Í kviðum Hómers má lesa um Trójuhestinn. Grikkir sátu um borgina Tróju og brugðu á það ráð að smíða risastóran hest, holan að innan. Hest þennan drógu þeir með leynd að borgarhliðum Tróju og földu sig inni í honum. Grandalausir Trójumenn drógu hestinn inn fyrir borgarmúrana. Í skjóli nætur fóru grísku hermennirnir úr hestinum, opnuðu borgarhliðin og lögðu undir sig borgina. Síðan er hugtakið Trójuhestur notað um hverskyns beitingu sviksemi eða fagurgala til að leyna raunverulegum áformum sínum.
Flokkurinn Viðreisn er slíkur Trójuhestur nýfrjálshyggju. Stuðningur við nokkur áhugamál jafnaðarmanna gerir Viðreisn ekki að jafnaðarmönnum.
Auk hefðbundinnar velferðarstefnu sem jafnaðarmenn fyrri tíðar eiga allan heiður af eru fjölmörg mál sem á síðari árum hafa komist á dagskrá að frumkvæði jafnaðarmanna. Þar á meðal má nefna Evrópumálin, gjaldmiðilsmálin, krafan um fullt gjald fyrir afnot af auðlindum, krafan um jafnt vægi atkvæða, krafan um nýja stjórnarskrá og fleira mætti telja,. Hægri mönnum hefur sjálfsagt ekki litist á blikuna þegar ljóst var að þessi mál féllu í góðan jarðveg. Var því brugðið á það ráð að skipta Sjálfstæðisflokknum upp í tvo flokka og tók annar þeirra upp nokkur vinsæl stefnumál jafnaðarmanna og smíðuðu úr þeim sinn Trójuhest. Að baki honum biðu helstu áhugamál nýfrjálshyggjunnar, einkavæðing og einkaframkvæmd opinberrar þjónustu, arðvæðing þjónustunnar á kostnað velferðarkerfisins. Það virðist nóg eftirspurn einkaaðila eftir að gerast sníkjudýr á velferðarkerfinu.
Forsvarsmenn Viðreisnar hafa gerst svo ósvífnir – eða fákunnandi – að halda því fram að arðvæðing heilbrigðisþjónustu hafi eitthvað að gera með stefnu sænskra jafnaðarmanna. Svo er að sjálfsögðu ekki enda andstætt jafnaðarstefnu eins og ungur hagfræðingur og sérfræðingur í norrænum velferðarkerfum hefur sýnt rækilega fram á í grein í Vísi.
Sú einkavæðing sem átt hefur sér stað í Svíþjóð hefur öll verið að frumkvæði hægri flokkanna. Þar eru augljós víti til að varast.
Áhugi frjálshyggjumanna á gróðabralli á kostnað hins opinbera er ekki einskorðað við heilbrigðiskerfið. Annar girnilegur biti er svokölluð einkaframkvæmd, byggingarframkvæmdir þar sem einkaaðili byggir en ríkið leigir húsnæðið til langs tíma þannig að leigjandinn mjólkar ríkið um fé langt umfram byggingarkostnað. Dæmi um slíkt eru væntanlegt húsnæði Skattsins í boði formanns Sjálfstæðisflokks og bygging Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði í boði núverandi formanns Viðreisnar. Menn þekkja spillingu þegar þeir sjá hana.
Jafnaðarmenn hljóta að hafna arðvæðingarhugmyndum Viðreisnar. Þær sýna svart á hvítu að í Trójuhestinum leynist her manna tilbúinn að svíkja þjóðina í hendur frjálshyggjunnar.
Höfundur er prófessor emeritus og jafnaðarmaður.