Ríkisstjórn Íslands hefur aðeins lagt fram 25 frumvörp það sem af er þessu þingi. Á þessari öld hafa alltaf verið komin fram fleiri frumvörp á þessum tíma árs, jafnvel þótt lengst af á tímabilinu hafi þing ekki verið sett fyrr en 1. október. Þingsetningin var færð fram um nokkrar vikur, fram í september, haustið 2012.
Þrjú þessara 25 frumvarpa sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á þinginu það sem af er hafa verið kláruð og eru orðin að lögum. Sextán frumvarpanna eru í nefnd eftir fyrstu umræðu, þrjú þeirra bíða annarrar umræðu og þrjú bíða þriðju og síðustu umræðu.
Af þessum 25 frumvörpum eru fimmtán þeirra endurflutt frá fyrri þingum. Þrjú þessara endurfluttu frumvarpa eru einnig innleiðingar á EES reglum og eitt þeirra er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Tíu frumvarpanna eru því ný frumvörp, og þar af eru þrjú sem tengjast fjárlögunum og eitt sem er innleiðing á viðauka við Mannréttindasáttmálann.
Frumvörpin sex sem eftir standa eru frumvörp Ólafar Nordal innanríkisráðherra um verkefni Landhelgisgæslu Íslands erlendis, fullnustu refsinga, um brottfall laga um þriðju kynslóð farsíma og um framlengingu starfsleyfa í happdrættum og talnagetraunum. Auk þess frumvörp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og um nauðasamningagerð slitabúa föllnu bankanna.
Tveir ráðherrar hafa ekki ennþá lagt fram frumvarp. Það eru þær Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Hafa gagnrýnt málaþurrðina
Þingmenn bæði í stjórn og stjórnarandstöðu hafa vakið athygli á því að skortur sé á þingmálum frá ríkisstjórninni. Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, vakti athygli á þessu í þinginu þann 10. nóvember síðastliðinn. Hún benti á að þingnefndir hefðu af þessum sökum lítið að gera og þingstörfin væru í uppnámi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með henni, og flokkssystir hennar Heiða Kristín Helgadóttir líka. „Hér er fullt af fólki sem er tilbúið að vinna og það er miður að málin komi svo inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þá séu þau afgreidd á einhverju hundavaði,“ sagði hún. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, benti á að tveir mánuðir væru liðnir af þinginu og þrír ráðherrar hefðu ekki skilað einu einasta þingmáli inn. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði til að nefndir væru í verkfall þangað til mál kæmu inn í þær. „Ég tek undir þá hvatningu til ráðherra að fara að koma fleiri málum hérna inn svo að við í þinginu getum tekið það hlutverk okkar alvarlega að vinna að málum vel,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem er einn þeirra ráðherra sem ekkert mál hefur lagt fram, sagðist taka hvatninguna og gagnrýnina til sín.
Seinkun komin á afgreiðslu fjárlaga
Þrátt fyrir að málin sem fram hafa komið það sem af er þingi séu fá er þegar fyrirséð að seinkun verður á afgreiðslu fjárlaga. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti að hefja aðra umræðu um fjárlögin næstkomandi fimmtudag, og þriðja umræða átti að hefjast viku seinna, eða þann 3. desember. Nú er orðið ljóst að þetta mun riðlast, þar sem að fjárlaganefnd hóf umfjöllun sína um fjárlögin aðeins í morgun.
Ástæðan er sú að ríkisstjórnin afgreiddi ekki sínar tillögur fyrir aðra umræðu fjárlaga fyrr en á föstudagseftirmiðdag. Fjárlaganefnd hafði verið boðuð til fundar klukkan 14 á föstudaginn til að hefja sína umfjöllun um tillögur ríkisstjórnarinnar, en fresta þurfti fundinum þar til í morgun vegna þess að klukkan 14 var ríkisstjórnarfundinum ekki lokið. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði við Kjarnann á föstudag að fyrirséð væri að seinkun væri orðin á afgreiðslu fjárlaga, en hún sagðist „algjörlega óstressuð yfir því.“ Hún gæti lofað því að fjárlögin verði afgreidd fyrir áramót.
Ellefu þingfundadagar eru eftir af þinginu fram að jólum samkvæmt starfsáætlun þingsins, en það á að ljúka störfum 11. desember næstkomandi. Það mun væntanlega hjálpa þinginu við að fara ekki of langt fram úr áætlun að fá önnur mál eru tilbúin til afgreiðslu.