Hryðjuverkaárásirnar þann 13. nóvember síðastliðinn eru mannskæðustu fjöldamorð sem framin hafa verið í Frakklandi síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta fyrrum heimsveldi er þó ekki ókunnugt hryðjuverkum og þá sérstaklega ekki Parísarborg sem oft hefur verið skotmark slíkra árása. Ástæðurnar hafa verið margar og mismunandi. Hér eru raktar nokkrar af alvarlegustu árásunum.
Stríð í Alsír
Alsír var frönsk nýlenda frá miðri 19. öld til ársins 1962 þegar landið fékk fullt sjálfstæði. Afnýlenduvæðing landsins var þó mun erfiðari og blóðugri en annarra franskra nýlendna vegna þess hversu margir franskir landnemar bjuggu þar. Á árunum 1954 til 1962 geysaði mikið stríð í landinu milli sjálfstæðishreyfingarinnar FLN, franska stjórnarhersins og hreyfingar landnemanna OAS sem vildu halda Alsír innan franska heimsveldisins. Þó að átökin hafi að langmestu farið fram í Alsír þá bárust þau að einhverju leyti til Frakklands.
Þann 18. júní árið 1961 var framið mannskæðasta hryðjuverk Frakklands þar til nú. OAS-liðar, ósáttir við viðleitni Charles De Gaulle forseta til að ræða við FLN um sjálfstæði Alsír, sprengdu hraðlest sem var á leið frá Strasbourg til Parísar. Sprengjurnar voru tengdar við lestarteina sem höfðu einnig verið skemmdir. Lestin fór út af sporinu, 28 manns létust og yfir 100 særðust. OAS frömdu fleiri hryðjuverk innan landamæra Frakklands en ekkert nærri jafn alvarlegt og þetta. Franska lögreglan olli þó mesta mannfallinu þegar hún réðist gegn alsírskum mótmælendum þann 17. október 1961 í miðborg Parísar. Deilt hefur verið um hversu margir féllu en ljóst er að þeir skiptu tugum.
Borgarastyrjöld braust út í Alsír árið 1991 eftir að alsírski herinn rændi völdum í kjölfar kosningasigurs islamista. Skæruliðahreyfingar spruttu upp en fyrrum nýlenduherrarnir Frakkar studdu stjórnina sem leidd var af áðurnefndum FLN. Ein af þessum hreyfingum kallaðist GIA og liðsmenn þeirra færðu átökin yfir til Frakklands um miðjan tíunda áratuginn með nokkrum árásum. Á aðfangadag árið 1994 rændu GIA-liðar farþegaflugvél frá Air France og hugðust sprengja hana yfir París. Franski herinn náði þó vélinni á sitt vald á flugvellinum í Marseille. Sjö manns létust í árásinni. GIA stóðu að fjölmörgum sprengjuárásum í París, meðal annars í lestarkerfi borgarinnar og við hinn fræga Sigurboga. Samanlagt létust tugir í þessum árásum og hundruðir særðust. Borgarastyrjöldinni í Alsír lauk árið 2002 með samningum.
Carlos sjakali
Ramírez Sánchez, betur þekktur sem Carlos sjakali, var og er sennilega þekktasti hryðjuverkamaður 20. aldarinnar. Hann er fæddur í Venesúela en hefur aðallega verið tengdur marxísku hryðjuverkasamtökunum PFLP frá Palestínu. Hann hefur einnig verið bendlaður við leyniþjónustur á borð við KGB í Sovétríkjunum og Stasi í Austur-Þýskalandi. Carlos framdi voðaverk víða um heim þar til hann var handsamaður í Súdan af frönsku leyniþjónustunni árið 1994. Hann gerði tvær árásarhrinur á Frakkland með 7 ára hléi. Þann 15. september 1974 sprengdi hann upp kaffihúsið Drugstore Saint Germain. Tveir létust og tugir særðust.
Sjakalinn skipulagði í kjölfarið árás á ísraelska farþegaflugvél á Orly flugvelli í janúar 1975. Hryðjuverkamennirnir skutu á vélina með basúku og fleygðu handsprengjum að vélinni en hæfðu ekki. Þá tóku þeir gísla á flugvellinum og börðust við lögregluna. Carlos lét svo myrða tvo lögreglumenn sem rannsökuðu árásina og þátt hans í henni. Eftir þessa hrinu flosnaði upp úr sambandi Carlosar við PFLP og hann fór að starfa að mestu sjálfstætt. Eftir að Frakkar handsömuðu eiginkonu Carlosar, hina þýsku Magdalenu Kopp, hóf hann seinni hrinuna sem var mun blóðugri. Hún hófst í mars árið 1982 með sprengingu í hraðlest sem fór milli Parísar og Toulouse.
Skotmarkið var sennilega borgarstjóri Parísar (og seinna forseti ) Jacques Chirac sem átti að vera í lestinni en hafði tafist og misst af henni. 5 manns létust og nærri 30 særðust í sprengingunni. Um mánuði seinna sprakk bílasprengja fyrir utan höfuðstöðvar arabísks dagblaðs og á gamlársdag 1983 voru bæði lest og lestarstöð sprengd í Marseille. Ólíkt mörgum hryðjuverkamönnum þá hefur Carlos sjakali aldrei stært sig af hryðjuverkum sínum og hann neitar þeim flestum. Erfitt er að segja til um hvort hann hafi komið að fleiri hryðjuverkum í Frakklandi en ljóst er að minnsta kosti 16 manns hafa látist og hundruðir særst í árásum hans þar. Carlos afplánar nú lífstíðardóm í Frakklandi.
Armenskir þjóðernissinnar
Armensku hryðjuverkasamtökin ASALA voru mjög virk á áttunda og níunda áratug seinustu aldar, eða þar til Sovétríkin liðuðust í sundur og Armenía varð að sjálfstæðu ríki. Árásum ASALA var þó aðallega beint gegn Tyrkjum. Tyrkir frömdu þjóðarmorð á Armenum árið 1915 og flæmdu þá úr Ottómanaveldinu. ASALA kröfðust viðurkenningar Tyrkja á ódæðinu og einnig landsvæðis fyrir eigið ríki Armena í austurhluta Tyrklands. Samtökin störfuðu út um allan heim og voru sérstaklega virk í Frakklandi. Þeir réðust á og drápu marga tyrkneska ræðis-og embættismenn, þar á meðal sendiherrann Ismail Erez árið 1975.
Einnig sprengdu þeir ýmsa staði, svo sem kaffihús og ferðaskrifstofur, sem voru í eigu Tyrkja. En þann 15. júlí árið 1983 komust ASALA í heimsfréttirnar fyrir stórfellda hryðjuverkaárás á Orly flugvelli í París. Öflug eldsprengja sprakk í ferðatösku við innritunarborð Turkish Airlines sem olli því að 8 manns létust og 55 slösuðust og brenndust illa. Þrír voru handteknir, þ.m.t. forsprakkinn Varoujan Garabedian sem fékk lífstíðardóm fyrir ódæðið. Hryðjuverkið á Orly flugvelli var þó misheppnað því að sprengjan átti að springa innan í farþegaflugvél á leið til Istanbul.
Mannfallið hefði þá vitaskuld orðið mun meira. Auk þess voru einungis tvö af fórnarlömbum árásarinnar tyrkneskir borgarar. Engu að síður varð Garabedian dáður í heimalandi sínu. Þar söfnuðust yfir ein milljón undirskrifta til stuðnings þess að Garabedian yrði sleppt úr fangelsi en í Armeníu búa aðeins um 3 milljónir manna. Honum var loks sleppt árið 2001 gegn því að hann færi beina leið til Armeníu og kæmi aldrei aftur til Frakklands. Forsætisráðherra Armeníu tók á móti honum við heimkomuna.
Le terrorisme
Íslenska orðið hryðjuverk nær ekki alveg utan um hugtakið le terrorisme, sem einmitt fæddist í París í frönsku byltingunni þegar tugþúsundir enduðu í fallöxinni. Ógn og ótti er það sem hugtakið gengur út á. Írski þingmaðurinn og heimspekingurinn Edmund Burke beinþýddi hugtakið yfir á enska tungu og hefur því verið beitt í ýmsum tilgangi æ síðan. Það sem rakið hefur verið hér að ofan er aðeins brot af því sem Frakkar hafa mátt þola seinustu áratugi. Fjölmargir hópar hafa framið hryðjuverk af annað hvort þjóðernislegum (Baskar, Korsíkumenn, Bretónar) eða hugmyndafræðilegum (kommúnistar, anarkistar, fasistar, islamistar) ástæðum. Frakkland var áður heimsveldi sem tók og tekur enn þátt í mörgum af helstu átökum veraldar. Sem stórir leikmenn á alþjóðavettvangi með mikil tengsl við flestar þjóðir hafa þeir einnig dregist inn í átök sem koma þeim mismikið við. Því er ekki undarlegt að hryðjuverkamenn hafi í gegnum tíðina beitt sér þar og þá sérstaklega í Parísarborg sem er táknmynd bæði fyrir franska heimsveldið og menningu og einnig vestræna frelsis-, lýðræðis- og mannréttindahugsjón.
Hafa ber þó í huga að Frakkland hefur sloppið betur en mörg önnur ríki. Í nágrannaríkinu Ítalíu hafa um helmingi fleiri farist í hryðjuverkaárásum, aðallega kommúnista og fasista, síðan í seinni heimsstyrjöld. Samanlagður fjöldi fórnarlamba í Frakklandi nær heldur ekki 10% af þeim fjölda sem lést í árásunum á Tvíburaturnana 11. september 2001. Langflest hryðjuverk eru svo framin í þriðja heiminum, aðallega Afríku og Asíu, og þar er mannfallið margfallt meira. En það er ekki endilega mannfallið og skemmdirnar sem skipta mestu máli. Viðbrögð heimsins við hryðjuverkunum nú sýna glöggt hversu miklu máli þessar táknmyndir skipta okkur. Árás á París er ekki einungis árás á fólk, heldur árás á hugsjón.