Landlæknisembættið segir að stjórnvöld ættu frekar að setja fjármagn í að stytta biðlista eftir aðgerðum hér á landi en að veita fé til heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum, eins og til stendur að gera með frumvarpi að lögum um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Það þurfi að kappkosta að standa vörð um og efla heilbrigðiskerfið á Íslandi, enda sér þar þekking, sérhæfing og þjálfun fyrir hendi til að veita Íslendingum þá þjónustu sem þeir þurfa. Þetta kemur fram í umsögn embættisins um frumvarpið, sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi.
Frumvarpið byggir á Evróputilskipun og markmiðið er að greiða fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan sambandsins og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja. Með frumvarpinu er ætlunin að sjúkratryggt fólk á Íslandi geti leitað heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki og Sjúkratryggingar Íslands greiði fyrir þjónustuna líkt og hún væri veitt á Íslandi, það er að því marki sem borgað er fyrir þjónustuna hér á landi.
Samkvæmt frumvarpinu verður ekki gerð krafa um það að fólk fái samþykki áður en það fer héðan og fær heilbrigðisþjónustu í öðru landi. Ríkjum er samt heimilt að takmarka endurgreiðslu kostnaðar á grundvelli almannahagsmuna, en þau mega líka ákveða að endurgreiða kostnað umfram það sem borgað væri á Íslandi. Samhliða þessum breytingum verða líka breytingar á lyfseðlum og skömmtun og afgreiðslu lyfja og lækningatækja, sem verður þá hægt að nálgast í öðrum EES-ríkjum.
Flestir umsagnaraðilar eru jákvæðir í garð þess að Íslendingar geti sótt sér þjónustu erlendis með auðveldari hætti, en vilja tryggja að íslenskt heilbrigðiskerfi verði sett í forgang og fái að veita þjónustu sem hægt er að veita, svo að fólk fari ekki unnvörpum erlendis.
Ættu að líta sér nær fyrst og fækka á biðlistum
Sjúkratryggingar Íslands eiga að vera tengiliður fólks sem vill fá upplýsingar um heilbrigðisþjónustu í öðru landi. Stofnunin segist reiðubúin til þess í sinni umsögn, svo framarlega sem nægjanlegt fjármagn fásti til þess. Sama má segja um alla umsýslu við þessar breytingar. Þær muni kalla á töluverða vinnu og kostnað hjá Sjúkratryggingum.
Stofnunin bendir líka á það að stjórnvöld ættu að skoða magnsamninga sína við þjónustuveitendur áður en tilskipunin verður innleidd á Íslandi. Til dæmis hafi ríkið ákveðið að greiða bara fyrir tiltekinn fjölda augasteinsaðgerða á hverju ári þrátt fyrir að læknar geti vel gert fleiri aðgerðir. Biðlistar séu orðnir mjög langir eftir þessum aðgerðum en það væri „mjög sérstakt ef sjúklingar gætu leitað til útlanda og fengið endurgreiðslu á kostnaðinum en ekki ef þeir leituðu til lækna hér á landi.“
Truflar forgangsröðun í fjársveltu heilbrigðiskerfi
Landlæknisembættið lýsir í sinni umsögn yfir áhyggjum af því að hægt verði að sækja sér læknisþjónustu í útlöndum án þess að fá fyrirframsamþykki og án eftirlits. Þetta skapi hættu á því að fé verði sett í heilbrigðisþjónustu sem sé ekki þörf á að setja í forgang. Eins og staðan er í íslensku heilbrigðiskerfi núna, þar sem takmarkað fé fer í þjónustuna, sé forgangsröðun fjármagns mikilvæg svo að tryggt sé að þeir sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fái hana.
Ef stjórnvöld myndu veita fjármagni í það að stytta biðlista hér á landi væri hægt að spara þann auka kostnað sem Sjúkratryggingar hafa áhyggjur af að verði til þar á bæ vegna aukinnar umsýslu.
„Heilbrigðiskerfið hefur gengið í gegnum erfiðleika sem tengjast efnahagshruninu og einnig verkföllum ýmissa heilbrigðisstétta sem stóðu yfir í heilt ár með hléum. Rekja má lengingu biðlista eftir ýmsum skurðaðgerðum m.a. til þessara þátta,“ segir landlæknisembættið, sem hefur sett viðmið um að biðtími eftir aðgerðum og annarri tiltekinni þjónustu eigi ekki að vera meira en 90 dagar. Hins vegar séu nú á biðlistum tæplega 5.000 manns sem hafi beðið lengur en 90 daga eftir aðgerðum. „Leiða má líkum að því að einhverjir þessara einstaklinga sem bíða munu kjósa að fara erlendis ef biðin er styttri þar.“
Sjúklingar vilja þjónustu á Íslandi
Læknafélag Íslands tekur í sama streng og Landlæknisembættið og vill að settar verði forgangsreglur og íslensk heilbrigðisþjónusta verði efld til þess að draga úr líkum á því að sjúklingar þurfi að leita til annarra landa eftir heilbrigðisþjónustu. „Það getur verið sjúklingum mikilvægt að greitt sé fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan EES og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu. LÍ telur þó að sjúklingum sé mikilvægast að eiga greiðan aðgang að slíkri þjónustu hér á landi. LÍ fullyrðir að það sé vilji flestra sjúklinga njóta öruggrar hágæðaheilbrigðisþjónustu á íslandi.“
Undir það tekur landlæknir einnig, og segir að kannanir hafi verið gerðar meðal sjúklinga sem sýni fram á að þeir kjósi miklu frekar að fá þjónustu á Íslandi en annars staðar. Það sé líka óhagræði og fylgi aukinn kostnaður að þurfa að fara erlendis.
Hættulegt fyrir sérhæfingu
Fyrir utan það að heilbrigðisþjónustan á Íslandi þurfi hreinlega ákveðinn lágmarksfjölda sjúklinga til að standa undir sér og viðhalda þekkingu, sérhæfingu og þjálfun heilbrigðisstarfsmanna. Ef sjúklingar fara í miklum mæli og sækja sér þjónustu í útlöndum muni það líklega hafa slæm áhrif á viðhald og færni heilbrigðisstarfsmanna, og þar með á gæði og öryggi sjúklinga. Það muni líka hafa í för með sér að ennþá fleiri heilbrigðisstarfsmenn kjósi að vinna í útlöndum. Landspítalinn bendir einnig á þetta og segir að allar fjárfestingar á spítalanum í tækjum, búnaði og mannskap krefjist lágmarksfjölda sjúklinga. „Ísland er lítið land og til að viðhalda fæmi og hámarka nýtingu fjárfestinga er brýnt að halda sem mestum verkefnum innanlands nema öryggi sjúklinga liggi við eða skýr fjárhagslegur ávinningur sé af því að þjónusta sé veitt erlendis,“ skrifar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, um málið. Ef fólk fari í miklum mæli til annarra landa sé því hætta á að sérhæfing skerðist og þá muni framboð á heilbrigðisþjónustu minnka á Íslandi, sem myndi ógna öryggi allra.