Stjórnarskrárfélagið óskar landsmönnum árs og friðar með þökkum fyrir þrautseigju og líflega baráttu á liðnum árum. Tugir þúsunda hafa lagt málstað nýju stjórnarskrárinnar lið með beinum hætti vitandi að ekki aðeins lýðræðið er í húfi. Lífskjör og lífvænleg framtíð komandi kynslóða í landinu, heilbrigðir stjórnarhættir og gagnsæ stjórnsýsla, áhrif kjósenda í kosningum og milli kosninga, félagslegt réttlæti og mannréttindi, náttúra landsins, réttlát skipting auðs og afrakstur af sameiginlegum auðlindum okkar, traustir dómstólar og réttarkerfi. Allt er þetta undir í nýju stjórnarskránni.
Í aðfaraorðum hennar segir: „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Það er íbúa landsins að móta og þróa samfélag sitt í samræmi við óskir sínar og drauma. Það er bæði réttur okkar og skylda.
Enn eitt árið er liðið án þess að núverandi flokkar á Alþingi megnuðu að virða úrslit kosninga um nýja stjórnarskrá. Það tíunda frá þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum hafa í huga á nýju ári og ávallt að slík framganga í stjórnmálum lýðræðisríkis er ekki eðlileg heldur óásættanleg vanhæfni og valdníðsla í senn.
Við skulum ekki venjast því!
Stjórnarskrárfélagið mun sem fyrr reiða sig á liðsinni almennings og halda baráttunni fyrir nýju stjórnarskránni áfram af fullum krafti á nýju ári.
Þær ánægjulegu fréttir bárust undir lok liðins árs að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, ætlaði að setja stjórnarskrármálið á dagskrá Alþingis, en þar hefur það legið óhreyft frá því að síðasta stjórnarskrártilraun stjórnmálaflokkanna misheppnaðist í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ef heilindi, lýðræðislegar grundvallarreglur og almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi en ofríki og sérhagsmunir látnir sigla sinn sjó, þá er auðveldlega hægt að leiða stjórnarskrármálið farsællega til lykta. Megi þau vatnaskil verða á nýju ári.
F. h. Stjórnarskrárfélagsins,
Katrín Oddsdóttir, formaður, Hjörtur Hjartarson, Ingólfur Hermannsson, Kristín Erna Arnardóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson, Þórir Baldursson