Auglýsing

Frels­is­hug­takið skýtur stundum upp koll­inum í opin­berri umræðu um skipu­lags­mál á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Er þá gjarnan talað um frelsið sem einka­bíll­inn færir fólki til að bruna um á milli staða í borg­inni, þegar því hent­ar, frá dyrum að dyr­um. Frelsið til að keyra um allt, óhindr­að­ur, helst án þess að stoppa. Frjálst flæði, er það stundum kall­að.

Sjaldnar er hins vegar rætt um fylgi­fiska þess að einka­bíll­inn hafi eða fái ótak­markað frelsi og hvernig frelsi einka­bíls­ins og sú upp­bygg­ing borg­ar­svæð­is­ins sem það óhjá­kvæmi­lega krefst dregur úr frelsi allra sem í borg­inni og nágranna­sveit­ar­fé­lögum hennar búa.

Mis­skilið frelsi vara­borg­ar­full­trúa

Nýlega birt­ist grein á vef­miðl­inum Vísi eftir Baldur Borg­þórs­son vara­borg­ar­full­trúa, sem nýlega sagði skilið við Mið­flokk­inn og gekk í Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Grein hans kjarn­aði ágæt­lega ákveð­inn mis­skiln­ing sem oft gætir um einka­bíl­inn og frelsi. Undir fyr­ir­sögn­inni To bíl or not to bíl setti vara­borg­ar­full­trú­inn upp „lítið dæmi“ til þess að krist­alla mun­inn á flokk­unum sem nú starfa saman í meiri­hluta í Reykja­vík­ur­borg og hans nýju félögum í Sjálf­stæð­is­flokknum með til­liti til skipu­lags- og sam­göngu­mála.

Dæm­ið, eins og Baldur setti það upp, snýst um „for­ræð­is­hyggju“ meiri­hlut­ans og „frelsi“ sem hann segir Sjálf­stæð­is­flokk­inn bjóða upp á í þessum mál­um. Frelsi, sam­kvæmt Baldri, er að þú ákveðir hvar þú vilt búa, hvernig hús­næði þú vilt búa í, hvenær þú vilt ferð­ast milli staða og með hvaða hætti.

Þessu stillti vara­borg­ar­full­trú­inn upp gegn meintri for­ræð­is­hyggju meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur. Fólkið sem þar sit­ur, full­yrti Bald­ur, vill ákveða hvar fólk býr, hvernig hús­næði það megi búa í, hvenær það ferð­ist á milli staða og með hvaða hætti. „Þegar gengið verður til borg­ar­stjórn­ar­kosn­inga þann 14. maí næst­kom­andi verða val­kostir kjós­enda afar skýr­ir: Frelsi eða for­ræð­is­hyggja,“ skrif­aði Bald­ur.

Alvöru frelsi í sam­göngum er ekki til staðar

Það sem vara­borg­ar­full­trú­inn hins vegar minnt­ist ekki á í grein sinni er það hvernig raun­veru­legt frelsi fólks á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til þess að velja sér ferða­máta er í dag veru­lega skert, vegna ákvarð­ana sem teknar hafa verið um upp­bygg­ingu höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins.

Í Reykja­vík í dag ferð­ast til dæmis mjög margir með öðrum hætti en þeir helst myndu vilja, eða með einka­bíln­um, sem yfir­völd hafa, með skipu­lags­á­kvörð­un­um, ákveðið að þau skuli þurfa til þess að sinna sínum dag­legu erind­um. Þetta hefur verið stað­fest ár eftir ár eftir ár í ferða­venjukönn­unum sem Mask­ína hefur fram­kvæmt fyrir Reykja­vík­ur­borg.

Í þeirri sem var gerð árið 2021 sögð­ust tæp 75 pró­sent borg­ar­búa yfir 18 ára aldri oft­ast fara á einka­bílnum til vinnu, á meðan ein­ungis 46 pró­sent sögð­ust helst vilja fara keyr­andi til og frá vinnu. Í sam­bæri­legri könnun árið 2020 sögð­ust rúm 63 pró­sent keyra á sínum einka­bíl í vinn­una, en bara 36 pró­sent borg­ar­búa sögðu að það væri sitt fyrsta val.

Það er því nokkuð stórt bil á milli vilja fólks og þeirra aðstæðna sem þeim er boðið upp á í borg­ar­um­hverf­inu. Svör borg­ar­búa í þessum könn­unum und­an­far­inna ára bera það glögg­lega með sér að hæpið er að tala um að raun­veru­legt val á milli ólíkra ferða­máta sé til staðar í dag fyrir allan þorra almenn­ings á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Fyrir flest fólk er þjón­usta almenn­ings­sam­gangna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu í dag of tíma­frek, óskil­virk og heft­andi til þess að dag­legt líf gangi upp með því að reiða sig á hana. Almenn­ings­sam­göng­urnar eru með öllu ósam­keppn­is­hæfar við einka­bíl­inn og flestir þurfa að hliðra nokkuð til í dag­legu lífi sínu til að láta notkun þeirra ganga upp.

Ástæðan fyrir því er svo sú að almenn­ings­sam­göngur á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hafa ára­tugum saman fyrst og fremst verið hugs­aðar sem ein­hvers­konar þrauta­vara­úr­ræði fyrir fólk sem annað hvort hefur ekki efni á að reka bíl eða hefur ekki aldur eða getu til þess að keyra bíl.

Fólkið sem tekur ákvarð­anir um hvernig almenn­ings­sam­göngu­kerfið skuli fjár­magnað og rek­ið, á þingi og í sveit­ar­stjórn­um, til­heyrir flest ekki þeim hópum og getur eflaust fæst hugsað sér að taka stræt­is­vagn í sínum dag­legu ferðum um höf­uð­borg­ar­svæðið í dag.

Bíl­hæði, slig­andi kostn­aður og biðraðir

Á und­an­förnum ára­tugum hafa verið stigin skref í skipu­lags­málum í Reykja­vík og á höf­uð­borg­ar­svæð­inu öllu, sem hafa aukið þörf þeirra sem búa á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til þess að eiga og reka sinn eigin bíl. Fjar­lægðir á milli fólks hafa verið auknar með upp­bygg­ingu þjón­ustu­lágra úthverfa hér og þar í jaðri byggð­ar­inn­ar, með rang­hölum og botn­löngum sem gera það að verkum að ótrú­lega óhag­kvæmt verður að þjón­usta hverfin með öfl­ugum almenn­ings­sam­göng­um.

Ákvarð­anir hafa að auki verið teknar um að hrúga upp sér­stökum stór­versl­un­ar­hverfum með risa­vöxnum versl­un­ar­skemm­um, sem flest eiga það sam­eig­in­legt að án einka­bíls­ins er erfitt að kom­ast þangað og á stundum bein­línis hættu­legt að feta sig um þau fót­gang­andi eða hjólandi, yfir enda­laus bíla­stæða­flæmi. Þessi hverfi hafa svo sogað þjón­ustu út úr nærum­hverfi fólks, enda hag­kvæmara fyrir versl­un­ar­menn að reka eina risa­vaxna búð en nokkrar litlar innan hverfa.

Hér má nefna versl­un­ar­kla­s­ann á Fiski­slóð í Reykja­vík, Kaup­túnið í Garðabæ og Linda­hverfið í Kópa­vogi, auk að sjálf­sögðu Skeif­unn­ar. Sleppum Korpu­torgi í þess­ari upp­taln­ingu, því þaðan hefur nær öll þjón­usta horfið á und­an­förnum árum þrátt fyrir að þar hafi þús­undir fer­metra verið mal­bik­aðir undir einka­bíl­inn.

Þús­undir þurfa að leggja leið sína á ofan­greinda staði og fleiri svip­aða á hverjum ein­asta degi, til að sækja sér þjón­ustu. Vegna skipu­lags­á­kvarð­ana hins opin­bera er lang­besta leiðin til þess að kom­ast á þessa staði með einka­bíl.

Auglýsing

Þessar skipu­lags­á­kvarð­anir allar saman hafa, hvernig sem maður horfir á það, hálf­part­inn neytt íbúa á höf­uð­borg­ar­svæð­inu til þess að reka bíl, að minnsta kosti einn á hverja fjöl­skyldu, jafn­vel tvo, með til­heyr­andi kostn­aði. Sam­kvæmt síð­asta mati Félags íslenskra bif­reiða­eig­enda á rekstr­ar­kostn­aði nýrra bif­reiða nemur hann á bil­inu 1,2-2,3 millj­ónum á ári. Það munar um minna.

Því má svo ekki gleyma að bíl­arnir í borg­inni hefta svo í reynd frelsi hvors ann­ars og rað­ast upp í kíló­metra langar biðraðir á morgn­ana og síð­deg­is, öllum til mæðu. Þá fara að heyr­ast köll þess efnis að nú þurfi að gera meira fyrir einka­bíl­inn, mal­bika meira land og byggja brýr og slaufur svo umferðin gangi smurt fyrir sig. En það eykur bara á vand­ann til langs tíma lit­ið, þar sem slík upp­bygg­ing gerir almenn­ings­sam­göng­ur, hjól­reiðar og göngu óhjá­kvæmi­lega að enn lak­ari sam­göngu­kostum sökum þeirra áhrifa sem mann­virki undir einka­bíl­inn hafa á umhverf­ið.

Stundum er sagt að það sé ein­kenni þroskaðra borg­ar­sam­fé­laga að í þeim kjósi efnað fólk almenn­ings­sam­göngur sem sinn ferða­máta. Í minna þroskuðum borgum eru almenn­ings­sam­göngur á móti fyrst og fremst álitnar sem þjón­usta við þá sem hafa ekki efni á að reka bíl. Stór-Reykja­vík fellur því miður enn í síð­ari hóp­inn.

Strætó þarf að vera sam­keppn­is­hæfur

Það sem þarf að gera, til að breyta þess­ari stöðu, er að gera almenn­ings­sam­göngur að betri val­kosti. Það þarf að geta verið þægi­legra og jafn­vel fljót­leg­ara á háanna­tím­um, en ekki bara ódýr­ara, að ferð­ast með stræt­is­vagni á milli staða en einka­bíln­um. Til þess að almenn­ings­sam­göngur hafi ein­hvern mögu­leika á að verða fljót­legri og betri val­kostur en einka­bíll­inn þurfa almenn­ings­vagnar að geta ferð­ast um óháð því hversu margir einka­bílar eru að streyma um göt­urnar á sama tíma. Þær þurfa sitt sér­rými.

Bless­un­ar­lega virð­ast stjórn­mála­menn í flestum flokkum á sveit­ar­stjórn­ar­stig­inu á höf­uð­borg­ar­svæð­inu vera búnir að kveikja á þessu fyrir all­nokkru síð­an. Á síð­asta ára­tug hefur verið mörkuð sam­eig­in­leg stefna sveit­ar­fé­lag­anna í þá átt að þróa borg­ar­svæðið inn á við, stytta fjar­lægðir með þétt­ingu byggðar á þeim svæðum sem liggja best við almenn­ings­sam­göngum og gera fólki kleift að hafa raun­veru­legt val um ferða­máta.

Þannig er stefnt að því að veita fólki frelsi til þess að fækka bílum úr heim­il­is­bók­hald­inu, hvort sem það er úr þremur niður í tvo, úr tveimur niður í einn eða úr einum niður í núll. Þetta er það sem stóra myndin í borg­ar­línu­verk­efn­inu snýst um.

Að fjölga tæki­færum fólks til þess að velja annað en einka­bíl­inn með því að byggja upp öfl­ugt og aðlað­andi almenn­ings­sam­göngu­kerfi og örugga hjóla­stíga.

Að bjóða íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins upp á þann val­kost að sam­býl­is­fólk geti auð­veld­lega hagað lífi sínu þannig að það þurfi bara í mesta lagi á einum einka­bíl að halda til að sinna dag­legum ferða­þörfum fjöl­skyld­unn­ar.

Að hægt sé að sleppa því að skutla börnum í tóm­stund­ir, þar sem þeirra bíði áreið­an­legur val­kostur almenn­ings­sam­gangna eða öruggt borg­ar­um­hverfi til að ferð­ast í hjólandi eða gang­andi.

Að þjón­ustan sem fólk þarf að sækja sér sé fremur í nærum­hverf­inu innan hverfa, en síður í óað­gengi­legum bíla­eyði­mörk­um.

Frelsið til þess að eiga bíl og fara flestra sinna ferða á bíl um höf­uð­borg­ar­svæðið verður svo sann­ar­lega áfram til staðar þrátt fyrir upp­bygg­ingu hágæða almenn­ings­sam­göngu­kerfis og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu hjóla­stíga fyrir alla sem þá kjósa, þrátt fyrir stöku upp­hróp­anir um ann­að.

Með upp­bygg­ingu Borg­ar­línu og þétt­ingu byggð­ar­innar umhverfis legu hennar er ein­fald­lega verið að bæta við val­kosti fólks og minnka ófrelsið sem ára­tugir af upp­bygg­ingu og borg­ar­þróun í þágu einka­bíls­ins hafa lagt á íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Úlfar Þormóðsson
Uppvakningar
Kjarninn 25. júní 2022
Ingrid Kuhlman
Að hlakka til einhvers er næstum jafn gott og að upplifa það
Kjarninn 25. júní 2022
Niðurhal Íslendinga stóreykst milli ára
Íslendingar notuðu 25 prósent meira gagnamagn á farsímaneti í fyrra en árið áður og 21 prósent meira gagnamagn í gegnum fastanet. Tæplega 76 prósent notenda á fastaneti eru nú með ljósleiðaratengingu, en þeir voru þriðjungur 2016.
Kjarninn 25. júní 2022
Af kosningavöku Framsóknarflokksins í fyrrahaust.
Framsókn hirti kjósendur í stórum stíl frá hinum stjórnarflokkunum og Miðflokki
Fylgisaukning Framsóknar í síðustu kosningum var tekin frá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn og klofningsflokki. Átta hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks voru úr kjarnafylginu. Framboð Sósíalista hafði neikvæð áhrif á fylgi Vinstri græna og Pírata.
Kjarninn 25. júní 2022
Hraðtíska nær nýjum hæðum með tilkomu tískurisans Shein
Kínverska fatafyrirtækið Shein hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Umhverfissinnar benda á að fötin séu úr svo litlum gæðum að oft séu þau aðeins notuð í eitt skipti áður en þau enda í ruslinu.
Kjarninn 25. júní 2022
Auður Önnu Magnúsdóttir
Af hverju nýta Íslendingar raforkuna sína svo illa?
Kjarninn 25. júní 2022
Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru að ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Kjarninn 25. júní 2022
Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar andar ofan í hálsmál flokks Bjarna Benediktssonar samkvæmt síðustu könnunum.
Framsókn mælist næstum jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnarflokkarnir hafa tapað umtalsverðu fylgi á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn nær mun verr til fólks undir fertugu en annarra á meðan að Framsókn nýtur mikilla vinsælda þar. Vinstri græn mælast með þriðjungi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Kjarninn 24. júní 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari