Enn eina ferðina kemur fram hin mikla þrískipta misskipting íslensks vinnumarkaðar.
Fyrstir koma ósnertanlegir ríkisstarfsmenn, þá “frekur” almennur vinnumarkaður / starfsmenn sveitarfélaga og loks þeir sem mæta afgangi, aldraðir / öryrkjar.
Á sama tíma og öryrkjar svelta og eru hundeltir um tæplega þrjá fjórðunga hverrar áunninnar krónu rísa ríkisrakkarnir upp á afturfæturna og ætla að halda ofgreiddum launum undanfarinna þriggja ára. Hér innanborðs eru þó þeir sem telja það löglegt og skyldu sína að hundelta öryrkja og aldraða út yfir gröf og dauða.
Hér ber að minna á að laun ríkisstarfsmanna 2021 eru að meðaltali 903.000 (Hagstofa Íslands, VIN02002) meðan að meðaltekjur öryrkja eru 259.000 (mælaborð TR).
Ósnertanlegir ríkisstarfsmennirnir telja það sanngjarnt að þeir og öryrkjarnir hækki um svipaða prósentu jafnvel þó að grunnurinn sé annar og útkoman verði því …eilítið… önnur.
Hækkun öryrkja um 5.6% 1. janúar og aftur 3% 1. júní nær að meðaltali 22.709 krónum
Hækkun ríkisstarfsmanna um 6.9% 1. júlí nær 62.307 krónum að meðaltali eða 174% meira
Lægri prósentu-hækkun ríkisstarfsmanna skapa þó ráðherrum enn meiri hækkun.
Hækkun þingmanna um 4.7% 1. júlí nær 60.424 krónum að lágmarki eða 166% meira
Hækkun ráðherra um 4.7% 1. júlí nær 100.194 krónum að lágmarki eða 341% meira
Hækkun forsætisráðherra um 4.7% 1. júlí nær 110.923 krónum að lágmarki eða 388% hærra
M.v. ofangreint sést glögglega misskipting þess að nota prósentur á ólíkar upphæðir.
En hvað með að nota lögeyri vorn, krónur, frekar en hlutfallsreikning?
Hvað ef Íslendingar gætu allir komið sér saman um það að deila með sér hagvexti landsins og að allir fengju sömu krónutölu? Þjark kjarasamninga stórminnkað, þjark ríkissáttasemjara stórminnkað, verkföll færu í verðskuldað frí og að allir fengju sömu krónutölu í launahækkun.
Tiltölulega einfalt að margfalda heilar og hálfar prósentur hagvaxtar á meðaltal launa.
T.d. 5,3% hagvöxtur lækkaði í 5% og margfaldaður með meðaltali launa, 795.000 = 39.750 krónur til hvers og eins.
Með slíku lágmarkast skaði vinnumarkaðar og hagvaxtar í vinnudeilum, þá lágmarkast líka innlend verðbólga.