Breski fornleifafræðingurinn Nicholas Reeves, sem starfar við Arizona háskóla, telur að hann hafi mögulega fundið grafhýsi þekktustu drottningar Egyptalands til forna, Nefertiti, sem uppi var meira en 3000 árum síðan. Slíkur fundur yrði einn sá merkilegasti í sögunni og gæti varpað ljósi á ævi drottningarinnar sem að miklu leyti er hulin ráðgáta.
Konungshjónin sem umbyltu landinu
Lítið er vitað um uppruna Neferiti annað en að hún var af tignum ættum. Hún varð drottning Egyptalands og fremsta eiginkona faraósins Amenhotep IV sem ríkti um 1353-1336 f.Kr. Það var snemma á hinu svokallaða Amarna tímabili sem var sérstakt velmegunarskeið í fornegypskri sögu. Hjónin eru hvað frægust fyrir að hrófla við trúarbrögðum landsins. Þau tóku upp eingyðistrú á sólarguðinn Aten og byggðu nýja höfuðborg sem kallaðist Akhenaten og faraó sjálfur tók sama nafn. Neferiti tók nafnið Neferneferuaten. Hún ól faraó sex dætur en engan son en hann átti þó fleiri börn með hinum eiginkonum sínum, þar á meðal hinn fræga Tutankhamun sem seinna varð faraó.
Neferiti var drottning þar til Akhenaten dó en þá er eins og hún hafi horfið af yfirborði jarðar. Engar heimildir eru til um afdrif hennar eftir það. Vangaveltur eru uppi um það hvort að hún hafi verið myrt því að konungshjónin eignuðust marga óvini þegar þau hrófluðu við trúnni. Einnig hefur því verið haldið fram að hún hafi skipt um nafn og stýrt landinu sem faraó meðan Tutankhamun var of ungur til þess. Það var einmitt Tutankhamun, sem sneri Egyptalandi aftur til fjölgyðistrúar og færði höfuðborgina aftur til Þebu. Nefertiti var einnig fræg fyrir fegurð sína. Thutmose, einn merkasti listamaður fornaldar sem starfaði við hirð faraós, gerði andlit hennar ódauðlegt með einni frægustu brjóstmynd sögunnar.
KV 62
Í Dal konunganna eru ótal grafhýsi faraóa og annarra konungborinna grafin í klettana. Dalurinn liggur nálægt borginni Luxor (áður Þebu) við bakka Nílarfljóts í hjarta Egyptalands. Hugmyndin um framhaldslíf var einn af hornsteinum hugarheims Forn-Egypta og greftrunarsiðir því teknir mjög alvarlega. Það gat tekið áratugi að grafa hvert grafhýsi sem voru ríkulega skreytt af færustu listamönnum fornaldar og troðfyllt af gulli og gimsteinum. Egyptar trúðu því að fólk gæti tekið með sér veraldlega hluti inn í framhaldslífið. Í hvert sinn sem nýr faraói tók við var strax hafist handa við að grafa fyrir hann grafhýsi. Á 19. öld hófu ævintýragjarnir menn frá Vesturlöndum að leita í dalnum. Sumir af fræðilegum áhuga en aðrir í gróðavon.
Hvert grafhýsið á fætur öðru fannst og fjölmargir verðmætir munir voru teknir úr þeim. Sum hýsin höfðu reyndar verið rænd mörgum öldum áður og önnur höfðu að miklu leyti skemmst í flóðum og öðrum náttúruhamförum. Árið 1922 fann breski fornleifafræðingurinn Howard Carter grafhýsi sem nefnt var KV 62 og þar lá Tutankhamun faraói. Tutankhamun dó ungur og þótti alls ekki meðal merkilegustu faraóanna en grafhýsi hans var það heillegt að þetta þykir í dag einn merkilegasti fundur í sögunni. Þúsundir muna fundust í grafhýsinu og það tók um níu ár að flokka og greina þá alla.
Bakvið vegginn
Nú í sumar kom fornleifafræðingurinn Nicholas Reeves með þá kenningu að grafhýsi Tutankhamuns sé stærra en hingað til hefur verið talið. Eftir að hafa rannsakað ljósmyndir sem teknar voru í mjög hárri upplausn af myndskreyttum veggjunum sá hann vísbendingar um að tveir veggir gætu verið innsiglaðar dyr. Hann segir: „Því lengur sem ég horfði, þeim mun meiri upplýsingar fann ég um að ég væri að sjá eitthvað í alvöru. Ef ég hef rangt fyrir mér þá hef ég rangt fyrir mér. En ef ég hef rétt fyrir mér þá er það hreint út sagt yfirþyrmandi. Þá mun heimurinn hafa orðið athyglisverðari staður.....að minnsta kosti fyrir Egyptalandsfræðinga.“Innrauðu ljósi var beint að veggnum til að sjá hvort einhver hitamunur væri á þeim. Það reyndist vera og má nú fastlega gera ráð fyrir því að hólf eða herbergi séu handan veggjanna tveggja. Egypsk stjórnvöld eru komin í málið og fornminjaráðherrann Mamdouh el-Damaty segir að næstu skref séu að nota svokallaða jarðratsjá til þess að sjá inni í bergið. Reeves telur líklegt að bakvið vegginn hvíli stjúpmóðir Tutankhamuns, drottningin Nefertiti. Til stuðnings þessari tilgátu nefnir hann að grafhýsi Tutankhamuns sé mun minna en annarra faraóa og sé hannað frekar eins og fyrir drottningu en kóng. Hafa ber einnig í huga að hann dó innan við tvítugt og ólíklegt að grafhýsi hafi verið tilbúið fyrir hann. Tilgátan er því sú að KV 62 hafi upprunalega verið grafið fyrir Nefertiti en þegar Tutankhamun lést langt fyrir aldur fram hafi hann fengið hluta þess en Nefertiti þá innsigluð af. Það væri ekki einsdæmi. Grafhýsi Amenhoteps III (WV22) afa Tutankhamuns er t.a.m. tvískipt.
Viðbrögðin
Þó að egypsk stjórnvöld styðji rannsóknir Reeves á KV 62 og leggi mikla áherslu á að komast að hinu sanna varðandi leyndu herbergin tvö þá eru þau ekki sannfærð um að Nefertiti finnist þar. El-Damaty stígur varlega til jarðar og segir: „Ef það er satt, þá sjáum við fram á uppgötvun sem myndi skyggja á fund Tutankhamuns sjálfs.“ Hann er þó vongóður um að eitthvað nýtt finnist sem varpi ljósi á tímabilið. Það sem gefur fólki mikla von er sú staðreynd að KV 62 er nú þegar heillegasta grafhýsið í dalnum.
Ef drottningin liggur handan innsiglaðra veggja má ætla að gríðarlegir fjársjóðir finnist í herbergjunum, algerlega óhultir fyrir grafarræningjum. Nýjar veggmyndir gætu fundist í herbergjunum sem gæfu okkur innsýn inn í líf Nefertiti og samtímafólks hennar. Svo auðvitað múmían sjálf sem gæti sagt okkur heilmikla sögu svo lengi sem hún væri nokkuð heilleg. Bandaríski rithöfundurinn Michelle Moran, sem skrifað hefur sögulegar skáldsögur um drottninguna er vitanlega mjög spennt yfir rannsóknunum. „Að finna grafhýsi hennar yrði ótrúlegt. Það myndi svara mörgum ósvöruðum spurningum eins og hvenær hún dó, hvernig hún dó og þeim vangaveltum um hvort hún hafi stýrt ríkinu eftir að maður hennar féll frá.“
Margir af leiðandi fræðimönnum á sviðinu hafa þó sínar efasemdir um mögulegan fund. Þar á meðal Aidan Dodson við Bristol háskóla sem segir að alls sé óvíst hvort að annar greftrunarsalur finnist handan veggjanna, hvað þá drottningarinnar.
Árið 2003 þóttist sagnfræðingurinn Joann Fletcher við York háskóla hafa borið kennsl á Nefertiti í öðru grafhýsi, KV 35
sem Frakkinn Victor Loret fann árið 1898. Sú múmía hefur ekki verið nafngreind
en DNA rannsóknir sýna að sú kona var móðir Tutankhamuns og jafnframt systir
föður hans, Akhenatens. Það þótti ekki óeðlilegt á þeim tíma að faraóar giftust
systrum sínum eða jafnvel dætrum. Kenning Fletchers reyndist því ekki á rökum
reist. En þó að tilgáta Reeves virðist digurbarkaleg og jafnvel glæfraleg þá
verður mjög fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu vikum og mánuðum. Heimildir frá
þessu tímabili mannkynssögunnar fyrir rúmum 3000 árum eru fáar og fræðimenn
ganga yfirleitt um í myrkrinu. Fundir á borð við KV 62 gerast ekki oft og því
er nauðsynlegt að nýta þá til fullnustu.