„Ég vil búa til nýja deild. Þátttökuliðin verða 20-24 talsins, flest með fast sæti.“ Þetta sagði Gianni Infantino, forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA fyrir einungis einu ári síðan. Þetta kann að hljóma nokkuð falskt í ljósi þess hve eindregið hann virtist leggjast gegn áformum um stofnun svokallaðrar ofurdeildar Evrópu á dögunum. En Infantino var ekki að tala um Evrópu. Þetta sagði hann á ráðstefnu í Marokkó og vísaði þar til hugmynda um ofurdeild Afríku.
Hefur hann skipt um skoðun? Er ofurdeild ekki lengur í lagi nú þegar hávær mótmæli heyrast eða er þetta ef til vill dæmi um hve knattspyrnuhreyfingin virðist í sífellu líta niður á Afríkuþjóðir? Það má svo sem vel vera en þær áskoranir sem íþróttin stendur frammi fyrir í álfunum tveimur eru svo ólíkar að nálgast þarf þær með gjörólíkum hætti. Það má vel færa rök fyrir því að þörf sé á stofnun sterkrar og markaðsvænnar knattspyrnudeildar þvert yfir Afríku. Bestu leikmenn álfunnar keppast við að komast til Evrópu við fyrsta tækifæri og þar hefur aldrei tekist að byggja upp sterk lið eða deildir þrátt fyrir ofgnótt hæfileikaríkra leikmanna.
En hlutunum er öfugt farið í Evrópu. Þar er ég ekki svo viss um að þörf sé fyrir að laga nokkurn skapaðan hlut, nema mögulega tilburði og þankagang á borð við þann sem endurspeglast í áformum um evrópskra ofurdeild. Með stofnun deildarinnar átti að freista þess að auka tekjur þátttökuliðanna en algjört hrun þeirrar tilraunar og orðspors þeirra sem fyrir henni stóðu gefa okkur nú tilefni til að velta fyrir okkur hlutverki og stöðu greinarinnar í fjárhagslegu ljósi.
Staðan eftir kórónukreppuna
Hugmyndin um evrópska ofurdeild er aldeilis ekki ný af nálinni. Henni hefur verið varpað fram sem hótun í viðræðum valdamestu félaga álfunnar og evrópska knattspyrnusambandsins UEFA um langa hríð. Stærstu félögin telja sig eiga rétt á stærri sneið kökunnar sem þau réttilega segjast einkum bera ábyrgð á að hafi stækkað eins og raun ber vitni undanfarin ár. Láti UEFA ekki undan setji félögin einfaldlega á fót sína eigin keppni. Skyndilega, illa skipulagða og fljótfærnislega útfærða stofnun deildarinnar má þó væntanlega frekar rekja til þeirra fjárhagsvandræða sem fylgt hafa COVID-19 faraldrinum en að eftir áralangan undirbúning hafi nú verið tímabært að taka í gikkinn.
Það skal ekki gera lítið úr þeim erfiðleikum sem knattspyrnulið út um allan heim hafa glímt við að undanförnu. Þó áætlanir séu á reiki er ljóst að tjónið er umtalsvert. FIFA hefur áætlað að tap íþróttarinnar á síðasta ári hafi verið í námunda við 2.000 milljarða króna, sem er um þriðjungur árlegrar veltu og segir Andrea Agnelli, forseti Juventus á Ítalíu og einn forsvarsmanna hinnar mislukkuðu ofurdeildar, að stærstu félög álfunnar hafi orðið af um 1.000 milljörðum króna frá því faraldurinn sendi áhorfendur heim í stofu í byrjun síðasta árs. Er þetta mun meira en samtök evrópskra knattspyrnuliða áætluðu síðastliðið haust þegar talið var að samanlagt tap allra knattspyrnuliða álfunnar á yfirstandandi og liðnu tímabili væri um 600 milljarðar króna. Hver svo sem hin rétta tala er er ljóst að allir hafa tapað. Því fer þó fjarri að stofnfélög ofurdeildarinnar geti dregið sig sjálf út fyrir sviga og sagt kórónukreppuna réttlæta neyðarbjörgun með stofnun deildar sem í sömu svipan getur dregið úr tækifærum annarra til að rétta af reksturinn þegar boltinn fer aftur að rúlla með hefðbundnum hætti.
Að kreppunni yfirstaðinni verður aðstöðumunur bestu félaga álfunnar og annarra sá hinn sami og þau bjuggu við í aðdraganda hennar. Þó svo fjárhagsstaða allra verði verri vegna kreppunnar og félög hafi þurft að ganga á lausafé og auka skuldsetningu koma félögin tólf sem um ræðir og örfá til viðbótar til með að hafa aðgengi að fjármagni sem öðrum bjóðast ekki í sama mæli. Slíkt gefur þeim færi á að vaxa hraðar en samkeppnin og rétta fyrr úr kútnum, ef rétt er haldið á spilunum. Meðal félaganna tólf er staðan misslæm. Mílanófélögin tvö (sem vænta má að hafi mestan hag af stofnun nýrrar deildar) og spænsku stórliðin Real og Barcelona eru væntanlega í viðkvæmastri stöðu og liggur Barcelona þar mest á þar sem stór hluti himinhárra skulda félagsins eru skammtímaskuldir við lánastofnanir. Viðkvæm staða þeirra hefur sannarlega versnað vegna veirunnar en hún var slæm fyrir og engum öðrum er um að kenna en félögunum sjálfum, eða nánar tiltekið forsvarsmönnum þeirra. Sú röksemdafærsla að mikilvægt sé að auka með þessum hætti tekjur vegna efnahagslegra áhrifa veirunnar heldur ekki vatni. Rekstur félaganna er einfaldlega of dýr og tekjurnar hafa einungis dregist saman tímabundið. Sé skynsamlega staðið að rekstri félaganna er engin ástæða til að ætla annað en að þau geti haldið áfram að skemmta stuðningsmönnum sínum út um allan heim, þótt sum þurfi ef til vill að draga saman seglin tímabundið. Þetta snýst ekki um óvenjuleg viðbrögð við einstaka áhrifum kórónuveirunnar. Nei, raunveruleg ástæða stofnunar ofurdeildarinnar sálugu mættum við kalla þríþætta:
- Að bjarga félögunum tólf úr skammtímaþrengingum með innspýtingu fjármagns
- Að fela félögunum yfirráð yfir reglum og tekjuskiptingu mótsins
- Að tryggja félögunum stöðugar tekjur til lengri tíma
Hefðu áformin náð fram að ganga hefði framangreint haft í för með sér yfirburði þátttökuliðanna í evrópskri knattspyrnu til langframa. Þó svo nákvæmar útfærslur hafi vantað var reiknað með að tekjur þeirra 20 liða sem í heild sinni mættu til leiks næmu um 1.000 milljörðum íslenskra króna fyrsta árið og færu jafnvel vaxandi. Um er að ræða tvöfaldar tekjur Meistaradeildar Evrópu og hvort sem fyrirætlanir stjórnenda liðanna hljómi trúverðugar eða ekki er ljóst að hefðu þær ekki verið flautaðar af áður en leikur hófst hefði bilið milli þeirra stærstu og allra hinna aukist meira en nokkru sinni fyrr.
Þarf fótbolti að vaxa?
Florentino Pérez, forseti Real Madrid, gagnrýndi forystu UEFA harðlega þegar hann varði stofnun ofurdeildarinnar með kjafti og klóm. Hann sagði sambandinu ekki treystandi fyrir því mikilvæga verkefni að auka tekjur knattspyrnunnar og aðdráttarafl hennar sömuleiðis, einkum meðal yngstu markhópanna. En er slíkt nauðsynlegt? Er fótbolti eins og hagkerfi sem þarf heilbrigðan hagvöxt svo hægt verði að bæta lífskjör íbúanna og fjármagna nýsköpun sem gerir líf þeirra betra?
Með auknum tekjum greinarinnar í heild sinni hefur vissulega orðið til fjármagn sem nýta hefur mátt í uppbyggingu knattspyrnulegra innviða víða um heim. Aðstaða til æfinga og keppni er betri, fjölmargir hafa getað gert íþróttina að lifibrauði sínu og þó lítið hafi verið um slíkt hafa hænuskref verið stigin til að efla kvennaknattspyrnu. Sums staðar hafa stærstu félög Evrópu fjárfest í nærumhverfi sínu og einstaka leikmenn hafa getað nýtt himinháar tekjur sínar og áhrif til góðs. Það má sannarlega finna uppbyggilegar og gagnlegar leiðir til að verja miklum tekjuvexti en getur verið að neikvæðu áhrifin vegi þyngra?
Meðal eigenda félaganna tólf má finna fáa stuðningsmenn. Eignarhald er misjafnt milli landa og innan þeirra en bættur rekstur stærstu félaganna hefur að undanförnu vakið áhuga fjárfesta sem ekkert markmið hafa annað en heilbrigðan hagnað, rétt eins og í hverjum öðrum rekstri. Í atvinnulífinu er gott að eigendur vilji hagnað, leggi áherslu á hagkvæman rekstur, vöxt og nýsköpun sem stutt getur við þann vöxt. En í fótbolta getur slíkt orðið til þess að slíta félögin frá því sem ég (og lesandi vonandi sömuleiðis) tel hlutverk félaganna. Raison d‘être allra fótboltaliða, ástæða þess að þau eiga sér tilverurétt, er að skemmta stuðningsmönnum og það má gera með ýmsum hætti. Góður árangur gleður flesta, skemmtilegur heimavöllur sömuleiðis og auðvitað spennandi samkeppni. En vöxtur sem slíkur og hagnaður sem fenginn er með því að tefla fjárhagslegri framtíð annarra í hættu, rukka stuðningsmenn himinháar fjárhæðir fyrir aðgöngumiða og draga úr sérkennum félaganna er of dýru verði keyptur.
Kenningin sem þetta virðist í raun allt byggja á er að fótbolti sé bilaður og hann þurfi að laga. Í stað þess að bæta hann með því að auka samkeppni, rækta minni félög, bikarkeppnir og einkenni ólíkra liða skal öllu steypt í sama mót og hið aðkallandi vandamál er að ríkustu liðin, sem komu sér í bullandi vandræði sjálf, þurfa meiri tekjur og stöðugan sess meðal þeirra bestu.
Stofnun ofurdeildar þurfti ekki til þess að auka tekjur knattspyrnunnar. Þær munu til framtíðar aukast samhliða því að það fjölgar í hinni alþjóðlegu millistétt, einkum í Asíu og fleiri hafa færi á að verja sparifé í áhugamálin sín. Þar hafa þessi sömu félög forskot og munu selja meira, eignast fleiri stuðningsmenn og gefa auglýsendum sínum aðgang að gjöfulli mörkuðum. Fótbolti þarf ekki að vaxa en hann gerir það nú samt. Að beina þeim vexti í enn ríkari mæli til félaganna sem þegar halda á öllum trompunum býður þó hættunni heim, verður ekki til þess að efla íþróttina í heild sinni eða gleðja áhugafólk.
Eigendur og forsvarsmenn félaganna keppast nú við að kreista fram tárin og biðjast afsökunar. Höfum það þó á hreinu að þeir eru að gráta 1.000 tapaða milljarða, ekki að átta sig á að raunverulega hafi þeir gert mistök og hafi nú skipt um skoðun.