Hér á eftir verður fjallað um verðbólgu, skaðsemi hennar og leiðir til að ná henni niður.
Sagan
Frá upphafi 21 aldar hefur verðbólga ekki verið talin sérstakt vandamál í vestrænum iðnríkjum. Á árunum 1970 til 1990 var aftur á móti verðbólga eitt helsta viðfangsefni hagstjórnar. Á þeim tíma sem liðinn er hefur þekking á fyrirbærinu sennilega tapast að einhverju leyti.
Milton Friedman dregur saman vitneskju um verðbólgu í bók sinni Money Mischief- Episodes in Monetary History á eftirfarandi hátt:
- Verðbólga er peningalegt fyrirbæri sem er afleiðing af hraðari vexti peningamagns en framleiðslu.
- Stjórnvöld ráða eða geta ráðið vexti peningamagns.
- Það er aðeins ein lækning við verðbólgu, hægari vöxtur peningamagns.
- Það tekur tíma fyrir verðbólgu að ná fótfestu ( talið í árum) og langan tíma að hjaðna.
- Óskemmtilegar aukaverkanir fylgja hjöðnun verðbólgu.
Ef verðbólga er aðeins peningalegt fyrirbæri er orsakanna ekki að leita í raunhagkerfinu. Verðhækkun á t.d. olíu leiðir ekki til verðbólgu ein og sér. Ef innflutt olía eða bensín hækkar mikið geta menn annars vegar minnkað notkun svo sem í anda hagsýnu húsmóðurinnar sem sagði að sig varðaði ekkert um það hvað benzínlíterinn kostaði, hún keypti alltaf fyrir fimm þúsund á viku. Hins vegar geta menn haldið óbreyttri notkun en þá minnkar spurn eftir öðrum vörum, sem lækka væntanlega í verði. Þriðja leiðin er að halda öllu óbreyttu um hríð með því að auka útlán eða peningamagn og þar með fer olíuverðshækkunin út í verðlagið. Ósjálfbærar kaupkröfur verkalýðsfélaga eru oftar afleiðing af verðbólgu fremur en orsök og sama gildir um þenslu á húsnæðismarkaði.
Orsakir fyrir aukningu peningamagns geta verið margvíslegar. Það er þó fyrst og fremst ríkissjóður (hið opinbera) og bankakerfið, ásamt seðlabanka, sem geta framleitt meiri peninga en samræmist framleiðslumagni. Hér á árum áður þegar verðbólgan var sem mest töluðu ráðamenn alltaf um verðbólgu eins og hún væri utanaðkomandi vandi þrátt fyrir það að hún væri þeirra eigið skilgetið afkvæmi.
Undanfarin ár hefur peningamagn hérlendis (M3) yfirleitt aukist hraðar en þjóðarframleiðsla. 2019 til 2021 varð að meðaltali nær engin hagvöxtur vegna niðursveiflunnar 2020 en peningamagn jókst um rúmlega 8% að meðaltali hvert ár. Útgjöld hins opinbera voru langt umfram tekjur 2020 og 2021. Jafnframt slakaði seðlabankinn á peningalegu aðhaldi ásamt verulegri vaxtalækkun. Þessi framvinda er að talsverðu leyti viðbrögð við Covid faraldrinum. Hvað sem segja má um gagnsemi þeirra er ljóst að núverandi verðbólga hefur verið að grafa um sig í nokkurn tíma.
Skaðsemi verðbólgunnar þarf ekki að tíunda. Hún veldur ófyrirsjáanlegum tilfærslum á eignum og tekjum, dregur úr framleiðslu, veikir gengið, leiðir til rangra fjárfestinga, skerðir kjör almennings, einkum þeirra verst settu, og veldur almennt ójafnvægi í hagkerfinu.
Vextir og verðbólga
Sú verðbólga sem nú herjar á Vesturlönd er bein afleiðing af lágum vöxtum, hallarekstri ríkissjóða og mikilli peningaprentun undanfarin ár sem ætlað var að halda uppi eftirspurn og þar með framleiðslu á Covid tímum. Þá hefur stríðið í Úkraínu og flöskuhálsar í framleiðslu aukið á vandann. Mjög lágir vextir eru óeðlilegt ástand þar sem ávöxtunarkrafa á nýframkvæmdir verður óraunhæf og lánstraust vex úr hófi því fleiri standast greiðslumat t.d. við húsnæðiskaup. Evrópski seðlabankinn hefur fram að þessu talið að verðhækkanir á olíu og ýmsum nauðsynjum muni ekki kalla á vaxtahækkanir þar sem áhrifin á verðlag muni hjaðna hratt. Í Bandaríkjunum og víðar eru vaxtahækkanir hafnar. Reyndar virðist Milton Friedman telja að það sé misskilningur að seðlabankar geti stjórnað vöxtum. Hér er áherslumunur því seðlabankar hafa augljóslega áhrif á vaxtastigið þó fullkomin stjórn sé ekki fyrir hendi. Vextir eru háðir mörgum þáttum svo sem arðsemi framkvæmda, ásamt framboði og eftirspurn á lánsfé. Jafnvel þótt vaxtahækkanir komi til framkvæmda munu þær einar sér ekki duga til að draga úr verðbólgu, til þess þarf að draga úr hallarekstri hins opinbera og auka arðbæra framleiðslu.
Seðlabankinn hefur hækkað vexti ört til að ná tökum á verðbólgunni. Það er vandasamt verkefni að ákveða vaxtastig og tímasetningu vaxtabreytinga. Hærri vextir draga úr nýmyndun peninga smátt og smátt en röng tímasetning á vaxtahækkunum og/eða of háir vextir hafa neikvæð áhrif á afkomu heimila, framleiðslu og fjárfestingu. Áhrif á afkomu hins opinbera geta verið neikvæð og tafið fyrir því að jöfnuður náist.
Aðgerðir til að ráða niðurlögum verðbólgunnar hérlendis
Fallist menn á mat Milton Friedmans þarf fyrst og fremst að draga saman peningamagn til að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Áherslan verður þá á fjármál hins opinbera og sértækum ráðstöfunum til að takmarka útlánaþenslu svo sem að draga úr getu bankakerfisins (og lífeyrissjóða) til að auka peningamagn með raunhæfu lánshæfismati og hæfilegum arðsemiskröfum á allar fjárfestingar, þ.m.t. fjárfestingar hins opinbera. Minni þungi verður á vaxtatækinu en raunvextir þurfa að vera jákvæðir og endurspegla framboð og eftirspurn á lánsfjármarkaði.
Stefnt er að jöfnuði í útgjöldum hins opinbera á næstu 4-5 árum. Útgjöld hins opinber munu því vaxa í takt við þjóðarframleiðslu fram til 2027. Hið opinbera mun því ekki stuðla að samdrætti í peningamagni fyrst um sinn. Nauðsynlegt er að ríkisútgjöld vaxi hægar en hagvöxtur þegar frá næsta ári.
Seðlabankar leitast við að stýra verðbólguvæntingum með því meðal annars að upplýsa markaðinn um hvernig vaxtatækinu verði beitt til að ná verðbólgu niður. Það er umdeilanlegt að hve miklu leyti hægt er að stýra væntingum um verðbólgu. Þó er ljóst að væntingar um hærri verðbólgu geta virkað sem freisting til verðhækkana einkum ef um fákeppni eða einokun er að ræða á markaði. Besta vörn neytenda er öflug samkeppni. Hér þurfa stjórnvöld að vera á verði gegn sérhagsmunum og afnema höft á samkeppni utanlands sem innanlands.
Mikill fjöldi ferðamanna getur ýtt undir styrkingu gengisins tímabundið. Til að jafna sveiflur ætti að opna fyrir útstreymi fjármagns þannig að lífeyrissjóðir geti fært eignir erlendis í ríkara mæli. Þannig er dregið úr fjárfestingum sjóðanna á innlendum markaði og dregið úr peningamagni. Jafnframt minnkar áhætta þeirra af verkefnafjárfestingum innanlands sem ættu hvort sem er ekki að vera í þeirra verkahring nema að litlu leyti.
Til lengri tíma litið þarf að leitast við að lækka kostnað og spara útgjöld sem víðast í hagkerfinu. Draga verður úr hallarekstri með því hækka skatta og/eða ná fram sparnaði og hagræðingu. Aðilar frjálsa vinnumarkaðarins þurfa að gæta hófs í launakröfum sem og starfsmenn hins opinbera. Ná þarf fram sparnaði í opinberri stjórnsýslu. Samfélagið hefur t.d. ekki efni á að reka margfalt kerfi í stjórnsýslu sveitarfélaga. Hægt er að stórlækka matvælaverð með auknum innflutningi og samdrætti í óhagkvæmri landbúnaðarframleiðslu. Auðlindagjald í sjávarútvegi léttir byrðar ríkissjóðs og skattgreiðenda. Myntráð við evru og síðan innganga í evrusvæðið sparar mikinn viðskiptakostnað og styrkir peningakerfið. Traustur gjaldmiðill er ein forsenda fyrir efnahagslegum stöðugleika og lágri verðbólgu í opnu örhagkerfi.
Þegar verðbólga hjaðnar koma í ljós afleiðingar af röngum fjárfestingum með taprekstri og auknu atvinnuleysi. Mótvægisaðgerðir geta falist í skattalækkunum á lægstu laun en hækkun á háar tekjur til mótvægis, átaki í byggingu íbúða þar sem verði er haldið niðri með raðbyggingum og framboði á lóðum. Jafnframt þarf að efla atvinnustarfsemi sem nýtir menntað vinnuafl og skilar arði gegnum framleiðni og gæðasamkeppni. Ósjálfbær frumvinnsla er of stór þáttur í atvinnuuppbyggingu landsins.
Lokaorð
Hætt er við að verðbólga festist í sessi ef ekki er gripið til samræmdra aðgerða sem draga úr peningaþenslu. Vextir Seðlabankans hafa verið hækkaðir mjög hratt að undanförnu, mun hraðar en í nágrannalöndunum. Öðrum þræði er það fórnarkostnaður við örmynt án akkeris. Samt sem áður ættu vaxtahækkanir ásamt samdrætti í útgjöldum hins opinbera að bíta á verðbólguna en það tekur tíma. Lykilatriði er að hið opinbera og atvinnulífið taki höndum saman til að berja þennan vágest niður. Stöðugt gengi og verðlag, jöfnuður í fjármálum hins opinbera ásamt hæfilegu aðhaldi gegnum vaxtastig er forsenda fyrir efnahagslegum stöðugleika og framförum.