Það var vægast sagt sérkennileg tilfinning að ganga um ellefta hverfi Parísarborgar morguninn eftir árásirnar; víggirðingar, herlögreglumenn, för eftir byssukúlur, blóðslettur. Fáir á ferli, nema þá kannski heimspressan sem var að vakna eftir erilsama nótt, neðanjarðarlestarnar nánast tómar, lítil sem engin umferð – ískaldur ótti vofði yfir öllu. Ekki sú París sem maður þekkti.
Hér hefur margt gengið á. Í sögulegu ljósi er París eitt helsta átakasvæði Evrópu. Hér hafa geisað borgarastríð og byltingar, heimstyrjaldir og hörmungar; og borgin hefur staðið þetta allt af sér.
París er ein mesta fjölmenningarborg heims og einmitt í því liggur kraftur hennar. Hún er opin og frjáls; hingað hafa listamenn, hugsuðir, viðskiptajöfrar og vísindamenn leitað öldum saman til að vinna í friði og fá að vera þeir sjálfir. En það er alltaf þessi spenna. Fjölmenning er magnað en viðkvæmt fyrirbæri sem auðvelt er að skemma. Hryðjuverkamennirnir eru fyrst og fremst að ráðast á samstöðuna um fjölbreytnina. Og það sem allir óttast mest þessa stundina er að það takist að einhverju leyti. Múslimar eru einna hryggastir yfir atburðum og óttast um stöðu sína í samfélaginu. Ég spjallaði við Parísarbúa sem er ættaður frá Norður-Afríku og hann sagði þetta:
„Ég get varla gengið niður götu án þess að fólk hlaupi í burtu eða líti á mig tortryggnislega. Þetta er ömurlegt. Allt einu er mitt fólk orðið hryðjuverkamenn.“
Bataclan-kynslóðin
Dagblaðið Libération sló upp þessari fyrirsögn í vikunni og vísaði til þess að árásin hefði beinst gegn ungu fólki. Þetta er kynslóð sem verður hér eftir stöðugt á varðbergi, á tónleikum, á fótboltavelli, á veitingastað, á bar. Það fylgir æsku og ungdómsárum að fá að lifa fjörugu og áhyggjulausu lífi. Nú hafa hryðjuverkin ef til vill tekið það frá þessari kynslóð.
Búast má við stóraukinni gæslu á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer næsta sumar í Frakklandi. Nú þegar hafa FIFA og fleiri lýst því yfir að hugsanlega þurfi að endurskoða öll öryggismál á helstu knattspyrnuvöllum í Evrópu. Raunar má þakka öryggisgæslunni á Stade de France að ekki fór verr. Þar voru 80.000 manns, franski forsetinn og þýskir ráðamenn. Við getum rétt ímyndað okkur mannfallið hefðu árásarmennirnir komist inn á leikvanginn eins og þeir ætluðu sér. Sömuleiðis er talað um aukið eftirlit á flugvöllum (eins og það hafi ekki verið nóg fyrir!) og á lestarstöðvum. Svo ekki sé minnst á aukið eftirlit með borgurunum – „forvirkar rannsóknarheimildir“, sem er annað heiti yfir persónunjósnir. Allt sem þú segir og skrifar ratar inn í einhvern gagnabanka leyniþjónustunnar.
Afleiðingarnar - stríð og aukið eftirlit
Ef það er einhver tilfinning á meðal Frakka sem er yfirsterkari reiðinni, depurðinni og óttanum yfir þessum árásum þá er það óvissan um afleiðingarnar. Hvaða afleiðingar hefur þetta á samfélagið og lýðveldið? Eða Evrópu alla?
Francois Hollande hefur lýst yfir neyðarástandi næstu þrjá mánuði, sem jafngildir í raun herlögum, hann hefur boðað stjórnarskrárbreytingar og lýst yfir stríði við Íslamska ríkið. Forsætisráðherrann, Manuel Valls, er jafnvel enn djarfari í yfirlýsingum sínum og talar um að hugsanlega eigi Frakkar von á fleiri hryðjuverkum, jafnvel efnavopaárásum.
„Búið ykkur undir þetta, þetta verður langt og erfitt“ - Valls varar við því að jafnvel sjálft Schengen-samstarfið heyri sögunni til. Krafa Frakka á neyðarfundi Evrópuríkja er stóraukið eftirlit um alla Evrópu. Höfuðpaurinn í árásunum, Abdel Abaaoud, virðist hafa haft lítið fyrir því að komast í gengum alla Evrópu til Frakklands frá Sýrlandi þrátt fyrir að vera eftirlýstur. Ef þessari kröfu um aukið landamæraeftirlit verður fylgt eftir þá þýðir það í raun að Schengen-sáttmálinn sé úr gildi fallinn.
Vígasveitir Íslamska ríkisins virðast vera komnir á fullt skrið, ekki bara í Mið-Austurlöndum, heldur um heim allan. Stöðugt berast fréttir af ódæðisverkum þeirra og í gærkvöld lögðu Frakkar fram ályktun fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt - hún er í hnotskurn þetta:
Öll ríki heims lýsa yfir stríði við Íslamska ríkið.
Öll ríki heims ætla að leggja saman alla krafta sína til þess að leysa vandann í Sýrlandi og Írak. Hann sé ógn við sjálfan heimsfriðinn. Fyrsta verkið er að uppræta hinn sameiginlega óvin. Grípa til allra nauðsynlegra ráða gegn Íslamska ríkinu og öðrum hryðjuverkasamtökum.
Í fyrsta skipti í langan tíma talast Bandaríkjamenn og Rússar við. Kínverjar og Rússar hafa oft beitt neitunarvaldi í öryggisráðinu og hindrað ýmsar samræmdar aðgerðir í Mið-Austurlöndum, en nú eru öll ríkin sem eiga fastasæti í öryggisráðinu samstíga. Sprenging rússnesku farþegaþotunnar yfir Sínaískaga, árásirnar í París og Beirút og sömuleiðis aftaka á kínverskum gísl í þessari viku hefur leitt til þessarar samstöðu.
Aukinn viðbúnaður á Norðurlöndum
Ástandið í Svíþjóð hefur verið spennuþrungið síðustu daga. Viðbúnaðarstig var hækkað í vikunni eftir víðtæka leit að írökskum manni, Mutar Majid; sem er talinn vera með hryðjuverk í undirbúningi. Hann er einn af þeim fjölmörgu sem barist hefur með Íslamska ríkinu í Sýrlandi en síðan snúið til Evrópu. Sænski forsætisráðherrann, Stefan Löfven, tilkynnti um viðmiklar aðgerðir lögreglunnar, og líkt og Ólafur Ragnar sagði hann þjóð sína hafa lifað í barnslegri einfeldni hvað varðar hryðjuverkaógn en hvatti fólk til þess að sýna stillingu.
Norðmenn ætla að herða allt landamæraeftirlit eftir að grunur kom upp að hinn grunaði hryðjuverkamaður gæti verið kominn til Noregs frá Svíþjóð. Norðmenn ætla að taka á móti 100.000 flóttamönnum á næstunni, en nú hefur norska þingið ákveðið að herða á ákvæðum innflytjendalöggjafarinnar. Norðmenn virðast tortryggnir. Fólk er beðið að fara varlega, fylgjast vel með öllu og tilkynna lögreglu ef eitthvað grunsamlegt er á seyði.
Mestu viðbrögðin eru samt í Finnlandi þar sem dómsmálaráðherrann, Jari Lindstöm, hefur viðrað þá skoðun að taka upp dauðarefsingar fyrir hryðjuverkamenn. Þeir eigi ekki skilið nein borgaraleg réttindi. Við svona tal er mörgum brugðið. Dauðarefsingar voru aflagðar 1949 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sem Finnar eru aðilar að, leggur sérstaka áherslu á bann við dauðarefsingum.
Áhrifa árásanna í París gætir því víða, þau eru mikil og margvísleg og í hugum margra þeirra sem hafa alist upp við vestræn gildi: mannréttindi, frelsi og umburðarlyndi – eru viðbrögðin sérstök og kannski eilítið hættuleg.