Álver Norðuráls á Grundartanga verður að óbreyttu eina álver Century Aluminum í fullri framleiðslu á áli, frá og með áramótum. Fyrirtækið hefur á síðustu dögum sent frá sér viðvaranir um að álveri í Mt. Holly í Suður-Karólínu verði lokað um áramót og að framleiðsla álvers fyrirtækisins í Sebree í Kentucy verði minnkuð um þriðjung.
Í júní á þessu ári hafði verið tilkynnt að álveri í Ravenswood í Vestur-Virginíu yrði endanlega lokað, en framleiðslu þar var hætt árið 2009. Skömmu síðar var tilkynnt að vinnsla í álverinu í Hawesville í Kentucy yrði lækkuð í um 40 prósent af afkastagetunni.
Samkvæmt Century er lokun álversins í Mt. Holly fyrst og fremst vegna þess að núverandi samningur um orku til álversins rennur út um áramótin. Búið er að gera nýjan samning um orku til álversins, en ekki hefur tekist að semja um flutning á orkunni, að sögn Michael Bless, forstjóra Century Aluminum. Hann segir fyrirtækið hafa boðist til að borga fullt verð fyrir flutning á orkunni, en það hafi ekki dugað til. Þetta segir hann óásættanlegt og að barist verði fyrir framtíð álversins næstu mánuði.
Mikið tap á þriðja ársfjórðungi
Century skilaði fyrir helgi ársfjórðungsuppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung 2015, þar sem fram kemur að tap félagsins var rúmlega 56 milljónir Bandaríkjadala á tímabilinu. Búið var að gefa út viðvörunina vegna álversins í Mt. Holly fyrir uppgjörið, en ekki um álverið í Sebree í Kentucy. Það var gert degi eftir að uppgjörið birtist.
Bless hefur verið tíðrætt um álframleiðslu Kínverja sem stóra ástæðu fyrir vandræðum fyrirtækisins, og það kemur einnig fram í ummælum hans í tengslum við ársfjórðungsuppgjörið. Hann telur að það sé einfaldlega ekki hægt að keppa við útflutning Kínverja á áli, vegna þess að iðnaðurinn þar sé niðurgreiddur á ósanngjarnan hátt. „Það verður að grípa til aðgerða strax vegna þessarar ósanngjörnu hegðunar og við erum að vinna með geiranum og bandarískum stjórnvöldum til að gera það.“
Hann sagði að teknar hafi verið erfiðar ákvarðanir og reksturinn hafi verið endurskipulagður, til dæmis með lokunum og framleiðsluminnkun. Fyrirtækið muni þannig standa af sér það sem gæti orðið erfitt umhverfi um langt skeið.
Hlutabréfaverð Century hefur lækkað verulega eftir miklar hækkanir nánast allt árið 2014. Verð á hlut fór hæst í um 31 dollara í lok nóvember í fyrra en við lokun markaða í gær var það 4,23 dollarar á hlut.
Spáðu miklum þrengingum og jafnvel gjaldþroti
Áður en ársfjórðungsuppgjörið var birt hafði greiningarvefsíðan Seeking Alpha spáð því að hlutabréfaverð myndi falla um allt að 50% og mögulega væri gjaldþrot framundan hjá félaginu, eins og Kjarninn greindi frá.
Í greiningunni eru færð rök fyrir því að Century hafi grætt á fráviki sem varð á Midwest álaginu ofan á álverð árið 2014, sem hafi aukið tekjur fyrirtækisins verulega í fyrra og á fyrri helmingi ársins í ár. Midwest álagið (MWP) er álagið sem ákvarðar söluverð á áli í Bandaríkjunum. Nú hefur þessi staða hins vegar gjörbreyst og álagið hríðlækkað. Lækkunin hefur hins vegar ekki enn komið almennilega fram í tölum fyrirtækisins og hlutabréfaverði þess, að mati greinarhöfundar hjá Seeking Alpha. Hlutabréfalækkun sem vissulega hefur orðið undanfarið hafi að megninu til stafað af almennum áhyggjum af efnahagsástandi og veikara álverði.
Þessi gríðarlega hækkun á álaginu varð til þess að EBITDA hagnaður Century fór úr 11 milljónum Bandaríkjadala árið 2013 í 217 milljónir dala árið 2014. Næstum öll hækkunin var vegna hærra álags, þar sem álverð á álmarkaði London Metal Exchange (LME) hélst nánast það sama, en það fer nú lækkandi eins og kunnugt er. Breyting á álaginu um 22 dollara á tonn jafngildir fimmtán milljóna dala breytingum á EBIDTA hjá fyrirtækinu, svo að jafnvel þótt álagið haldist þar sem það er nú muni EBIDTA hagnaður Century Aluminum lækka um 200 milljónir Bandaríkjadala.
Greiningaraðilar spá því að minni eftirspurn á alþjóðavísu, og offramboð af áli, muni halda áfram að ýta verði á áli niður á við á næstu tveimur árum. Spár sem Seeking Alpha taka með í reikninginn gera ráð fyrir því að verðið lækki um tíu prósent á næsta ári til viðbótar við þá lækkun sem orðið hefur á þessu ári.
„Í bjartsýnni sviðsmynd þar sem LME verð haldast flöt á núverandi verðinu 1.550 dalir á tonn mun EBITDA félagsins lækka um 270 milljónir dala. Ef markaðurinn hefur rétt fyrir sér og verðin lækka um tíu prósent, lækkar EBITDA um 50 milljónir dala til viðbótar,“ segir í greiningunni á Seeking Alpha.
Samningaviðræður við Landsvirkjun hafnar
Álverið á Grundartanga kaupir orku af Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku. Samkvæmt greiningum á raforkuverði til álvera á Íslandi, sem Ketill Sigurjónsson hefur gert, greiðir Norðurál lægsta raforkuverð allra álvera til Landsvirkjunar. Samningur Norðuráls og Landsvirkjunar rennur hins vegar út árið 2019 og samningaviðræður um framlengingu eru hafnar. Michael Bless hefur sagt að samkvæmt samningnum eigi að ganga frá framlengingunni á þessu ári.
Landsvirkjun hefur undanfarin ár gert allt öðruvísi samninga en tíðkaðist þegar núverandi samningur var gerður, og því er ljóst að verðið sem Norðuráli mun bjóðast verður hærra en nú er.