Landsmenn sitja nú límdir við sjónvarpið á sunnudagskvöldum og fylgjast með lífinu í Verbúðinni. Verbúðin er enda frábærlega vel gerð og í takt við tíðaranda Verbúðarinnar að fylgjast með þáttunum í línulegri dagskrá. Töluverð umræða hefur skapast um tíðarandann, þá mynd sem dregin er upp af íslensku samfélagi, um reykingarnar og fatnaðinn og auðvitað lífið í verbúðinni. Þetta er saga tímans sem var. Sagan um veiðarnar, verbúðina og lífið í kringum fiskinn.
70 milljarðar í arð en 35 milljarðar í veiðigjöld
Kvótakerfið var sett á vegna slæms ástands fiskistofna við landið. Ákvarðanir um veiðar eru í kjölfarið teknar út frá vísindalegum forsendum. Framleiðni, hagræðing og verðmætasköpun hefur aukist. Það er í þágu þjóðfélagsins alls. Á hinum pólitíska vettvangi og af hálfu hagsmunaaðila er hins vegar stunduð ákveðin gaslýsing þegar látið er að því liggja að sárið hjá þjóðinni snúist um hvernig fyrirkomulag veiðanna á að vera. Ágreiningurinn snýst alls ekki um það heldur um hvað þjóðin fær fyrir að veita útgerðinni aðgang að þjóðareigninni sem sjávarauðlindin er. Það vita þeir auðvitað sem stunda gaslýsinguna.
Verbúðin er saga tímans sem var en hún er því miður líka saga dagsins í dag. Arðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá 2016 til 2020 nema meira en 70 milljörðum króna. Útgerðir hafa á sama tíma greitt tæpa 35 milljarða í veiðigjöld. Veiðigjöldin eru sem sagt helmingur þess sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna fengu í arð. Hagnaður útgerða fyrir skatta og gjöld frá 2011 til 2020 var 616 milljarðar. Á sama tíma greiddi sjávarútvegurinn tæplega 30% í skatta, opinber gjöld og veiðigjöld.
Það sem öllu máli skiptir
Pólitískar átakalínur um þetta mál eru skýrar. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri Græn standa saman um að verja óbreytt ástand. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír standa þannig í vegi fyrir réttlátum breytingum. Það var til dæmis skýrt þegar unnið var að auðlindaákvæði í stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili. Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um auðlindaákvæði fór algjörlega gegn því markmiði að verja auðlindina með þeim hætti sem kallað hefur verið eftir. Í frumvarpi forsætisráðherra var talað um þjóðareign en þess vandlega gætt að gefa orðinu enga raunverulega merkingu. Bara orðin tóm. Orðið þjóðareign hefur ekki raunverulega merkingu nema það komi fram með skýrum hætti fram í stjórnarskrá að nýting á sameiginlegri auðlind sé gerð með tímabundnum samningum og að greiða skuli eðlilegt gjald fyrir þessa nýtingu. Og með því að verja þjóðareignina í stjórnarskrá myndi ekki skipta máli hvaða flokkar væru við völd á hverjum tíma því ríkisstjórnin væri bundin af stjórnarskrá um að réttur til að nýta sameiginlega auðlind væri alltaf tímabundinn. Þetta er því það atriði sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi.
Sáttin sem sárlega vantar
Stefna Viðreisnar er að greitt verði eðlilegt markaðsgjald fyrir aðgang að fiskimiðunum. Það er hin skynsama leið, það er hin réttláta leið og það er hin trúverðuga leið sem getur skapað sátt um sjávarauðlindina. Sátt sem svo sárlega vantar. Þetta er sanngjörn leið fyrir þjóðina, fyrir sjómenn og felur jafnframt í sér sanngjarnar leikreglur fyrir útveginn.
Við viljum að ákveðinn hluti kvótans fari á markað á hverju ári. Þannig fæst markaðstengt gjald fyrir aðgang að fiskimiðunum sem mun skila íslensku þjóðarbúi umtalsvert hærri tekjum en nú er. Stefna Viðreisnar er jafnframt að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá um að afnot af þjóðareigninni verði tímabundin og að fyrir afnot skuli greiða eðlilegt markaðsgjald.
Þetta eru þau atriði sem öllu máli skipta í hinu pólitíska samhengi. Í því samhengi má einmitt nefna að tímabinding réttinda er rauði þráðurinn í lagasetningu þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til nýtingar á öðrum náttúruauðlindum í þjóðareign. Einhverra hluta vegna gildir önnur regla um sjávarauðlindina. Þegar við horfum á Verbúðina hljótum við að spyrja hvers vegna farin er önnur leið um fiskimiðin en um aðrar náttúruauðlindir.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.