François Hollande er óvinsælasti forsetinn í sögu Frakklands. Kannski er það að einhverju leyti ósanngjarnt. Því hann hefur svo sem ekki gert nein meiriháttar glappaskot (þrátt fyrir ýmsar óvæntar uppákomur í einkalífinu) - bara svona siglt sinn sjó. En honum hefur ekki tekist að leysa efnahagsvandann eða minnka atvinnuleysið eins og hann lofaði fyrir síðustu kosningar. Hollande virðist viðkunnalegur náungi, sagðist ætla að vera venjulegur forseti eftir síðustu kosningar þegar almenningur var búinn að fá nóg af spaðalátum fyrirrennara hans, Sarkozy. En svo gerðist ekkert. Hollande virtist of varkár. Í skoðanakönnunum sögðust einungis 15% landsmanna treysta honum.
En lengi skal manninn reyna
En svo gekk árið 2015 í garð með miklum látum. Það byrjaði með Charlie Hebdo árásunum og síðan tók við eitt og annað og svo loks viðbjóðurinn föstudaginn 13. nóvember. Þetta hefur verið erfiðasta ár í lífi forsetans og eitthvert hryllilegasta ár franska lýðveldisins á síðari tímum.
Á einni viku flaug Hollande um allan heim og ræddi við helstu þjóðarleiðtoga jarðar til þess að samræma aðgerðir gegn Íslamska ríkinu. Og það tókst. Hann kom sögulegri samþykkt í gegn hjá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til þess að ráðast gegn þessari vá og nú leikur hann lykilhlutverk á mikilvægasta fundi mannkynssögunnar, Loftlagsráðstefnunni í París.
Á tveimur vikum hefur þessi maður tekið hamskiptum, breyst úr litlausum og óvinsælum forseta í mikilvægasta stjórnmálamann heims. Enda hafa óvinsældir hans tekið algjörum stakkaskiptum. Um helmingur landsmanna segist nú treysta Hollande – hér sannast hið margkveðna: ein vika í pólitík er langur tími. Í nýrri skoðanakönnun segjast um 50% treysta honum til að glíma við flókin verkefni og 27% aðspurðra eru mjög ánægð með störf forsetans. Sem er 20 prósentustiga aukning. Allt á uppleið.
Hörð viðbrögð gegn hryðjuverkum
Forsetinn var sjálfur viðstaddur á Stade de France þegar fyrsta spengingin sprakk 13. nóvember síðastliðinn. Hann var samstundis mættur á vettvang, við Bataclan tónleikastaðinn, rétt eftir að árásunum linnti og viðbrögðin voru hörð og afdráttarlaus:
„Þetta er stríð – Frakkland er komið í stríð við hryðjuverkamenn og Íslamska ríkið og við munum vinna þetta stríð.“
Það er næstum því eins og Charles de Gaulle sé vaknaður til lífsins á ný – aðrir benda á að þetta séu meira og minna sömu viðbrögðin og hjá George W. Bush eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september í New York.
Sagan hefur sýnt að það sem á eftir fylgdi voru röð mistaka. Loftárásir í Sýrlandi, stríð og enn meira stríð sé því ekki endilega rétta leiðin til þess að kljást við litla og hættulega hryðjuverkahópa og stilla til friðar í Frakklandi. Tilgangur hryðjuverkamannanna hafi einmitt verið sá að ginna Frakka til frekar átaka í Sýrlandi til þess að geta vakið upp meiri glundroða, hatur og ótta. En almenningur virðist sáttur með þessi viðbrögð forsetans. Hann lýsti yfir neyðarástandi og miklum aðgerðum innanlands til þess að kljást við hryðjverkaógnina. Frakkar, þrátt fyrir allar lýðveldishugsjónir sínar, virðast laðast að sterkum og kjaftforum leiðtogum.
Héraðskosningar í Frakklandi
Þótt vinsældir Hollande og hans helsta samstarfsmanns, hins vígmóða forsætisráðherra Manuel Valls, rjúki upp í skoðanakönnunum er samt óvíst hvaða áhrif það hefur á gengi Sósíalistaflokksins í komandi héraðskosningum sem fara fram þessa helgi og þá næstu. Vinsældir Hollande tóku líka svona kipp eftir Charlie Hebdo árásirnar en byrjuðu svo fljótt að dala aftur. Og það er í raun fátt sem bendir til þess að sósíalistar ríði feitum hesti frá þeirri viðureign.
Frakklandi eru skipt upp í tuttugu og tvö héröð; fyrir dyrum stendur sameining og fækkun á héröðum, niður í tólf til þess að minnka og einfalda hið dýra og flókna stjórnkerfi landsins.
Það eru alltaf tvöfaldar kosningar í Frakklandi til þess að tryggja meirihluta í stjórn. Þær breytingar komu með nýrri stjórnarskrá 1958 þegar nýtt lýðveldi var stofnað eftir mikinn glundroða og stjórnarkreppur. Það er í raun hinu tvöfalda kosningakerfi að þakka að Þjóðfylkingunni (Front National) hefur verið haldið frá völdum síðastliðin ár. Hægri menn kjósa vinstri menn og á víxl til þess að hleypa ekki öfgafólki að valdastólum. Þetta kann þó að vera að breytast.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Þjóðfylkingin verið á miklu flugi, sér í lagi í norðurhluta landsins þar sem þeir virðast ætla að ná hreinum meirihluta. Almenningur virðist vera halla sér til hægri þegar þjóðaröryggi og stríð eru í fyrirrúmi. UMP – hægri bandalagið hefur verið lagt niður og nýr hægri flokkur, Les Républicans, breið samfylking hægri manna undir handleiðslu Nicolas Sarkozy hefur litið dagsins ljós og virðist vera á mikilli siglingu í þessum komandi héraðskosningum. Úrslitin gætu síðan verið vísir að því sem gerist í forseta- og alþingiskosningum á þar næsta ári.
Breytt stjórnarskrá
François Hollande ætlar að breyta stjórnarskrá landsins til þess að geta framlengt neyðarástandinu sem ríkt hefur síðan 16. nóvember í sex mánuði. Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir neyðarlögum lengur en í þrjá mánuði. Þetta er gert til þess að takast á við hryðjuverkamenn. Lögreglan og leyniþjónustan hefur meiri umsvif og heimildir til þess að fylgjast með og handtaka fólk og halda því gæsluvarðhaldi.
Til þess að gera þetta þarf hann að sannfæra ríkisstjórn sína, en ekki síst þingið sem þarf að samþykkja þessar tillögur. Eins og staðan er núna þá virðist Hollande vera með allan þann stuðning sem hann þarf; þjóðina, þingið og ríkisstjórnina.
En neyðarlög er ekkert venjulegt ástand. Er ásýnd hins opna og frjálsa Frakklands að breytast? Hollande hefur þá þegar sagt að fórna verði frelsinu á kostnað öryggisins.
Þremur moskum hefur verið lokað í Frakklandi. Hugsanlega verður fleiri lokað á næstunni. Bænaherbergjum og samkomustöðum múslima þar sem talið er að öfgafullar skoðanir og innrætingar þrífist hefur sömuleiðis verið lokað.
„Þeim sem predika hatur verður ekki sýnd nein miskunn“, er haft eftir innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve. Hann talar því á svipuðum nótum og yfirmaður sinn Hollande, sem virðist vera vaknaður til lífs á ný við öll átökin og hryllinginn.