Píratar halda á lyklinum að kosningabandalagi

Það eru skýrar átakalínur í íslenskum stjórmálum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þrýstingur á myndun kosningabandalags andstöðunnar er að aukast. En munu Píratar vilja það?

Í gær var birt enn ein stað­fest­ingin á því að eðl­is­breyt­ing hefur átt sér stað í íslenskum stjórn­mál­um. Níunda mán­uð­inn í röð mæl­ast Píratar langstærsti stjórn­mála­flokkur lands­ins og fylgi við flokk­inn mælist nú 35,5 pró­sent í könnun MMR. Það er nán­ast sama fylgi og stjórn­ar­flokk­arnir tveir, Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokk­ur, mæl­ast með til sam­ans.

Sá stöð­ug­leiki sem verið hefur í fylgi Pírata hefur komið flestum á óvart, ekki síst þeim sjálf­um. En aug­ljóst er að stór hluti þjóð­ar­inn­ar, sér­stak­lega ungt fólk, bindur vonir sínar við að atkvæði greitt Pírötum þýði grund­vall­ar­breyt­ingar á stjórn­mál­un­um. Og að það sé frjór jarð­vegur fyrir slíkar grund­vall­ar­breyt­ing­ar.

Íhalds­öfl reyna að hunsa fíl­inn í her­berg­inu

Íhalds­öfl í stjórn­málum hafa lengi reynt að afskrifa Pírata sem bólu sem hljóti að springa. Sumir hafa jafn­vel gefið í skyn að þeir séu angi af skipu­lagðri glæp­a­starf­semi sem grafi undan eign­ar- og höf­unda­rétti, ásakað þá um að standa ekki fyrir neitt og bein­línis varað við því að Pírötum verði hleypt að valda­stól­um. Þessi gagn­rýni verður fyr­ir­ferða­meiri eftir því sem nær dregur kosn­ingum og fylgi Pírata sýnir engin merki þess að vera að fara að drag­ast sam­an. 

Gagn­rýnin kemur ekki síst frá þunga­vigt­ar­fólki innan stjórn­ar­flokk­anna. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráð­herra hefur til dæmis tví­vegis varað þjóð­ina við Pírötum á und­an­förnum mán­uð­um. Í júní var hann í við­tali við DV og sagði: „Ef almenn óánægja yrði til þess að bylt­ing­ar­flokkar og flokkar með mjög óljósar hug­myndir um lýð­ræði og flokkar sem vilja umbylta grunn­stoðum sam­fé­lags­ins nái áhrifum þá væri það mikið áhyggju­efni fyrir sam­fé­lagið allt.“ Sig­mundur Davíð sagð­ist ekki telja að fylgi Pírata myndi hald­ast. Ef það héld­ist fram yfir kjör­dag „þá myndi taka við allt ann­ars konar stefna í sam­fé­lag­inu þar sem erfitt gæti verið að við­halda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækj­ast eftir og byggja upp um ára­tuga skeið.“

Píratar voru for­sæt­is­ráð­herra aftur hug­leiknir í við­tali við Kast­ljós í sept­em­ber. Þar sagði hann: „Þeir eru svona jað­ar­flokk­ur. Allir þessir flokkar eru hver á sinn hátt svona upp á móti kerf­inu og fólk er að því er virð­ist búið að gef­ast upp á hefð­bundnum stjór­mál­um, sem er ekki gott ástand.“ 

Nokkrum dögum áður hafði Guðni Ágústs­son, fyrrum for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins og mik­ill áhrifa­maður innan hans, skrifað grein í Morg­u­blaðið og líkt Pírötum við Ragnar Reykás og sagði þá vera á „furðu­flugi í vin­sæld­um“. Guðni sagði í sömu grein að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn væru einu stjórn­mála­öflin með gras­rót og bak­land.

Ljóst er að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, og sér­stak­lega Sig­mundur Dav­íð, eru heldur ekki hátt skrif­aðir hjá Píröt­um. Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þing­maður þeirra, sagði í við­tali við Við­skipta­blaðið í sept­em­ber að hann gæti alveg sagt það „hrein­skiln­is­lega að það hvernig hæst­virtur for­sæt­is­ráð­herra kemur fram við þingið er óþol­andi og óbjóð­andi. Ég er eig­in­lega algjör­lega hættur að reyna að sykra það eitt­hvað. Hvernig þessi for­sæt­is­ráð­herra kemur fram við þingið er bara ekki í lagi, við eigum ekki að láta eins og það sé í lag­i.“

Rót­lausir kenni­tölu­flakk­arar

Gagn­rýnin á Pírata hefur einnig komið frá öflum innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Bjarni Bene­dikts­son, for­maður hans og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sagði í við­tali við DV í ágúst að hann væri undr­andi á miklu fylgi Pírata í skoð­ana­könn­un­um. „Stóra spurn­ingin sem menn standa frammi fyrir með nýja flokka eins og Pírata er, fyrir hvað standa þeir? Er ein­hver kjöl­festa í þeim? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað,“ sagði Bjarni.

Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sagði í stöðu­upp­færslu á Face­book í lok ágúst að Píratar væru sam­an­safn af rót­lausum kenni­tölu­flökk­urum í póli­tík. „En bæði stefna og menn skipta máli við stjórn lands­ins. Sund­ur­laus hópur með illa ígrund­aða stefnu í mestu hags­muna­málum þjóð­ar­innar er ekki lík­legur til að ná árangri. Það nefni­lega skiptir máli hverjir og hvernig stjórnað er. En það hefur alltaf verið auð­velt að selja frasa um aukið lýð­ræði, borg­ar­leg rétt­indi, arð­inn til þjóð­ar­innar og almenna góð­mennsku. Og bíta svo höf­uðið af skömminni með því að saka aðra um pop­u­l­isma.“

Davíð Odds­son, fyrrum for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og nú rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins, reyndi að leggja Sjálf­stæð­is­mönum lín­urnar fyrir lands­fund flokks­ins í októ­ber síð­ast­liðnum í leið­ara í blað­inu sem bar yfir­skrift­ina „Varist eft­ir­lík­ing­ar“. 

Þar sagði Davíð að stjórn­mála­mönnum sem horfðu til kann­ana væri vorkun og að Píratar stæðu ekki fyrir neitt. Það ætti ekki að ein­henda sér í að apa upp eftir þeim sem mæl­ast með mest fylgi. Í stað þess ætti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn að skerpa á sínum áhersl­um. Það hefði hann gert þegar Kvenna­list­inn mæld­ist með meira fylgi en hann fyrir tæpum ald­ar­fjórð­ungi og þá skil­aði það góðri útkomu í kosn­ingum og rík­is­stjórn­ar­set­u. 

Í lok leið­ar­ans sagði síð­an: „Sagt er að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vilji nú krukka í stjórn­ar­skrána, þótt ekki sé minnsti áhugi fyrir því hjá stuðn­ings­mönnum þess flokks. Eina ástæð­an, sem upp er gef­in, er að það sé svo píra­ta­legt og því kannski væn­legt til fylg­is­aukn­in­ar! Trúa menn því virki­lega? Sé svo, er langt í vax­andi traust“.

Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, hefur fjallað háðslega um Pírata.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Skýr and­stæð stefna í mótun

En eru Píratar stefnu­laus­ir? Á aðal­fundi flokks­ins sem fram fór í lok ágúst 2015 var meðal ann­ars sam­þykkt að tvö mál ættu að vera meg­in­mál næsta kjör­tíma­bils: að þjóð­inni verði gert kleift að kjósa um ann­ars vegar nýja stjórn­ar­skrá sem byggi á til­lögum stjórn­laga­ráðs frá síð­asta kjör­tíma­bili, og hins vegar um aðild­ar­um­sókn að Evr­ópu­sam­band­inu. Þá lögðu Píratar einnig til að næsta kjör­tíma­bil verði stutt og á því verði ein­ungis til umfjöll­unar þessi tvö mál. Þegar þau verði afgreidd verði kosið aft­ur. 

Í stefnu­málum Pírata er einnig að finna nokkuð skýra stefnu í flestum stærstu málum sem tek­ist er á um í nútíma­sam­fé­lagi. Þeir vilja t.d. að ákvæði um sam­eign þjóð­ar­innar á auð­lindum verði fest í stjórn­ar­skrá, að ríkið bjóði upp afla­heim­ildir í sjáv­ar­út­vegi á opnum mark­aði og að allar hand­færa­veiðar séu frjáls­ar. Þá er það skoðun Pírata að allur afli eigi að fara á mark­að.

Í vel­ferð­ar­málum vilja þeir lög­festa lág­marks­fram­færslu­við­mið og segja alla „eiga rétt á mann­sæm­andi tekjum í auð­ugu land­i“, að tryggja þurfi að allir hafi aðgengi að íbúða­hús­næði í takt við fjár­hags­getu, heilsu­far og fjöl­skyldu­stærð og vilja heild­ar­end­ur­skoðun á bóta­kerf­inu. Raunar vilja þeir afnema hug­takið „bóta­kerf­i“. 

Flokk­ur­inn er með nokkuð víð­tæka stefnu í atvinnu- og efna­hags­málum sem felur meðal ann­ars í sér aðskilnað við­skipta- og fjár­fest­inga­banka, styttri vinnu­viku, opið bók­hald opin­berra aðila og betrumbætt atvinnu­um­hverfi smá­iðn­aðar með ein­fald­ara rekstr­ar­um­hverf­i. 

Kjarn­inn greindi frá þvi í byrjun des­em­ber að Píratar séu að setja sér stefnu varð­andi stór­iðju og þunna eig­in­fjár­mögn­un. Sú til­laga felur í sér að flokk­ur­inn vilji end­ur­skoða fjár­fest­inga­samn­inga við stór­iðju­fyr­ir­tæki og láta þau borga „eðli­legan“ tekju­skatt í rík­is­sjóð. Semj­ist ekki um end­ur­skoðun samn­ing­anna innan sex mán­aða frá því að við­ræður hefj­ist vilja Píratar leggja sér­stakan orku­skatt á þau sem skila á rík­is­sjóði sömu eða hærri upp­hæðum og stór­iðjan myndi greiða ef hún væri ekki und­an­þegin almennum reglum um tekju­skatt. Píratar vilja auk þess festa í lög tak­mörk á vaxta­greiðslum sem fyr­ir­tæki geta dregið frá skatt­stofni sín­um. Þessi til­laga er sem stendur í ferli í raf­rænu atkvæða­greiðslu­kerfi Pírata. 

Auk þess hafa Píratar lengi talað fyrir borg­ar­launum, sam­bæri­legum þeim sem Finnar ætla mögu­lega að gera til­raun með að inn­leiða. 

Sam­an­dregið verður ekki séð að Píratar séu ekki með stefnu í mörgum helstu mála­flokkum sem tek­ist er á um á hinu póli­tíska sviði og sú stefna er ekki óljós­ari en stefna margra hefð­bund­inna stjórn­mála­flokka, þótt síður sé. Auk þess virð­ist flokk­ur­inn vera á fullu við að móta aðrar póli­tískar afstöður í gegnum sitt mót­un­ar­ferli. Píratar eru því sann­ar­lega með stefnu. Hún hugn­ast bara ekki öll­um.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er einn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Flokkur hans mælist með undir tíu prósent fylgi og lítlar sem engar líkur virðast á því að flokkurinn verði leiðandi afl í nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Vegið að til­vist jafn­að­ar­manna­flokk­anna

Óvæntur upp­gangur Pírata, sem rétt skriðu yfir fimm pró­sent atkvæða­þrösk­uld­inn í kosn­ing­unum 2013, hefur ekki bara farið í taug­arnar á stjórn­ar­flokk­un­um. Hann hefur vegið veru­lega að til­veru hluta stjórn­ar­and­stöð­unn­ar. Sam­fylk­ing­in, sem átti einu sinni að sam­eina vinstri- og jafn­að­ar­menn í raun­hæfan val­kost gegn Sjálf­stæð­is­flokkn­um, mælist með rétt rúm­lega níu pró­sent fylgi. Það er umtals­vert minna en flokk­ur­inn fékk í síð­ustu kosn­ing­um, þar sem Sam­fylk­ingin fékk sína verstu útreið í sög­unn­i. 

Það virð­ist borin von að núver­andi for­ysta flokks­ins, með Árna Pál Árna­son í for­manns­stóli og elsta þing­flokk lands­ins í eft­ir­dragi, muni ná að breyta þess­ari stöðu mik­ið. Kjós­end­urnir hafa yfir­gefið Sam­fylk­ing­una, og fært sig yfir til Pírata.

Björt fram­tíð er í enn verri mál­um. Eftir að hafa farið með him­in­skautum í könn­unum fyrir síð­ustu kosn­ingar féll fylgið skarpt í aðdrag­anda þeirra og hefur hrein­lega horfið á und­an­förnum mán­uð­um. Þrátt fyrir að atvinnupóli­tíkus­unum Guð­mundi Stein­gríms­syni og Róberti Mars­hall hafi verið skipt úr stærstu stöð­unum innan flokks­ins fyrir Ótt­arr Proppé og Bryn­hildi Pét­urs­dóttur hefur fylgið ekk­ert bragg­ast. Í nýj­ustu könnun MMR mælist það 4,6 pró­sent sem myndi ekki duga Bjartri fram­tíð til að ná manni inn á þing. 

Vinstri græn standa síðan frammi fyrir sér­stæðu vanda­máli: flokk­ur­inn mælist aldrei með meira en 10-12 pró­senta fylgi en for­maður hans, Katrín Jak­obs­dótt­ir, er einn vin­sæl­asti stjórn­mála­maður lands­ins. Kjós­endur virð­ast því til­búnir til að kjósa Katrínu Jak­obs­dóttur en ekki Vinstri græna. 

Hvað gera flokkar með ekk­ert fylgi sem vilja vera áfram til?

Og hvað gera flokkar sem eru ekki með neitt fylgi en langar mjög að vera áfram til og hafa áhrif? Þeir reyna að hengja sig á aðra sem eru ekki í sömu stöð­u. 

Það er vert að taka fram að átaka­lín­urnar virð­ast mjög skýrar í íslenskri póli­tík sem stend­ur. Gjá er milli stjórn­ar­flokk­anna og stjórn­ar­and­stöðu og aug­ljóst að þar eru tvær blokkir á ferð sem bjóða upp á mjög mis­mun­andi fram­tíð­ar­sýn og áhersl­ur. Engar líkur eru á því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem sögu­lega hefur getað myndað rík­is­stjórnir til hægri eða vinstri eftir því sem hentar honum bet­ur, muni geta náð saman við stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna eftir næstu kosn­ing­ar. Að minnsta kosti á meðan að sú for­ysta sem nú er í flokknum stýrir ferð­inni. Fjöl­margir stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn bein­línis þola ekki Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son for­sæt­is­ráð­herra og það óþol virð­ist í flestum til­fellum vera gagn­kvæmt. Raunar má færa það per­sónu­lega óþol stjórn­ar­and­stæð­inga yfir á fleiri stjórn­ar­þing­menn, sér­stak­lega Jón Gunn­ars­son, for­mann atvinnu­vega­nefnd­ar. 

Kjós­endur Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks virð­ast líka fyrst og fremst færa sig á milli þeirra tveggja flokka. Þeir eru að berj­ast um sama fylg­ið. Þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn lækkar bæt­ist við Fram­sókn, og öfugt.

Jón Kalman kemur af stað við­reynslu­hr­inu

Á þessu ári hafa átt sér stað aug­ljósar þreif­ingar og við­reynslur á opin­berum vett­vangi um að ein­hvers­konar kosn­inga­banda­lag verði myndað á meðal stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna. 

Upp­haf þessa mikla dað­urs má rekja til greinar sem Jón Kalman Stef­áns­son rit­höf­undur skrif­aði á Kjarn­ann í maí síð­ast­liðnum og vakti mikla athygli. Fyr­ir­sögn hennar var „Tími Katrínar Jak­obs­dóttur er runn­inn upp – hvort sem henni líkar betur eða verr“. 

Þar sagði Jón Kalman að vinstri- og jafn­að­ar­menn geti ann­að­hvort haldið upp­teknum hætti, gengið sundruð til næstu kosn­inga og þannig tryggt áfram­hald­andi mis­skipt­ingu. Eða fylkt sér á bak við þann eina stjórn­mála­mann sem hefur getu og vin­sældir til að leiða breið­fylk­ingu í anda R-list­ans: Katrínu Jak­obs­dótt­ur. „Katrín Jak­obs­dóttir getur ekki lengur leyft sér að loka sig af í því 10 pró­sent horni sem Vinstri grænir eru fastir í. Ef hún hefur áhuga á að hrifsa sam­fé­lagið úr járn­klóm hags­muna, nýfrjáls­hyggju og lýð­skrumara, þá verður hún að stíga fram og sam­eina vinstri– og miðju­menn að baki sér. Og aðrir for­ystu­menn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hags­muni þjóðar fram yfir per­sónu­legan metnað og verða ridd­arar í sveit Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Hennar tími er ein­fald­lega runn­inn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr“. 

Síðan þá hafa full­trúar allra stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna rætt opin­ber­lega um áhuga sinn á því að mynda kosn­inga­banda­lag. Katrín Jak­obs­dóttir gerði það í útvarps­þætti í júní og aftur í sjón­varps­þætti í októ­ber og sagði að hún væri áhuga­söm um kosn­inga­banda­lag á vinstri vængn­um. 

Árni Páll Árna­son tal­aði fyrir kosn­inga­banda­lagi stjórn­ar­and­stöðu­flokka á flokk­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­innar í sept­em­ber og hafði áður gert slíkt hið sama í maí, þegar hann var spurður út í grein Jóns Kalman. 

Róbert Mars­hall birti síðan stöðu­upp­færslu á Face­book í fyrra­dag þar sem hann kall­aði eftir sam­eig­in­legu fram­boði umbót­arafla í næstu kosn­ingum sem leitt yrði af Katrínu Jak­obs­dótt­ur, for­manni Vinstri grænna. Þar sagði Róbert að þeir sem aðhyllist umbætur og alvöru aðgerðir á sviði umhverf­is, jafn­rétt­is, mennta- og heil­brigð­is­mála þurfi að skipa sér í sveit saman og búa til aðgerð­ar­á­ætlun fyrir næstu kjör­tíma­bili. „Stilla sam­eig­in­lega uppá lista í öllum kjör­dæmum og stilla upp rík­is­stjórn þar sem hæfi­leik­ar, bak­grunnur og verk­efni ráða mann­val­inu. Ég sé fyrir mér stjórn sem væri að mestu skip­aða utan­þings­ráð­herrum sem við kynnum fyrir kosn­ingar og yrði leidd af Katrínu Jak­obs­dótt­ur. Verk­efnin framundan eru risa­vaxin og munu reyna á okkur en við getum þetta. Það er von. Björgum Ísland­i."

Katrín Jakobsdóttir virðist vera sjálfkjörin til að leiða kosningabandalag stjórnarandstöðunnar ef af því verður. Hún nýtur mikils persónufylgis og hefur sagt opinberlega að hún hafi ekki áhuga á að nýta það til að verða forseti.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hvað segja Pírat­ar?

Ljóst er að lengi hefur verið áhugi á meðal sumra Pírata að mynda slíkt banda­lag. Birgitta Jóns­dótt­ir, þeirra reynslu­mesti þing­mað­ur, viðr­aði þá hug­mynd strax í mars, þegar ótrú­leg fylg­is­aukn­ing Pírata var rétt að hefjast, að stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir mynd­uðu kosn­inga­banda­lag fyrir næstu kosn­ing­ar. 

Á aðal­fundi Pírata, sem haldin var 30. ágúst síð­ast­lið­inn, lagði hún fram sömu hug­mynd á ný. Að þeir stjórn­mála­flokkar sem hefðu áhuga á að vinna saman myndu gera með sér bind­andi sam­komu­lag um það sem þeir ætl­uðu að gera á næsta kjör­tíma­bili og sækj­ast eftir umboði fyrir kosn­ingar með því að bjóða upp á skýran val­kost. 

Það er Pírata að taka ákvörðun um hvort af slíku kosn­inga­banda­lagi verði. Þeir eru lyk­ill­inn að því, enda sam­an­lagt fylgi hinna stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna undir 25 pró­sentum sem stend­ur. Allar vonir Sam­fylk­ing­ar, Bjartar fram­tíðar og Vinstri grænna um að kom­ast að völd­um, og í sumum til­fellum að vera áfram til, hvíla á vilja Pírata til þess. Það verður vanda­samt val. Á langstærsti stjórn­mála­flokkur lands­ins sam­kvæmt könn­unum að binda sig öflum sem njóta ákaf­lega lít­ils stuðn­ings eða á hann að meta stöð­una að loknum kosn­ing­um. Það er spurn­ing sem Píratar munu þurfa að takast á við og svara á næsta ári. 

Margt getur breyst á 16 mán­uðum

Enn eru um 16 mán­uðir í næstu kosn­ing­ar, sem fara lík­ast til fram í apríl 2017. Margt gæti því auð­vitað gerst á þeim tíma. Í kosn­ing­unum 2013 buðu t.d. 15 flokkar fram. Nokkuð ljóst þykir að einn nýr flokkur hið minnsta muni koma mót­aður fram á sjón­ar­sviðið á næsta ári, Við­reisn

Sá hópur sem vinnur að stofnun þess flokks, og hefur gert um nokkuð langt skeið, er að mestu sam­an­settur af Evr­ópusinnum sem yfir­gefið hafa Sjálf­stæð­is­flokk­inn og virð­ist auk þess höfða til frjáls­lyndra hægri krata sem finna sig ekki lengur hjá Sam­fylk­ing­unni. Við­reisn mun að öllum lík­indum berj­ast um eitt­hvað af fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sem nú þegar er mjög lítið í öllum sögu­legum sam­an­burði, og reyna einnig að krækja í hið áður kvika óánægju­fylgi sem und­an­farna níu mán­uði hefur fundið sér fast heim­il­is­festi hjá Píröt­u­m. 

Auk þess virð­ist svig­rúm fyrir stjórn­mála­afl sem leggur áherslu á harða inn­flytj­enda­stefnu og meiri lokun lands­ins. Mögu­legt er að ein­hver hefð­bundnu flokk­anna reyni að fylla það tóm. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn lá undir ámæli fyrir að hafa gert það í síð­ustu sveita­stjórn­ar­kosn­ingum og öfl innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa hvatt til þess að flokk­ur­inn halli sér í þessa átt. 

Afar líklegt þykir að ríkisstjórnarflokkarnir muni hlaða í dýra loforðapakka í aðdraganda næstu kosninga til að reyna að endurheimta nægjanlegt fylgi til að halda völdum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þá má ekki úti­loka að rán­dýr kosn­inga­lof­orð muni duga til að heilla nægj­an­lega marga kjós­endur aftur yfir til stjórn­ar­flokk­anna, að minnsta kosti í nægi­lega langan tíma til að þeir haldi völd­um. Slíkt hefur oft gerst og var svo sann­ar­lega rótin að sögu­legum kosn­inga­sigri Fram­sókn­ar­flokks­ins í kosn­ing­unum 2013. 

Lyk­il­leik­menn innan beggja flokk­anna eru von­góðir um að það tak­ist að hífa fylgi flokk­anna vel upp næsta rúma árið með lof­orða­pakka fyrir næstu kosn­ingar sem mun meðal ann­ars fela í sér sér­merkt fram­lög til bygg­ingar nýs Lands­spít­ala. Þeir telja að það þurfi mögu­lega ekki meiri­hluta atkvæða til að stjórnin haldi völd­um, þar sem dreifð atkvæði á ýmsa smá­flokka muni falla niður dauð. Því gæti minni­hluti atkvæða dugað til að skila stjórn­ar­flokk­unum meiri­hluta þing­manna, og áfram­hald­andi valda­setu.

Í síð­ustu kosn­ingum fékk Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn 26,7 pró­sent atkvæða en Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 24,4 pró­sent. Sam­an­lagt fylgi flokk­anna var því 51,1 pró­sent. En kosn­inga­fyr­ir­komu­lagið skil­aði þeim 60 pró­sent þing­manna, eða 38 tals­ins. 

Síðan þá hefur fylgi flokk­anna fallið mjög skarpt og ljóst er að það er á bratt­ann að sækja. Í maí náði fylgi flokk­anna sögu­legum botni þegar könnun MMR mældi sam­eig­in­legt fylgi þeirra undir 30 pró­sent­um. Í dag er það aðeins hærra, 35,8 pró­sent, sem er fjarri því nóg til að sitja áfram eftir kosn­ing­arnar 2017.  

Píratar halda á lykl­inum

Miðað við stöð­una eins og hún er í dag eru Píratar þó í lyk­il­stöðu í íslenskum stjórn­málum og sú staða virð­ist ekki ætla að breyt­ast nema þeir klúðri henni sjálf­ir. Kosn­inga­banda­lag hefur kosti í för með sér fyrir Pírata. Þeir munu deila ábyrgð með fólki sem hefur reynslu af því að stjórna og gætu náð í mjög breitt umboð til að koma helstu stefnu­málum sínum í verk. Það má heldur ekki gleyma því að stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir starfa þegar saman í meiri­hluta borg­ar­stjórnar Reykja­víkur þar sem virð­ist ríkja nokkuð góð sátt þeirra á milli. 

Almennt má segja að þeir geti myndað frjáls­lynda jafn­að­ar­manna­blokk með vinstri slag­síðu sem er þeirrar skoð­unar að margt sé að í íslensku sam­fé­lagi í dag á móti íhaldsam­ari blokk Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæð­is­flokks sem vill halda sem flestu í sama horf­inu. Val­kost­irnir yrðu mjög skýrir og áherslur blokk­anna mjög ólík­ar. Ef saman næð­ist um myndun kosn­inga­banda­lags strax á næsta ári gæti það líka komið í veg fyrir að mörg smærri fram­boð myndu fara fram. Þau myndu frekar finna sér heim­ili hjá annarri hvorri blokk­inni.

En lyk­ill­inn að þessum aðstæðum er í höndum Pírata. Kosn­inga­banda­lag hinna svoköll­uðu umbóta­afla, sem stjórn­ar­flokk­arnir myndu mun frekar vilja kalla nið­ur­rif­s­öfl, án þeirra væri fyr­ir­fram dauða­dæmd.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar