Píratar halda á lyklinum að kosningabandalagi
Það eru skýrar átakalínur í íslenskum stjórmálum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þrýstingur á myndun kosningabandalags andstöðunnar er að aukast. En munu Píratar vilja það?
Í gær var birt enn ein staðfestingin á því að eðlisbreyting hefur átt sér stað í íslenskum stjórnmálum. Níunda mánuðinn í röð mælast Píratar langstærsti stjórnmálaflokkur landsins og fylgi við flokkinn mælist nú 35,5 prósent í könnun MMR. Það er nánast sama fylgi og stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mælast með til samans.
Sá stöðugleiki sem verið hefur í fylgi Pírata hefur komið flestum á óvart, ekki síst þeim sjálfum. En augljóst er að stór hluti þjóðarinnar, sérstaklega ungt fólk, bindur vonir sínar við að atkvæði greitt Pírötum þýði grundvallarbreytingar á stjórnmálunum. Og að það sé frjór jarðvegur fyrir slíkar grundvallarbreytingar.
Íhaldsöfl reyna að hunsa fílinn í herberginu
Íhaldsöfl í stjórnmálum hafa lengi reynt að afskrifa Pírata sem bólu sem hljóti að springa. Sumir hafa jafnvel gefið í skyn að þeir séu angi af skipulagðri glæpastarfsemi sem grafi undan eignar- og höfundarétti, ásakað þá um að standa ekki fyrir neitt og beinlínis varað við því að Pírötum verði hleypt að valdastólum. Þessi gagnrýni verður fyrirferðameiri eftir því sem nær dregur kosningum og fylgi Pírata sýnir engin merki þess að vera að fara að dragast saman.
Gagnrýnin kemur ekki síst frá þungavigtarfólki innan stjórnarflokkanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur til dæmis tvívegis varað þjóðina við Pírötum á undanförnum mánuðum. Í júní var hann í viðtali við DV og sagði: „Ef almenn óánægja yrði til þess að byltingarflokkar og flokkar með mjög óljósar hugmyndir um lýðræði og flokkar sem vilja umbylta grunnstoðum samfélagsins nái áhrifum þá væri það mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið allt.“ Sigmundur Davíð sagðist ekki telja að fylgi Pírata myndi haldast. Ef það héldist fram yfir kjördag „þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“
Píratar voru forsætisráðherra aftur hugleiknir í viðtali við Kastljós í september. Þar sagði hann: „Þeir eru svona jaðarflokkur. Allir þessir flokkar eru hver á sinn hátt svona upp á móti kerfinu og fólk er að því er virðist búið að gefast upp á hefðbundnum stjórmálum, sem er ekki gott ástand.“
Nokkrum dögum áður hafði Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins og mikill áhrifamaður innan hans, skrifað grein í Morgublaðið og líkt Pírötum við Ragnar Reykás og sagði þá vera á „furðuflugi í vinsældum“. Guðni sagði í sömu grein að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn væru einu stjórnmálaöflin með grasrót og bakland.
Ljóst er að Framsóknarflokkurinn, og sérstaklega Sigmundur Davíð, eru heldur ekki hátt skrifaðir hjá Pírötum. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður þeirra, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í september að hann gæti alveg sagt það „hreinskilnislega að það hvernig hæstvirtur forsætisráðherra kemur fram við þingið er óþolandi og óbjóðandi. Ég er eiginlega algjörlega hættur að reyna að sykra það eitthvað. Hvernig þessi forsætisráðherra kemur fram við þingið er bara ekki í lagi, við eigum ekki að láta eins og það sé í lagi.“
Rótlausir kennitöluflakkarar
Gagnrýnin á Pírata hefur einnig komið frá öflum innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður hans og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í viðtali við DV í ágúst að hann væri undrandi á miklu fylgi Pírata í skoðanakönnunum. „Stóra spurningin sem menn standa frammi fyrir með nýja flokka eins og Pírata er, fyrir hvað standa þeir? Er einhver kjölfesta í þeim? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað,“ sagði Bjarni.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í lok ágúst að Píratar væru samansafn af rótlausum kennitöluflökkurum í pólitík. „En bæði stefna og menn skipta máli við stjórn landsins. Sundurlaus hópur með illa ígrundaða stefnu í mestu hagsmunamálum þjóðarinnar er ekki líklegur til að ná árangri. Það nefnilega skiptir máli hverjir og hvernig stjórnað er. En það hefur alltaf verið auðvelt að selja frasa um aukið lýðræði, borgarleg réttindi, arðinn til þjóðarinnar og almenna góðmennsku. Og bíta svo höfuðið af skömminni með því að saka aðra um populisma.“
Davíð Oddsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og nú ritstjóri Morgunblaðsins, reyndi að leggja Sjálfstæðismönum línurnar fyrir landsfund flokksins í október síðastliðnum í leiðara í blaðinu sem bar yfirskriftina „Varist eftirlíkingar“.
Þar sagði Davíð að stjórnmálamönnum sem horfðu til kannana væri vorkun og að Píratar stæðu ekki fyrir neitt. Það ætti ekki að einhenda sér í að apa upp eftir þeim sem mælast með mest fylgi. Í stað þess ætti Sjálfstæðisflokkurinn að skerpa á sínum áherslum. Það hefði hann gert þegar Kvennalistinn mældist með meira fylgi en hann fyrir tæpum aldarfjórðungi og þá skilaði það góðri útkomu í kosningum og ríkisstjórnarsetu.
Í lok leiðarans sagði síðan: „Sagt er að Sjálfstæðisflokkurinn vilji nú krukka í stjórnarskrána, þótt ekki sé minnsti áhugi fyrir því hjá stuðningsmönnum þess flokks. Eina ástæðan, sem upp er gefin, er að það sé svo píratalegt og því kannski vænlegt til fylgisaukninar! Trúa menn því virkilega? Sé svo, er langt í vaxandi traust“.
Skýr andstæð stefna í mótun
En eru Píratar stefnulausir? Á aðalfundi flokksins sem fram fór í lok ágúst 2015 var meðal annars samþykkt að tvö mál ættu að vera meginmál næsta kjörtímabils: að þjóðinni verði gert kleift að kjósa um annars vegar nýja stjórnarskrá sem byggi á tillögum stjórnlagaráðs frá síðasta kjörtímabili, og hins vegar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þá lögðu Píratar einnig til að næsta kjörtímabil verði stutt og á því verði einungis til umfjöllunar þessi tvö mál. Þegar þau verði afgreidd verði kosið aftur.
Í stefnumálum Pírata er einnig að finna nokkuð skýra stefnu í flestum stærstu málum sem tekist er á um í nútímasamfélagi. Þeir vilja t.d. að ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum verði fest í stjórnarskrá, að ríkið bjóði upp aflaheimildir í sjávarútvegi á opnum markaði og að allar handfæraveiðar séu frjálsar. Þá er það skoðun Pírata að allur afli eigi að fara á markað.
Í velferðarmálum vilja þeir lögfesta lágmarksframfærsluviðmið og segja alla „eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi“, að tryggja þurfi að allir hafi aðgengi að íbúðahúsnæði í takt við fjárhagsgetu, heilsufar og fjölskyldustærð og vilja heildarendurskoðun á bótakerfinu. Raunar vilja þeir afnema hugtakið „bótakerfi“.
Flokkurinn er með nokkuð víðtæka stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum sem felur meðal annars í sér aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka, styttri vinnuviku, opið bókhald opinberra aðila og betrumbætt atvinnuumhverfi smáiðnaðar með einfaldara rekstrarumhverfi.
Kjarninn greindi frá þvi í byrjun desember að Píratar séu að setja sér stefnu varðandi stóriðju og þunna eiginfjármögnun. Sú tillaga felur í sér að flokkurinn vilji endurskoða fjárfestingasamninga við stóriðjufyrirtæki og láta þau borga „eðlilegan“ tekjuskatt í ríkissjóð. Semjist ekki um endurskoðun samninganna innan sex mánaða frá því að viðræður hefjist vilja Píratar leggja sérstakan orkuskatt á þau sem skila á ríkissjóði sömu eða hærri upphæðum og stóriðjan myndi greiða ef hún væri ekki undanþegin almennum reglum um tekjuskatt. Píratar vilja auk þess festa í lög takmörk á vaxtagreiðslum sem fyrirtæki geta dregið frá skattstofni sínum. Þessi tillaga er sem stendur í ferli í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi Pírata.
Auk þess hafa Píratar lengi talað fyrir borgarlaunum, sambærilegum þeim sem Finnar ætla mögulega að gera tilraun með að innleiða.
Samandregið verður ekki séð að Píratar séu ekki með stefnu í mörgum helstu málaflokkum sem tekist er á um á hinu pólitíska sviði og sú stefna er ekki óljósari en stefna margra hefðbundinna stjórnmálaflokka, þótt síður sé. Auk þess virðist flokkurinn vera á fullu við að móta aðrar pólitískar afstöður í gegnum sitt mótunarferli. Píratar eru því sannarlega með stefnu. Hún hugnast bara ekki öllum.
Vegið að tilvist jafnaðarmannaflokkanna
Óvæntur uppgangur Pírata, sem rétt skriðu yfir fimm prósent atkvæðaþröskuldinn í kosningunum 2013, hefur ekki bara farið í taugarnar á stjórnarflokkunum. Hann hefur vegið verulega að tilveru hluta stjórnarandstöðunnar. Samfylkingin, sem átti einu sinni að sameina vinstri- og jafnaðarmenn í raunhæfan valkost gegn Sjálfstæðisflokknum, mælist með rétt rúmlega níu prósent fylgi. Það er umtalsvert minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þar sem Samfylkingin fékk sína verstu útreið í sögunni.
Það virðist borin von að núverandi forysta flokksins, með Árna Pál Árnason í formannsstóli og elsta þingflokk landsins í eftirdragi, muni ná að breyta þessari stöðu mikið. Kjósendurnir hafa yfirgefið Samfylkinguna, og fært sig yfir til Pírata.
Björt framtíð er í enn verri málum. Eftir að hafa farið með himinskautum í könnunum fyrir síðustu kosningar féll fylgið skarpt í aðdraganda þeirra og hefur hreinlega horfið á undanförnum mánuðum. Þrátt fyrir að atvinnupólitíkusunum Guðmundi Steingrímssyni og Róberti Marshall hafi verið skipt úr stærstu stöðunum innan flokksins fyrir Óttarr Proppé og Brynhildi Pétursdóttur hefur fylgið ekkert braggast. Í nýjustu könnun MMR mælist það 4,6 prósent sem myndi ekki duga Bjartri framtíð til að ná manni inn á þing.
Vinstri græn standa síðan frammi fyrir sérstæðu vandamáli: flokkurinn mælist aldrei með meira en 10-12 prósenta fylgi en formaður hans, Katrín Jakobsdóttir, er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Kjósendur virðast því tilbúnir til að kjósa Katrínu Jakobsdóttur en ekki Vinstri græna.
Hvað gera flokkar með ekkert fylgi sem vilja vera áfram til?
Og hvað gera flokkar sem eru ekki með neitt fylgi en langar mjög að vera áfram til og hafa áhrif? Þeir reyna að hengja sig á aðra sem eru ekki í sömu stöðu.
Það er vert að taka fram að átakalínurnar virðast mjög skýrar í íslenskri pólitík sem stendur. Gjá er milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu og augljóst að þar eru tvær blokkir á ferð sem bjóða upp á mjög mismunandi framtíðarsýn og áherslur. Engar líkur eru á því að Framsóknarflokkurinn, sem sögulega hefur getað myndað ríkisstjórnir til hægri eða vinstri eftir því sem hentar honum betur, muni geta náð saman við stjórnarandstöðuflokkanna eftir næstu kosningar. Að minnsta kosti á meðan að sú forysta sem nú er í flokknum stýrir ferðinni. Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn beinlínis þola ekki Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og það óþol virðist í flestum tilfellum vera gagnkvæmt. Raunar má færa það persónulega óþol stjórnarandstæðinga yfir á fleiri stjórnarþingmenn, sérstaklega Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar.
Kjósendur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks virðast líka fyrst og fremst færa sig á milli þeirra tveggja flokka. Þeir eru að berjast um sama fylgið. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lækkar bætist við Framsókn, og öfugt.
Jón Kalman kemur af stað viðreynsluhrinu
Á þessu ári hafa átt sér stað augljósar þreifingar og viðreynslur á opinberum vettvangi um að einhverskonar kosningabandalag verði myndað á meðal stjórnarandstöðuflokkanna.
Upphaf þessa mikla daðurs má rekja til greinar sem Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifaði á Kjarnann í maí síðastliðnum og vakti mikla athygli. Fyrirsögn hennar var „Tími Katrínar Jakobsdóttur er runninn upp – hvort sem henni líkar betur eða verr“.
Þar sagði Jón Kalman að vinstri- og jafnaðarmenn geti annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt sér á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur. „Katrín Jakobsdóttir getur ekki lengur leyft sér að loka sig af í því 10 prósent horni sem Vinstri grænir eru fastir í. Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr“.
Síðan þá hafa fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna rætt opinberlega um áhuga sinn á því að mynda kosningabandalag. Katrín Jakobsdóttir gerði það í útvarpsþætti í júní og aftur í sjónvarpsþætti í október og sagði að hún væri áhugasöm um kosningabandalag á vinstri vængnum.
Árni Páll Árnason talaði fyrir kosningabandalagi stjórnarandstöðuflokka á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í september og hafði áður gert slíkt hið sama í maí, þegar hann var spurður út í grein Jóns Kalman.
Róbert Marshall birti síðan stöðuuppfærslu á Facebook í fyrradag þar sem hann kallaði eftir sameiginlegu framboði umbótarafla í næstu kosningum sem leitt yrði af Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna. Þar sagði Róbert að þeir sem aðhyllist umbætur og alvöru aðgerðir á sviði umhverfis, jafnréttis, mennta- og heilbrigðismála þurfi að skipa sér í sveit saman og búa til aðgerðaráætlun fyrir næstu kjörtímabili. „Stilla sameiginlega uppá lista í öllum kjördæmum og stilla upp ríkisstjórn þar sem hæfileikar, bakgrunnur og verkefni ráða mannvalinu. Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skipaða utanþingsráðherrum sem við kynnum fyrir kosningar og yrði leidd af Katrínu Jakobsdóttur. Verkefnin framundan eru risavaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Íslandi."
Hvað segja Píratar?
Ljóst er að lengi hefur verið áhugi á meðal sumra Pírata að mynda slíkt bandalag. Birgitta Jónsdóttir, þeirra reynslumesti þingmaður, viðraði þá hugmynd strax í mars, þegar ótrúleg fylgisaukning Pírata var rétt að hefjast, að stjórnarandstöðuflokkarnir mynduðu kosningabandalag fyrir næstu kosningar.
Á aðalfundi Pírata, sem haldin var 30. ágúst síðastliðinn, lagði hún fram sömu hugmynd á ný. Að þeir stjórnmálaflokkar sem hefðu áhuga á að vinna saman myndu gera með sér bindandi samkomulag um það sem þeir ætluðu að gera á næsta kjörtímabili og sækjast eftir umboði fyrir kosningar með því að bjóða upp á skýran valkost.
Það er Pírata að taka ákvörðun um hvort af slíku kosningabandalagi verði. Þeir eru lykillinn að því, enda samanlagt fylgi hinna stjórnarandstöðuflokkanna undir 25 prósentum sem stendur. Allar vonir Samfylkingar, Bjartar framtíðar og Vinstri grænna um að komast að völdum, og í sumum tilfellum að vera áfram til, hvíla á vilja Pírata til þess. Það verður vandasamt val. Á langstærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt könnunum að binda sig öflum sem njóta ákaflega lítils stuðnings eða á hann að meta stöðuna að loknum kosningum. Það er spurning sem Píratar munu þurfa að takast á við og svara á næsta ári.
Margt getur breyst á 16 mánuðum
Enn eru um 16 mánuðir í næstu kosningar, sem fara líkast til fram í apríl 2017. Margt gæti því auðvitað gerst á þeim tíma. Í kosningunum 2013 buðu t.d. 15 flokkar fram. Nokkuð ljóst þykir að einn nýr flokkur hið minnsta muni koma mótaður fram á sjónarsviðið á næsta ári, Viðreisn.
Sá hópur sem vinnur að stofnun þess flokks, og hefur gert um nokkuð langt skeið, er að mestu samansettur af Evrópusinnum sem yfirgefið hafa Sjálfstæðisflokkinn og virðist auk þess höfða til frjálslyndra hægri krata sem finna sig ekki lengur hjá Samfylkingunni. Viðreisn mun að öllum líkindum berjast um eitthvað af fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem nú þegar er mjög lítið í öllum sögulegum samanburði, og reyna einnig að krækja í hið áður kvika óánægjufylgi sem undanfarna níu mánuði hefur fundið sér fast heimilisfesti hjá Pírötum.
Auk þess virðist svigrúm fyrir stjórnmálaafl sem leggur áherslu á harða innflytjendastefnu og meiri lokun landsins. Mögulegt er að einhver hefðbundnu flokkanna reyni að fylla það tóm. Framsóknarflokkurinn lá undir ámæli fyrir að hafa gert það í síðustu sveitastjórnarkosningum og öfl innan Sjálfstæðisflokksins hafa hvatt til þess að flokkurinn halli sér í þessa átt.
Þá má ekki útiloka að rándýr kosningaloforð muni duga til að heilla nægjanlega marga kjósendur aftur yfir til stjórnarflokkanna, að minnsta kosti í nægilega langan tíma til að þeir haldi völdum. Slíkt hefur oft gerst og var svo sannarlega rótin að sögulegum kosningasigri Framsóknarflokksins í kosningunum 2013.
Lykilleikmenn innan beggja flokkanna eru vongóðir um að það takist að hífa fylgi flokkanna vel upp næsta rúma árið með loforðapakka fyrir næstu kosningar sem mun meðal annars fela í sér sérmerkt framlög til byggingar nýs Landsspítala. Þeir telja að það þurfi mögulega ekki meirihluta atkvæða til að stjórnin haldi völdum, þar sem dreifð atkvæði á ýmsa smáflokka muni falla niður dauð. Því gæti minnihluti atkvæða dugað til að skila stjórnarflokkunum meirihluta þingmanna, og áframhaldandi valdasetu.
Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 26,7 prósent atkvæða en Framsóknarflokkurinn 24,4 prósent. Samanlagt fylgi flokkanna var því 51,1 prósent. En kosningafyrirkomulagið skilaði þeim 60 prósent þingmanna, eða 38 talsins.
Síðan þá hefur fylgi flokkanna fallið mjög skarpt og ljóst er að það er á brattann að sækja. Í maí náði fylgi flokkanna sögulegum botni þegar könnun MMR mældi sameiginlegt fylgi þeirra undir 30 prósentum. Í dag er það aðeins hærra, 35,8 prósent, sem er fjarri því nóg til að sitja áfram eftir kosningarnar 2017.
Píratar halda á lyklinum
Miðað við stöðuna eins og hún er í dag eru Píratar þó í lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum og sú staða virðist ekki ætla að breytast nema þeir klúðri henni sjálfir. Kosningabandalag hefur kosti í för með sér fyrir Pírata. Þeir munu deila ábyrgð með fólki sem hefur reynslu af því að stjórna og gætu náð í mjög breitt umboð til að koma helstu stefnumálum sínum í verk. Það má heldur ekki gleyma því að stjórnarandstöðuflokkarnir starfa þegar saman í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem virðist ríkja nokkuð góð sátt þeirra á milli.
Almennt má segja að þeir geti myndað frjálslynda jafnaðarmannablokk með vinstri slagsíðu sem er þeirrar skoðunar að margt sé að í íslensku samfélagi í dag á móti íhaldsamari blokk Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem vill halda sem flestu í sama horfinu. Valkostirnir yrðu mjög skýrir og áherslur blokkanna mjög ólíkar. Ef saman næðist um myndun kosningabandalags strax á næsta ári gæti það líka komið í veg fyrir að mörg smærri framboð myndu fara fram. Þau myndu frekar finna sér heimili hjá annarri hvorri blokkinni.
En lykillinn að þessum aðstæðum er í höndum Pírata. Kosningabandalag hinna svokölluðu umbótaafla, sem stjórnarflokkarnir myndu mun frekar vilja kalla niðurrifsöfl, án þeirra væri fyrirfram dauðadæmd.