Vangaveltur um söguþráð nýju Star Wars myndarinnar „The Force Awakens“ hafa tröllriðið ýmsum netmiðlum undanfarna daga og vikur. Enda hefur líklega aldrei í sögunni verið jafnþéttur leyndarhjúpur um efni nokkurrar stórmyndar. Allir sem komu að gerð myndarinnar þurftu að skrifa undir dýra þagnaðareiða, jafnvel mánuðum áður en vinna þeirra hófst. Sumir af leikurum myndarinnar hafa ekki séð hana ennþá og framleiðendurnir ákváðu að sleppa hefðundinni forsýningu fyrir blaðamenn. Í lok slíkra forsýninga hefur viðstöddum blaðamönnum einatt gefist tækifæri til að ræða við helstu stjörnurnar. Ekki núna og engin af þeim leikurum sem fram koma í myndinni hafa fengist til að ræða um hvað gerist í myndinni, hugsanlega er Harrison Ford undantekning á því.
Enginn vissi neitt
Í umfjöllun á Reuters kemur m.a. fram að leyndin hafi verið svo mikil að þegar leikkonan Lupita Nyong´o mætti í fyrsta sinn á tökustað vissu fáir þar hvað hún vildi upp á dekk. „Ég var í tökum á atriðum þar sem samleikarar mínir höfðu enga umhugmynd um hver ég væri eða hvaða hlutverk ég væri að leika,“ segir Nyong´o en hún fer með hlutverk píratans Maz Kanata.
Nýliðinn , Daisy Ridley, sem leikur lykilhlutverkið í myndinni sem skransalinn Rey, var látin undirrita þagnaðareið um þremur mánuðum áður en hún fékk hlutverkið. Síðan hefur hún ekki einu sinni svarað einföldum spurningum um hlutverk sitt og hvort hún bregði ljósasverði eða ekki í myndinni. „Við verðum bara að bíða og sjá til,“ segir leikkonan. Leikarinn Adam Driver sem fer með hlutverk Kylo Ren, einhver útgáfa af Svarthöfða, sagði nýlega að hann myndi ekki eftir því hvort persóna hans í myndinni hefði sérstakt tónlistarstef eða ekki. Leikstjórinn J.J. Abrams staðfesti síðar að svo væri raunin.
Hvar er Logi geimgengill?
Það sem nokkurn veginn er vitað um söguþráð „The Force Awakens“ er að myndin gerist um 30 árum eftir að fyrsta myndin Star Wars kom fyrir augu áhorfenda. Til staðar eru þrjár helstu persónur fyrstu myndarinnar að sögn framleiðenda, þau Logi geimgengill (leikinn af Mark Hamill), Leia prinsessa (leikin af Carrie Fisher) og ólíkindatólið Han Solo (leikinn af Harrison Ford).
Vangaveltur á netmiðlum hafa að hluta til snúist um spurninguna hvar Logi Geimgengill sé og hvað hann muni gera í myndinni. Bent hefur verið á að Mark Hamill hefur hvergi verið að finna í þeim sýnishornum sem birt hafa verið úr myndinni. Né er andlit hans að finna á öllum þeim veggspjöldum sem gefin hafa verið út í tengslum við komandi frumsýningu. Þetta hefur vakið upp þær spurningar hvort Logi geimgengill muni deyja í myndinni eða það sem verra er heillast af skuggahlið „kraftsins“ eins og faðir hans. Harrison Ford var spurður um þessa „fjarveru“ Loga geimgengils og lét Ford hafa það eftir sér að „réttmæt ástæða“ lægi þar að baki. Þetta túlka sumir sem svo að Logi muni feta í fótspor föðurs síns.
Ævintýri skransalans
Annað sem vitað er um söguþráðinn er að stormsveitarmaðurinn Finn, leikinn af John Boyega, hittir skransalann Rey á plánetu hennar Jukku. Þau tvö, ásamt vélmenninu BB-B halda, síðan á vit ævintýranna. Eitt sem vakið hefur vangaveltur er að Rey hefur, hingað til, ekkert eftirnafn. Þetta þykir sönnum Star Wars aðdáendum vera merki um eitt af tvennu, annað hvort er hún barn Loga geimgengils eða dóttir þeirra Leiu prinsessu og Han Solo. Boyega hefur svarað spurningum blaðamanna um hlutverk sitt og myndina í heild á þann hátt að áhorfendur muni verða glaðir þegar upp er staðið að vita ekki meir en orðið er um söguþráð myndarinnar. „Ég vil ekki spilla neinu fyrir áhorfendur,“ segir Bouega. „Þeir munu þakka mér síðar.“ Leikstjórinn Abrams tekur í sama streng og leikarinn og segir að aðstandendur myndarinnar vilji að upplifun áhrorfenda á myndinni komi þeim á óvart.
Ný dauðastjarna?
Á samfélagsvefnum You Tube má finna mikið af „Star Wars sérfræðingum“ sem hafa farið í saumana á þeim sýnishornum sem gefin ghafa verið út. Ein pælingin er sú að þau Rey og Finn ásamt gamla þríeykinu þurfi að glíma við einhverskonar nýja útgáfu af dauðastjörnunni. Í einu myndbrotanna sést Kylo Ren nefnilega fylgjast með einhverjum rauðum, að því er virðist, dauðageisla.
En allar þessar vangaveltur munu heyra sögunni til
þann 14. desember þegar Star Wars: The Force Awakens verður frumsýnd ytra. Hér
heima verður myndin frumsýnd þann 17. desember.