyri. Frá því að COVID hófst hefur erlend lántaka numið 200 milljörðum króna. Það er meira en öll hrein lántaka ríkissjóðs á tímabilinu í krónum. Umtalsverð umfram eftirspurn var eftir þessum skuldum – enda í evrum. Þessi lántaka fer beinustu leið í forðann. Lán á núll prósent vöxtum sem liggur svo á neikvæðum vöxtum á bankabók erlendis og bíður örlaga sinna í baráttu fyrir krónuna.

Aðalástæðan fyrir því að ekki fór verr fyrir krónunni í fyrra er sú að hér var sjálfstæða gjaldmiðlinum stýrt af mjög mikilli festu – það þurfti höft og risagjaldeyrisforða, og enn meiri gjaldeyrisforða með erlendri lántöku. Meðan krónan er gjaldmiðill Íslands er slíkur varnargarður nauðsynlegur og brýnt að settar séu fyrirsjáanlegar leikreglur og skýrar lagaheimildir um beitingu þessara stýritækja. En eftir því sem varnargarðurinn stækkar hlýtur að leita á okkur spurningin: er þetta ekki að verða óþarflega flókið?

Höfundur er hagfræðingur og þingframbjóðandi Samfylkingarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar