Bashar al-Assad ætlaði aldrei að verða einræðisherra. Hann ætlaði að verða augnlæknir og lifa rólegu lífi ásamt æskuástinni sinni, hinni bresku Ösmu Akhras. Í dag lifir hann í hálfgerðum felum, í blóðugri borgarastyrjöld sem hann sjálfur skapaði og bíður þess að Bandaríkjamenn, Rússar og Evrópusambandið komi sér saman um framtíð hans.
Átti ekki að taka við
Árið 1963 var ríkisstjórn Sýrlands steypt af hernum og hin sósíalíska og þjóðernissinnaða Ba´ath hreyfing komst til valda. Einn af forkólfunum í valdaráninu var Hafez al-Assad, faðir Bashars. Hafez náði svo völdum eftir hjaðningavíg innan hreyfingarinnar árið 1970 og var forseti landsins og einræðisherra þar til hann lést árið 2000. Eins og oft vill verða í einræðisríkjum þá var ákveðið að völdin skyldu haldast innan fjölskyldunnar.
Upphaflega átti Rifaat, yngri bróðir forsetans, að taka við embættinu að honum látnum. En Rifaat var gerður útlægur frá Sýrlandi eftir misheppnað valdarán árið 1983 þegar bróðir hans var þungt haldinn eftir hjartaáfall. Eftir þetta var ljóst að Bassel, elsti sonur forsetans, myndi taka við. Bassel komst fljótt til metorða innan hersins og var hann kynntur fyrir öllu því sem einræðisherrar þurfa að kunna. Hann varð dáður innan Sýrlands og virkileg eftirvænting ríkti eftir því að hann tæki við stjórn landsins. En árið 1994 lést Bassel í bílsslysi aðeins 31 árs gamall. Þá kallaði forsetinn Bashar, næst elsta son sinn, heim frá Bretlandi þar sem hann stundaði nám í augnlækningum. Bashar sem var þremur árum yngri en Bassel var mun hógværari og hafði verið mun minna í sviðsljósinu en bróðir sinn. Þetta var staða sem Bashar átti ekki von á og hafði aldrei ætlað sér. Hann hafði fram af þessu litla sem enga herþjálfun (var um skamman tíma læknir í hernum) og ekki sýnt stjórnmálum neinn áhuga. Þegar Hafez lést árið 2000 var boðað til kosninga og Bashar var kjörinn með 99,7% atkvæða, en auðvitað var enginn mótframbjóðandi.
Vestrænt nútímafólk
Eiginkona Bashars heitir Asma al-Assad (áður Akhras). Hún er 10 árum yngri en eiginmaður sinn, fædd og uppalin í Bretlandi af sýrlenskum foreldrum. Hún nam tölvunarfræði og franskar bókmenntir við King´s College í London og vann um stund hjá J.P. Morgan fjárfestingarbankanum í New York og París. Þau kynntust í London á námsárum sínum en héldu sambandi sínu leyndu þar til í ársbyrjun 2001 þegar tilkynnt var að þau hefðu gifst í leynilegri athöfn skömmu áður.
Þau eiga saman þrjú börn, synina Hafez og Karim og dótturina Zein, öll fædd á árunum 2001-2004. Forsetahjónin þykja mjög vestræn í fasi og í klæðaburði. Þó þau séu vellauðug (auður Assads er metinn á milli 70 og 200 milljarða króna) þá er klæðnaður þeirra og útlit yfirleitt látlaust. Asma ber sjaldnast skartgripi, úr eða annað glingur en þykir engu að síður þokkafull og smekkleg. Þeim leiðist þó ekki sviðsljósið og t.a.m. hafa þau sést borða hádegismat með Hollywood-parinu Brad Pitt og Angelinu Jolie.
Fyrir stríðið var Asma mjög sýnileg og virk í sýrlensku samfélagi. Hún tók þátt í ýmsum góðgerðarmálum og stofnaði samtök til að virkja ungt fólk og sýna því fram á framtíðarmöguleika sína. Hún hefur einnig starfað að eflingu menningar og söguvitundar landsins. Asma fékk t.d. sérfræðinga frá Louvre safninu og fleiri til að skipuleggja safna-og fornleifastarf landsins. Sýrland er ævafornt og stórmerkilegt menningarsvæði þaðan sem m.a. veldi Fönikíumanna spratt fyrir rúmum 3000 árum síðan. Assad hjónin og meira að segja börnin voru alla tíð fram að stríði mjög sýnileg. Fjölmiðlar voru notaðir til þess að sýna fram á hversu látlaus, venjuleg og nútímaleg fjölskyldan var. Í grein sem birt var í tískutímaritinu Vogue rétt fyrir ófriðinn segir: „Það er skreytt jólatré. Hin sjö ára Zein horfir á Tim Burton kvikmyndina Alice in Wonderland á iMac tölvu forsetans. Sex ára bróðir hennar, Karim, býr til hákarl úr legókubbum og hinn níu ára Hafez prufar nýju rafmagnsfiðluna sína.
Tekur í gikkinn
Í desember árið 2010 hófust mótmæli í Norður-Afríkuríkinu Túnis. Þetta hratt af stað mótmælaöldu í flestum Arabaríkjum og sums staðar brutust út vopnuð átök. Þessi vitundarvakning og mótmælahrina var kölluð arabíska vorið og barst hún til Sýrlands þann 15. mars árið 2011. Fjölmenn mótmæli voru haldin í höfuðborginni Damaskus þar sem krafist var kerfis- og lýðræðisumbóta, minni spillingar, lausn pólitískra fanga o.fl. Ekki var þess krafist að Assad forseti eða Ba´ath flokkurinn færi frá völdum. Í stað þess að koma til móts við mótmælendurnar beitti forsetinn bæði lögreglu og hernum af hörku gegn þeim og fljótlega fóru líkin að hrannast upp.
Þessi viðbrögð forsetans komu bæði mótmælendunum sjálfum og heimsbyggðinni mjög á óvart. Það tókst þó ekki að bæla niður mótmælin heldur urðu þau illvígari og þá varð krafan sú að koma stjórninni frá með góðu eða illu. Í upphafi voru mótmælendur nokkuð samheldin hópur sem vígbjóst og hafðist að mestu til í borginni Homs norðan við Damaskus. Síðan rofnaði samstaðan og ýmsir vígahópar börðust bæði við stjórnarherinn og hvorn annan. Í dag ríkir svo eiginleg borgarastyrjöld í landinu þar sem margir herir berjast sín á milli og erlend ríki hafa blandast inn í þá bardaga, allir með sína eigin hagsmuni að leiðarljósi.
Meira en 300.000 manns hafa fallið í stríðinu og næstum helmingur af þeim 22 milljónum sem búa í landinu hafa þurft að flýja heimili sitt. Flækjustigið í stríðinu er það hátt að erfitt er að sjá fyrir endann á því. Helsta þrætuepli erlendra stórvelda varðandi stríðið í Sýrlandi er staða Assads. Vesturveldin vilja hann frá en Rússar vilja hafa hann áfram. Sýrland hefur allt frá tímum Sovétríkjanna verið eitt helsta vinaríki Kremlverja í Miðausturlöndum og Assad fjölskyldan hefur reynst þeim vel.
Rússar komu inn í stríðið undir því yfirskini að þeir myndu herja á hina skelfilegu hreyfingu íslamska ríkið í austurhluta landsins en í raun varpa þeir sprengjum á alla þá sem ógna Assad að einhverju ráði. Staða Vesturveldanna er flóknari því þó að þeir vilji forsetann burt þá er hann sannarlega skárri kostur en íslamska ríkið. Ekki má gleyma því að í upphafi forsetatíðar hans höfðu Vesturveldin nokkra trú á honum sem leiðtoga og að hann myndi koma á umbótum innan Sýrlands. Hann virtist ná að sameina landið og hélt t.a.m. verndarskildi yfir kristnum Sýrlendingum. Í Bretlandi kom til greina að slá hann til riddara. Það er hins vegar utanríkisstefna hans sem kemur illa við Vesturveldin, þá helst bandalag hans við Rússland og Íran og svo mikil andstaða við Ísraelsstjórn. Assad hefur jafnframt verið einn dyggasti stuðningsmaður bæði Hezbollah hreyfingarinnar í Líbanon og Hamas í Palestínu.
Lítur út úr skelinni
Í október síðastliðnum heimsótti Assad vin sinn Vladimír Pútín í Rússlandi í fyrirvaralausri en jafnframt opinberri heimsókn. Þetta var í fyrsta skipti sem hann fer út fyrir landamæri Sýrlands síðan stríðið hófst árið 2011. Þetta gefur til kynna að sjálfstraust forsetans sé að eflast og einnig sú trú hans að hann muni sitja áfram eftir stríðsátökin. Það hefur þó ekki alltaf verið raunin. Á seinustu árum hefur oft liðið langur tími milli þess sem forsetinn hefur sést í sýrlenskum fjölmiðlum. Asma sést ekki nærri eins mikið og fyrir stríðið en engu að síður heldur hún úti Instagram reikningi þar sem reglulega birtast myndir af henni og þó nokkrar af hjónunum saman. Þetta virðist gert til þess að halda á lofti þeirri tilfinningu að allt gangi sinn vanagang. Börnunum hefur þó að mestu verið haldið frá fjölmiðlum seinustu ár og í raun lítið vitað um þau. Fjölskyldan býr ekki lengur í forsetahöllinni sem stendur á hæð í útjaðri Damaskus-borgar heldur á ónefndum stað.
Þó að bardagar fari að mestu leyti fram langt frá höfuðborginni þá er forsetahöllin engu að síður álitlegt skotmark. Það virðist þó eins og stríðið hafi ekki tekið mikið á hann. Margir stjórnmálamenn eldast hratt í embætti, þá sérstaklega þegar einhverjar meiriháttar hamfarir eða stríð ganga yfir. Fréttamaðurinn Jeremy Bowen sem starfar fyrir BBC í miðausturlöndum tók viðtal við forsetann bæði fyrir stríðið og nú nýverið. Hann sagðist engan mun sjá á forsetanum. Hann væri ennþá kurteis og hlýr, brosti mikið og kæmi vel fram. Hann er sjálfsöruggur (a.m.k. gagnvart fjölmiðlum) og virðist algerlega viss um sína frásögn af atburðum seinustu ára. Hann segist ekki hafa gert neitt rangt sjálfur og að mótmælendurnir í arabíska vorinu hafi komið stríðinu af stað með ofbeldi. Einnig viðurkennir hann ekki að sýrlenski stjórnarherinn hafi beitt efnavopnum eða tunnusprengjum eins og kunngjört hefur verið. Hann telur sig vera að berjast við hryðjuverkamenn, hvort sem það eru ISIS eða aðrir hópar, og að umheimurinn verði að skilja það. Mest kennir hann þó Saudi Aröbum um stríðið. Að þeir fjármagni hryðjuverkamenn í landinu og að þeir boði wahabismann í landinu, hina öfgafullu súnní-reglu. Sjálfur segist forsetinn handviss um að hann haldi völdum þegar stríðinu lýkur. Það er þó alveg ljóst að það er ekki í hans höndum. Það er algerlega undir stórveldunum komið hvort hann situr eða verður látinn víkja og skiptir baráttan við íslamska ríkið þar auðvitað höfuðmáli.
Ef Vesturveldin líta svo á að sú barátta skipti meira máli gætu þau unað honum að sitja áfram þó svo að litið væri á hann hornauga. Hafa ber í huga að allri Assad fjölskyldunni er meinaður aðgangur að Evrópusambandssvæðinu (að Ösmu undanskilinni þar sem hún er breskur ríkisborgari). Ef Rússar gefa eftir og Assad yrði fórnað yrði fjölskyldunni ekki stætt á að búa áfram í landinu. Vafalaust fengju þau samt hæli annað hvort í Rússlandi eða Íran. Eins og er virðist fyrri kosturinn líklegri en eins og áður hefur verið sagt er flækjustigið svo hátt í stríðinu að erfitt er að segja hver afdrif einræðisherrans og fjölskyldu hans verða.